Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigríður Guðmarsdóttir

Morgunkorn og myndsímar

30. september 2007

Prédikun í Grafarholti
30. september 2007

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

I.
Í guðspjalli dagsins segir Jesús:  “Fylg þú mér,”
við tollheimtumanninn Leví Alfeusson. 
Og Leví stóð upp frá öllu því
sem hann hafði áður talið öruggt og skynsamlegt. 
Hann fylgdi þessum undarlega manni út í óvissa framtíð
sem breytti heiminum. 
Leví opnaði fyrir Jesú hús sitt og sat þar veislur
með gestum sem enginn í bænum hans
hefði haft áhuga á að bjóða til veislu
nema Jesús. 
Hann tók þátt í borðsamfélagi
þar sem jafnrétti ríkti,
þar sem útlendingar og einstæðingar,
tollheimtumenn og konur
voru boðin velkomin. 
Hann lagði til borð, hug og hjarta
í eina slíka veislu sem guðspjallið dagsins segir okkur frá,
veislu þar sem hinir ráðandi sátu á jöðrunum
en hin fátæku, smáu og úthýstu voru leidd til heiðurssæta.
Og þegar farísearnir og fræðimennirnir gerðu athugasemdir við þetta undarlega veisluhald
með bersyndugum, úrhrökum og jaðarhópum í húsi Levís,
þá talaði Jesús um hið nýja líf sem komið væri í heiminn.

Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.

Við erum kölluð í dag til fylgdar við þennan undarlega gest, sem vill teyma okkur burt frá tollheimtubúðinni
 og inn í veislu,
veislu þar sem nýtt vín er látið á nýja belgi
og ný bót á nýtt fat,
veislan þar sem hinum ósýnilegu og réttlausu,
hinum fyrirlitnu og smáðu er búinn sess.
Sögur guðspjallanna af þeim sem Jesús settist til borðs með benda okkur einnig á það
að  slík veisluhöld eru ekki án áhættu. 
Mörg þeirra sem sátu veisluna góðu
í húsi Levís fyrrverandi tollheimtumanns
áttu síðar eftir að gjalda fyrir tryggð sína við Jesú
og samfélagið við hann
með lífi og limum. 
Og þannig er veislan í húsi Levís
sem Drottinn býður okkur til
í haustveðri septembermánaðar
þrungin þessum tveimur minnum
þar sem krossinn og samfélagið kallast á.
Slík veisla hlýtur alltaf að vera á ákveðnu iði,
því að enginn á að vera áskrifandi að stólunum næst Jesú. 

Hvernig getum við fylgt Jesú eins og Leví forðum? 
Fyrir hverjum getum við opnað hús okkar og hjörtu,
hverjir eiga að sitja í forsæti og hverjir til endanna? 
Rám rödd hins forna spámanns Jesaja
hljómar yfir okkur í dag í fyrri ritningarlestri dagsins:

Leitið þess, sem rétt er.
Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður.
Rekið réttar hins munaðarlausa.
Verjið málefni ekkjunnar.

Við slíkt verkefni situr enginn kyrr lengi.

II.
Veislur Jesú hafa mönnum löngum verið hugstæðar. 
Fyrir nokkrum árum olli sýning
í listasafninu í Brooklyn í New Yorkborg miklu fjaðrafoki.
Það var ekki síst ljósmyndaröð blökkukonunnar Renée Cox sem að vakti hneykslun.
Ljósmynd Cox sýnir uppstillingu
af síðustu veislunni sem Jesús sótti
í gamalkunnri uppstillingu Leonardo da Vinci. 
Borðið, uppstillingin og salurinn
eru nákvæm eftirmynd af málverki da Vincis
en þar með eru líkindin með listaverkunum tveimur
líka upptalin. 
Fyrir miðju borði á ljósmynd Cox
stendur nakin þeldökk kona sem að ljósið fellur á. 
Allt í kringum hana sitja 11 þeldökkir lærisveinar
og einn hvítur sem horfa á hana. 
Mynd Cox heitir “Yo Mama Last Supper”
og kallar fram spurninguna um það
hvers konar líkamar það eru
sem má stilla upp sem Kristsgervingum
og lærisveinum Krists.
Rétt eins og Da Vinci hefur skráð samferðamenn sína, byggingarstíl og landslag síns tíma inn í mynd sína,
þá flytur veislan sem Cox leiðir okkur inn í
fólkið á jöðrum samfélagsins inn í miðju veislunnar,
þar sem kristinn mannskilningur,
fegurð holdtekjunnar og mál líkamans,
sjálfstyrking, kynferði og kynþáttur eru í brennidepli. 
Og í dag þegar við komum okkur fyrir skamma stund
í húsi Leví Alfeussonar
innan um aðra tollheimtumenn og syndara,
er ekki úr vegi að íhuga það
hverjir gætu verið útilokaðir frá þessari miklu veislu. 

Málverk ástralska málarans Susan Dorotheu White,
“The First Supper” er annað dæmi um listamann
sem hristir upp í hugmyndum um þau
sem sitja við veisluborð Jesú. 
Hin “fyrsta kvöldmáltíð”
hinnar áströlsku listakonu sýnir borð og sal Da Vincis,
en allir þátttakendurnir í veislunni eru konur
af öllum þjóðernum og litarháttum. 
Þær eru klæddar í margvíslega búninga
og tákna nútíma konur í heimalandi listakonunnar. 
Fyrir miðju borðinu í sæti Krists situr kona
af ætt Ástralíufrumbyggja
klædd hvítum stuttermabol
með merki frumbyggja álfunnar. 
Á borðum er matur að hætti þessara kvenna,
kókoshnetur, melónur, ávextir og brauð. 
Ein konan sker sig úr. 
Hún er hvít á hörund, ljóshærð í gallabuxum,
drekkur kók úr dós og borðar hamborgara. 
Í hendi hennar er pyngjan,
sem Júdas heldur á í mynd Da Vincis. 
Út um gluggann á loftsalnum má sjá klett einn mikinn. 
Það gefur að líta klettinn Uluru,
sem Ástralíufrumbyggjar hafa á mikla helgi
og hafa nú loksins fengið eignarhald yfir
frá hendi Ástralíustjórnar. 
Og rétt eins og að karlarnir tólf
sem safnast kringum Krist í mynd Da Vinci
bera vináttu og samfélagi vitni,
en jafnfram svikum, þjáningu og dauða,
þá sýna konurnar í mynd White
okkur hliðar á mannlegu lífi,
kross og samfélag í fylgd við Jesú. 
Þær sýna okkur andlit
sem Da Vinci hleypir ekki að borði Jesú,
nýtt líf, nýtt vín á nýja belgi,
nýjar bætur á nýju fati
fyrir nýja öld.
Og yfir þetta mannlega drama geislar náttúran öll
í formi hins helga kletts Uluru.

Síðasta útfærslan á veislu Krists,
sem mig langar til að nefna
er “Síðasta pönnukökumáltíðin” eftir Dick Detzner,
þar sem öllum þátttakendum í síðustu kvöldmáltíðinni
hefur verið skipt út fyrir fígúrur á sykruðu morgunkorni. 
Þegar Detzner var spurður að því
hvers vegna hann væri að gera grín að Kristi,
þá andmælti hann því að verkum sínum
væri beint gegn kristinni trú. 
Hann sagðist hins vegar nota listaverk Da Vinci,
til þess að gagnrýna auglýsingamennsku og yfirborðsmennsku þar sem heilögum  táknum
er skipt út fyrir innihaldslítil vörumerki. 
Þegar ég horfi yfir mynd Detzner´s
af öllum hinum glamúrlegu vörumerkjum,
sem gleðja börnin
og er að finna í hinum litskrúðugustu pökkum
á morgunverðarborðum okkar flestra,
þá leiði ég hugann að mynd Susan White
af veislu Jesú
með kókoshnetunum og melónunum
og sannri næringu
sem gefur kraft og nýtt líf. 
Ef Cox minnir okkur á mikilvægi líkamans,
kynþáttar, og kyngervis í veislu Guðsríkisins,
þá tengir White saman trú og menningu,
kynferði og tengsl við náttúruna
við gleymum of oft að að flytja að borði Drottins. 
Og Dretzner spyr okkur í mynd sinni
hvort við séum að þiggja eitthvað djúpt og nærandi í lífi okkar,
eða fylla tómann magann með sykruðu morgunkorni og yfirborðsmennsku.

Ég held því þess vegna fram
 að það sé ekkert athugavert við það
að yrkja frekar út frá mynd DaVincis,
þegar það er gert til þess
að auka enn á dýpt og táknmál myndefnisins. 
Og það held ég að listamennirnir þrír hafi gert
í myndum sínum af veislunni miklu.
III.
Í upphafi september mánaðar
var íslensk þjóð kölluð einu sinni enn
að veisluborði Jesú að hætti DaVinci. 
Þá hafði símafyrirtæki  hugkvæmst
að markaðsetja sitt nýjasta tól
með því að setja það inn í píslarsögu Krists. 
Og rétt eins og listamennirnir sem ég áður nefndi
nýttu sér hið klassíska málverk Da Vincis,
þá er Jesús í framsetningu Símans hf.
enn einu sinni kominn í hinn gamalkunna loftssal
ásamt vinum sínum. 
Ólíkt guðspjallinu jafnt sem DaVinciverkinu,
er Jesús í meðförum Símans hf
hins vegar kominn með myndsíma í hendur,
sem gerir honum kleift að fylgjast með svikum Júdasar
fyrir 30 silfurpeninga. 
Ólíkt listamönnunum þremur sem ég hef þegar nefnt,
sér Síminn hf. enga ástæðu til þess
að breyta neinu í loftsalnum.
Þangað þarf ekki að bjóða fleira fólki.
Hverju smáatriði er fylgt út í hörgul,
þarna sitja þrettán karlmenn með skegg og í sandölum
og einn þeirra er með síma. 
Og þar með er deginum bjargað,
svikin komust upp,
enginn er krossfestur og Síminn hf. hefur breytt heiminum.

Vikuna eftir að að Síminn hf. birti auglýsinguna sína
fékk fyrirtækið draumaumfjöllun,
auglýsingin á hvers manns vörum
og þjóðkirkjan meira að segja búin
að lýsa vanþóknun sinni á henni.
Mig langar til að taka undir með biskupi Íslands
þegar hann segir auglýsinguna ósmekklega. 
Og það er ekki vegna þess
að ég telji að þjóðkirkjan þurfi að samþykkja allar auglýsingar eða að það skipti þjóðina öllu máli
hvort einstakar auglýsingar þyki fyndnar á Biskupsstofu. 
Það er ekki veislan sem særir mig við þessa auglýsingu,
eða að einhver skuli vilji nota hið gamalkunna stef Da Vincis til að koma boðskap á framfæri. 
Það er hins vegar athyglisvert
hver það er sem setur fram grínið,
hver borgar
og hver boðskapurinn er sem ætlað er að ná fótfestu.

Og hver er eiginlega boðskapur þessarar auglýsingar
þar sem gælt hefur verið við hvert smáatriði
til að endurlífga DaVinci?
Hver eru skilaboðin, sem Síminn hf. hefur ákveðið að miðla með ærnum tilkostnaði og gegnum táknmál kristinnar trúar?
Það er hinn yfirþyrmandi glæsileiki auglýsingarinnar, allur þessi gífurlegi, rándýri umbúnaður utan um nauðaómerkilegan boðskap sem veldur mér áhyggjum.
Og þegar stórfyrirtækið Síminn hf.
hefur dregið íslenskan almenning upp úr sófanum
og inn í loftsalinn,
þangað sem kristið fólk hefur sótt styrk og næringu
í sorg og gleði um aldir,
þá er bikarnum lyft og síminn er helgaður,
síminn sem breyta mun heiminum.
 
Einhvern veginn kemur ádeila Dretzners
um síðustu pönnukökumáltíðina upp í hugann
þegar ég horfi á þennan gjörning Símans hf.
Og ég velti því fyrir mér hvort Síminn hf.
hafi ekki færst fullmikið í fang
þegar fyrirtækið ákvað að gera Jesú Krist
með símann á skírdagskvöld að sínu nýja lógói. 
Það er enginn nýlunda að menn hafi skemmt sér
yfir þjáningu og dauða Jesú,
eða skríki dofnir fyrir mannlegum harmleik
í hinum ýmsu birtingarmyndum.
En þegar boðskapur Jesú Krists
er settur í óþægilegt návígi við boðskap Símans
sem breytir heiminum
með nýjum og nýjum innflutningi,
þá gerast undarlegir hlutir sem Síminn hf. hefur kannski ekki séð fyrir
og er ekkert endilega vörunni til framdráttar.
Þegar Jesús og dauði hans á krossi er settur upp á söluborðið og inn í auglýsingarnar,
þá afhjúpar dýptin yfirborðið og sýnir það í réttu ljósi. 
Jesús Kristur og kærleiksboðskapur hans
gerir boðskap Símans hf. léttvægan.
Þar með hefur húmorinn snúist í öfugan hring,
veldur sá sem á heldur.
Veldur Síminn hf. Jesú Kristi og boðskap hans?

Guðspjallið segir okkur frá því
að  Jesús kalli okkur til fylgdar, til samfélags og til kross
í þágu Guðsríkisins.
Við erum kölluð til að leiða aðra að þessu borði,
að næra, efla og styrkja hvert annað,
að bera kennsl á þau ósýnilegu og smáðu
og leiða þau til hefðarsess í Guðs ríki. 
Við kunnum að hafa ólíkar skoðanir á því
hverjir eru útilokaðir
og hverjir eigi að hafa sætaskipti við hvern. 
Fyrir einum er það málstaður samkynhneigðra
sem skiptir mestu máli,
annar vill leggja áherslu á öryrkja
og þau sem standa höllum fæti fjárhagslega í þessu landi. Hagur kvenna og barna kann að vera þeim þriðja efst í huga,  málstaður geðfatlaðra, málefni umhverfisins, stjórnmálaástandið í Burma eða Palestínu.
Málefni ekkjunnar.
Réttur hins munaðarlausa.
Svo mætti lengi telja. 

Við þurfum ekki öll að vera á einu máli
um slíka forgangsröðun í veisluna,
það skiptir meira máli
að eitt og hvert sé brennheitt í kærleikanum
og opni öðrum dyr inn í Guðsríkið. 
Slíkt verk, slíkt veisluboð til fylgdar og í samfélagi við Krist býður fram dýpt, gleði og sannra mennsku
sem er margfalt meira virði en heimsins sykraða morgunkorn og myndsímar.
IV.
Jesús segir Fylg þú mér.
Fylg þú mér til betra samfélags við náungann,
til gleði, trausts og efling mannlífsins í öllum sínum undursamlegu myndum og fjölbreytileik.
Fylg þú mér á krossinn og inn í mannlegan harmleik.
Fylgdu mér út úr hinum gamla veruleik vanans og inn í nýtt líf
þar sem ný bót er sett á nýja flík
og nýtt vín á nýja belgi,
vegna þess að uppsprettan er gömul
en veitir fram hreinum vökva
Og í veislunni getur borðið hans Jesú endalaust stækkað
ef við leggjum til hug og hjarta og hús
Þessi veisla getur gefið okkur næringuna
sem við þurfum á að halda.
 
Þannig bankar Guð í bakið á okkur
þar sem við stöndum ringluð í tollbúðinni
innan um hrúgur af morgunkorni og nýjum græjum. 
Guð bankar í bakið á okkur og biður okkur að gera rétt
opna hús okkar og huga. 
Svo sem forðum var prédikað fyrir munn Jesaja spámanns,  þá er okkur ætlað að leita… þess, sem rétt er.
Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. 

Til að hlýða því boði þurfum við að leita í annað og betra fóður en auglýsingar og tákn Símans hf.

Hinum ögrandi nútímauppstillingum á veislu Da Vincis
er ætlað að hreyfa við þeim
sem eru orðnir of þaulsetnir í sætunum næst Jesú. 
Við þurfum þess  vegna að biðja um stærra hús og stærra borð
í húsi Levís,
þar sem fleira fólk fær sæti
og þar sem ríkir jafnrétti, skilningur og samúð,
þar sem hver fær að vera eins og hann er
í návist Jesú. 
Þá hefur heiminum verið breytt, og fyrr ekki.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen.
Takið postullegri kveðju:  Sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists.  Amen

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3778.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar