Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Endurkoma Krists og andleg olíukreppa

18. nóvember 2007

   Hljóðskrá

 Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
    Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. 9Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.
    Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.
    Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina. (Matt 25.1-13)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Merkisdagar mannsævinnar eru margir. Öll upplifum við stóra daga og mikla hvort sem þeir tengjast okkur beint eða öðrum. Sextándi nóvember er orðinn að degi íslenskrar tungu, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, sem fæddist árið 1807 (d. 1845). Fimmtíu árum eftir fæðingu Jónasar fæddist annar merkur maður, Jón Sveinsson, kallaður Nonni (1857-1944). Og sama dag árið 1896 fæddist móðuramma mín, Guðbjörg Margrét Friðriksdóttir (1896-1945). Hún varð nú aldrei fræg eins og þeir Jónas og Nonni. Hún lifði sínu hógværa lífi í þjónustu við Guð og menn. Aldrei sá ég Jónas og ekki Nonna og ömmu ekki heldur því hún lést áður en ég fæddist. Þetta fólk og margt fleira þekki ég aðeins af afspurn. Samtímafólk átti um þau minningar, góðar minningar og fagrar.

En hvað varð um þetta fólk? Hvað verður um þau sem horfin eru? Oft stend ég með syrgjendum yfir moldum látinna ástvina og þá er þeim jafnan efst í huga góðar minningar og þar að auki miskunn Guðs og náð.

Í kristinni trú er talað um hinsta dóm, um frelsun og glötun. Hvað verður um okkur, um þig og mig? Í hinni postullegu trúarjátningu er sagt að Kristur muni koma aftur. Þar er vísað til dóms og hinsta uppgjörs. Í Rússlandi eru nokkrir kristnir menn, orþódoxar, búnir að koma sér fyrir í neðanjarðarbyrgi. Þeir bíða þar komu Drottins og eru í raun búnir að yfirgefa þjóðfélagið sem þeir lifðu í. Frá þessu var sagt í fréttum Sjónvarpsins í gær. Flestum ef ekki öllum okkar þykir það nú dálítið hæpin ráðstöfun svo ekki sé nú sterkara að orði kveðið.

Endurkoma Drottins er stef í kristinni trú sem við getum þó ekki látið hjá líða að íhuga og skoða. Í hinni postullegu trúarjátningu segir meðal annars um Jesú Krist að hann muni „aftur koma að dæma lifendur og dauða.“ Hugmyndir um heimsslit eru þekktar innan margra trúarbragða og menningarstrauma. Völuspá er dæmi um heimsslitakenningu. Kvæðið var ritað hér á landi á seinni hluta 10. aldar. Þar má greina samruna hugmynda úr kristni og heiðni. Kristur sem kemur aftur við lok tímanna er á grísku kallaður Pantocrator = Sá er öllu ræður. Heyrum orð Völuspár:

    Þá kömr inn ríki
    at regindómi
    öflugr ofan,
    sá er öllu ræður.

    Geisar eimi
    við aldrnara,
    leikur hár hiti
    við himin siálfan.

„Aldrnari” vísar líklega til Drottins, hans sem nærir og frelsar mennina. (Af Vísindavef HÍ)

Hér er greinilega vísað til heimsslita þegar alheimurinn leysist upp í brennur. Kristnir menn bíða þess að heimurinn endurnýist og öllu verði safnað undir eitt höfuð í Kristi. Von kristinna manna er að heimurinn verði ekki um aldur og eilífð eins og hann er nú. Mynd hans mun breytast til þeirrar myndar sem hann var skapaður til að verða. Við endi aldanna verður það, þegar Kristur kemur aftur til að dæma. Þá rennur upp ný öld og ríki dýrðarinnar verður til. Í Hebreabréfinu (9.27-28) segir: „Á sama hátt og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm, þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og aftur mun hann birtast, ekki sem syndafórn heldur til að frelsa þá sem bíða hans.“

Endurkoma Krists felur í sér að sigur hans verður opinberaður öllum mönnum. Þá opinberast um leið að hann „ræður öllum hlutum en ekki Pílatusar þessa heims.“ (E. Sbj. Ljós í heimi, s.189)

Um miðja 19. öld beið hópur kristinna mann, sem kallaðir voru millerítar, endurkomu frelsarans, kenndir við baptistaprestinn, William Miller. Hann hafði reiknað það út að Drottinn mundi koma á tímabilinu 21. mars 1843 til 21. mars 1844. Á milli 50 til 100 þúsund manns biðu komu Drottins á þessu tímabili en Drottinn kom ekki í skýjum himinsins eins sagt er frá í Biblíunni og því færði Miller komudaginn til 22. október 1844. En allt kom fyrir ekki. Vonbrigðin miklu, eru orð sem höfð eru um þetta sögulega fyrirbrigði . Millerítar mynduðu síðar hóp sem aðventistar rekja upphaf sitt til en orðið aðventisti merki sá sem væntir komu Drottins. Vottar Jehóva eiga einnig uppruna sinn að rekja til Vonbrigðanna miklu en sá trúflokkur afneitar hins vegar Kristi sem Drottni þegar grannt er skoðað enda þótt innan hans sé mikið rætt um Krist sem kennara og spámann.

Varasamt er að reikna út endurkomu Drottins. Sama má segja um tilraunir þeirra sem reynt hafa að tímasetja sjálfan sköpunardaginn. Margt er það í tilverunni sem við vitum ekki og getum þaðan af síður dagsett. Enda þótt við vitum ekkert um þessa stóru viðburði í sögu alheimsins vitum við þó ýmislegt um hinar stóru stundir í okkar eigin lífi. Í gær upplifði ég til að mynda stóra stund með fjölskyldu þegar ég skírði litla stúlku og síðar í dag skíri ég tvö börn.

Skírnin er án efa ein stærsta stund í lífi hverrar manneskju. Skírnin er köllun til að lifa sem kristin manneskja í þjónustu við Guð og menn. Skírnin gefur fyrirheitt um eilíft líf. Flest vorum við ómálga börn þegar við vorum skírð og því munum við ekki þennan stóra atburð. Við upplifum hann hins vegar þegar aðrir eru skírðir, þegar börn eða fullorðnir eru skírðir og helgaðir Guði og himni hans. Þannig er það oft með stóra atburði að við getum aðeins upplifað þá í gegnum aðra. Sagt hefur verið að þannig sé því einnig farið með dauðann. Við upplifum hann þegar aðrir deyja en ekki þegar við deyjum sjálf. Alla vega erum við ekki til frásagnar eftir að við höfum sjálf gengið um dauðans dyr.

Skírn og útför eru stórir atburðir í lífi einstaklinga, þar sem kirkjan kemur að með afgerandi hætti.

En svo eru það brúðkaupin eða hjónavígslurnar eins við kjósum að kalla það nú á tímum jafnréttis þegar brúðir eru ekki lengur keyptar en fólk kemur saman á jafnréttisgrunni og gefst hvort öðru.

Guðspjall dagsins fjallar um brúðkaup eða svo sýnist okkur vera við fyrstu sýn. Brúðkaupssiðir á dögum Jesú voru mjög skrautlegir og táknærnir. Brúðkaup tók oftast marga daga. Samkvæmt hefðinni beið brúðurin þess að brúðguminn kæmi að sækja hana. Oftar en ekki lét hann bíða eftir sér. Meyjarnar í sögunni gegndu mikilvægu hlutverki. Þeim var ætlað að bíða og fara til móts við brúðgumann með logandi lömpum og fagna honum. Þessi saga sem við heyrðum í guðspjalli dagsins fjallar í raun alls ekki um brúðkaup heldur um komu Hans sem skiptir mestu máli í allri tilverunni. Kristur sjálfur kemur. Honum er líkt við brúðguma sem fólk væntir. Við bíðum komu Hans eins og meyjarnar tíu í sögunni.

Ég minntist á skírn barns. Í skírninni er barnið helgað Jesú Kristi. Hann kemur inn í líf barnsins við skírnina og það er síðan verkefni foreldra, skírnarvotta og safnaðar að styðja við uppeldi barnsins með þeim hætti að það vaxi upp til þeirrar vitundar og eflist í þeirri trú að það sé barn Guðs í lífi og í dauða. Vakandi vitund barnsins er eins og logandi lampi.

Meyjarnar fóru til móts við brúðgumann. Þær voru þó ekki allar jafnvel undirbúnar. Og svo seinkaði brúðgumanum og helmingur þeirra sem biðu hans varð uppiskroppa með eldsneyti. Þær lentu í alvarlegri olíukreppu, ef svo má að orði komast.

Hvenær kemur Drottinn?

Enginn veit þann tíma eða stund, enginn nema Faðirinn, segir Jesús.

Hvað segir þessi líking okkur um brúðgumann og meyjarnar tíu? Hún segir okkur að við getum ekki fengið að láni það sem máli skiptir hjá öðrum, sama hversu bónin er heit eða viljinn til að miðla með sér er mikill. Það er ekki unnt að lána neinum það sem máli skiptir þegar hinsta stundin rennur upp, hvorki ástkæru barni sínu né besta vini. Hver og einn er ábyrgur fyrir sínu trúarlífi.

Dæmisagan hverfist um tvennt, brúðgumann og olíuna, Krist og trúna. Trúin sameinar okkur Kristi. Hann lifir innra með þeim sem trúa. Ef þú átt lifandi trú þarftu ekkert að óttast og ert reiðubúinn að mæta Kristi hvenær sem er. Að lifa í trú er að lifa í stöðugri fyrirgefningu.

Olíuna á lampann fáum við með því að lesa Guðs orð og biðja; sækja kirkju og neyta máltíðar Drottins. Þannig vökum við yfir sálarheill okkar. Að trúa er lífstíðarverkefni.

Þessi dæmisaga inniheldur í sér í senn viðvörun og huggun. Við erum beðin um að vera á verði, um að vaka og sjá til þess að trúin á Krist sé eins og skínandi ljós. Ef við höldum þeirri vöku okkar þá skiptir ekki máli nær hann kemur, hvort hann kemur að nóttu eða degi.

Allt lífið erum við í sporum meyjanna tíu. Við bíðum komu Krists. Framundan er aðventan, tími væntinganna, tíminn þegar komu Krists er beðið, hans sem „er og var og kemur.“ (Op 1.8)

Vökum og biðjum. Bíðum komu hans í öruggu trausti til elsku hans, eins og brúður væntir brúðguma síns.

„Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeirra sem stungu hann [. . . ]
„Ég er Alfa og Ómega,hann sem er og var og kemur, hinn alvaldi,“ segir Drottinn Guð.“ (Op 1.7-8).
Amen.

Hljóðskrá af predikuninni má finna á annál sr. Arnar Bárðar Jónssonar

 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3508.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar