Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Þór Bjarnason

Biðtími

20. maí 2007

Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir, og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist. Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.Jóh. 17: 9-17

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í dag er sjötti sunnudagur eftir páska, sem jafnframt er sunnudagur á milli uppstigningar og hvítasunnu.

Það eru tíu dagar á milli þessara hátíða. Við héldum uppstigningardag hátíðlegan á fimmtudaginn. Þá minntumst við þess, að Jesús skildist frá lærisveinum sínum og var upp numinn til himins 40 dögum eftir páska. Hann var sumsé upprisinn allan þennan tíma hér á jörðinni. Hann birtist lærisveinum sínum margs sinnis á þeim tíma og ræddi við þá. Hann huggaði þá og styrkti með orðunum “Friður sé með yður.” Hann var svo raunverulegur á þessum 40 dögum, að hann mataðist með þeim. Það er ekki nema von að þessir dagar hafa verið kallaði gleðidagarnir í kirkjunni.
Það urðu síðan þáttaskil á uppstigningardag. Að þeim degi liðnum tók við tíu daga biðtími – fram að hvítasunnu. Jesús bað lærisveinana að bíða og vera rólega. “Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum.” Jesús hafði lofað þeim ákveðnu fyrirheiti, sem var heilagur andi – huggarinn – hjálparinn. Kraftur Guðs – sjálfur sköpunarkrafturinn. Lærisveinarnir skyldu íklæðast kraftinum frá hæðum – eignast gjöf heilags anda. Allt skyldi þetta fram koma á hvítasunnudag.

Í dag minnumst við því sérstaklega þessarar biðar og eftirvæntingar lærisveinanna – biðtímans. Í niðurlagi Lúkasarguðspjalls segir, að þeir hafi snúið aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði og að þeir hafi stöðugt verið í helgidóminum og lofað Guð. Svona nánir voru þeir Jesú. Og svona mikil var tilhlökkunin. Þeir hafa sjálfsagt vart ráðið við sig af spenningi. Þeir hafa örugglega talið dagana þar til fyrirheitin rættust.

Við skulum reyna að setja okkur í spor lærisveinanna og bíða með þeim. Það er ein vika fram að hvítasunnu. Við skulum búa hug okkar og hjarta undir þessa hátíð sem framundan er. Hátíð heilags anda – stofndagur kristinnar kirkju. Við skulum gera þessa nýbyrjuðu viku að viku heilags anda í lífi okkar. Leyfum anda Jesú Krists að fylla líf okkar. Það gerum við fyrst og síðast með bæn, beiðni og þakkargjörð. Munum eftir heilögum anda, sem er einn hlutinn af heilagri þrenningu, ein hliðin á Guði, sem er skaparinn, sonurinn og heilagur andi.

Bænin er miðlæg á þessum degi, því að yfirskrift guðspjallstextans er:

“Fyrirbæn Jesú.”

Guðspjallið hefst á orðum Jesú er hann segir: “Ég bið fyrir þeim.” Jesús biður fyrir lærisveinum sínum. Hugsið ykkur hvað það er stórkostlegt! Það er beðið fyrir okkur á himnum. Jesús sem bróðir okkar allra hann biður fyrir okkur eins og móðir og faðir biðja fyrir barni sínu á hverjum degi. Það er svo sannarlega yfir okkur vakað. Jesús hefur gefið okkur fyrirheiti um það.

Það er svo mikil umhyggja og kærleikur í þessari fyrirbæn Jesú:

“Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist.”

Þessi yndislegu orð Jesú er svo lýsandi fyrir afstöðu hans til okkar, en þau eru eins og bergmál af fyrri orðum hans er hann sagði:

“Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.”

Og hann heldur áfram í guðspjallinu og segir:

“Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.”

Hann biður,að Guð varðveiti okkur frá hinu illa, enda erum við ekki af heiminum. Það er gott að vita af þessari bæn Drottins, að hann vill varðveita okkur frá hinu illa í þessum heimi, enda er vilji Guðs hið góða, fagra og fullkomna. Þetta þurfum við að hafa í huga. Ef við gleymum því fjarlægjumst við Guð og getum orðið heimsins börn, sem tilbiðja sig sjálf og einhverja falsguði. Fólk þarf að hafa sterk bein til þess að standast freistingar – forðast hið illa og berjast trúarinnar góðu baráttu. Það er alltof auðvelt að falla í freistni og verða einn eða ein af þeim sem eru af heiminum.

Við vitum hvað Drottinn Jesús vill í þessu sambandi. Hann vill að við séum stöðug – full þolgæðis. Við eigum að vera eins súrdeig sem sýrir allt deigið. Við eigum að láta hið góða og fagra stjórna gerðum okkar – að láta gott af okkur leiða – hvar sem við erum – í starfi – á heimili – í skóla. Við erum erindrekar í Krists stað. Við erum fulltrúar hans hér á jörð – sendiherrar Guðs. Góður sendiherra fer ávallt eftir tilmælum ríkisstjórnar og þjóðhöfðinga síns lands.

Í heiminum er margt gott að finna – einnig margt slæmt. Þetta vitum við. Heimurinn er syndugur og fallin sköpun. Biblían segir það beinum orðum. Í raun og veru er heimurinn eins og eitt risastórt hlaðborð. Okkur er boðið að ganga að því borði og velja okkur af hinum ótalmörgu réttum. Við eigum völina. Á þessu borði eru hollir og heilnæmir réttir en einnig óhollir og baneitraðir. Þess vegna þurfum við að vanda val okkar. Við þurfum að segja öðrum frá þessum hollu réttum og vara við þeim óhollu – beina börnum okkur að þeim góðu – ekki aðeins þeim heldur einnig samferðarfólki okkar.

Við, kristið fólk, þurfum að vera eins ýsan, sem lifir í söltum sjó allt sitt líf. Hún er veidd og lendir á borðum okkur. En málið er, að við getum ekki borðað hana nema salta hana fyrst. Saltið í sjónum nær ekki inn í hold hennar. Hún nær því að halda sér hreinni frá saltinu sem er í umhverfi hennar. Það er eins með okkur. Við getum forðast hið illa í umhverfi okkar með Guðs hjálp. Svo að við verðum ekki af heiminum, heldur í heiminum.

Guðspjallið endar á orðunum:

“Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.”

Sannleikurinn er Kristur – hann og enginn annar. Biblían boðar orð sannleikans. Þess vegna skulum við lesa Orðið og láta helgast af því. Biðjum Drottin Guð að helga okkur í sannleikanum – að við mættum “marínerast” Orði Guðs – verða gegnsýrð af því lífsins Orði.

Sannleikans andi,
Lát sannleikans ljós þitt oss skína,
send oss í myrkrunum
himneska geislana þína,
sannleikans sól,
sjálfs Guðs að hátignarstól
lát þú oss leiðina sýna.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um alder alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2962.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar