Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

Blinda

14. október 2007

Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?

Jesús svaraði: Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.

Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. Sílóam þýðir sendur. Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.

Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?

Sumir sögðu: Sá er maðurinn, en aðrir sögðu: Nei, en líkur er hann honum.

Sjálfur sagði hann: Ég er sá.

Þá sögðu þeir við hann: Hvernig opnuðust augu þín?

Hann svaraði: Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér.
Jh 9.1-11

Sjónlaus maður á bágt. Þó skilja menn sjónleysi  ekki eins. En sjónleysi er talin fötlun.
Fötlun er orð, sem við notum yfir það að vera skorinn stakkur að einhverju leyti, þ.e.a.s. sá fatlaði býr við skerðingu einhvers konar, frá því sem er algengt eða við álítum yfirleitt vera venjulegt. Þó skyldi hver maður vera varkár í yfirlýsingum um það, hvað er venjulegt, almennt eða eðlilegt. Orðabókin segir um orðið fötlun: “Sá sem ber sýnileg merki sjúkdóma eða meiðsla.” (Árni Böðv.).

Við erum öll viðkvæm fyrir því sem okkur finnst vera öðruvísi, en það sem við þekkjum. Börn líða oft fyrir það að vera öðruvísi en svokölluð “eðlileg” börn. Og það þarf ekki mikið til. Það að vera tileygður eða með brotna tönn, getur sett viðkomandi úr jafnvægi og dregið úr sjálfstrausti hans auðveldlega.  Þetta þekkjum við vel. Hins vegar er tiltölulega auðvelt að lækna slíka tilfinningu og snúa henni til betri vegar, ef vel er að staðið.

Það sem er verst og skapar erfiðustu tilfinninguna og líðanina, eru viðbrögð annarra við þeirri vöntun, eða fötlun, sem viðkomandi býr við.  Viðbrögð umhverfisins, vinanna, kennaranna, samstarfsmanna, já, jafnvel fjölskyldunnar getur verið bæði ósanngjörn og grimm. Sama á við, þó fötlunin sé alvarleg og bagaleg og takmarkar getu viðkomandi til þess að lifa  “eðlilegu” lífi.  Niðurstaðan verður þá oft sú, að hinn fatlaði, eða aðrir,  fara að trúa því, að þetta séu örlög, sem Guð hafi lagt á þau til áminningar eða refsingar. Ekki batnar líðanin við það.

Í guðspjalli þessa dags tekst Jesús á við stóra spurningu. Af hverju er þessi maður blindur?  Er það kannski synd foreldranna, m.ö.o. er það refsing gagnvart sögunni, kynslóðunum?  Sem sagt, ef foreldrum verða á einhver mistök, megum við þá búast við því, að það komi niður á börnum þeirra.  Það má kannski segja að vitlaust sé spurt, en staðreyndin er sú, að við spyrjum þannig. Það gerðu samtímamenn Jesú a.m.k. En þá segir Jesús: “ Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum:”  Jóh. 9:3.

Blindur maður sér ef til vill ekki umhverfið með sama hætti og sá, sem hefur góð augu og heil. En ég tel mig hafa kynnst einstaklingum, sem hafa mun betri sjón á mannlífið en ég, sem á að teljast sæmilega sjáandi. Það er þá af því að sá hinn blindi hefur öðlast betri sýn til þess, er varðar manneskjuna sem slíka og þá þætti, sem hafa með viðhorf, yfirsýn og hæfileika til að draga ályktun út frá því, sem skiptir raunverulega máli í mannlegu samfélagi.

Einu sinni var til smiður hér í Reykjavík, sem þurfti ekki ljós til að smíða, jafnvel þótt hann notaði flóknar smíðavélar og allt væri myrkt í kring um hann. Hann hafði tileinkað sér næmi í fingurgómunum á undursamlegan hátt og hann hafði óhræddur og þolinmóður tekist á við þá fötlun sína að sjá ekki með augunum. En hann sá á margan hátt betur en fullsjáandi smiður. Enda báru samstarfsmenn hans mikla virðingu fyrir honum og lærðu af honum. (“Guðmundur blindi.”) Blindir menn hafa líka lært að lesa, þótt undarlegt sé, og mér finnst það langt ofar mínum skilningi. Slíkir hæfileikar varða náttúrlega það líkamlega og tæknilega. En sjón er mun víðtækari en það tvennt.

Heimurinn hefur þróast mikið frá því að Jesús útskýrði þetta með blinda manninn. Vestræn lönd, sem telja sig vera hluta hámenningar, hafa auðvitað lært mikið af afstöðu eins og þeirri sem Jesús boðar.  En samt er eins og við blindumst í framrás tækni, þróunar og velmegunar og lítum ekki á þau gildi, sem varða manninn sjálfan, hið innra, en horfum frekar til þess er snýr að hinu ytra. 

Íslensk þjóð keppir eftir því á núverandi velmektardögum að byggja upp, framkvæma, auka á hagvöxt og efla sjóðina. Það er í sjálfu sér ljómandi gott og ætti að auka á vellíðan einstaklinga og samfélags.  En í sama andartaki má finna fyrir því að breyting hefur orðið á viðmóti fólks hvers í annars garð, sem er í hrópandi andstöðu við hina kraftmiklu og í raun jákvæðu þróun, þar sem allt miðar að því að hafa þjóðfélagið sem fullkomnast. Vellíðan og hamingja fer líklega ekki eins algjörlega eftir því, hvað við höfum milli handanna, hvernig við erum klædd, eða hvort við eigum i-pod eða 3 G, síma eins og Júdas notaði í frægri auglýsingu hér á Íslandi í sumar, - hvað þá eitthvað mun dýrara. Sá mælikvarði virðist auðveldlega geta leitt til þess að við lendum í harðri samkeppni um fánýta hluti og hættulegan og miskunnarlausan samanburð, sem leiðir okkur frá þeim grundvallaratriðum, sem Jesús bendir svo gjarnan á og hefur gefið menningu og samfélagi fólks meira gildi og meira innihald, en allt annað. Því meiri gaum sem við gefum því, sem  hann kenndi, verðum við betur sjáandi á það, sem vantar í mannlífið og bætir hag okkar og daglega velferð.  Þess vegna sagði Páll:  “Allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.” (Fil 4:8n).

Í ljósi þess verður blinda hins sjónumblinda ekki bagalegust eða mesta fötlunin, heldur sú blinda, sem leiðir okkur frá því að auðsýna dyggðirnar okkar í millum, hlú að hinu auma og þjáða og smáða og að sinna því, sem gerir okkur að betri manneskjum yfirleitt. Rauði þráðurinn er sá, að við séum reiðubúin að leggja eitthvað á okkur til þess að náunga okkar og samferðamanni í lífinu líði betur. Þá líður okkur betur. Einhver versta blinda sem til er, er siðblinda. Það er sú blinda, sem leiðir maninn frá því, sem er honum helgast af hjarta og hann getur tileinkað sér að grundvallaratriði, þ.e. það sem varðar tilvist hans, sannfæringu, heill og hamingju hvað mest. Slík blinda verður augljós,  þegar við troðum á því, sem kynslóðirnar hafa lært að skipti mestu og skilar sérhverri samtíð og hverjum einstaklingi mestri hamingju. Þessi átroðsla stafar ekki af því, að við séum í sjálfu sér slæmar  manneskjur, heldur af því, að við erum slegin blindu á það, sem er raunverulega eftirsóknarvert.

Þegar við lærum eitthvað, menntum okkur, leitum þekkingar og reynslu, þá byggjum við upp okkar eigin sjálf, styrkjumst og verðum hæfari til að mæta lífinu, kostum þess og gæðum, en líka óhjákvæmilegum áföllum og sorg. Slík menntun fæst aðeins, ef við treystum á það, sem ber með sér traust og kærleika. Vonin til þess að finna það er mest í nafni Drottins Jesú. Það get ég sagt af því hvað hann sagði og gerði. Ef okkur lánast að feta í fótspor hans og treysta honum og nafni hans, og leitast við að tileinka okkur sannleika, umburðarlyndi og kærleika, þá mun dýrð Guðs opionberast í lífi okkar. Ef  þið, unga fólk, sem eruð hér í dag, fermingarbörn og önnur börn, vitið ekki hvað er dyggð, þá hvet ég ykkur til þess að leita til foreldra ykkar eða annarra, sem þið treystið vel og spyrja: Hvað er dyggð?  Ég hygg, að sú spurning geti skapað góða umræðu, góða niðurstöðu og gott vegarnesti til morgundagsins.
 
Auðmýkt og lotningu fyrir lífinu hef ég lært hvað mesta af  fólki sem býr við einhvers konar fötlun, eða hefur orðið fyrir einhverjum áföllum í lífinu. Það er ekki af því að þau hafi verið lamin til lærdóms af þeirri lífsreynslu, heldur af því,  að þau hafa auðgast í trú og þolgæði, þrátt fyrir áfallið. Þau hafa öðlast styrk og von, vegna þess, að við áfallinu var brugðist að festu, þekkingu, hvatningu og rökréttri úrvinnslu. Ástvinir, fagfólk, samfélag hefur brugðist við jákvætt og á réttan hátt. Um leið hefur hinum fatlaða auðnast að horfast í augu við erfiðleika sína, vinna úr þeim fyrir stuðning og eigin verðleika og lifa áfram ótrauður í von og trú, þrátt fyrir fötlun sína. Þannig opinberast verk Guðs á hinum blinda. Guð gefi okkur betri sýn á neyð náungans og skarpari sjón á því hvernig hægt er að útbreiða fagnaðarerindið. Spurningin er þá: Hver er fatlaður?

“Lækna mig Drottinn að ég megi heill verða; hjálpa mér svo að mér verði hjálpað”. (Jer. 17:14).

Dýrð sé guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3214.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar