Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Elínborg Sturludóttir

Frelsi og ábyrgð

4. janúar 2009

Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“
Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“ Matt 2.13-15

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mér brá í brún á dögunum þegar ég las grein eftir menningarlegan ritstjóra Fréttablaðsins, Pál Baldvin Baldvinsson, sem hann kallar „Haltu kjafti og vertu þæg.“ Þar eys hann úr skálum reiði sinnar svo ekki sé meira sagt. Hann bísnast yfir jólahaldinu og lyginni sem þjóðinni sé boðið uppá í gegnum kristindóminn. Hann hneykslast á biskupnum og hans „hyski“ eins og hann orðar það. Hyskið, sem Páll Baldvin Baldvinsson menningarritstjóri er að tala um, er víst við prestarnir.

Við áramót er gagnlegt að líta yfir farinn veg. Horfa um öxl og vega og meta það ár sem er að baki og spyrja sig: Höfum við gengið til góðs? Þetta gerum við í þeim tilgangi að læra af því sem við höfum reynt.

Ársins 2008 verður minnst fyrst og fremst vegna falls bankanna og þess efnahagshruns sem sigldi í kjölfarið. Ársins verður minnst sem sögulegs árs þegar hrikti í stoðunum og þjóðlífið fór á hliðina.

Við, sem störfum með fólki í hvers konar erfiðum aðstæðum lífsins, sáum það fyrir strax í byrjun október að mikil reiði myndi grípa um sig í samfélaginu þegar þjóðin væri búin að gera sér ljóst hvað gerst hefði og mesta sjokkið væri gengið yfir. Þetta vissum við vegna þess að þetta eru sammannleg viðbrögð við áföllum. Þetta reiðitímabil stendur nú yfir. Það sem skiptir svo miklu máli er að gera sér ljóst að reiði er eðlileg og heilbrigð tilfinning og hún þarf að fá sinn farveg. En við verðum jafnframt að gera okkur ljóst að reiði getur verið hömlulaus og hún getur verið ómakleg og því þurfum við að beina henni í uppbyggilegan farveg en ekki láta hana bitna á þeim sem síst skyldi. Við, sem erum reið, þurfum að vera okkur meðvituð um þetta.

Nú hef ég ekki hugmynd um það hvort ritstjórinn, sem nefndur var hér í upphafi, fylgist vel með prédikunum presta eða sjónarmiðum kirkjunnar en hitt veit ég, að síðustu misseri hef ég og kollegar mínir í prestastétt varað við þeirri dýrkun á frægu og ríku fólki sem hefur viðgengist í samfélaginu. Þjóðkirkjan hefur varað við efnishyggju og yfirborðsmennsku og hún hefur varað við hinum gríðarlega mun sem hefur verið að vaxa á milli þjóðfélagshópa í efnahagslegu tilliti.

Mér finnst það pínlegt fyrir Fréttablaðið að birta þennan leiðara nú þar sem ráðist er á þá stétt manna í samfélaginu sem hefur það að köllun að vera boðberar þess siðferðis sem vestrænt samfélag hefur hvílt á. Það hefur ekki þótt sérlega smart síðustu misserin að halda á lofti gunnfána kristilegra siðferðisgilda. En nú kemur á daginn að það er einmitt skorturinn á siðferðisgildum sem margir telja að hafi fellt þetta samfélag!

Mér þykir það kaldhæðnislegt fyrir ritstjórann að fara þessu offari gegn kristinni trú og prestastéttinni í landinu því ekki hefur Fréttablaðið verið sá gagnrýni miðill á íslenska efnahagsundrið og ætla mætti miðað við ádeilu ritstjórans og enn síður sá blaðið fyrir þá brauðfætur sem þetta sama íslenska undur hvíldi á. Þvert á móti hefur Fréttablaðið, sem og aðrir íslenskir fjölmiðlar, verið mjög veikt fyrir hinum ríku og frægu sem núna lítur út fyrir að hafi borið mesta ábyrgð á því hvernig fór!

Fyrir rúmu ári efndi Fréttablaðið til vals á besta auðmanni Íslands. Sr. Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur í Akureyrarkirkju bendir á þetta á bloggsíðu sinni á Netinu. Þar ritar hann:

„Valið stóð á milli ellefu nafngreindra auðmanna og var í því skyni leitað til nokkurra útvalinna álitsgjafa. Átti hver þeirra að nefna þrjá uppáhaldsauðmenn sína.
Fréttablaðið mæltist til þess að álitsgjafar hefðu þrennt til hliðsjónar við valið:

Í fyrsta lagi stíl og ásjónu auðmannanna, klæðaburð og sjónvarpsútlit.

Í öðru lagi hegðun þeirra og framkomu, orðheppni og góðverk.

Í þriðja lagi bað Fréttablaðið álitsgjafa að meta munað og lúxus auðmannanna eða eins og það er orðað í leiðbeiningum blaðsins: „Hver á flottustu bílana og kann best að nýta sér lífsins lystisemdir? Hver á flottustu flugvélarnar og húsin? Hver lifir öfundverðasta munaðarlífinu?““

Það er gagnlegt um áramót að líta yfir farinn veg. Það er hollt að líta í eigin barm og vega og meta hvað betur má fara. Það getur verið óþægilegt en við höfum flest hver ríkari tilhneigingu til þess að sjá betur flísina í auga náungans en bjálkann í okkar eigin. Við erum mörg reið um þessar mundir. Það er eðlilegt. Mörgum okkar finnst að einhver þurfi að axla ábyrgð. En í þessu samhengi þurfum við fyrst og fremst að hafa hugrekki til þess að horfast í augu við okkar eigin ábyrgð. Sum okkar keyptu dýrari eignir en skynsamlegt var. Önnur okkar fóru í fjárfestingar sem við hefðum betur látið bíða þar til við áttum fyrir hlutunum. Mörg okkar létu berast með þeim straumi sem var í samfélaginu og þeirri góðærisglýju sem sveif yfir öllum vötnum. Nú er runnin upp sú stund að við þurfum að spyrja: Hvaða ábyrgð ber ég? E.t.v. var það þannig að þú hélst áfram að lifa hófsömu lífi, lagðir til hliðar eins og kostur var og baðaðir þig ekki upp úr þeirri froðu sem hér vall alls staðar um. Kannski ertu einmitt reið/ur nú vegna þess að þér er ætlað að borga brúsann fyrir hina sem létu glepjast.

Ég er þeirrar skoðunar að við sem höfum fæðst hér og alist hér upp séum heppin. Við erum heppin að í þessu landi eru stjórnarskrárvarin réttindi eins og trúfrelsi og málfrelsi. Réttindi sem eru langt frá því að vera sjálfsögð. Frelsi leggur okkur þær skyldur á herðar að umgangast það af ábyrgð og virðingu, ekki síst fyrir öðru fólki. Þetta er sérstaklega brýnt þegar fólk er í ábyrgðarstöðum t.d. hjá fjölmiðlum og hefur fyrir vikið mikil völd.

Fjölmiðlar hér á landi bera mikla ábyrgð. Það hefur verið lagt mikið upp úr því undanfarin ár hjá fjölmiðlum að vera „gagnrýnir“. Gott og vel. Sannleikurinn er sá að það þarf ekki einvörðungu að fara fram endurskoðun og endurmat hjá stjórnmálamönnunum, fjármálaheiminum, kirkjunni og almenningi. Hún þarf einnig að fara fam hjá fjölmiðlum og fjölmiðlafólki!

Það er vel þekkt erlendis, þar sem auður hefur haldist í fjölskyldum svo kynslóðum skiptir, að börnin eru alin upp í því að berast ekki á. Það þykir ekki fínt að láta það sjást að maður eigi peninga. Meðal efnamanna, þar sem auðurinn hefur haldist í margar kynslóðir, er talað um þá „nýríku“ undir neikvæðum formerkjum vegna þess að þeir keppast við að láta alla sjá efni sín. Þetta þykir afar heimskulegt meðal þeirra sem lengi hafa verið í álnum. Þetta nýríkisheilkenni hefur einkennt íslensku þjóðina síðustu misseri og hefur verið ljóður á hennar ráði.

Það var stórkostlegt að horfa á mynd Hilmars Oddssonar, Tár úr steini, sem var sýnd um jólin og fjallar um líf tónskáldsins Jóns Leifs. Hilmari Oddssyni tókst að bregða upp mynd af því lífi sem ungt og upprennandi tónskáld lifði í Þýskalandi í 3ja áratug síðustu aldar. Honum tókst að sýna hvernig björt framtíð hjónanna ungu, Anníar einleikara á píanó og tónskáldsins, snerist algjörlega upp í andhverfu sína. Myndin sýndi hvernig Jón þurfti að brjóta odd af oflæti sínu, beygja sig í duftið til að bjarga lífi sínu og fjölskyldu sinnar. Hvernig ástin, sem á milli þeirra var, rann út í sandinn vegna ytri aðstæðna og illsku nasismans. Hvernig fólk, sem lífið og hamingjan virtist blasa við, voru ofin ill örlög og þau gátu lítið að gert nema það eitt að reyna að bjarga lífi sínu og komast burt.

Okkur er það öllum ljóst nú að Jón Leifs var stórkostlegt tónskáld þótt ekki nyti hann sannmælis á sinni tíð. En þrátt fyrir það að lifa um árabil sem tónskáld í Þýskalandi og eiga fjölskyldu þar gleymdi hann aldrei þeim rótum sem hann var sprottin af. Tónlist hans var rammíslensk og þess vegna sneri hann heim þegar honum var ekki lengur vært í Þýskalandi. Ég hygg að eitt af því sem Íslendingar gætu nú lært af sögu Jóns Leifs væri t.d. það að sækjast eftir því að vita hverjir þeir eru og hvaðan þeir koma. Við þurfum að þekkja sögu forfeðra okkar og lífsaðstæður þeirra og baráttu til þess að vera heilbrigðir og sterkir einstaklingar.

Við eigum að vera þakklát fyrir gengnar kynslóðir, baráttu þeirra og brauðstrit, og við eigum að sýna þá auðmýkt að vera stolt yfir því hvert þær skiluðu okkur. Það veit ekki á gott að þykjast vera frá Hollywood þegar menn eru frá Grenivík eða Flateyri! Þessu gleymdum við í góðærinu og það má ekki endurtaka sig!

Í hverri einustu guðsþjónustu í kirkjunni er beðið fyrir þjóðinni og ráðamönnum hennar, fyrir bágstöddum og syrgjendum. Einnig er beðið fyrir friði, frelsi og réttlæti. Þetta er ekki einungis gert okkar sjálfra vegna, heldur annarra vegna. Verkefni kirkjunnar er að flytja fátækum gleðilegan boðskap, græða sundurmarin hjörtu og boða fjötruðum frelsi eins og segir í pistli dagsins. Köllun kirkjunnar í aðstæðum dagsins í dag er m.a. að minna þjóðina á hugrekkið sem hún á til og hefur átt í gegnum aldirnar. Hlutverk kirkjunnar nú er jafnframt að minna þjóðina á huggunina sem hún á í vændum og réttlætið sem hún þarf að berjast fyrir.

Guðspjall dagsins fjallar um flótta Maríu og Jósefs til Egyptalands undan grimmum harðstjóra, Heródesi. Flótti þeirra með litla Jesúbarnið minnir okkur á illskuna sem leikur lausum hala í veröldinni. Guðspjallið minnir okkur jafnframt á samhengi sögu Ísraelsþjóðarinnar og flótta hennar fyrir óralöngu undan harðúð Faraósins og til landsins sem flaut í mjólk og hunangi. Leifs-fjölskyldan flúði Þýskaland í síðari heimstyrjöldinni undan hinum grimma harðstjóra sem þar ríkti. Sagan er enn að endurtaka sig og harðúðin á bökkum Gaza þessa dagana er skýrt dæmi um hatrið og illskuna sem enn nær undirtökunum, bæði meðal Ísraelsmanna og annarra þjóða.

„Það þarf sterk bein til að þola góða daga“ segir máltækið. Kirkjan hefur á öllum öldum beðið Guð að gefa fólki vit í meðbyr og þolinmæði í þrengingum. Kirkjan segir fólki ekki að þegja og vera þægt eins og Páll Baldvin lætur í veðri vaka í ritstjórnargrein sinni. Páll Baldvin og annað fjölmiðlafólk í áhrifastöðum þarf að gera sér ljósa ábyrgð sína. Ef það er köllun fjölmiðla að vera gagnrýnið verður gagnrýnin bæði að vera makleg og uppbyggileg. Þetta samfélag þarf á ábyrgri uppbyggilegri gagnrýni að halda, ekki sjálfhverfri sjálfsupphafningu sem er öll á annarra kostnað. Þetta þjóðfélag þarf líka sterka kirkju sem heldur áfram að boða það fagnaðarerindi sem henni var trúað fyrir og siðaboðskap Jesú Krists.

Nýtt ár er upp runnið. Það er enn að mestu óskrifað blað. Guð gefi að árið 2009 verði árið sem við sýnum öll það hugrekki að axla ábyrgð okkar, sýna hófstillingu, réttsýni og sanngirni og hafa hugrekki til að takast á við þá erfiðleika og mótlæti sem við munum mæta. Það er mikið verkefni sem býður okkar, en þessi þjóð getur tekist á við það verkefni, annað eins hefur hún gengið í gegnum! Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2706.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar