Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Takk og já!

31. desember 2007

Á jóladag lauk ég prédikun minn með bæn eftir Dag Hammarskjöld sem er svona:

Guð minn,
fyrir allt sem var - takk.

Við öllu sem verður
Já!

Í þessari bæn er horft um öxl með þökk og eftirvæntingu fram á veginn. Já, hvað verður í framtíðinni? Fáum við framtíð?

Við stöndum á tímamótum. Árið er senn á enda og nýtt í vændum - ef Guð lofar. Já, ef Guð lofar, þannig er gjarnan sagt. Við vitum aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér, vitum ekki hvort við fáum annan dag, hvort við vöknum á morgun. Við lifum í þessari spennu, stöðugt í óvissu en þó ávallt í von.

Hvað verður?

Guð einn veit það.

Hvað verður um hið liðna?

Guð geymir það.

Guðspjall dagsins fjallar um fíkjutré, um miskunn og nýtt tækifæri.

Eigum við það skilið að fá nýtt tækifæri, nýtt ár?

Sagan hermir að Napóleon keisari hafi haft þá reglu meðan hann var við völd að þeir sem skrópuðu í herþjónustu eða öðrum skyldustörfum og næðust skyldu skotnir að morgni um það leyti sem menn neyttu dögurðar. Sautján ára piltur sem hafði séð marga félaga sinna deyja varð hræddur og hljópst á brott. Hann náðist og var dæmdur til dauða næsta morgun. Svo vildi til að pilturinn var sonur matreiðslumeistara Napóleons. Móðir hans fór til keisarans og bað syni sínum miskunnar. Napóleon sagði við hana áður en hann gaf fyrirskipun um að hún skyldi færð burt frá augliti hans: „Kona, sonur þinn á enga miskunn skilið.“ Konan svaraði einörð og sagði: „Já, auðvitað hefurðu rétt fyrir þér. Hann á enga miskunn skilið. Ef hann ætti miskunn skilið væri ekki lengur um miskunn að ræða.“ Þessi orð fengu Napóleon til að hugsa sig um á ný.

Miskunn er ekki miskunn ef einhver á hana skilið. Gjöf er ekki gjöf ef hún er verðskulduð. Gjafir og miskunn fáum við frá Guði. Stundum eru sumar gjafir í þannig umbúðum, svo vel dulbúnar, að það tekur alla ævina að átta sig á að um gjafir er að ræða. Allt sem við fáum frá Guði, meðbyr og mótlæti, er algjörlega óverðskuldað. Hvort sem um er að ræða eitthvað óæskilegt eða óverðskuldað kallar það á viðbrögð okkar. Einmitt á þennan mótsagnarkennda hátt á Guð í samskiptum við okkur. Jesús vekur okkur til umhugsunar um það í dæmisögunni um fíkjutréð.

Eðli fíkjutrés er að bera ávöxt og því varð eigandi trésins, sem engan ávöxt bar, reiður. Hann fyrirskipaði að það skyldi höggvið niður en gaf því þó eins árs frest eftir að víngarðsmaðurinn bað því miskunnar.

Fíkjutréð fékk viðvörun. Viðvörunarbjallan hringdi. Oft hringir viðvörunarbjallan hjá okkur. Margur maðurinn hefur vitnað um örlagaaugnablikið þegar hann var vakinn til vitundar um að verða að taka sinnaskiptum. Heyrum við í viðvörunarbjöllunni?

Þessi dæmisaga getur líka vísað til annarra eins einstaklinga, hún getur þess vegna vísað til kirkjunnar. Ber kirkjan ávöxt? Er hún bara orðin tóm eða sér boðskap hennar stað í þjóðfélaginu? Vinnur hún miskunnarverk á þeim sem líða? Vinnum við slík verk?

Heyrum við í viðvörunarbjöllunni hvað okkur sjálf varðar? Heyrir sá sem er í viðjum vímu eða fíknar í bjöllunni? Vinnusjúklingurinn sem er við það að fá hjartaáfall? Foreldrið sem vanrækir börnin sín? Makinn sem vanrækir ástina sína?

Fáum við annað tækifæri? Fáum við enn eitt árið? Mér hefur svo oft verið það hugstætt á liðnu ári hversu mikið undur það er að fá að vera til. Og í því sambandi hef ég oft spurt sjálfan mig og aðra þar sem ég hef talað yfir hópum: Hefurðu gert þér grein fyrir því hvað það munaði litlu að lífið hefði farið fram hjá þér þegar þú varðst til? Veistu hvað hefði gerst ef fruman og eggið sem mynduðu þig hefðu ekki hist? Þá værir þú ekki til. Hefðir þú fengið annað tækifæri? Nei, tækifærið er aðeins eitt. Þess vegna er það svo mikið undur og þakkarefni að fá að vera til.

Svo er tíminn líka undur. Árið sem senn er á enda runnið var ekki bara eitt ár, það skiptist í 12 mánuði, 52 vikur, 365 daga, 8.760 stundir, 525.600 mínútur, 31.536.000 sekúndur. Allt gjafir Guðs, óverðskuldaðar gjafir, við höfum ekkert gert til að verðskulda þessar gjafir og ekki megnuðum við að kaupa þær.

Gjöf tímans er ekki okkar einna. Hún er gefin öllum mönnum, fátækum og ríkum, fróðum og fáfróðum, voldugum og valdalausum, hverri manneskju, karli, konu, barni. Öll fáum við 24 stundir hvern dag.

Svo er það annað sem er merkilegt hvað tímann varðar. Við getum ekki stöðvað hann. Og engin leið er að hægja á honum eða stilla hraða hans. Tíminn þrammar bara áfram. Og tímann er ekki heldur hægt að endurheimta. Þegar hann er farinn er hann farinn. Gærdagurinn kemur aldrei aftur. Hann er horfinn og morgundagurinn er í algjörri óvissu. Við horfum fram til nýja ársins sem tímabils en vitum þó ekki hvort við lifum næsta ár til enda.

Tíminn er augljóslega eitt það dýrmætasta sem við eigum. Við getum drepið tímann eins og sagt er, sóað honum, varið honum í okkar þágu eða nýtt hann í þjónustu við lífið, við ríki Guðs.

Nýja árið bíður okkar stútfullt af tíma, mánuðum, vikur, dögum, stundum, sekúndum. Hvernig mun okkur líða á nýja árinu? Munum við fara illa með tímann, henda honum út um gluggann eða njóta hvers andartaks í þjónustu við Guð og náungann?

Hve mikinn tíma fáum við í framtíðinni? Hversu lengi njótum við miskunnar Guðs? Hversu lengi fær þitt fíkjutré og mitt að standa? Við vitum það ekki en við erum kölluð til iðrunar, til að ganga í okkur sjálf, vera heiðarleg í sjálfsgagnrýni okkar og einörð í að halda staðföst áfram í þjónustu okkar við lífið, við Guð og náungann.

Sagan um fíkjutréð boðar það að Guð er miskunnsamur, hann hefur langlundargeð, gefur okkur sífellt nýtt tækifæri vegna þess að hann trúir á manninn, trúir á þig og mig. Gott er að mega treysta miskunn Guðs og vita sig njóta elsku hans, fyrirgefningar og náðar. Þannig er gott að kveðja gamla árið og fagna nýju, mæta nýjum tækifærum af bjartsýni og gleði í trú á miskunn Guðs.

Guð gefi þér og ástvinur þínum, gleðilegt nýtt ár.

Guð minn,
fyrir allt sem var - takk.

Við öllu sem verður
Já!

Dýrð sé Guði, föður og synir og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

- - -

Lexían sem lesin var er tekin úr Harmljóðunum 3:21- 26, 40- 41

Guðspjall Lk.13.6-9

6Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. 7Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? 8En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. 9Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2484.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar