Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Kristjánsson

Golgata í svipmyndum

21. mars 2008

Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann. Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu. Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: „Sæll þú, konungur Gyðinga,“ og slógu hann í andlitið.

Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við fólkið: „Nú leiði ég hann út til ykkar svo að þið skiljið að ég finn enga sök hjá honum.“ Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við fólkið: „Sjáið manninn!“

Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann æptu þeir: „Krossfestu, krossfestu!“

Pílatus sagði við þá: „Takið þið hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum.“

Þeir svöruðu: „Við höfum lögmál og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja því hann hefur gert sjálfan sig að Guðs syni.“

Þegar Pílatus heyrði þessi orð varð hann enn hræddari. Hann fór aftur inn í höllina og segir við Jesú: „Hvaðan ertu?“ En Jesús veitti honum ekkert svar. Pílatus segir þá við hann: „Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki að ég hef vald til að láta þig lausan og ég hef vald til að krossfesta þig?“

Jesús svaraði: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök sem hefur selt mig þér í hendur.“

Eftir þetta reyndi Pílatus enn að láta hann lausan. En fólkið æpti: „Ef þú lætur hann lausan ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gerir sjálfan sig að konungi rís á móti keisaranum.“

Þegar Pílatus heyrði þessi orð leiddi hann Jesú út og settist í dómstólinn á stað þeim sem nefnist Steinhlað, á hebresku Gabbata. Þá var aðfangadagur páska, um hádegi. Hann sagði við fólkið: „Sjáið þar konung ykkar!“

Þá æptu menn: „Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann!“

Pílatus segir við þá: „Á ég að krossfesta konung ykkar?“

Æðstu prestarnir svöruðu: „Við höfum engan konung nema keisarann.

Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.

Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“

Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“

Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:

Þeir skiptu með sér klæðum mínum

og köstuðu hlut um kyrtil minn.

Þetta gerðu hermennirnir.

En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“

Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum.

Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

Jóh. 19:1-30

Náð sé með yður og friður.

Víetnamski listamaðurinn Xuan Huy Nguyen ólst upp við sögur föður síns af Tet-árás bandaríska flughersins í Víetnam fyrir réttum fjörutíu árum (Jan.-sept. 1968). Hörmungarnar gerðust tæpum áratug áður en listamaðurinn fæddist. Frásagnir föður hans fundu sér farveg í áhrifamiklum myndverkum sem hafa vakið mikla athygli og sterk viðbrögð, ef marka má grein í virtu erlendu fréttatímariti um sýningu listamannsins.

Stríðsvélarnar, sem þutu inn yfir landið sumarið ´68, voru ekki hlaðnar skotvopnum heldur appelsínugulu díoxíneitri til að eyða laufblöðum af trjám. Tet-árásahrinan stóð í tæpa átta mánuði og hafði ólýsanlegar þjáningar í för með sér. Um fjórar milljónir manna fórust í þessum aðgerðum og enn bera milljónir manna sýnileg merki eitrunarinnar, enn fæðast vansköpuð börn sem minna óþyrmilega á harmleikinn, sem er sextíu og átta kynslóðinni, í það minnsta, enn í fersku minni.

Listamaðurinn ljósmyndaði fórnarlömb árásarinnar vítt og breitt um landið og málaði síðan verk sín. Tilgangur hans var ekki ásökun eða áfellisdómur, heldur innri þörf til að koma lífsreynslu til skila. Myndirnar tala sínu þögla máli um líf annarra, um þjáningar bræðra og systra í fjarlægu landi. Orðrétt segir hann: „Aðgerðin, sem kennd er við appelsínugulan lit eitursins, er fyrir mér táknmynd sem vekur til umhugsunar um lífið yfirleitt.“ Listamaðurinn setur verkin með öðrum orðum í víðara samhengi: Við erum stödd á Golgata samtímans.

Tuttugasta öldin, sem þekkti einræðisherra, heimsstyrjaldir og stórveldaátök, þekkti einnig þjáninguna. Myndlist aldarinnar ber þeirri staðreynd vitni flestum öldum betur, oftar en ekki með beinni eða óbeinni skírskotun til píslarsögu Jesú.

En nú finnst mörgum eins og þjáningin sé hverfandi viðfangsefni í vestrænum listheimi, miðað við það sem áður var, og þarf þá ekki að líta langt aftur í tímann.

Reyndar mætti til sanns vegar færa að svipuðu máli gilti um myndverk í kirkjum, enda er oft spurt eitthvað á þessa leið: Væri ekki áhrifameira á framsæknum tímum að slá léttari strengi og tefla fram manni sem hleypur til sigurs, en hvíla sig í staðinn á ímynd hins þjáða, deyjandi á krossi?

Kirkjan hefur ávallt fundið tungutak sem hæfir hverjum tíma og lært að fóta sig í gildandi táknheimi og oftar en ekki verið skapandi á þeim vettvangi. Í þeirri löngu og litríku sögu fer því fjarri að krossinn hafi ævinlega verið tákn trúarinnar, svo var ekki fyrstu aldirnar. Þegar krossinn verður fyrst sýnilegur í myndheimi kirkjunnar er hann eindregið sigurtákn manns sem ráðinn hafði verið af dögum en reis upp í ótrúlegu veldi þessa heims og annars. Kristur rómversku keisaranna er hvorki bugaður né þjáður, heldur ímynd sigurvegarans, sem ekkert mótlæti fékk lagt að velli og dauðinn náði engu valdi yfir. Það er ekki fyrr en á fimmtu öld sem fyrsta krossfestingarmyndin verður til eftir því sem næst verður komist. Miklu síðar breytist ímynd hins sigrandi og stælta krossbera í þjáninganna mann.

Líkt og allar myndir af mannlegri þjáningu vekja myndir víetnamska listamannsins tilvistarspurningar lífsins í huga áhorfandans, sá er einnig yfirlýstur tilgangur hans. Áhorfendur standa andspænis þjáningu sem þeim er um megn að skilja til fulls. Þar standa allir í sömu sporum.

Og þjáningin fangar athygli okkar. Slys á vegum, náttúruhamfarir, hryðjuverk og sjúkdómar, ofbeldi um nótt, börn og unglingar á misheppnuðum uppeldisstofnunum: sársaukinn lætur engan ósnortinn, hann krefst fullrar athygli og hann hefur forgang, allt annað verður að víkja um stund.

Þjáningin gegnir því ekki afþreyingarhlutverki í síhungruðum heimi fjölmiðlanna. Við horfum á hina þjáðu, hverjir sem þeir eru, og komumst ekki undan því að standa andspænis sársaukanum. Hann hefur í sér aðdráttarafl sem kann að koma á óvart. Það er ofurvald ögrandi og um leið óhjákvæmilegra spurninga: Hvers vegna líður hinn saklausi í þessum heimi? Hvers vegna valda menn hver öðrum þjáningum í daglegu lífi? Hvers vegna þjáist barnið? Hvers vegna líða menn vegna pólítískrar kúgunar um víða veröld? Spurningarnar hrannast upp.

Á föstudaginn langa stöndum við frammi fyrir hinum þjáða og eigum samtal við hann. Hlutverk píslarsögumynda allra tíma er að koma því samtali til leiðar. Það á einnig við um myndir víetnamska listamannsins Xuan Huy Nguyen.

Tilgangurinn liggur í augum uppi: Sá sem horfir á hinn þjáða Krist lifir sig inn í píslir hans en jafnframt – og ekki síður – inn í þjáningar annarra, myndin skerpir vitund hans, og næmleikinn fyrir sársauka annarra dýpkar. Samkennd hans með öllum sem þjást verður honum meðvituð. Svo krefjandi eru myndir hinna afskræmdu Víetnama, svo krefjandi eru myndirnar frá Golgata.

Hin sterka samsemdarhugsun kristinnar trúar skilar sér í lífsviðhorfi þar sem enginn er afskiptur. Og þar sem virðing mannsins er ekki fyrir borð borin, ekki heldur virðing þeirra sem líða, jafnvel gleymdir í pyntingum á afskekktum stöðum.

Við erum að tala um málstað Jesú í þessum heimi, um hann sem gekk ekki í lið með valdsins mönnum þótt það hefði hentað honum, lét ekki undan ofureflinu, missti ekki móðinn andspænis blóðþyrstum lýðnum, afneitaði ekki sjálfum sér. Við erum að tala um hann sem sveik ekki manninn en stendur við hlið hans.

En á hverju byggist veldi hans? Hvergi finnst stafkrókur um að Jesús hafi hvatt til valdbeitingar. Veldi hans er ekki reist á áróðri, eitri og vopnum, það er ekki reist á afskræmdum líkömum saklausra fórnarlamba styrjalda. Samt er hans milda veldi öflugra en nokkurt annað í þessum heimi. Áhrif hins krossfesta eru meiri en nokkurs annars manns í sögu heimsbyggðarinnar. Áhrif hans byggjast á því að hann vekur dýpstu vitund mannsins um hið góða, fagra og sanna og gekk sjálfur leiðina til enda.

Þegar mannúðin á í hlut þekkir hinn krossfesti enga málamiðlun, hefði svo verið, ættum við ekki samtal við hann á Golgata.

Hugsjónir finna sér oft farveg í stjórnmálum. En byggjast ekki stjórnmálin á því að finna leið til hins framkvæmanlega? Er sú leið ekki oft leið málamiðlana? Hjá hinum krossfesta er enga málamiðlun um virðingu mannsins að finna, þar er ekki varpað hlutkesti um mannúðina, þar er ekki spurt um hið framkvæmanlega heldur um lífsgildi sem eru hafin yfir stund og stað og gefa lífi mannsins merkingu um tíma og eilífð.

Þess vegna leiðir píslarsagan hugann að áhrifasögu krossfestingarinnar að fornu og nýju. Þurfti Jesús að fara inn í Jerúsalem í faðm hins trúarlega og veraldlega valds? Þurfti hann að gefa sig á vald blóðþyrstum múgnum og verða auðveld bráð þeim sem sóttust eftir lífi hans?

Sá sem við eigum samtal við á föstudaginn langa er maðurinn sem stóð upp í stað þess að missa móðinn, hann er maðurinn sem sneri ekki við blaðinu þegar það hentaði, hann er maðurinn sem gekk alla leiðina annarra vegna. Í mynd hans skynjum við kröfu um mannúð og um eftirfylgd.

Samtal við hinn þjáða vekur löngun til að fylgja honum eftir. Jafnvel þótt annað væri hentugra um stundarsakir.
Rifjum upp atburð sem gerðist fyrir tæpum tveimur áratugum. Það var haustið 1989 sem sérsveit hersins í El Salvador braut sér leið inn í Romero-stofnunina í San Salvador og felldi sex guðfræðiprófessora Miðameríku-háskólans, sem þar bjuggu. Þeir voru allir rómversk-kaþólskir munkar af Jesúítareglu. Einnig skutu þeir húsvörðinn til bana og fimmtán ára dóttur hennar. Einn hinna felldu var Juan Ramón Moreno. Sá sem felldi hann dró líkama hans inn í íbúðaálmu prófessoranna, inn í herbergi sem tilheyrði þekktum baráttumanni fyrir mannréttindum, Jon Sobrino að nafni, sem var þá erlendis. Þegar lík Morenos var fært inn í herbergið féll lítil bók af hillu og lá í blóði hans þegar að var komið. Þá bók gefur nú að líta í litlu safni á staðnum sem var komið upp til minningar um þá sem féllu í harmleiknum. Bókin heitir Guðinn krossfesti og er eftir þýska guðfræðinginn Jürgen Moltmann. Hann rifjaði sjálfur upp þessa sögu í fyrirlestri í Háskóla Íslands þegar hann kom hingað til lands á sl. ári.

Sagan leiðir hugann að áhrifum krossfestingarinnar á vitund manna um réttlæti og mannúð.

Og eftir tvær vikur verður þess minnst að 40 ár eru liðin frá því séra Martin Luther King var ráðinn af dögum, maðurinn sem er ímynd mannréttindabaráttu síðari hluta tuttugustu aldar, fulltrúi hinnar friðsamlegu baráttu fyrir mannúð og réttlæti. Hann átti hinn krossfesta að fyrirmynd í baráttu sinni. Þar var engin málamiðlun gerð um virðingu mannsins og þá mannúð sem Jesús Kristur gerði sýnilega á Golgata.

Bókarheitið “Guðinn krossfesti” er tilvísun til atburða föstudagsins langa. Í hinum krossfesta sjáum við þann Guð sem líður með manninum, sem stendur með honum í þjáningu og sársauka, og sem kallar fram það besta í fari mannsins. Í mannúðinni er Guð nærri manninum.

Það er umhugsunarvert að fyrir siðbótarmanninum Marteini Lúther voru tvær táknmyndir öðrum sterkari þegar spurt var um návist Guðs í lífi mannsins og hvorug vísar til alveldis og styrkleika Guðs heldur þvert á móti til smæðar hans og varnarleysis.

Táknmyndirnar eru jatan í Betlehem og krossinn á Golgata. Þar er Guð næstur manninum að skilningi Lúthers, þar finnur maðurinn návist hans, að hann er umvafin ást hans og umhyggju, að Guð lítur ekki undan þegar maðurinn þjáist heldur er hann honum þá næstur.

Í þessum táknmyndum afhjúpast það besta í manninum: í umhyggju fyrir barninu í jötunni, í samlíðun með öllum sem þjást. Kirkjan er kirkja hins milda Guðs sem er kemur til mannsins þegar hann þarfnast hans mest.
Við könnumst við hinn krossfesta þegar spurningar um mannúð og samlíðun vakna, þá er hann aldrei langt undan. Við þekkjum hann í þeim sem líða með öðrum, þeim sem gefa allt eins og hann og sem taka áhættu eins og hann, í þágu hins góða, fagra og sanna.

Þess vegna er krossinn sterkasta tákn mannúðarinnar, þar sem við horfum ekki framhjá sársauka annarra. Þar er maðurinn stærstur og þar fær hann spurningum sínum um tilgang og merkingu svarað með óvæntum hætti.
Er það ekki einmitt í hinum trúarlega arfi, sem maðurinn hefur varðveitt það dýrmætasta í mannlegri reynslu aldanna? Er það ekki einmitt í trúnni sem mannúðleg lífsgildi eru sett á oddinn?

Og ekki aðeins í hinum krossfesta, einnig í krossfestum bræðrum og systrum um víða veröld, meðal annars þeim sem víetnamski listamaðurinn hefur sett í sviðsljósið, einnig þar er sá Guð nærri sem þekkir engin landamæri. Samúð hans, návist hans, mannúðin sem Jesús Kristur opinberaði í hans nafni þekkir engin landamæri. Hún er ávallt skammt undan.

Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4173.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar