Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Að gæta fjár og fjöreggs

1. janúar 2009

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr. Jóh 2.23-25

Gleðilegt nýtt ár!

Þetta eru fyrir margra hluta sakir sérstök áramót. Við höfum lifað og hvatt ár sem lengi verður í minnum haft.

Vantraust er orð sem oft heyrist um þessar mundir. Trúnaður hefur að einhverju leyti brostið í þjóðfélaginu og í dag heyrum við að Jesús hafi jafnvel ekki treyst samferðafólki sínu: „En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn . . . “ segir í guðspjallinu, hann treysti þeim ekki. Undarlegur boðskapur sem kirkjan skammtar okkur á nýju ári a.m.k. við fyrstu sýn.

Við lifum nú allsérstæða tíma. Friðsöm þjóð gengur nú í gegnum efnahagsörðugleika en verður vitni að því um leið að margt fólk mótmælir með stillingu en hávær minnihluti sem ekki vill lúta almennu siðgæði og lögum fer fram með offorsi. Það er ekki nýtt í sögunni að upp úr sjóði, að menn verði reiðir og beiti hótunum og ofbeldi. Við þekkjum slíkt fremur af fréttum utan úr hinum stóra heimi en síður héðan. En nú er Ísland ekki lengur „langt frá heimsins vígaslóð“. Við erum sem hverfi í heimsþorpinu. Við tókum til að mynda pólitískan þátt í innrás í annað land fyrir nokkrum árum og nú sjá allir að það var feigðarflan. Við horfum ennfremur upp á það árlega og um árabil ef ekki áratuga skeið að þjóð sem við studdum við að stofna ríki sitt í Mið-Austurlöndum fyrir 60 árum fer fram með ofbeldi og óþverraskap og við segjum fátt. Ef við mótmælum ekki valdníðslu og ógnarverkum þá erum við á vissan hátt samþykk og samsek. Það er vandlifað í henni veröld. Þannig var það forðum og svo er enn í dag.

Nýársdagur. Nýtt upphaf. Að baki er ár sem lengi verður í minnum haft. Árið þegar bankarnir hrundu og allt fór á verri veg, árið þegar veisluhöldunum lauk og við tók nakinn veruleikinn, árið þegar ævintýrið var á enda, stundin þegar skemmtilegri bíómynd lauk og við gengum út í kvöldmyrkrið og við blasti kaldur veruleiki hversdagsins. Við gleymdum okkur sem þjóð í trylltum dansi og fólkið brást sem átti að gæta hags okkar.

Í jólaguðspjallinu er sagt frá hirðum sem fyrstir heyrðu boðskap engilsins. Hirðar voru ekki hátt skrifaðir í Palestínu forðum daga. En samt var þeim fengið það hlutverk að gæta fjárins. Þeir gátu átt von á árás úlfa eða jafnvel ljóns. Fé á sér jafnan ágenga sækjendur. Hjörðin var dýrmæt. Íslensk tunga nær því vel að hjörð stendur fyrir verðmæti því fé vísar í senn til lifandi fjár og dauðra peninga. Fjárhirðar Íslands gættu sjóða almennings, þeir heyrðu þrusk í skógi og jafnvel ýlfur úlfa en uggðu ekki að sér, þeir sáu líka ljón en héldu líklega að þar færi gæfur heimilisköttur. En svo fór að hjörðin tvístraðist, gufaði upp, var étin af glefsandi úlfum og óargadýrum af því að hirðarnir brugðust.

Heyrum orð Esekíels spámanns frá 6. öld f. Krist og veltum fyrir okkur tengslunum við nútímann:

1Orð Drottins kom til mín: 2Mannssonur, spáðu gegn hirðum Ísraels og segðu við þá: Svo segir Drottinn Guð: Vei hirðum Ísraels sem aðeins hirða um sjálfa sig. Eiga þeir ekki að halda fénu á beit? 3Þið drekkið mjólkina og klæðist ullinni, slátrið feitustu sauðunum en um hjörðina hirðið þið ekki. 4Þið hafið ekki hjálpað hinu veikburða, ekki læknað hið sjúka, ekki bundið um hið særða og hvorki sótt það sem hraktist burt né leitað þess sem týndist, en hið sterka hafið þið leitt með harðri hendi. 5Fé mitt tvístraðist þar sem hirðir var enginn og það varð villidýrum að bráð. Fé mitt tvístraðist 6og rásaði um öll fjöll og alla háa hóla. Sauðirnir úr hjörð minni dreifðust um allar jarðir en enginn spurði um þá og enginn leitaði þeirra. 7Heyrið því, hirðar, orð Drottins: 8Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Sauðunum í hjörð minni hefur verið rænt og fé mitt orðið villidýrum að bráð úti á bersvæði þar sem hirðir var enginn. Hirðar mínir leituðu ekki fjár míns en hirtu aðeins um sjálfa sig en ekki um sauði mína. 9Heyrið því, hirðar, orð Drottins. 10Svo segir Drottinn Guð: Hlustið. Ég ætla að halda gegn hirðunum og krefjast sauða minna úr hendi þeirra. Ég læt þá hætta að hirða um fé mitt, þeir skulu ekki fá að hirða um eigin hag framar. Ég bjarga hjörð minni úr munni þeirra, hún skal ekki verða fæða þeirra framar. (Esekíel 34.1-10)

Þannig lýkur þessum reiðilestri. Hér er felldur dómur yfir hirðum Ísraels sem brugðust. Hér er að vísu ekki átt við hjörð í skilningi fjár eða verðmæta heldur er það þjóðin sem er hjörðin.

Í guðspjalli dagsins er Jesús í Jerúsalem. Þetta er látlaus texti við fyrstu sýn, dálítið undarlegur, nánast ótrúverðugur á köflum. Jesús gaf þeim ekki trúnaði sinn, segir þar. En hvert er samhengið. Textinn er úr 2. kafla Jóhannesarguðspjalls, alveg úr upphafi ritsins. Jesús er að hefja starf sitt. Hann byrjar það á heimili, í gleðskap, í brúðkaupi. Hann veitir fólki það sem hæfir stað og stund. En Jesús er ekki bara góðglaður í brúðkaupsveislu heldur fer hann skömmu síðar í musterið til að iðka trú sína. Og þegar hann kemur þar fyllist hann vandlátri reiði. Hann gerir sér hnútasvipu og hrindir um borðum dúfnasala og víxlara, þeirra sem seldu fórnardýr og skiptu erlendri mynt í hina réttu, sem reiða þurfti fram sem musterisskatt. Og þeir sem veittu sjálfsagða þjónustu handa fólki svo það gæti iðkað sína fórnarsiði urðu furðu lostnir yfir bræði þessa manns sem öldum síðar hefur fengið á sig þá mynd í augum heimsins að hafa verið mildur og ljúfur, lokkaprúður, bláeygur og brosmildur, allt að því kvenlegur með kurt og pí. Jóhannes postuli birtir okkur allt aðra mynd af Jesú. Hann er bálreiður, augun skjóta gneistum, munnur hans mælir harkaleg orð. Hann er sár og reiður yfir afstöðu fólks til lífsins og hinna dýrustu gilda. Hann er kominn til að hreinsa, bægja burt öllu sem vanvirðir gjafara allra hluta, Guð á himnum. Jesús hreinsar. Var það ef til vill andi hans sem fór um þetta þjóðfélag og velti um borðum víxlaranna árið 2008? Er ástandið sem við nú upplifum dómur vegna þess að við hirtum ekki um það sem mestu skiptir, að þjóna Guði og náunganum í orði og verki? Liggur það ekk í augum uppi að við höfum villst af leið sem þjóð, til að mynda með því að samþykkja hernað gegn annarri þjóð, með því að dýrka auð og skjótfenginn gróða? Erum við að taka út makleg málagjöld? Ég spyr. Dómur Guðs er ekki bara hinn hinsti dómur heldur dæmir lögmál hans okkur stöðugt, hvern dag, í hverri ákvörðun, dæmir okkur sýkn eður sek.

Jesús hreinsaði musterið. Hann var reiður. Margir eru reiðir um þessar mundir. Reiði er ofureðlileg tilfinning þegar trúnaðarrof hefur átt sér stað og gengið hefur verið fram af fólki. Sjálfur Jesús Kristur reiddist, hann fór um með stórum orðum og hnútasvipu. Okkur þykir það jafnvel óþægileg mynd af Jesú. En hann var ekki nein geðluðra, skoðanalaust skrípi. Nei, hann var vandlátur í þeim skilningi að hann vildi að virðing væri borin fyrir hinu heilaga. Jesús hreinsaði musterið. Við erum musteri. Orðið skírn merkir að hreinsa. Okkar sálarmusteri hefur verið hreinsað. Við höfum verið skírð, hreinsuð og fáguð af frelsaranum. Gleymum því ekki. Við erum kölluð til að lifa í skírnarnáðinni, hreinsa okkur reglulega með því að hlýða á Guðs orð og með því að iðrast og fá aflausn á undan helgri máltíð og njóta síðan eilífrar fæðu himinsins, fara síðan út úr messunni og þjóna Guði í orði og verki. Þetta er hin rétta hringrás trúaðs manns.

Við stöndum á tímamótum. Nýtt ár er hafið og hið gamla horfið með sínum válegu veðrum í efnahagslífi þjóðarinnar. Eftir brúðkaupið í Kana trúði fólk á Jesú. Það hafði orðið vitni af kraftaverki. Þá er svo auðvelt að trúa! En Jesús gaf mönnum ekki trúnað sinn þá. Orðið að trúa á hann og orðið trúnaður í guðspjalli dagsins eru af sama stofni í gríska frumtextanum, orðinu pisteuo, að trúa, að treysta. Hann treysti þeim ekki. Treystir hann okkur?

Samkvæmt hinni kristnu hefð og guðfræði lagði Guðs sonur sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur. Þannig lauk hann starfi sínu hér á jörðu. Hann treysti þeim sem honum fylgdu. Hann þekkti hjörtu þeirra, vissi af breyskleikanum og brigslunum, sem í þeim bjó, en hann gaf lífs sitt til lausnargjalds fyrir þau. Þannig sýndi hann elsku sína.

Hann er sá sem blessar okkur á nýju ári og gengur með okkur í gegnum erfiðleikana. Hann er hirðirinn sem aldrei bregst, hirðirinn sem er með okkur í dimmum dal þar sem við þurfum ekkert að óttast því sproti hans og stafur hugga okkur. Nafn hans er JESÚS sem merkir „í Jehóva er hjálpræðið“.

Þegar postularnir hófu starf kirkjunnar í Jerúsalem og höfðu læknað veikan mann, reyndu svonefndir höfðingjar og öldungar að hindra starf þeirra og settu þá í fangelsi. Pétur mælti þá og sagði:

„Jesús er steinninn sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn að hyrningarsteini. Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld sem getur frelsað okkur.“ (Post 4.11-12)

Við eigum hann að, erum merkt honum með tákni hins heilaga kross, bæði á enni og brjóst, hreinsuð, skírð, helguð himni Guðs og eilífð hans. Hvað þurfum við þá að óttast?

„Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Okkar er að halda musteri hjartans hreinu og tæru.

Hirðar Íslands og við, sem erum hvert fyrir sig hirðar yfir því sem okkur hefur verið treyst fyrir, eigum í honum hjálp sem aldrei bregst. Hann er fyrirmynd okkar. Göngum inn í nýja árið með honum.

Guð blessi Ísland og Íslendinga nær og fjær og heimsbyggð alla á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2377.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar