Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Muðlingar eða vínber?

12. ágúst 2007

Á þremur árum hafði hann fengið fólk til að hlusta á málflutning sinn. Hann hafði farið borg úr borg og kennt, mætt neyð fólks, huggað og styrkt, líknað og læknað. Fólk þráði að heyra einhvern tala af viti um lifið og tilveruna, um tilvist mannsins og tilgang. Og það gerði hann svo sannarlega. En mannskepnan er viðsjárverð, hvikul og ístöðulaus. Jafnvel þótt hún hafi heyrt sannleikann er hún stundum fljót að snúa við honum bakinu. Hún heyrir eitt í dag og annað á morgun. Hún er veik fyrir lýðskrumi og haldlitlum rökum manna, sem tala þunnt og vita fátt, en geta samt leitt fólk út í nánast hvaða falstrúarfen sem til er, þar sem allt sekkur til botns í kolsvörtu kviksyndi þar sem ljós Guðs nær ekki að loga og lýsa.

Jesú blöskrar afstaða fólksins. Hann minnir það á forvera sinn, Jóhannes skírara, sem var sérstakur í háttum, næstum rosalegur í framgöngu allri, klæddur sem villimaður er lét sér til munns engisprettur og villihunang. En Jóhannes mælti samt sannleikann. Jóhannes talaði tæpitungulaust um að fólk þyrfti að gjöra iðrun, taka til í sínum ranni, vera heilt í afstöðunni til Guðs og náungans. Og hvað sagði fólkið? Jú, það sagði hann hafa illan anda eða með öðrum orðum: Hann er vitlaus, brjálaður.

Svo vitnar Jesús til sinnar eigin þjónustu og þar kvað nú við allt annan tón en hjá Jóhannesi. Jesús var ekki meinlætamaður eins og hann. Nei, Jesús blandaði geði við fólk í gleði þess og sorgum, hann sat veislur og naut gómsætra veitinga, drakk vín og gladdist á góðum stundum. Hann meira að segja vann kraftaverk á meðal þeirra, læknaði sjúka og reisti meira að segja mann upp frá dauðum! Og hvaða einkunn hlaut hann í sínum skóla: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!
Og Jesús sýnir áheyrendum sínum í guðspjalli dagsins fram á að ekkert dugi til að þeir vilji breyta rétt, hvorki meinlæti né bílífi, hörð orð eða kærleiksrík. Fólk situr við sinn keip og vill ekki taka á sínum málum.

Nú á tímum eru áhrifavaldar í herskörum. Hver og einn hrópar og kallar og heimtar athygli. Sumir hafa ógrynni fjár til að eyða í herferðir sínar, skirrast einskis og beita jafnvel örþrifaráðum til að koma áróðri sínum til skila. Félagsvísindamenn rannsaka áhrif fjölmiðla á líf fólks. Sýnt þykir að sjónvarp og ofbeldismyndir, óhollusta á Veraldarvefnum og margt annað sé að æra sumt fólk. Ofan á það koma svo fíkniefnin sem flæða um og hægt er að kaupa á skólalóðum grunnskóla í borginni.

Hvert leiðir slíkt ef hvergi finnst taumhald? Leiðir það ekki í ógöngur?

Jesús ávarpar íbúa Korasín, Betsaída og Kapernaum, og segir að þessar borgir, þar sem hann vann mest og birti kærleika Guðs í orði og verki, muni verða illa á vegi staddar ef fólkið taki ekki háttaskiptum, þeim muni farnast verr en sjálfri Sódómu.

Í lexíunni úr Gamla testamentinu er slegið á skylda strengi þar sem Jesaja segir:

„Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein.“

Spámenn vöktu yfir velferð einstaklinga og þjóðfélagsins alls með því að boða rétta breytni og líf. Sama gerðu Jóhannes skírari og Jesús hvor með sínum hætti.

Er það heimsendaspámaður, dómsdagsspámaður, sem talar svo, sem boðar að samhengi sé milli hegðunar fólks og hamingju? Já, líklega má kalla hann báðum þeim nöfnum sem ég nefndi. Eða er hér á ferð vitur maður sem sér samhengi hlutanna, skynjar að gróðavegur gæfunnar liggur í gæskunni, í kærleika til náungans og ábyrgð á eigin lífi?

Er gæfan fólgin í taumleysi og græðgi, þar sem allt er leyfilegt og öllum siðferðislegum gildum er rutt úr vegi? Við vitum að svarið er ekki já í þeim efnum.

En ef til er hinsta réttlæti og fullkomið kerfi sem skilgreinir rétt og rangt; ef til er dómstóll sem dæmir alla og fer yfir allt líf okkar manna; ef til er sannleikur og ást í sinni skærustu mynd; ef til er miskunn og mildi í hæsta stigi; ef til er heilagur Guð sem stendur fyrir öll því besta sem mannskepnan getur gert sér í hugarlund, þá er ekki sama hvernig lifað er, þá gilda lög hans um okkur mennina. Þá skiptir máli að skilja vilja hins hæsta Guðs og leitast við að lifa í samhljómi við vilja hans og elsku. Og takist okkur það ekki - sem er nú reyndin með alla menn - þá eigum við í honum fullkomið réttlæti og miskunn, fyrirgefningu og elsku. Við erum kölluð til að keppa að hinu góða en vegna syndarinnar í heiminum og í okkur sjálfum, tekst okkur ekki að vera fullkomin eins og við erum kölluð til að vera. Við erum föst í feni syndar og óhlýðni. Lausnin úr þeim aðstæðum er að þekkja lausnara og forsendan fyrir því að njóta hins góða sem lausnarinn gefur er iðrunin, að kannast við breyskleika sinn og vita sig vera þurfamann Guðs í þessum heimi.

Gæfan er fólgin í því að þekkja Guð og þann sem hann sendi, Jesú Krist. Og gæfan er stór því hún er fólgin í hinu eilífa lífi. Gengi þessa gæfumarkaðar er stöðugt hvernig sem viðskiptin eru, voru eða verða. Gengið er alltaf hátt því það hvílir á gullfæti gildismats Guðs í himni hans, er varið af honum sem reis upp frá dauðum og lifir og ríkir. Gengi gæfunnar eilífu verður aldrei fellt af dauðlegum mönnum.

Korasín, Betsaída, Kapernaum. Hvernig mun borginni Reykjavík vegna á degi dómsins? Hvernig mun íslenskri þjóð vegna á dómsdegi?

Þeim spurningum getur enginn maður svarað. En svar okkar hvers og eins við vangaveltum hinstu örlaga er að lifa heilu lífi og fylgja honum sem er ljós heimsins. Hann veit hvar hamingjuna er að finna, hann sem sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hann kallar okkur til fylgdar við sig og samneytir okkur í veislu himinsins sem fram verður borin hér á eftir. Þar er hann sjálfur nærverandi og viðstaddur í brauði og víni. Og þar sem hann er þar viljum við vera. Til hamingju með að vera heimafólk í húsi hans og boðsgestir í veislu himinsins.

Dýrð sé Guði Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

- - -

Lexían; Jes 5.1-7

Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans.

Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga.

Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns! Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber?

En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður. Og ég vil gjöra hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar, og skýjunum vil ég um bjóða, að þau láti enga regnskúr yfir hann drjúpa.

„Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein.“

Pistillinn: Rm 9.6-9, 14-18

Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn, sem af Ísrael eru komnir. Ekki eru heldur allir börn Abrahams, þótt þeir séu niðjar hans, heldur: Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir. Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur hans Guðs börn, heldur teljast fyrirheitsbörnin sannir niðjar. Því að þetta orð er fyrirheit: Í þetta mund mun ég aftur koma, og þá skal Sara hafa son alið.

Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. Því hann segir við Móse: Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna. Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar. Því er í Ritningunni sagt við Faraó: Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina. Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill.

Guðspjallið: Mt 11.16-24

Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.

Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2212.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar