Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Ragnheiður Karítas Pétursdóttir

Það voraði í gröf Drottins

23. mars 2008

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark 16.1-7

• • •

Eitt sinn kom ég óvænt inn í herbergið hans, er hann var að semja kaflann um Golgata í Matthíasarpassíunni. Hve ég komst við að sjá andlit hans sem venjulega var yfirvegað og frísklegt – nú öskugrátt og þakið tárum. Hann kom ekki auga á mig og ég snéri hljóðlega við, settist á stigaþrepið gengt vinnuherbergi hans og grét einnig.

Þetta textabrot er úr endurminningum Önnu Magdalenu Bach, seinni eignkonu Jóhannesar Sebastían Bach. Og hún heldur áfram og segir:

Hve lítið hlustendur þessa verks vita hve það tók á… þessi helga tónlist sem hann samdi fyrir orðin í guðspjallinu tjáir tilfinningar allrar kristninnar þegar hún horfir til krossins. Og er Sebastían settist niður til að semja hana, skynjaði hann alla angist mannsins í þrá sinni fyrir endurlausn og allan leyndardóminn í upprisu Hans.

Dagur pínu og dauða er liðinn. Birta hefur færist yfir heim manna. Sigurhátíð gengin í garð.

Kom, til að lífga, fjörga, gleðja, fæða og frelsa, leysa, hugga, sefa, græða. Í brosi þínu brotnar dauðans vigur, í blíðu þinni kyssir trúna sigur.

Þannig orti Matthías Jochumsson óð til sumarsins.

Og í dag minnumst við þess að það voraði í gröf Drottins.

Við erum stödd í Jerúsalem Í bítið að morgni sunnudagsins eftir dauða Jesú Krists. Páskahátíð gyðinga stendur yfir og mun hún brátt fá nýja merkingu. Nýtt inntak.

Sögusviðið er við upphaf nýrrar viku. Við inngang nýs tímabils í frelsunarsögunni. Daginn sem eitt sinn var helgaður sköpun mannsins.

Aðalsöguhetjurnar eru konur, sem Markús guðspjallamaður hefur áður minnst á.

Það voru þær sem voru við krossinn þegar allt varð dimmt. Þær einu sem þar voru, er kulda kvalir, hret og hríðir umluktu allt.

Lærisveinarnir fóru.

Hlutverki þeirra Maríu Magdalenu, Maríu móðir Jakobs og Salóme var ekki lokið.

Andspænis flótta lærisveinanna stendur trúmennska þeirra. Sönn eftirfylgd og kærleiksþjónusta við meistarann.

Þær voru komnar til að smyrja líkama hans. Veita honum síðustu þjónustuna. Virðingu.

Sorg og söknuður nístir hjörtu. Skelfing kvala og pínu fangar hug. Vantrú og tómleiki slæst með í för og fölnandi trúarvissa fetar í fótspor þeirra.

Spurningar gerast æ áleitnari.

Hvernig gat þetta gerst?

Var hann ekki Drottinn?

Hvar er lífið eilífa sem hann hafði heitið?

Er þá lífið bara eitt stutt andartak? Og deyr þá allt sem dáið fær?

• • •

Lífið er dýrmætasti fjársjóður mannsins. Táknmynd lífsins er gróðurinn. Með rætur sínar í lífgefandi moldinni, heitri og mjúkri sem umlykur allt.

Það er í þeim beði sem fræin vaxa og dafna að vori.

Andspænis hýrri og mjúkri moldinni stendur steinninn sem velt var fyrir gröfina þegar Drottinn dó.

Harður kaldur steinn, sem ekkert líf fóstrar. Þungur, óhagganlegur, ósveigjanlegur. Og svo endanlegur.

Eða hvað?

Steininum hefur verið rutt í burtu. Hellismunninn stendur opinn og lífið streymir út um hann.

Kærleikans kraftur. Dauðinn hefur sleppt herfangi sínu.

Og annar steinn fyllir grafarmunnann í stað hins harða og kalda. Hyrningarsteinninn sem getur af sér líf í kærleika.

Með þeim lífgefandi kærleika hefur Jesús Kristur greitt syndagjöld mannsins, afmáð dauðans spor og reist lífið.

• • •

Lífið sem maðurinn hefur fengið frá Guði. Ekki bara til að lifa því, í einhverskonar tómarúmi, heldur til að lifa með honum.

Því líf sem lifað er án Guðs, er líf í dauða, einmitt vegna þess, að Guð er samnefnari lífsins. Lífið sjálft.

• • •

Á krossi var lífið tekið. Krossinn var ekki bara aftökutæki, heldur og einnig skelfilegt pyntingartæki.

Þó lútum við honum. Hengjum hann upp á vegg, setjum um háls okkar. Berum á barmi okkar.

Það er vegna þess að merking hans nær handan pínu og kvala, Handan dauða. Táknmynd krossins umvefur nú lífið og hrekur á brott dauðann.

Hann er sigurtáknið, mynd þess kærleikskrafts sem hafnar máttarþrotnu pyntingartólinu.

Sú opinberun hefur nú birst okkur. En trúum við því?

Eða er okkur farið eins og vinum Jesú, sem óttuðust og trúðu ekki fyrst í stað?

Þurftu frekari sannana við. Eitthvað áþreifanlegt, sjáanlegt.

En svið birtingarinnar, opinberunarinnar er ekki áþreifanlegt. Heldur býr það innra með manninum.

Við opinberun, er sem hulu sé svipt af og það sem undir er, kemur í ljós. Og við sjáum það sem við sáum ekki áður.

Eins og þegar við göngum að nóttu, sjáum við hvar við höfum stigið niður fæti, fyrst þegar birtir að morgni.

Og eins og móðir sem gengur með barn sitt þekkir og finnur fyrir hinu litla lífi sem hún ber.

Tengist því í hjarta sínu þó hún sjái það ekki með berum augum.

• • •

Í hjarta okkar sjáum við, finnum við, skynjum við Jesú Krist upprisinn. Hann er ekki í ríki dauðans. Dagurinn dimmi með þjáningu og þrautir er að baki.

Endurlausnin veruleiki.

Það eru þau náðargæði sem okkur hefur hlotnast. Lífsaflið sjálft, sem býr voninni bústað og ómar um allar aldir.

Páskaboðskapurinn sem konurnar fengu við gröf Drottins, hljómar til okkar í dag. Og okkur er boðið að slást í för með Jesú á vegferð hans.

Boðið að taka þátt í nýju upphafi. Til að vitna um verk hans, ganga í spor hans og lifa upprisu hans.

Það boð þiggjum við í þeirri fullvissu að vegurinn handan grafarmunnans liggur til upprisu, sigurs og eilífs lífs.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2414.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar