Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Haraldur M. Kristjánsson

Hann biður fyrir okkur

20. maí 2007

Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir, og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist. Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur. Jóh. 17. 9 - 17

Ungur maður hitti eitt sinn gamla konu og sagði við hana eitthvað á þessa leið:
 Því miður gat ég ekki farið í kirkju í gær. Hvað sagði presturinn í ræðu sinni? - Æ, það man ég ekki en ræðan var góð, sagði sú gamla.
 - Til hvers ertu að fara í kirkju ef þú manst ekki hvað presturinn segir?
 - Gamla konan horfði á hann um stund og sagði svo: 
- Gerðu mér svolítinn greiða. Skrepptu með tágakörfuna þá arna út í læk og komdu með hana fulla af vatni.
 - Ertu galin, það tollir ekki dropi af vatni í körfunni.
 - Það er sjálfsagt satt, mælti gamla konan og brosti, - en karfan kemur hreinni aftur. (af „Gamla nóa“-vef ellimálaráðs Þjóðkirkunnar)
Mikið er ég hrifinn af því hvernig sú gamla svarar. Það er nefnilega svo einstaklega satt sem hún segir og ungi maðurinn á ekki í svipinn, svar við hæfi. Svona sögur veita manni nýja sýn til hverdagslegra hluta.
Þegar fjalla á um snúinn texta líkt og guðspjall dagsins vitnar um, er predikaranum jafnan vandi á höndum. Oft þvælist hann út um hollt og móa í leit að líkingum og samanburði við daglega lífið, í þrotlausri leit sinni að réttum orðunum og bestu útskýringunni. En svo er Guði fyrir að þakka að ræða prestsins er ekki það eina sem skiptir máli í kirkjunni. Ef ekki væri t.d. þessi dásamlega tónlist sem þið, kæra tónlistarfólk í Mýrdalnum, töfrið upp úr hálsinum á ykkur, úr pípum orgelsins, eða af strengjum gítara og fiðlu og raunar svo margra annara hljóðfæra sem stundum hafa verið notuð, þá væri hér allt með öðrum brag. Og það veit sá sem allt veit að þið eruð búin að snerta mörg hjörtu og koma fögrum skilaboðum frá Guði áleiðis til mikils fjölda fólks, á síðustu misserum og raunar árum. Þegar við erum farin að brosa mót sumri og vonandi sól og hlýju og hyggjumst taka það rólega í nokkrar vikur, er ástæða til að þakka ykkur sérstaklega ykkar þátt í að gera starfið í kirkjunni í Mýrdal jafn gefandi og raun ber vitni. Guð gefi að það góða samstarf og bjarti hugur sem fylgir ykkur, haldi áfram að smita frá sér. Það er tilhlökkun að mega eiga von á samstarfi við ykkur þegar fer að hausta og næsta vetur.
En það er fleira sem kemur til í einni messu, en presturinn og tónlistin. Guðsþjónustan er nefnilega sett upp með fjölbreytileg markmið í huga. Hún gerir einnig ráð fyrir að við heyrum lesið úr heilagri Ritningu, og síðast en ekki síst er gert ráð fyrir að við hlýðum á bænir og förum sjálf með bænir í kirkjunni. Þetta þekkjum við öll. Messan er nokkurs konar bland í poka þar sem eitthvað er fyrir alla, eða er við flestra hæfi.
Guðspjall sunnudagsins milli uppstigningardags og hvítasunnu hefur frá aldaöðli verið tekið úr skilnaðarræðu Jesú yfir lærisveinum sínum, áður en hann var handtekinn í Getsemane. Orðin í 17. kafla Jóhannesarguðspjalls sem við heyrðum áðan, eru hluti af fyrirbæn frelsarans Jesú Krists fyrir lærisveinum sínum og allri kirkjunni. Þess vegna megum við sem erum lærisveinar hans í dag taka þessi orð til okkar.
Mér varð hugsað til fyrirbænar Drottins í gær meðan verið var að leita að konunni sem fór í sjóinn í Reynisfjöru, en ekki síður eftir að hún fannst. Við þekkjum það svo vel þegar sorgin hefur knúið dyra, hvað lítið er hægt að segja og stundum er ekkert hægt að syngja eða spila, né neitt annað, því sorgin lamar. Þá er dásamlegt að eiga kærleiksríkan frelsara sem við vitum að biður fyrir okkur á himnum þar sem hann situr nú við hægri hönd Guðs, föður almáttugs, skapara himins og jarðar.
Andspænis ógninni megum við okkur stundum svo lítils. Við þekkjum það. Þegar það er orðið jafn algengt og raun ber vitni að fólk fari niður að sjó hér í Mýrdalnum, til að horfa á hafið, þá skiptir svo miklu að við sem búum hér og þekkjum sjóinn, séum ávallt tilbúin að stökkva til og bjarga og leiðbeina og hjálpa ef þess er nokkur kostur. Og við þurfum að ítreka við ferðafólkið og börnin okkar það sem við vitum. Brimið við ströndina er mikilfenglegt en það getur verið svo hættulegt, stórhættulegt. Það er hræðilegt þegar sjórinn tekur. Það vita Víkurbúar og Mýrdælingar vel frá liðnum árum og öldum og við skulum nú sameinast um að senda hlýjar hugsanir og bænir til ættingja konunnar sem lést í gær og eiga nú um sárt að binda. Guð varðveiti einnig hana sjálfa og hennar minningu. Þá skulum við einnig biðja fyrir þeim sem þátt tóku í björguninni. Sérstaklega langar mig að biðja fyrir unga björgunarfólkinu okkar sem er kannski í fyrsta sinn að skynja hve vanmegnugir við mennirnir erum oft gagnvart ógninni. Samt skiptir svo miklu að eiga dugmikið fólk sem er tilbúið að kasta öllu frá sér í skyndi og stökka til bjargar. Guð blessi það. Við skulum líka biðja fyrir þeim sem stóðu vanmegnugir sem áhorfendur á ströndinni. Gátu ekkert gert í brimrótinu. Góður Guð styrki þau öll og blessi.
Ég bið fyrir þeim, segir frelsarinn og við megum treysta því. Þegar við höfum enn einu sinni séð hve vanmegna maðurinn er gagnvart höfuðskepnunum, skyldum við þakka það eins og þakka ber, af heilu hjarta.
Þessi sami Drottinn og frelsari og biður nú fyrir kirkju sinni, og fylgist með okkur dag og nótt, sá hinn sami og sendir engla sína til að gæta okkar á öllum vegum okkar, kenndi okkur líka tungumál sem við notum til að eiga samskipti við hann. Það tungumál nefnum við bæn. Bæn er nefnilega að tala við Guð og hlusta á hann í senn. Tala við hann, eins og við tölum hvert við annað, blátt áfram og einföldum orðum um allt sem á huga okkar hvílir. Hlusta síðan með þögulu hjarta á það sem hann vill segja. En það er líka gott að vita, að stundum þurfum við ekki einu sinni að bæra varir né nota orð. Hann heyrir andvörp hjartans. En samt er það þannig að það sem við hugsum og það sem við gerum okkur grein fyrir og skiljum, leitar sér búnings og fær farveg í orðum. Þess vegna er eðlilegt og nauðsynlegt að orða hugsanir sínar þegar talað er við Guð, hvort sem er upphátt eða í hljóði. Og það er víst og sannað að bænamál annara, mótaðar bænir, sem við lesum eða kunnum er ómetanleg hjálp til að tjá hug og túlka það sem okkar eigin orð megna ekki, eða þá til að vekja hugsanir af blundi eða löngum dvala. Og um leið og við erum ein í bæninni, erum við samtímis hluti af einni hjörð sem einn meistari leiðir. Þannig fyllum við flokk lofsyngjandi barna hans á himni og jörðu, myndum samfélag heilagra, kirkjuna sjálfa.
En við sjáum ekki Guð og getum ekki þreifað á honum, þess vegna getur það oft verið svo erfitt og óraunverulegt að biðja. Ég veit að allir kannast við þá tilfinningu. Samt segir hinn upprisni og lifandi Kristur að Guð sé nær okkur en við erum sjálfum okkur. Hann er „yfir og allt um kring“ eins og loftið sem við sjáum ekki, en öndum þó að okkur og eins og birtan frá sólinni sem umvefur okkur og alla jörðina, hvort sem við sjáum hana eða ekki. Án lofts og sólar gætum við ekki lifað.
Séra Jón Prímus í Kristnihaldi undir Jökli, var sannfærður um að ef hann færi á hnén til að biðjast fyrir, myndi Guð skella upp úr og var einnig viss um að nútíminn burstaði fremur í sér tennurnar á kvöldin en að fara með bænir.
Það kann að vera eitthvað til í því. Ég held samt að við getum leikandi gert hvort tveggja að bursta tennurnar og biðja og er sannfærður um að þó Guð brosi stundum að okkur þegar við erum á hnjánum, þá hlusti hann samt á sinn einstaka og kærleiksríka hátt.
Við skulum muna eftir að ljúka hverri bæn eins og frelsarinn gerði og segja með honum, verði ekki minn, heldur þinn vilji. Þannig veit Guð og um leið við sjálf að við erum að biðja, en ekki að þylja upp innkaupalista. Að því sögðu og hugsuðu höfum við sagt allt sem við þurfum í bæninni.
Guð gefi okkur öllum farsæld og frið á komandi sumri og munum eftir að sýna hvert öðru tillitssemi, kærleika og virðingu, í smáu sem stóru, í orðum sem athöfnum.
Við fyllum ekki tágakörfuna okkar af vatni í læknum, en við hreinsum hana. Einmitt það sama taldi gamla konan að gerðist í kirkjunni. Munum það þegar við göngum í hús Drottins og njótum samvista við hann.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2601.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar