Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Þór Bjarnason

Hungur

22. júlí 2007

Jóel. 2.21-27; Post. 2.41-47 og Jóh. 6. 30-35

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hungur og svengd er nokkuð sem við þekkjum öll. Við þörfnumst matar til að geta haldið heilsu okkar og kröftum. Fæðan fyrir okkur er líkt og eldsneytið er fyrir bílinn. Ef við höfum ekki fengið mat í heilan dag lætur líkaminn okkur vita svo um munar. Fæðan er okkur því lífsnauðsynleg. Og vegna mikilvægi hennar skiptir máli hvað við setjum oní okkur. Við mundum aldrei setja steinolíu á bílinn okkar, heldur aðeins 95 okteina bensín, sem vélin er hönnuð fyrir. Á sama hátt eigum við ekki að setja oní okkur óhollan mat, heldur heilnæman og góðan sem veitir okkur kraftinn til að lifa lífinu.

Lífið gengur meira og minna út á það að borða. Við erum að vinna og afla okkur tekna meðal annars til þess að geta fætt okkur. Auglýsingar fjölmiðlanna fjalla oftar en ekki um matvörur ýmiss konar. Og veitingastaðir bjóða fram þjónustu sína. Og við Íslendingar erum fyrst og fremst matvælaframleiðsluþjóð. Framboðið í verslunum er gríðarlega mikið. Við eigum völina. Er við förum í stórmarkaðinn tökum við stóra innkaupakerru og ýtum henni á undan okkur og tínum alls kyns vörur úr hillunum og setjum oní hana. Það skiptir máli hvað við tínum til. Eru það hollar eða óhollar vörur. Eru það vörur sem eru fullar af sykri, salti og fitu eður ei? Við þurfum að vera meðvituð um innihald þeirra vara sem við kaupum vegna þess að við erum það sem við borðum.

Það er biblíulega rétt að hugsa vel um líkama sinn, fá nægan svefn, góða hreyfingu og rétta næringu. Ég segi aftur: Nægur svefn, góð hreyfing og rétt næring. Þetta þrennt stuðlar að vellíðan okkar. Líkami okkar er musteri heilags anda. Í ljósi þess eigum við að fara vel með hann og misbjóða honum ekki.

Guðspjall dagsins fjallar um fæðuna. Yfirskrift þess er: „Jesús, brauð lífsins.“ Guðspjallið er að finna í 6. kafla Jóhannesar, og sá kafli hefst á frásögunni um mettun fimm þúsunda. En það kraftaverk er svo mikilvægt, að það birtist í öllum guðspjöllunum fjórum. En það segir, að hann hafi mettað 5000 karlmenn. En þar með er ekki öll sagan sögð. Okkur vantar konurnar og börnin sem hafa örugglega verið á staðnum. Þannig að við getum gert ráð fyrir að hann hafi í raun mettað 15 þúsund manns. Hann hafði upphaflega aðeins fimm lítil byggbrauð og tvo fiska sem drengur nokkur átti. Þetta hefur væntanlega verið nestið hans. Jesús blessaði þennan mat drengsins sem var í nestisboxinu og allir urðu mettir og það varð meira að segja heilmikill afgangur – tólf fullar körfur.

Þvílíkt kraftaverk! Samt sem áður vidi fólkið ekki gefa Guði dýrðina. Er það ekki alveg stórfurðulegt? En daginn eftir kom hluti af þessum mannfjölda aftur til Jesú, þar sem hann var staddur í Kapernaum. Og um þau samskipti fjallar guðspjall dagsins. Fólkið vildi meira – fá aftur magafylli.

En Jesús svaraði þeim og sagði:

„Ég segi ykkur satt, þið leitið mín vegna þess að ég gaf ykkur að borða, en ekki vegna þess að þið trúið á mig. Hugsið ekki um það sem eyðist, eins og til dæmis mat. Leitið heldur eilífa lífsins sem ég, Kristur, get gefið ykkur, og einmitt þess vegna sendi Guð mig hingað.“

Fólkið sem kom til Jesú vildi fá að sjá fleiri kraftaverk. Þetta er eins og með flugeldasýningarnar. Við viljum alltaf sjá fleiri og fleiri stjörnur og rósir á næturhimninum og sú næsta þarf helst að toppa þá fyrri. Fólkið hungraði í fleiri kraftaverk. En Jesús kom ekki í heiminn til þess að gera eingöngu kraftaverk. En þau framkvæmdi hann fyrst og fremst af tveimur ástæðum: Annars vegar vegna samúðar og samhygðar sinnar með fólki, hins vegar til að kenna eitthvað mikilvægt um guðsríkið. Hann kom fyrst og fremst til þess að deyja á krossi og sigra dauðann með upprisu sinni.

Fólkið heimtaði ytri tákn. En Jesús benti á eilífa lífið – að við eigum að leita Drottins í auðmýkt. Við megum ekki vera á sama plani og skepnurnar. Við erum dýrmætar verur skapaðar í Guðs mynd. Hið innra eigum við að líkjast honum. Guð er andi og hann hefur gefið okkur af anda sínum. Við höfum því andlegt hungur til að seðja. Þess vegna segir Jesús:

„Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir.“

Þetta er kjarni máls. Jesús er brauð lífsins – svo mikilvægur er hann okkur. Hann seður andlegt hungur okkar og svalar andlegum þorsta okkar. Við megum ekki láta sál okkar svelta. Hún þarfnast þessarar andlegu næringar sem Jesús gefur á sama hátt og líkaminn þarfnast næringar sinnar.

Við eigum auðvelt með að skilja þessa líkingu Jesú með brauðið. Vegna þess að það er svo mikilvægur þáttur í matarræði okkar. Í Palestínu á dögum Jesú var brauðið uppistaðan í fæðu fólksins. Hins vegar er það ekki þannig alls staðar í heiminum. Í sumum samfélögum borðar fólk aldrei brauð. Og til þess að fólk í slíkum samfélögum nái merkingu guðspjallsins hefur þetta vers: „Ég er brauð lífsins.“ verið þýtt eftir aðstæðum, eins og í einu Asíulandinu, en það segir í Biblíu þess fólks: „Ég er hin sæta kartafla lífsins“ eða á Grænlandi, þar stendur í Biblíu þeirra: „Ég er selur lífsins.“ O.s.frv. Ég er sannfærður um, að Jesús hafi húmor fyrir þessu.

Allt sem við eigum og neytum eru gjafir Guðs. Þess vegna ber okkur að þakka fyrir gjafir Guðs. Í Faðirvorinu segjum við:

„Gef oss í dag vort daglegt brauð.“

Við þurfum að muna að þakka Guði fyrir matinn. Þess vegna er borðbænin mikilvæg. Hann blessar okkur margfaldlega með ástgjöfum sínum. Á veitingastað pantaði bóndi nokkur góðan mat. Á undan máltíðinni fór hann með borðbæn upphátt. Ungur og sjálfumglaður maður sat við næsta borð og heyrði það er fram fór. Eftir bænina sagði hann háðslega: „Heyrðu, er það þetta sem allir eru að gera í sveitinni?“ Bóndinn svaraði að bragði og sagði: „Já, allir nema svínin.“

Fólk er sífellt að gera mistök, rétt eins og þessi ungi maður, sem var ekki kominn nógu langt á þroskabrautinni. Fólk er sífellt að leita að merkingu í tilverunni, tilgangi með lífi sínu hér á jörð. Það eru svo margir sem leita á röngum stöðum til þess að seðja þetta andlega hungur sitt.

Fyrir mörgum árum tók Barbara Walters sjónvarpsviðtal við þrjá þekkta bandaríkjamenn. Þetta voru þeir Johnny Carson, Walter Cronkite og Johnny Cash. Johnny Carson var mikill lífsnautnamaður. Allt sem hann sagði vitnaði um það. Hann hafði prófað margt og farið víða en var orðinn leiður á öllu saman – „þessari tilgangslausu tilveru.“ Walter Cronkite er húmanisti, og heimspekilega sinnaður. Hann er ríkur og reyndi að njóta lífsins eins vel og hann gat. Hann horfði á lífið með gleraugum heimspekinnar. Kjarninn í því sem hann sagði var sá, að þannig væru nú hlutirnir og ekkert öðruvísi. Það vantaði algjörlega hjá honum einhvern tilgang í tilveruna.

Johnny Cash viðurkenndi að hann væri bæði alkahólisti og fíkniefnaneytandi, hann hefði eyðilagt líf sitt og hjónaband og verið sífellt að leitast við að seðja þetta innra hungur sitt. Síðan hefði hann mætt Jesú. Við það hefði hann öðlast innri frið og lífsfyllingu. Hann sagðist hafa eignast vonarríka framtíð, því að hann hafði fundið Jesú. Hann var honum „brauð lífsins.“ Orð Jesú voru raunveruleg fyrir honum:

„Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.“

Hann hafði fengið að reyna í eigin lífi orð Jesú í Fjallræðunni eru hann segir. : „Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.“

Í heiminum fyrirfinnst þrenns konar hungur: Það er hungur eftir sannleikanum, en Jesús er sannleikurinn. Það er hungur eftir lífinu, en Jesús gefur líf og það er líf í fullri gnægð. Og að síðustu er það hungur eftir ást og kærleika, en Jesús gefur okkur þennan kærleika með lífi sínu, dauða og upprisu. Þessi kærleikur er því eilífur, enda segir í Jóhannesi 3.16, Litlu Biblíunni:

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3831.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar