Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Landvættir

1. ágúst 2008

Í þrítugasta og fjórða Davíðssálmi segir: „Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá. Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.“ (Sálm.34.7-9)

Davíðssálmar voru áður fyrr gjarna nefndir Saltarinn. Þeir eru sálmasafn fjárhirðisins, Davíðs, sem varð konungur og reyndar fyrirmynd allra konunga fyrr og síðar. Og hann var skáldið og biðjandinn sem lagði Guðs lýð ljóð á tungu og bænaorð á varir, sem lifað hafa í árþúsundir og borið hafa uppi tilbeiðslu og trúariðkun í Gyðingdómi og kristni allt til þessa dags. Um hann segir skáldið Einar Benediktsson: „Um aldir beygir heimurinn hné við hjarðkóngsins voldugu ymna.“ Þjóðsöngur Íslendinga, sem fyrst hljómaði hér í Dómkirkjunni á þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, er sem kunnugt er ortur út af nítugasta Davíðssálmi. Það er mögnuð lofgjörð og þakkaróður til skaparans. Saltarinn, Davíðs sálmar, geyma allt litróf mannlegra kennda, harpa þeirra ómar hæð og dýpt, gleði og vonir mannshjartans, þar eru í orðum tjáð vonbrigði og harmar, þar er leiðsögn á vegi, huggun í sorg, svölun, næring og styrkur trúar og bænar. Þjóðsagan segir að Sæmundur fróði hafi barið kölska leiftursnöggt í hausinn með Saltaranum. Íslensk alþýða rifjaði upp þá sögu kynslóð eftir kynslóð: Í búningi þjóðsögunnar eru ítrekuð þau sannindi að orð Guðs, trúin og bænin, sem Saltarinn geymir, er vörn og brynja gegn hinu illa.

„Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann og frelsar þá. Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.“

Vörn. Hæli.

Ég gleymi því aldrei þegar ég stóð smástrákur með föður mínum framan við Alþingishúsið og hann benti mér á lágmyndirnar yfir gluggunum og sagði mér söguna af landvættunum. Ég gleymi ekki hrifningunni sem hríslaðist um hverja taug yfir þessum kraftmiklu myndum og áhrifaríku sögu af því þegar danakonungur ætlaði að leggja undir sig landið okkar, Ísland, og fékk galdramann til liðs. Sá breytti sér í hval og synti upp að ströndum landsins en þar urðu landvættirnar fyrir og vörnuðu honum landtöku. Um Ísland standa hollar vættir vörð.

Það var vel til fundið að prýða Alþingishúsið þessum táknmyndum, og eins að gera landvættirnar að skjaldberum skjaldarmerkis hins frjálsa ríkis. Mér fannst sem barn mikið til koma að myndir þeirra prýddu líka krónupeninginn gullslegna, þá, þegar krónan var króna, - þessi áminning um þá vörn sem stendur um landið, líf þess og hag.

Sagan af landvættunum er undursamleg saga sem hvert íslenskt barn ætti að kunna, og við öll að íhuga. Hún er ekki bara bókmenntaverk, lítið ævintýri inni í stórri sögu um konunga og kappa. Snorri klæðir í búning goðsögunnar vitnisburð um að yfir landinu okkar hvílir hulinn verndarkraftur. Snorri vissi vel hver sá kraftur er sem landið ver og lífi þess hlúir. Landvættirnar eru vísan til frásagna Biblíunnar um sýn Esekíels spámanns er honum hlotnaðist sú náð að sjá dýrð Guðs. Umhverfis hásæti hinnar eilífu dýrðar og máttar voru fjórar verur sem standa um það vörð. Vísir menn til forna töldu þessar verur vera táknmyndir frumefna sköpunarverksins, tákn og mynd þess að afl og máttur og dýrð hins alvalda Guðs skín gegnum þau, gegnum tilveru alla. Þetta hefur Snorri í huga. Það er máttur og dýrð hins almátka sem verndar landið kalda og bægir frá því allri vá.

Áþekkar myndir þessara frumafla birtast í kirkjulistinni í táknmyndum guðspjallamannanna, þeirra sem segja söguna af því hver það er sá máttur og dýrð sem æðst er. Þeir birta okkur myndina af Jesú, segja okkur söguna af frelsaranum og fagnaðarerindi hans, lífi og fórnardauða og upprisu frá dauðum og boðskap hans um lífsins veg, um grundvöllinn trausta og lífið sanna.

Og svo megum við ekki gleyma að skjöldurinn, sem skjaldberarnir, landvættirnar bera, er merki hans, krossinn hans, mátturinn sem sigrar í veikleika og vanmætti, kærleikans kraftur sem signir land og lýð.

En táknið geymir fleiri víddir, eins og jafnan er. Til forna voru þessar táknmyndir sem landvættirnar vísa til gjarna túlkaðar öðrum þræði sem tákn höfuðdyggðanna fjögurra: Visku, hugrekkis, sjálfsaga og réttlætis. Þannig ættum við að geta séð skjaldberana, landvættirnar, sem áminningu um að hin guðdómlega forsjón og vernd, sem yfir landinu hvílir, á sér samsvörun og framlenging í þeim dyggðum sem manninn prýða umfram allt. Viska og hugrekki, sjálfsagi og réttlæti eru ásamt trú, von og kærleika grundvöllur hins góða lífs og heilbrigðs samfélags. Hag lands og þjóðar, farsæld, frelsi og frið, er umfram allt borgið ef þær dyggðir ráða för. Engar ytri varnir nægja ef hinar innri varnir eru veikar og brostnar.

Er við nemum staðar hér í Dómkirkjunni til bænastundar í tilefni embættistöku Forseta Íslands áköllum við þann mátt sem enn setur vörð um land og þjóð, og er Guð vors lands. Við þökkum fegurð og gæði landsins, og frelsi, líf, von og gæfu þjóðarinnar. Við biðjum þess að máttur Guðs verndi, bjartir englar hlífi og sannar dyggðir krýni þessa þjóð og verji heill hennar og hamingju um ókomin ár og aldir.

Við biðjum forseta Íslands blessunar, eiginkonu hans og fjölskyldu biðjum við heilla, og við lýsum friði yfir embættisferil hans. Við biðjum þess að Guðs ljós og andi leiði hann og blessi, og að engill Drottins setji um hann vörð. Guð vors lands gefi honum styrk og þrótt til að bera byrðar háleitrar köllunar þjóð og landi til heilla. „Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá. Finnið og sjáið að Drottinn er góður, sæll er sá maður sem leitar hælis hjá honum.“

Amen. Í Jesú nafni. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3031.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar