Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Halldór Elías Guðmundsson

Það hefur alltaf verið svona!

1. janúar 2008

Bæn guðsmannsins Móse.
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.
Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.
Davíðssálmur 90.1-4,12

Áður en þessi leið var fær vorum við innilokuð í gæslu lögmálsins þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. Þannig hefur lögmálið orðið tyftari okkar þangað til Kristur kom til þess að við réttlættumst af trú. En nú, eftir að trúin er komin, erum við ekki lengur undir tyftara.
Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.
Galatabréfið 3.23-29

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“
Lúkasarguðspjall 13.6-9

Áður en ég kom til starfa í Grensáskirkju hafði ég starfað um margra ára skeið í sumarbúðunum í Vatnaskógi og geri svo sem enn viku og viku á hverju sumri. Eitt af því fyrsta sem ég lærði að segja sem starfsmaður í Vatnaskógi var sjálfvirkt svar við hugmyndum um breytingar: En þetta hefur alltaf verið svona!

Það var eiginlega sama hver breytingin var, ég og samstarfsmenn mínir minntum alltaf á að þetta hefði alltaf verið gert á einhvern ákveðin veg og því enginn þörf á breytingum.

Reyndar fórum við fremur óvarlega með hugtakið “alltaf”. Því fæst af því sem hafði “alltaf” verið gert á einhvern hátt, átti sér langa sögu, stundum var hefðin vikugömul og stundum var hægt að benda á að “alltaf” ætti við ársgamla hefð. En það breytti svo sem ekki viðkvæðinu, Þetta hafði alltaf verið gert svona, það þarf engu að breyta.

Við í kristilegu starfi höfum tilhneigingu til að elska hefðir, jafnvel trúa á hefðir, og ef hefðin er ekki til staðar erum við fljót að búa hana til. Við höfum tilhneigingu til að halda að heimurinn sé á einhvern einn ákveðinn hátt, allt passi/verði að passa inn í einhverja mynd sem við gerum okkur að góðum heimi. Hinn þekkti mannvinur Albert Schweitzer talaði um tilhneigingu okkar til að gera mynd af Jesús, byggða á spegilmynd okkar sjálfra. Þetta er reyndar sjálfsagt ekki einungis sameiginlegt kristnum mönnum, tilraunir til að búa um sköpunarverk Guðs kerfi sem passar alltaf allstaðar er þekkt í hugmyndakerfi kommúnismans og á stundum eru möntrur kapítalista á sama veg.

Fyrsta deila kirkjunnar manna snerist um deilur um slíkt lokað hugmyndakerfi. Hinir gyðing-kristnu, sanntrúir og góðir menn höfðu áhyggjur af því hverjir mættu og ættu að vera með. Hverjir eru rétttrúaðir, uppfylla skilyrðin sem við setjum fyrir því að vera kristinn?

Í Postulasögunni lesum við um deilur sem snúast um hvort einungis umskornir drengir geti verið sannkristnir. Stuðningsmenn umskurnar vísuðu til umskurnar Jesús sem er einn mögulegra guðspjallstexta þessa dags og byggðu á því kröfu um að allir væru eins og þeir sjálfir. Deilurnar snerust líka um matarhefðir, þurfa allir kristnir að borða sama mat og hinir gyðing-kristnu ólust upp við.

Spurningin var um hvaða manngerðar hefðir skipta máli þegar kemur að trú á Jesúm Krist. Pétur postuli hjó á hnútinn fyrir 1960 árum, með svari sem ætti að vera okkur sífelld áminning „Eigi skalt þú kalla það vanheilagt sem Guð hefur lýst hreint!“

Ef Guð hefur endurleyst alla menn þá er það ekki manna að fjötra náunga sinn í hlekki. En þrátt fyrir þetta svar, er krafan um að gera hlutina eins og þeir hafa alltaf verið gerðir, alltaf jafn sterk.

Við fyrstu sýn er skiljanlegt að við viljum halda öllu óbreyttu í ljósi þess að við trúum á Guð sem er. Það var á þann hátt sem Guð kynnti sig fyrir Móse. Ég er sá sem ég er. Á sama hátt sjáum við í Jóhannesarguðspjalli að Jesús notar sömu orð ítrekað.

Jesús er …
ljós heimsins,
vegurinn, sannleikurinn og lífið,
góði hirðirinn.

En textar dagsins minna okkur á að þó Guð sé stöðugur, frá eilífð til eilífðar, þá er maðurinn stöðugt breytingum undirorpinn, við komum og förum, berum ávöxt aðra stundina en ekki hina, erum á sama tíma endurleyst börn Guðs (sumir tala um frelsuð) og syndug. Við erum þannig á ferð í gegnum lífið, stöðugt að upplifa, sjá og reyna eitthvað nýtt, ferð sem við kærum okkur ekki alltaf um. Ákall okkar til hefðarinnar er tilraun til að stöðva rás tímans, verjast breytileikanum og hafna þeim veruleika sem Guð hefur búið okkur.

Í Nýja testamentinu mætum við Jesús Kristi sem er gagnrýninn á trúarstofnanir samtíma síns vegna manngerðra hefða sem hafa leyst af hólmi samfélag Guðs og manna. Guðspjall dagsins þarf að lesast í þessu ljósi og því að vísanir og dæmisögur Jesús um fíkjutré í samstofna guðspjöllunum, Matteusi, Markúsi og Lúkasi eru ávallt sagðar í tengslum við þessa gagnrýni Jesú á trúarstofnanir. Við getum auðvitað túlkað guðspjall dagsins sem ákall til mín og þín um að taka okkur á og bera ávöxt hið snarasta. En þegar guðspjallið er lesið í samhengi 13. kafla Lúkasarguðspjalls er auðvelt að sjá að dæmisagan er hörð áminning til trúarstofnanna og musterisins í Jerúsalem um að taka sinnaskiptum og endurskoða manngert hefðakerfi samtíma síns. Guðspjallið er því líka ákall til okkar og þeirrar trúarstofnunar sem við tilheyrum.

Sér í lagi við sem tilheyrum hinni vígðu stétt göngum á stundum hvað lengst til að ríghalda í hefðirnar og stöðuna, líkt og fulltrúar trúarstofnananna á tíma Krists. Gagnrýnendur okkar segja að við hræðumst minnkandi völd og áhrif og stundum má spyrja sig hvort þeir hafi eitthvað til síns máls.

Til að halda meintum áhrifum okkar, reynum við að vera sýnileg sem víðast látum skutla okkur upp á jökul á vélsleða til að gefa saman hjón, eða fljúgum af stað í breiðþotum í sama tilgangi. Í fullvissu þess að viðvera okkar í brúðkaupsgjörningnum viðhaldi stöðu kirkjunnar, eða að minnsta kosti stöðu okkar sjálfra. En auðvitað er okkur nauðsynlegt að spyrja hvort sýnileiki kirkjunnar, kærleikur Guðs á jörðu snúist um karl eða konu með “kraga”.

Við forðum foreldrum frá því að koma til kirkju með því að skíra börn í heimahúsum og réttlætum það með vísun til heimatrúrækni og/eða sýnileika okkar á heimilunum. Við komum síðan við á leikskólum og grunnskólum til að ná í skotið á sömu börnum og vísum þá til þess að heimatrúræknin sé ekki lengur til staðar, þ.e. heimilin hafi hvorki tíma né getu til að sinna trúrækni barnanna. Á þennan hátt höldum við börnum og foreldrum frá kirkjunni sinni, með vísun til þess að við, vígða fólkið, getum séð um trúrækniþáttinn fyrir þau þar sem þau eru. Hættan er augljós, við rænum söfnuðinn samfélagi sínu við Guð og hvort annað og verðum fljótt og örugglega milligöngumenn Guðs og manns, tökum að okkur hlutverk sem Jesús Kristi var einum ætlað.

Á sama hátt er á stundum eins og umræður um trúmál og kirkjustarf séu einkamál atvinnutrúfólks, eins og mín, vígðir háskólamenntaðir sérfræðingar tjá sig um málefni vinnustaðarins. Á sama hátt og fiskifræðingur hjá Hafró sem einn teldi sig mega/eiga að ræða sjósókn á miðunum kringum landið. Trúmál eiga á hættu að vera debat milli Kierkegaard-sinna og Grundvig aðdáenda, líkt og ég varð einhverju sinni vitni að í dönsku sjónvarpi í stað þess að snúast um að lifa í trausti til þess sem skapar og hefur gefið okkur leyfi til að vera Guðs börn.

Í þessu öllu er auðvelt að gleyma því að útbreiðsla kristni í upphafi var ekki verk háskólamenntaðra trúarbragðasérfræðinga eða guðfræðinga heldur tjaldgerðarfólks, fiskimanna, starfsfólks á skattstofum, verslunarmanna og húsmæðra sem sögðu góðu fréttirnar um Jesús Krist, hverjum sem heyra vildi og opnuðu heimili sín þurfandi og þreyttum. Við menntuðu guðfræðingarnir tölum stundum um hvernig kraftur heilags anda gat notað meira að segja þetta fólk til að boða orðið. En ég verð að viðurkenna að stundum velti ég fyrir mér, hvernig sé fyrir andann að leiða kirkjuna í dag, enda hafa rannsóknir undir stjórn Christian Schwartz og hreyfingarinnar Natural Church Development leitt í ljós að því meiru sem guðfræðimenntaðir menn ráða í kirkjunni því verr gengur. Meira segja heilagur andi á í erfiðleikum með kirkjuna þegar henni er stýrt af okkur þessum á stundum sjálfumglöðu guðfræðingum.

Í þessu ljósi er sérstaklega gaman að koma í Grensáskirkju, sá messuhópastarf í þróun, verði vitni að frábæru framlagi kvenfélagsins um áratugaskeið og sjá hópastarf eins og 12 spora hópinn leiddan af leikmönnum.

En aftur að sjálfsgagnrýninni. Liðið ár bar þess mörg dæmi hvernig við þessi vígðu í kirkjunni notuðum ítrekað hefðarsvör og bæn lögvirtingsins og þökkuðum Guði fyrir að vera ekki eins og þessi tollheimtumaður.

Við höfum nefnilega ekki aðeins tilhneygingu til að halda í hefðir og gera þær að guðum. Við höfum mikla þörf fyrir að vita betur og meira en náungi okkar, sagan um Narcissos sem fölnaði upp á árbakkanum þar sem hann gladdist yfir spegilmynd sinni er nefnilega á stundum líka sagan okkar. Okkur finnst að skilningur okkar, þjóðin okkar, landið okkar, flokkurinn okkar, kirkjan okkar, hafi eitthvert annað og meira vægi heldur en það sem hinir eiga eða eru, hverjir sem hinir eru.

Ég gæti fjallað í mörgum orðum um hegðun okkar sem kirkju í umræðum um Vinaleiðina. Fram til þessa höfum við í kirkjunni leitast við að fjalla um freka minnihlutahópinn sem vill kristindóminn okkar burtu úr landinu okkar, en hugsanlega hefðum við þurft að horfa meira á okkur sjálf. Í stað þess að ráðast á hina, hefðum við mátt spyrja um hvatann að verkefninu, spyrja okkur sjálf hvernig við stóðum að samningu siðareglna, spyrja okkur hvers vegna kirkjunnar menn urðu margsaga í málinu og svo framvegis. En það er auðveldara að ráðast að öðrum og vísa til hefðar.

Þegar ég hóf störf í sumarbúðunum í Vatnaskógi fyrir 16 árum fór ég á námskeið um sumarbúðastörf þar sem kennarinn lagði mikla áherslu á það að öllum leikjum þar sem eitt barn er bleytt fyrir framan hópinn á kvöldvöku yrði úthýst. Einn Vatnaskógarstarfsmaðurinn, tvítugur töffari spurði í kerskni, hvers vegna þetta mætti ekki. Auðvitað væri rétt að einn væri niðurlægður en á móti kæmi að 91 skemmtu sér konunglega. Ég held að við sjáum öll fáránleikann í þessari réttlætingu, en samt sem áður tölum við um mikilvægi þess að prestar og djáknar fái að heimsækja leikskóla með dagskrá fyrir börnin og þau sem ekki geta tekið þátt af trúarástæðum geti bara setið frammi og beðið (ekki samt í merkingunni að biðja). Við í kirkjunni þurfum að ræða okkar mál alvarlega, erum við e.t.v. að ganga gegn orðum Krists í atferli okkar, eru ávextir gjörða okkar góðir.

Ein réttlæting sem mikið hefur verið notuð á liðnu ári, er að vísa til hefðar. En það er gagnlegt að spyrja, hvaða hefðar? Hefur þetta alltaf verið svona.

Vinaleiðin í þeirri mynd sem hún var í Garðabæ átti sér enga sögu, hún var nýtt tilboð. Vissulega leitaði hún fyrirmyndar í Mosfellsbæ, en þar var forsagan og forsendurnar allt aðrar.

Fermingarferðalög á skólatíma eiga sér einhverja sögu sumstaðar, en ég held að það sé óhætt að segja að almennt eigi þau sér 15 ára sögu, þannig var ekki um neitt fermingarferðalag að ræða þegar ég fermdist (sem er aðeins meira en 15 ár reyndar), og þær kirkjur sem buðu upp á slíkt áður fyrr skipulögðu að jafnaði helgarferðir.

Kristilega siðgæðið kom í grunnskólalögin 1974, vissulega langur tími, en að tala um óbreytanlega hefð í því samhengi er ekki mjög nákvæmt.

Viðbrögð okkar í kirkjunni við ákalli um breytingar á hegðun okkar er skiljanleg. Þegar kallað er eftir breytingum verðum við hrædd, heilinn okkar virkar þannig. Ef hræðslan nær tökum á okkur, þá finnst okkur að við verðum að bregðast við breytingum af hörku. Hræðslan kallar eftir orðunum: “Þetta hefur alltaf verið svona”. Sá sem kallar eftir breytingunum verður óvinurinn, sá sem vill meiða, það er hann sem veldur hræðslunni. Ofsakennd viðbrögð okkar í kirkjunni gegn “fámenna freka minnihlutahópnum” eins og sumir hafa kallað gagnrýnendur ríkjandi ástands, eru ekki viðbrögð þess sem hefur meðtekið orð engilsins við hirðanna á Betlehamsvöllum. “Verið óhrædd” – “Verið óhrædd”.

Kristni á Íslandi snýst ekki um að verja ríkjandi ástand, kristni á Íslandi snýst ekki um orð í grunnskólalögum eða stjórnarskrá. Kristni á Íslandi stendur ekki og fellur með Vinaleið eða leikskólaheimsóknum presta, fjarri fer því.

Kristni á Íslandi felst í því að treysta á Guð sem ríkir frá eilífð til eilífðar, muna að við erum ÖLL börn Guðs hvaðan svo sem við komum, hvert sem við fórum og hver sem kynhneigð okkar er. Kristni á Íslandi stendur og fellur með því að söfnuður hans nýti hvert nýtt ár til uppbyggingar og leitist við að bera góðan ávöxt í starfi sínu. Kristni á Íslandi snýst um að öll börn Guðs taki það alvarlega að tilheyra kirkju Krists og taki þátt í það bera á og hlú að því fagra góða og fullkomna, en skilji það ekki eftir í höndum mistækra fagmenntaðra kirkjutækna.

Textar þessa nýjársdags kalla okkur til aðgerða á nýju ári. Teljum daga okkar, horfumst í augu við okkur sjálf, leitum til Guðs svo við öðlumst viturt hjarta. Og annað hitt, leggjum rækt við samfélagið okkar á milli, leitum leiða til að bera góðan ávöxt sem kirkja Krists.

 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2052.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar