Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Erla Björk Jónsdóttir

Ísland farsæla frón!

1. desember 2008

Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:

Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“ Lúk 4.16-21

Drottinn, sendu okkur anda þinn, lýstu upp veg okkar og hjálpa okkur að skilja þig, svo að við megum áfram ganga í ljósi þínu. Amen

Náð sé með oss og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Mig langar að óska okkur öllum til hamingju með daginn. Í dag er flaggað og við höldum upp á þennan merkisdag sem við eigum allir landsmenn sameiginlegan í ljósi fullveldis okkar. Í dag minnumst við stórs sigurs lítillar þjóðar, og fögnum því að nú eru 90 ár síðan Ísland varð fullvalda ríki.

Það er kannski svolítið skrítið að vera að fagna þessum stóra áfanga nú þegar einhvernvegin allt virðist tapað. Það má með sanni segja að við Íslendingar höfum verið að upplifa skrítna tíma núna undanfarna mánuði. Þjóðin hefur tapað gríðarlega miklu fjármagni, margir hafa misst vinnuna og það er lítið um að fjölmiðlar birti gleðilegar fréttir.

Já hún var mikil köllunin og stórt hlutverkið sem þjóðfrelsishetjur okkar íslendinga tókust á við þegar þeir börðust fyrir fullveldi okkar og sjálfstæði. Þessir menn eiga það svo sannarlega skilið að flaggað sé þeim til heiðurs, og jafnvel þó það væri einungis fyrir það eitt að heiður okkar Íslendinga er fólgin í þessum stórkostlega sigri sem ekki var unninn með sverði heldur með orðinu einu saman. Orð og verk leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar höfðu framtíðina að leiðarljósi og hvatningin til dáða var sótt í sigra fortíðar. Ljóð skáldanna einkenndust af ættjarðarást og þjóðernisvakningu og Jónas Hallgrímsson sagði í fullvissu sinni að Guð væri höfundur vorrar farsældar.

Hversu dýrðlegt er það!

Í guðspjallstexta dagsins er Jesú færður texti Jesaja spámanns til lestrar í samkundunni. Textinn sem er eitt hinna svonefndu „þjónsljóða“ birtir huggunarorð spámannsins er hann ljær þjáðri þjóð er stendur höllum fæti efnahagslega vonarglætu með því að vísa til framtíðar. Þar sem Guð aðstoðar við enduruppbyggingu sem hefur það að markmiði að veita öryggi, stöðugleika og samfélagslega velferð. Hann kunngerir þjóðinni komu hans er boði þjóðinni lausn og huggun. Sú lausn er fólgin í þjónustu við veikt og valdlaust fólk, sem í ljósi hans muni feta veg velferðar og gleði í réttlátu samfélagi. Hann boðar fagnaðarerindi, gleðitíðindi, sem munu hafa áþreifanleg áhrif á alla. Bæta mannorð heillar þjóðar.
Jesús vitnar í þessi orð spámannsins og segir spádóminn rætast í sér, sjálfur sé hann uppfylling fyrirheitanna. Að hann hafi verið sendur til þjónustu í þágu þess orðs er beri með sér sigurvon.

Ísland er nú land í kreppu. Nú þurfum við á góðum fréttum að halda. Við þurfum ljós í myrkri og ljósið lýsir. Himneskt ljós lýsir ský. Við sjáum bjarmann af komandi jólum. Hvað sem ytri hagsmunum okkar líður göngum við nú inn í hátíð aðventunnar, hátíð ljóss og friðar, sem svo sannarlega ber með sér gleðilegan boðskap.

Ég heyrði nýverið fallega sögu um þrjú eikartré er stóðu uppi á hæð. Trén hlutu þau örlög að verða hoggin niður en efniviðnum var ætlaður ákveðið hlutverk.

Fyrsta tréð hlaut það yndislega hlutverk að fá að verða jatan sem frelsarinn var lagður í. Jatan hefur í sínu upprunalega tilgangi mikilsverðu hlutverki að gegna. Hún geymir næringu sem er lifandi verum nauðsynlegt að neyta til þess að lifa af. Það var því kannski engin tilviljun að Jesús hafi verið lagður í jötu. Hann eyddi miklum hluta ævinnar í að næra fólkið í kringum sig. Hann veitti því bæði líkamlega og andlega næringu. Hann segir í guðspjallinu að hlutverk sitt felist í því að færa fólkinu fagnaðarboðskap og hann sinnti því hlutverki af kostgæfni og þjónaði fólkinu vel.

Annað tréð fékk það hlutverk að verða bátur. Við Íslendingar höfum löngum verið kölluð sjómannaþjóð, við þekkjum það vel frá örófi alda að sigla fögrum fleyjum og höfum staðið okkur vel í því. Munum líka að kirkjunni hefur verið líkt við skip á siglingu um tímans höf, hún er það skip er ber okkur yfir öldurót lífsins stunda.

Við munum öll söguna af því þegar lærisveinarnir lentu í stormi og ölduróti á Galileuvatni og báturinn var sökkvandi. Þarna birtist þeim frelsarinn þar sem hann stóð á miðju vatninu og hann sökk ekki. Þetta fannst þeim vafalaust furðuleg sýn. Gat þetta verið? Þessi efi bærðist með Símoni eins og okkur, hann efaðist. Í trúnni er tvennt til og það er annað hvort að segja já eða nei við Kristi. Símon ákvað að segja já og vatnið tók að stilla. Það var þá að Jesús steig um borð í bátinn og átti síðan traust lærisveina sinna til þess að þeir gerðu hann að skipstjóra skútu sinnar og það er einmitt það sem við Íslendingar ættum að finna hjá okkur í dag. Aðventan minnir okkur á þau gildi sem okkur hafa verið gefin, þessa ávexti andans sem Páll talar um í Galatabréfinu og eru kærleikur, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Með trúnni þá er Kristur tilbúinn að gefa okkur allt þetta og það erum við sem stýrum skútunni, á grunni þeirra gilda sem kristur gefur. Megi trúin og gildin hjálpa okkur að finna styrk, hugrekki og þor til þess að stýra þjóðarskútunni út úr þeim vandræðum sem hún er nú í.

Það lygnir í skjóli trúar,
lygnir í hjörtum og huga,
lygnir í sál og sinni,
ef Guðs verk fá að vinna,
í veröldinni.

Og þá er það síðasta tréð af þeim þremur sem fékk erfiðasta og dimmasta hlutverkið. Það varð kross Krists. Þarna birtist öll þjáning, kvöl og neyð og sjálfur Jesús hrópar Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig? Það gerist svo oft í erfiðum aðstæðum að manneskjan upplifir Guð þöglan og fjarlægan. Við finnum í þessum orðum sammannlega reynslu af þjáningunni. Jesús er þátttakandi í sorgum okkar, hann er ekki fjarlægur og þögull áhorfandi, heldur megum við í skjóli krossins og upprisunnar finna farveg í voninni. Mannshjartað í örvæntingu sinni getur lært hvar á að finna það skjól sem Kristur einn getur veitt. Og það er hlutverk kristinnar kirkju að boða og kenna fagnaðarerindi Krists.

Í guðspjalli dagsins kynnti Jesús fólkinu hlutverk sitt. Hann lifði hér á jörðinni, þjónaði, kenndi og útbreiddi Guðs orð. Hann biður að lokum lærisveina sína að minnast sín í kvöldmáltíðinni og þvær fætur þeirra. En er það ekki einmitt hlutverk kirkjunnar, að fara að hans dæmi. Að styðja við, binda um og færa gleðilegan boðskap. Svo sannarlega er það hlutverk okkar. Og það er hlutverk okkar kristinna manna að gefa gaum að hinu æðsta boðorði er boðar okkur að elska Guð af öllu hjarta okkar og náungann eins og okkur sjálf.

Munum það nú sem fyrr að styrkur okkar sem þjóðar felst í því að við vinnum saman sem heild. Hugsum ekki einungis um eigin hag heldur berum hag náungans fyrir brjósti. Verum tilbúin að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi. Hlýtt bros og góðvild eru fallegar gjafir sem birta upp myrkustu stundir.
Horfum til barnanna sem lýsir af í desembermánuði. Blik í auga, bros á vör. Þar er eftirvænting, tilhlökkun og gleði. Verum þátttakendur í þessari gleði og munum að það erum við fullorðna fólkið sem gefur þeim von um allt það stóra en þau sjálf eru svo þakklát fyrir hið minnsta. Tökum við fagnaðarerindinu eins og börn og nýtum okkur þjónustu kirkjunnar á aðventunni og um jólin. Kirkjan hefur upp á margt að bjóða til þess að lýsa upp myrkustu mánuðina og í samfélagi eignumst við dýrmætar gleðistundir. Við Íslendingar höfum í hendi okkar mikinn auð í menningu og tungumáli. Ekki síst eigum við auð í ungu fólki sem hefur einstakan hæfileika til þess að gleðja, kæta og gefa von til bjartrar framtíðar. Verum þeim góð fyrirmynd og sinnum hlutverki okkar af kostgæfni. Við unga fólkið eigum líka auð í eldra fólkinu sem hefur reynsluna af lífinu. Orð gamallar konu eru eftirminnileg þegar hún sagði, grönn og hrukkótt, verið ekki að finna að hrukkunum mínum, mér þykir vænt um þær, ég hef unnið fyrir þeim öllum. Hún hafði farið í gegnum margar kreppur. Hvað sem líður sigri eða tapi á veraldlega vísu, þá hefur kristur unnið grundvallarsigurinn fyrir okkur öll. Hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Í hans blessaða nafni, gleðilega hátíð. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3027.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar