Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Guðni Már Harðarson

Dag í senn

31. ágúst 2008

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.
Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning. Matt 6.24-34

Dag í senn, eitt andartak í einu,
eilíf náð þín, faðir, gefur mér
Mun ég þurfa þá að kvíða neinu,
þegar Guð minn fyrir öllu sér?
Hann sem miðlar mér af gæsku sinni
minna daga skammti´ af sæld og þraut,
sér til þess, að færa leið ég finni
fyrir skrefið hvert á lífs míns braut.

Þannig er fyrsta erindið í sálminum dag í senn, sálminum sem valin var ástsælasti sálmur íslensku þjóðkirkjunnar, hvorki meira né minna, í könnun sem Hörður Áskelsson söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar lét gera meðal presta og organista árið 2006.

Og það er fleira en þessi könnun sem staðfestir hversu ástsæll sálmurinn er meðal þjóðarinnar, á bloggsíðum internetsins má finna margar tilvitnanir í textann og vitnisburði fólks á öllum aldri sem hefur sótt styrk í sálminn, leyft textanum að tala til sín, hughreysta og áminna um gildi lífsins og líðandi stundar.

Á netinu má finna dæmi um hvernig sálmurinn hefur talað til fólks í prófkvíða, við sjúkrabeð barna, í söknuði látinna ástvina og ýmis konar andstreymi.

12 spora samtökin Vinir í bata benda fólki jafnframt á sálminn sem sígildan tólf spora sálm sem miðli boðskap 12 sporanna á einfaldan og fallegan hátt.

Það skildi engann undra vinsældir sálmsins. Djúpvitur og meitlaður textinn í samblandi við ljúfa og látlausa laglínuna snertir við fólki. Veitir von, hugarró og frið.

Að baki textanum liggur guðspjall dagsins, hinn kristni grundvöllur að taka einn dag í einu, njóta augnabliksins, treysta Guði og lifa í nútíðinni.

Textinn góði er ein ef mörgum perlum sem liggja eftir Sigurbjörn Einarsson biskup, sem í vikunni kvaddi þennan heim eftir langan og farsælan feril í þjónustunni við frelsarann.

Trúarvissan, friðurinn og öryggið sem einkenndu allt líf herra Sigurbjörns skín frá texta sálmsins og af honum getum við sannarlega lært. Í öðru erindinu kemur fram falleg og einlæg trúarjátning Sigurbjörns er hann segir:

Hann, sem er mér allar stundir nærri,
á við hverjum vanda svar og ráð,
máttur hans er allri hugsun hærri,
heilög elska, viska, föðurnáð.

Herra Sigurbjörns Einarsonar hefur víða verið minnst með miklu þakklæti síðustu daga, hann var einstakur penni og ræðumaður, vinsæll fyrirlesari, virtur fræðimaður og prófessor, góður kennari.
Hann er Hallgrímssöfnuði sérstaklega hjartfólgin en hann var fyrsti presturinn í Hallgrímskirkju og söfnuðurinn stóð nærri hjarta hans alla ævi, eftir að biskupstíð hans lauk var hann formaður listvinafélagsins og reglulegur þátttakandi guðsþjónustum safnaðarins allt til hinstu stundar.

En hann var líka í miklum metum meðal skólahreyfinganna KSS og KSF, hann talaði oft á fundum félaganna og styrkti starf KSF árlega með myndarlegu fjárframlagi, auk fyrirbæna og andlegrar leiðsagnar.

Sigurbjörn biskup vann aldrei sjálfum sér til hróss, heldur Guði til lofs.

Herra Sigurbirni fylgdi þægileg nærvera og einlægt trúartraust þess sem hefur öðlast og reynt þann styrk og frið sem ekkert fær bugað. Nærveran einkenndist af því sem lýst er í sálminum, að lifa dag í senn, eitt andartak í einu.

Handtakið, augnaráðið, hlýjan og brosið var einlægt og fölskvalaust. Hann horfði í augun á fólki og gaf því alla sína nærveru með hlýju handtakinu og innilegu brosinu. Enginn asi, fullkomin rósemd og nærvera þess sem vissi fyrir víst að Drottinn er allar stundir nærri.

Í guðspjalli dagsins segir Kristur að áhyggjur muni ekki auka spönn við aldur nokkurs, Það sér hver sem vill sjá að áhyggjur eru ekki gott vegarnesti í framtíðina. Fyrirhyggja og framsýni geta hjálpað okkur og Kristur talar ekki gegn því, en áhyggjurnar eru annars eðlis þær draga úr okkur kjarkinn, og mála jafnvel upp í huga okkar enn verri mynd af aðstæðum en raunveruleikinn gefur tilefni til.

Áhyggjur geta haft áhrif til hins verra á dómgreind okkar, dregið úr okkur kjarkin til að taka ákvarðarnir og slævt ástand okkar til að takast á við lífið. Þær taka frá okkur núið, það eina sem við þó höfum hverju sinni. Kristur hvetur okkur til að láta af áhyggjum og líta þess í stað til fugla himinsins og hyggja að liljum vallarins.

Í magnaðri prédikun spyr herra Sigurbjörn um efnið:

Hvað sérðu, þegar þú athugar fuglinn og grasið? Ekki iðjuleysi, þvert á móti, þú sérð þrotlaust starf, sífellda iðju. Og þú sérð meira: Þú sérð dásamlega ráðsnilli og fyrirhyggju.

Fuglinn, sem kom í vor úr fjarlægum sólarlöndum, hann hafði hreiðrið tilbúið á réttri stundu, hann lét ekki unganna svelta, hann kenndi þeim sund og flug og nú eru þeir undir það búnir að fljúga háa vegaleysu undan vetrinum, sem nálgast hér.

Og blómið, sem lauk upp krónu sinni í vor, það hefur í sumar verið heil veröld iðandi starfs, það hefur aflað sér forðanæringar, lokkað flugurnar til þess að dreifa fræjunum, eða búið þau vængjum svo að vindurinn svifi með þau, og nú má haustið og veturinn koma, það hefur skilað af sér því hlutverki, sem vorið vakti það til.

Þetta sérðu þegar þú lítur til fugla himinsins og gefur gaum að liljum vallarins og annað miklu meira.

En eitt sérðu ekki þar: Þú sérð aldrei áhyggju, aldrei skuggann, sem leynist í þinni sál, stríð hugans við verkefni morgundagsins eða glöp liðins dags, aldrei áhyggju vegna útlits eða álits, hér er hver andrá þegin í skuggalausri lífsnautn. Öll þessi önn í lofti og moldu er ómenguð þeirri beiskju, þeim sviða, því sliti inni fyrir, sem mannleg áhyggja veldur.

Orð Jesú eru ekki ávítur, því síður draumórar einhvers, sem stendur utan við lífið og veit ekki hvað það er. En það er í þeim sársauki yfir því hvað mennirnar böðlast á sjálfum sér sér og hvað vér erum langt frá því að vera börn þess góða ríkis og þess ríka föður, sem hann opinberar.

Hvað sérðu hjá liljunni á vellinum, hvað sérðu hjá fugli himinsins? Þú sérð lífið í starfandi, skapandi auðlegð. En þú sérð meira. Þú sérð föður lífsins. Blómið veit ekki af sér. Af hverju opnar það krónuna á móti sólargeislunum? Af hverju hlúir það fræi sínu, af hverju sendir það rótarangann dýpra og dýpra, uns það finnur næringu?

Það er einhver, sem veit af því, einhver, sem hefur búið það þeim eðlisviðbrögðum, sem sjá lífi þess borgið, einhver, sem sér og heyrir og skynjar fyrir þess hönd.

Eða lóan, sem kemur á vori og fer að hausti. Hvað veit hún um íslenskt veðurfar? Hvað kann hún um árstíðaskipti? Hvað veit hún í landafræði?

Hún veit ekki neitt. En það er einhver, sem veit um hana, veit fyrir hennar hönd, vísar henni til vegar, hefur forsjón fyrir henni.

Þú sérð m.ö.o. þegar þú gefur gaum að lilju og lóu, ekki aðeins undur lífsins, þú sérð umhyggusemi, sem er jafn nærfærin eins og hún er vísdómsrík.

Faðir lífsins er faðir þinn. Það er hann og ekki þú, sem hefur forsjá fyrir þér og þínum, hans umhyggja og ekki þín, hans fyrirhyggja, viska og máttur.

Það sem eðlisleiðslan er dýrinu og blóminu, það er vitið þér, því að þú færð að lifa vakandi, þú ert í Guðs mynd, þú hefur hugsun, þú berð ábyrgð. En undrið mikla í tilverunni er hvorki eðlisviðbrögð náttúrunnar né vitund þín, heldur hugurinn, sem í hvoru tveggja lifir, faðirinn, sem veit um þig og hverja lífveru.”

Fallega orð hjá Sigurbirni og það má segja að þessi speki sé dregin saman dreginn í síðari hluta sálmsins, Dag í senn þar sem segir svo snilldarlega:

Morgundagsins þörf ég þekki eigi,
það er nóg, að Drottinn segir mér:
Náðin mín skal nægja hverjum degi,
nú í dag ég styð og hjálpa þér.

Í lokaversinu biður Sigurbjörn fallegrar bænar og lýsir yfir trúartrausti:

Guð, ég fæ af fyrirheitum þínum
frið og styrk, sem ekkert buga má.
Auk mér trú og haltu huga mínum
helgum lífsins vegi þínum á,
svo að ég af hjartaþeli hreinu,
hvað sem mætir, geti átt með þér
daginn hvern, eitt andartak í einu,
uns til þín í ljóssins heim ég fer.

Herra Sigurbjörn hvílir nú sæll með frelsaranum í ljóssins heimi. Við sem hér erum í dag ættum að heiðra minningu hans með því að láta náð Guðs nægja hverjum degi og lifa: Dag í senn, eitt andartak í einu.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 5329.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar