Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Augnhæð

24. desember 2008

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Lúk 2.1-14

Drottinn gefðu frið og gleði helgra jóla í frelsarans Jesú nafni.

Gleðileg jól!

Héðan úr Bústaðakirkju í Reykjavík færi ég kveðju og boðskap helgra jóla. Barna- og unglingakórarnir, kirkjukórinn og tónlistarfólkið, sem heldur uppi helgum söng hér í kirkjunni á helgum og hátíðum um ársins hring, hefur sungið gleði, frið, huggun og von jólanna inn í hjörtu okkar. Þakka ykkur fyrir það. Guð blessi alla þá þjónustu og iðkun sem innt er af hendi hér í kirkjunni og í helgidómunum um land allt. Ég hugsa með þakkarhuga til hinna mörgu sem hafa lagt mikið á sig til að syngja og tala kjark og von í hjörtu okkar á erfiðum dögum, kjark og von trúar, vonar og kærleika. Ég lýsi friði og blessun yfir það allt, yfir þig og þína, yfir byggð og land, í sérhvert hús og hjarta í frelsarans Jesú nafni.

Værum við spurð hvað vekti hughrif jóla umfram allt er víst að svörin yrðu á marga lund. Mjög margir myndu nefna sönginn. Mér finnst hann alveg ómissandi, sérstaklega jólasálmarnir. Eins nefna margir snjó, jólasnjó, - hvít jól er einatt tákn hinnar fullkomnu jólamyndar.

En í nýrri ljóðabók eftir séra Jón Bjarman er ljóð sem nefnist Rauð jól. Þetta ljóð hefur einhvernveginn leitað sérstaklega á mig undanfarið:

„Í landi vetrar og myrkurs
eru nætur langar
skammir dagar
skuggsælir morgnar
og kvöld dimm
Samt gefur Drottinn sér tóm
til að vitja okkar í ljósleysinu
Gleymst hefur
að skipta um lín
á hvílu frelsarans
jörðinni
fyrir jólin
Hún endurvarpar ekki
daufu skini nýmána
sem breiðir fyrir sig skýjahulu
Þess vegna höfum við stangað
jaðarinn á sænginni hans
marglitum skærum smáljósum
sem minna á stjörnur er vísa veg
yfir sjó og um víðan himin
Við bíðum í ofvæni eftir Jesú
fullviss þess að hann muni koma
en okkur rennur í brjóst
Við rísum seint úr rekkju
spyrjum syfjulega
kom einhver
Já er svarað
Jesús
hann er á bæn í Getsemane
allir sváfu
hann sagðist koma seinna…..“

Já, stundum eru rauð jól á dimmri jörð undir myrkum himni, stundum rætast ekki draumarnir, væntingarnar bregðast og heimurinn og umhverfið tjaldar ekki því til sem við hefðum óskað. En samt eru jól, hvernig svo sem viðrar og árar hjá einstaklingum og fjölskyldum eða samfélagi. Jafnvel þótt kvíði og áhyggja hafi legið við hjartarætur og tómleiki, söknuður og sorg sett svip sinn á aðdragandann, þá eru samt jól, blessuð, heilög jól. Blessun þeirra og helgi er að knýja á hjarta þitt.

Jólaguðspjallið fjallar reyndar um það. Hin látlausa frásögn þess er alltaf jafn hrífandi og yndisleg, en það sem þar segir frá er engin glansmynd. Þar sjáum við hina heilögu fjölskyldu, það er friðsæl og fögur mynd til að sjá. En á bakvið þá mynd er ekki hin fullkomna kjarnafjölskylda þar sem allt hefur gengið upp og öllu er borgið, nei öðru nær. Þetta er ungt par sem er knúið út í langa ferð af valdi sem er báðum algjörlega framandi. Keisarinn í Róm er í útrás. Jú, kannski var það öðrum þræði heillandi fyrir þetta unga fólk, að halda í langferð, já og það á forna frægðarstaði fjölskyldunnar og þjóðarsögunnar. Tímasetningin er samt ekki alveg ákjósanleg. En það hljóta að vera frændur og kunningjar í Betlehem sem hægt væri að leita til um aðstoð, hugsa þau Jósef og María í bjartsýni sinni. En sú bjartsýni dofnar. Það er allt fullt út úr dyrum í Betlehem, - bærinn á fullu í efnahagsundrinu, allir að gera það gott, og þá er samkenndinni einatt vikið til hliðar, góðsemi og umhyggja víkur fyrir sérgæðunum, allt er lokað nema fyrir þeim ríku - og þeim frægu. Og unga parið hrekst húsi úr húsi, lokaðar dyr alls staðar. Þangað til einhver góðgjörn sál bendir þeim á fjárhúsið. - Ekki seinna vænna. Stund Maríu er nefnilega komin. Já, og þegar stundin er komin og barnið skal í þennan heim, þá verður ekki undan vikist. Það eru lífsins lög, sem mannanna börn hljóta að lúta.

Við þessar aðstæður kemur Guðs sonur í þennan heim, - blóðugt, nötrandi ungbarn í dimmu og köldu gripahúsi. Er hann óx upp kallaði hann sjálfan sig Manns soninn. Guð varð maður, og þurfti þar með að axla það sem óhjákvæmilega fylgir því að vera manns barn - líka vonbrigði og ósigra, þjáning, sorg og dauða. – Já, og það að vera upp á aðra komin. Það erum við öll, ósjálfbjarga við upphaf lífs, eins og við endalok, og öðrum háð um flest sem mikilvægast er. Við eigum bara svo auðvelt með að gleyma því.

Hin fyrstu jól voru áreiðanlega ekki hvít jól! Nóttin var dimm og köld, nóttin sem við köllum nóttina helgu. Hlustaðu, ef þér finnst dimmt kringum þig nú „í landi vetrar og myrkurs…“ - …„Samt gefur Drottinn sér tóm til að vitja okkar í ljósleysinu…“

Guðspjallið segir líka frá hirðum í haga. Þeir heyrðu jólaguðspjallið fyrstir allra. Samtímaheimildir bera fjárhirðum ekki vel söguna. Þeir voru ekki hátt skrifaðir, vitnisburður þeirra var td ekki tekinn gildur fyrir rétti – ekki fremur en vitnisburður kvenna í þá daga. Það eru fátækir fjárhirðar sem leiddir eru til vitnis fyrstir allra, ekki fulltrúar auðs og valda, vitringar, spekingar og snillingar, heldur fjárhirðar. Er það ekki merkilegt að Guð skuli einmitt velja hirðana til að vitna um fæðingu frelsarans, og konurnar til að votta upprisu hans? Hann, almættið sjálft velur varnaleysi jötunnar og krossins. Svona kemur Guð okkur einatt á óvart. Og hvað segir þetta okkur um guðsmynd og mannskilning fagnaðarerindisins? Enn eru það hinir snauðu og varnalausu og börnin sem þyngstu byrðarnar bera í þessum heimi. Barnið í jötunni spyr hvers vegna við látum það viðgangast. Og eins spyr það hvers vegna við metum einatt afl og auð umfram mildi og mannúð, umhyggju og ást.

Jólaguðspjallið ber okkur áleitinn boðskap. Sjaldan áleitnari, sjaldan rómsterkari en einmitt nú í hljóðlátum vitnisburði sínum. Á óvissutímum og kvíða þurfum við virkilega að heyra og skynja og þiggja hin raunverulegu verðmæti og endurheimta hinn sanna auð, sem Guð býður okkur sem gjöf.

Í jötunni í Betlehem liggur sú gjöf, Guð sjálfur, til þín kominn. Hann vill vera í augnhæð við þig. Þeir fyrstu, sem veita honum lotningu í auðmýkt og trú voru fátækir fjárhirðar. Síðasta bænin sem beðin var til Jesú meðan hann var hér á jörðinni, er bæn sakamanns, sem beið dauða síns við hlið hans á Golgata.„Jesús, minnstu mín er þú kemur í ríki þitt“ bað hann. Og Jesús hét því að taka hann með sér inn í það ríki, þann ljósanna hásal, sem hann yfirgaf á jólanótt. Þess vegna megum við vita og treysta, að hann er okkur hjá í neyðinni, ekki aðeins þegar atvik og örlög ævinnar hafa lokað á okkur dyrum gæfunnar, heldur líka þegar við höfum sjálf skellt í lás. „Í landi vetrar og myrkurs“ vakir hann þér hjá, og biður fyrir þér. Já, þetta eru jólin að segja.

Í frönsku barnaljóði segir: „Hvar ertu, Jesúbarn? Ég er í hjarta hinna fátæku, sem allir hafa gleymt. Hvar ertu, Jesúbarn? – Ég er í hjarta hinna sjúku, sem eymd og einmanaleiki þjakar. – Hvar ertu, Jesúbarn? Ég er í hjarta hinna guðlausu, sem eru án vonar.“

Jesús er hér hjá þér, þar sem þú ert, og hann vill vera í hjarta þínu. Í hrífandi sálmi segir:„Þú, mikli Guð, er með oss á jörðu, miskunn þín nær en geisli á kinn…“ Og: „Í dagsins iðu, götunnar glaumi, greinum vér þig með ljós þitt og frið. Hvar sem ein bæn er beðin í hljóði, beygir þú kné við mannsins hlið.“

Þegar þú biður, þá krýpur hann þar hjá þér, hver sem þú ert og hvar sem þú ert. Þegar þú hlustar á orðið hans, þá er hann að horfa í augu þín, mildu, hlýju augnaráði, hvísla í eyra þitt og knýja á hjarta þitt. Þegar þú leitast við að fylgja boðskap hans að elska Guð og náungann, þá er hann við hlið þér með ljós sitt og frið. Ljósið hans lýsi þér og blessi þig. Guð gefi þér gleðileg jól.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú, Drottni vorum. Amen

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2478.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar