Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Kristjánsson

„Gefðu mér eina þrá“

25. desember 2008

Á plötuhulstrinu blasti við kunnugleg mynd þegar við gengum inn í bókabúðina. Glaðlegir ungir menn, sem sögðust vera hljómsveitin, bentu stoltir á Göngumanninn í þokudal, heimsþekkt listaverk úr erlendu safni. Myndin kom ánægjulega á óvart í þessu samhengi: hér er sveit ungra tónlistarmanna að koma sér á framfæri með framsækna tónlist og skreytir hulstrið með þekktu listaverki. Við tókum tal saman sem lauk með því að plötuumslagið var áritað. Tónlist Sprengjuhallarinnar olli ekki vonbrigðum.

Caspar David Friedrich: Göngumaðurinn í þokudalGöngumaðurinn í þokudal á greinilega erindi hér og nú, þar sem hann horfir af tindinum, sem hann hefur klifið, niður í þokuna í dalnum, en fjöll og klettaborgir blasa við í fjarska. Við sjáum ekki andlit hans og vitum ekki hvort hann er gagntekinn eða skelfdur andspænis hrikafegurð fjallanna. Líklega hefur listamaðurinn, Caspar David Friedrich, haft hvort tveggja í huga.

Þótt það standi hvergi skrifað, liggur í loftinu að göngumaðurinn finnur ekki til stærðar sinnar heldur smæðar í þessum fjalladal. Kannski að fegurðin eigi að vera ógnvekjandi? Kannski að hún eigi að opna nýtt innsæi dýpst í vitund mannsins? Kannski að hún marki honum sess í hans eigin tilvist?
Með táknsögulegum myndum af þessu tagi kemur einn merkasti brautryðjandi í myndlist nítjándu aldar, hugmyndafræði rómantísku stefnunnar til skila. Honum liggur á hjarta að draga fram eina grundvallarkennd mannsins: að hann sé ofurseldur kröftum sem hann skilur ekki til fulls en skynjar engu að síður með ýmsum hætti. Hann laðast að þessum leyndardómi í hinu fagra og ógnvekjandi, og er dreginn þangað með ómótstæðilegum krafti.

Þetta er rómantíska stefnan sem sýnir manninn ýmist gagntekinn af óvissu og ótta, sem umlykur hann á allar hliðar, eða uppnuminn af fegurð og fullvissu sem hrífur hann á vald sitt. Að baki er ekki “rómantík” í hversdagslegri merkingu heldur vitund um frumkrafta lífsins sem vekja tilfinningar með manninum um að hann sé ekki sinn eigin herra í þessum heimi heldur ofursmár í framandi heimi. Sú tilfinning vekur með honum knýjandi spurningar um eigin tilvist.

Líklega hefur engin stefna haft meiri áhrif á íslenskar bókmenntir og listir síðari tíma en einmitt þessi stefna sem kennd er við rómantík og kemur nafn Jónasar Hallgrímssonar þá fyrst í hugann.
Á jólum er áhugavert að leiða hugann að þessu, því að jólin höfða öðrum hátíðum fremur til mannlegra tilfinninga.

Í hinni merku endurminningabók Guðbjargar Jónsdóttur frá Broddanesi á Ströndum er að finna frásögn af jólahaldi í íslenskri baðstofu seint á nítjándu öld. Í bókinni Gamlar glæður skrifar hún:
Mikið hlakkaði jeg til aðfangadagskvöldsins; þá fjekk jeg að fara í bestu fötin sem jeg átti til, og mjer fanst jeg vera ákaflega fín, en um það hugsaði jeg mikið. Þegar búið var að kveikja …, fór móðir mín fram í stofuloft til að sækja kertin. Hún gaf öllum á bænum tvö kerti… Faðir minn fjekk tvö kerti eins og aðrir, þó að hann væri blindur. … Þegar allir voru búnir að fá kertin, fjölgaði ljósunum í baðstofunni. Nú voru blessuð jólin komin…. Nú höfðu allir nóga birtu, nema faðir minn; þó var enginn glaðari en hann; verið getur að hann hafi einhverstaðar átt stærra ljós en við hin. …

Lýsing Guðbjargar beinir athyglinni að skynjun mannsins, að sjón og heyrn, að ilman og bragði og síðast en ekki síst að snertingunni. Spekingarnir njóta hér ekki forréttinda, enda eiga jólin ekkert sérstakt erindi til vitsmunanna. Þau koma jafnt til allra, þau mæta manninum með afar persónulegum hætti – á vettvangi skynjunar og tilfinninga.

Í baðstofunni norður á Ströndum leggst allt á eitt við að auka jólagleðina: það gleður augað þegar allir eru komnir í fínustu fötin sem þeir eiga og fagur textinn sem lesinn er úr hugvekjubókinni höfðar til heyrnarinnar rétt eins og sálmarnir. Ilmur af mat, ilmdropum og nýþrifnum bænum gefur hátíðarsvip sem tengist jólunum og maturinn bragðast aldrei eins vel og þá. Síðast en ekki síst er það svo snertingin þar sem stórfjölskyldan situr þétt í þröngum húsakynnum og ungir sem aldnir njóta návistarinnar og ástúðin skín úr hverju andliti.

Hátíðin byggist á þessari margþættu skynjun. Og hennar vegna líður öllum vel. Tilfinning fyrir því að allt sé gott grípur unga sem aldna, hægt og sígandi, þakklætið vaknar innra með hverjum og einum og jafnframt hugboð um að tilvist mannsins sé góð í innsta eðli sínu. Að baki öllu er sá “Faðir og vinur alls sem er” sem Jónas orti um.

Nautn þess sem fagurt er, gott og satt, leiðir hugann að leyndardómi sem er að baki þessu lífi. Hvaða veruleiki er það sem maðurinn þráir svo mjög að eignast hlutdeild í, þó ekki væri nema skamma stund?

Í miðpunkti hátíðarinnar er frásögnin goðsagnarkennda; þangað beinir húslesturinn huganum. Þar blasa myndir jólanna við: María umvefur barnið í faðmi sínum í hörðum heimi, hirðarnir á völlunum óttast og gleðjast í senn, efast og trúa þegar birtan skín inn í hversdagslegan heim þeirra á dimmri nótt – og svo lotning vitringanna frá austurlöndum sem fylgdu stjörnunni björtu til Betlehem.

Allt umstangið sem hátíðinni fylgir – jafnvel í samfélagi fábreytninnar – og gagntekur manninn með allri skynjun hans – og þó öðru fremur frásagan sjálf – er hátíðarbúningur þess leyndardóms sem sem umvefur tilvist mannsins frá vöggu til grafar og gerir honum kleift að nálgast hann. Ár eftir ár spannar hún tíðir og tíma, hið liðna og hið ókomna, og sameinar það líðandi stund í vitund fólksins því að leyndardómurinn sem allt snýst um breytist ekki frá einum tíma til annars, hann er óumbreytanlegur og nálægur.

Jesús er nærri. Barnið í jötunni er ímynd leyndardómsins: Þessi smáljós, - segir í endurminningum Guðbjargar - sem lýstu í lágum híbýlum dauðlegra manna, mintu á stóra alheimsljósið: barnið í jötunni…

Þótt hríðin lemji torfbæinn að utan og ísjakar brotni og brjótist um úti fyrir ströndinni, er fólkinu borgið í heimi hátíðarinnar sem er óbundinn stað og stund, tíminn er ekki lengur til. Hin góða skynjun vekur hina trúarlegu spurningu mannsins um eigin tilvist, um merkingu og tilgang lífsins.

Það er ekki háttur okkar Íslendinga að bera tilfinningar á borð, allra síst þær sem eru trúarlegs eðlis. Oftar en ekki hafa menn litið á þær sem einkamál sem tryggast væri að hylma yfir í daglegu lífi. En þær tilheyra engu að síður hinu innsta og dýpsta. Trúin býr í hjarta mannsins sem þrá til Guðs og jafnframt þrá um að lífið eigi sér merkingu og tilgang sem skipti meira máli en allt annað og geri lífið óendanlega mikils virði.

Þótt allsnægtasamfélagið hafi fyrir löngu leyst nægjusamt sjálfsþurftasamfélagið af hólmi hefur í raun lítið breyst þegar djúpt er horft í því samhengi. Hinn tímalausi leyndardómur lífsins er einnig þar á næstu grösum.

Það veit samfélag líðandi stundar sem finnur spilaborgina hrynja og jörðina bresta undir fótum sér, sem sér myrkrið læðast um gáttir allar, sem skynjar óvissu og öryggisleysi hvert sem litið er – það samfélag spyr um meira en gjaldmiðla. Hin stóru reikningsdæmi bíða en hverfa ekki meðan hátíðin vinnur sitt verk til að byggja upp og endurnýja innviðina í tilvist mannsins. Tilvistarspurningarnar rista dýpra en allir útreikningar, sem munu hvort eð er aldrei veita svör við þeim spurningum, sem vega þyngst í lífi hvers manns.

Það er vissulega rétt, að mótlætið beinir sjónum mannsins inná við, ekki hvað síst einmitt á þessari hátíð.

Látum því ekki blekkjast: jólin eru meira en hið ytra, þau eru meira en eftirvænting eftir ljúffengum mat, fínum fötum, góðri ilman í lofti, gefandi bókum og fagurri tónlist. Þau eru meira en fagurfræðileg skynjun sem er manninum óendanlega dýrmæt. Þau eru vissulega meira en afþreyingin sem allsnægtasamfélagið skrifaði svo hátt, afþreyingin sem kemur og fer nánast sporlaust og skilur lítið eftir – ef ekki minna en ekkert.

Að baki eftirvæntingunni er dýpri vitund. Að baki öllum auglýsingunum, ljósaseríunum, jólamörkuðunum og síðast en ekki síst öllum fjölskylduboðunum, er einlæg þrá eftir betri heimi, eftir mannlegri nærveru, eftir því að tilheyra öðrum, eftir öryggi, eftir friði, gleði og tilgangi. Allt er það af skornum skammti í samfélagi afþreyingarinnar.

Að baki er trúarleg tilfinning sem vekur þrána til Guðs djúpt í hjarta mannsins.

Sumir kunna að segja að jólin geti vakið trúarlega tilfinningu en vafasamt sé að þau breyti nokkru, veruleiki þeirra sé sviðsetningin ein sem líður hjá og firnist eins og afþreyingin. Hvað um viðvarandi eymd – er spurt – og grimmd um víða veröld? Hvað um eyðingu náttúrunnar, um varanlega eyðileggingu náttúrperla? Hvað um misrétti, kúgun og kulda í mannlegum samskiptum? Hvað um ófrið og átök í lífi einstaklinga og fjölskyldna, jafnvel einnig á jólum? Breyta jólin miklu? Er boðskapur þeirra einhvers megnugur?

Svarið er já. Boðskapur jólanna hefur að vísu ekki þurrkað út misrétti og stríð, ekki fjölskylduharmleiki og sjúkdóma. En hefur hann ekki breytt miklu engu að síður enn í dag? Hefur hann ekki vakið vonina í hjarta mannsins, þrána sem býr innst með öllum mönnum til hins góða, fagra og sanna? Hefur hann ekki vakið löngun mannsins til lífsstíls sem lætur leiðast af fögrum hugsjónum og samfélags sem reist er á gildum markmiðum þar sem öllum er borgið – einnig þeim sem minnstar væntingar hafa til þessa heims? Og staðfesta jólin ekki þá veiku von mannsins að óhætt sé að eiga sér þennan draum í hjarta?

Við finnum hlýjuna frá „alheimsljósinu“ sem Guðbjörg frá Broddanesi nefnir svo, frá barninu í jötunni, við finnum friðinn sem streymir þaðan og gleðina sem það vekur. Í það minnsta eitt andartak tekst mörgum að komast út úr næturmyrkri örvæntingar, óvissu og ótta og skynja líf sitt undir öðrum formerkjum.

Jólin eru hátíð hinna sterku tilfinninga sem koma úr djúpi sálarinnar og vekja þrá mannsins til hins besta sem lífið hefur uppá að bjóða og bregst honum ekki.

Við væntum þess að kannski einmitt núna öðlumst við þann fögnuð sem talað er um í frásögn Lúkasar. Við þekkjum okkur sjálf í sporum goðsagnarkenndra sögupersónanna, í óljósri eftirvæntingu þeirra, í rökkri fjárhússins. Nú er hið uppfyllta augnablik eins og þá. Hinn heilagi veruleiki Guðs kemur til þeirra sem þrá hann innst inni.

Eins og hirðarnir sneru aftur út í myrkrið til starfa sinna nýir menn og vitringarnir hurfu til fjarlægra heimkynna með nýja sýn marka jólin upphaf. Í hjartanu er birta Jesúbarnsins sem gerir alla hluti nýja.

Allur táknheimur frásögunnar snýst um nýja tilvist mannsins: nýja birtu í rökkvuðum heimi, nýtt hugrekki í hnípinni veröld, nýja gleði í heimi sem þráir öðru fremur það sem gott er, fagurt og satt.
Gefðu mér eina þrá, segir í ljóði eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur:

Gefðu mér eina þrá
einn draum
eina glaða nótt
eina logandi
logandi
stjörnu
að yrkja um
þegar ljósin slokkna …

Amen

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3640.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar