Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Baldur Kristjánsson

Þannig hvílum við í trúnni – í lífinu sjálfu

13. júlí 2008

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.
Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn. Matt. 7: 15-23

Það koma ekki vínber af þyrnum. Þyrnar eru slæmir þeir stinga. Af þeim les maður ekki vínber af illu kemur ekki gott. Vínber koma af vínviði. Mig grunar að það sé ekki mikill líffræðilegur munur á þyrnum og vínviði- ekki mikill. Ekki frekar en á tveimur mönnum þó annar sé dópssali og hinn biskup. Annar mannanna stingur þá sem eru nálægt honum er ótukt eða illmenni. Hinn er eins og vínviðurinn mjúkur og áferðarfallegur og gerir yfirleitt gott þegar hann gerir eitthvað. Samt eru þessir menn nokkurn veginn alveg eins líffræðilega séð. Af ávöxtunum þekkir maður hluti þá segir guðspjallið. Þú sérð unglinga sem renna upp eins og viðarteinungar kurteisir, elskulegir, lærdómsfúsir, hæfileikaríkir og þú veist að sennilega eru foreldrarnir hið vænsta fólk, börnin hafa trúlega verið vel upp alin, góðum hlutum haldið að þeim, hafa búið við hæfilegan aga, uppalendur sýnt af sér gott fordæmi. Svo eru aftur önnur börn hvers líf virðist alltaf vera uppímóti. Grunur fellur að sjálfsögðu á foreldra að þeir hafi ekki valdið hlutverki sínu, ekki nennt þessu, ekki gáð að sér, ekki sýnt nógu gott fordæmi. Þetta eru vandfarnar slóðir því að oft er ekki um augljóst samband að ræða og stundum virðist um ekkert samband að ræða. Við vitum líka að ekkert er í veröldinni klippt og skorið og allar alhæfingar í þessum málum sem öðrum þeim sem alhæfir til mikils vansa.

En hverjir eru falsspámennirinir ? Á tímum Jesú voru það örugglega þeir sem boðuðu trú á aðra Guði. Sumir telja Múhameð sem kom 600 árum síðar falsspámann. Islamstrúarmenn eru nú ekki á því – trúa því að Gabríel erkiengill hafi sagt fyrir texta Kóransins. En eru ekki falsspámenn þeir sem lofa því sem reynist vera fals. það má klessa því á stjórnmálamenn samtímans. Ég held að það sé nú samt ekki rétt. Þeir lofa að vísu gulli og grænum skógum og reyna að fá menn til að fylgja sér. Lofa upp í ermina á sér. Álverum eða fögru Íslandi á víxl, en það er ódýrt að kalla þá falsspámenn. Þeir sem selja glæsibíla og telja glæsivagna upphaf og endi alls þeir eru auðvitað líka hálfgerðir falsspámenn eins og allir þeir sem halda að okkur veraldlegum gæðum því að lífsgæði færa okkur ekki hamingju, ekki ein og sér. En eins og með stjórnmálamennina. það er engin sanngirni í því að telja þá falsspámenn. Auðvitað eigum við samt að vara okkur á báðum því að maðurinn lifir ekki á brauði einu saman heldur sérhverju orði sem fram gengur af Guðs munni. Með þessu er veraldlegum gæðum ekki hafnað heldur einfaldlega bent á það að veraldleg gæði.eru ekki upphaf og endir alls þó þau séu samt nauðsynleg og lífsbætandi enda værum við ekki hér í Strandarkirkju í dag nema vegna þess að við gátum komið á okkar glæsilegu bifreiðum sem við höfum önglað saman fyrir með ráðdeild og sparsemi. Allt er þetta nauðsynlegt.

En komumst við í himnaríki? Lífum við eins og mönnum ber? Samkvæmt guðspjallinu dugar ekki að ákalla Guð öðru hvoru. Menn verða að gera vilja föður míns sem er á himnum, segir Jesú!

Ekki er nú vandi að spá í þennan vilja.. Trúa á Jesú! Hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið en samkvæmt texta guðspjallsins dugar ekki að hrópa drottinn, drottinn, hverfa inn í einhverja sjálsfupphafningu í trú sinni eða heimsafneitun. Nei, menn verða að láta trú sína bera ávöxt eða réttra sagt: Trú sem ekki ber ávöxt er einfaldlega ekki kristin trú. Kristin trú hlýtur að bera ávöxt þ.e.a.s. sá sem elskar Guð hann hlýtur að elska náunga sinn og það að elska er að láta sig varða. Sá sem trúir kemur góðu til leiðar. Hann hlúir að lífi – hann lætur sinn innri mann skína. það er nefnilega þannig með alla„Vonda” menn að þeir eru góðir inn við beinið. Allir eru verðir elsku okkar. Kannski var vondi maðurinn sem við eltum með dómhörku og illsku góður og fallegur drengur sem var misnotaður af sjúkum frænda. Kannski var hann laminn eins og harðfiskur af drykkfelldum föður. Vilji föðurins er sá að það sem við viljum að aðrir menn gjöri okkur það skulum við þeim gjöra. Innst inni þrá allir faðmlag, viðurkenningu, sátt, skilning. Vilji Guðs er að við fyrirgefum, sættumst, skiljum og þá opnast himnaríki fyrir okkur. Hefur einhver prófað?

,,Við erum englar með einn væng. Við getum aðeins flogið með því að halda utan um hvort annað.”

,,Þar sem hlý hönd er rétt til hjálpar og huggunar, þar er engill Guðs að verki.”

,,Og þar sem bros breiðist yfir andlit og augu ljóma í gleði og hláturinn streymir frá hlýju hjarta, þar standa hlið himins opin upp á gátt.”

Þannig hvílum við í trúnni – í lífinu sjálfu.

Strandarkirkja í Selvogi er kirkja þeirra sem leggja allt í Guðs hendi. Örvæntingarfullir ungir feður, bændasynir úr uppsveitum hétu því að byggja kirkju þar sem þeir næðu landi næðu þeir landi. þeirra síðasta úrræði var að ákalla Guð, heita á hann. Þeim birtist ljós fyrir stafni og þeir réru á það og vita ekki fyrr en skipið kennir grunns. Þegar birti af degi sáu bændasynir að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd til hlés í lítilli sandvík. Þeir reistu sína kirkju. Strandarkirkju, Kirkju vonar og trúar. Kirkju sem er vitnisburður um trúna á Guð. Þessi saga vitnar um það að Guð er nálægur.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2639.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar