Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Bænin, skrúðinn og kosningarnar

13. maí 2007

Að biðja sem mér bæri
mig brestur stórum á.
Minn Herra, Kristur kæri,
æ, kenn mér íþrótt þá.
Gef yndi mitt og iðja
það alla daga sé
með bljúgum hug að biðja
sem barn við föður kné.
(Björn Halldórsson)

Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug
né tók miskunn sína frá mér. (Sálm.66.20.) Amen

Jesús sagði við þá: Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann. Mundi hinn þá svara inni: Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka, ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.

Lk 11.5-13

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Guðs lýður, vertu’ ei lengur hræddur
og lát af harmi’ og sorg.
Í dag er Kristur Drottinn fæddur
í Davíðs helgu borg.
Hann fjötrum reifa fast er vafinn,
í frelsi barna Guðs svo þú sért hafinn.
Hann þína tötra tók á sig,
að tign Guðs dýrðar skrýði þig. (Valdimar Brien, Sb.78).

Kæri söfnuður.
Það getur vel verið að einhverjum þyki úrslit kosninganna svo dásamleg að nú séu jólin.
En það er nú samt ekki þess vegna sem þetta vers úr jólasálmi Valdimars Briem var lesið. Það er vegna þess að eitt meginstef þessarar bænadagsguðsþjónustu er skrúði. Ekki bara sá sem við höfum fyrir augum og gleðjumst yfir í dag, heldur yfirleitt.

Í dag, fimmta sunnudag eftir páska, er hinn almenni bænadagur. Bænadagar voru fyrrum gangdagar, eða göngudagar. Söfnuðurinn gekk með prestinum um akra og skóglendi, meðfram ám og vötnum og þau sem gengu báðu Guð að blessa ávöxt jarðar, uppskeru og árferði, og veita hlíf gegn óveðri og uppskerubresti, farsóttum og eldsvoðum.
Þessir gangdagar hafa upphaf sitt í dag , á bænadaginn, standa yfir mánudag til miðvikudags og þeim lýkur á uppstigningadag. Það væri óskandi að við gætum tekið þennan sið upp aftur, eins og við höfum þegar gert í lítlum mæli á Þingvöllum.

Við ætlum ekki beinlínis í gönguferð hér í kirkjunni í dag, en þó minnir þessi predikun á gönguferð, þar sem við ætlum að koma við á þrem áningarstöðum.
Þeir heita bænin, skrúðinn og kosningarnar.

• • •

Þó að tilefni kirkjugöngu okkar á þessum almenna bænadegi kirkjunnar séu ekki beinlínis kosningarnar og úrslit þeirra, þá kunna þær nú samt að hafa haft veruleg áhrif á kirkjuferðina og jafnvel hafa komið af stað meira róti tilfinninganna en kirkjuferðir gera á venjulegum sunnudegi. Samt er alltaf ýmislegt sameiginlegt með kosningum og kirkjuferðum.

Kosningar eru eins og kunnugt er, einskonar uppgjör kosningabærra aðila við stjórnmálamenn og stefnur þeirra um leið og þær eru tilraun til að hafa áhrif á það hvernig stjórnað verður og hverju stjórnað verður næstu fjögur ár.
Morguninn eftir kosninganótt hefur óhjákvæmilega nokkra sérstöðu í lífi margra, og fáir munu það vera sem var bara alveg sama um þessar kosningar og kenna engan mun þessa dags miðað við aðra.
Sumir hafa vakað af því að þeir gátu ekki sofið. Sumir hafa vakað því þeir gátu ekki sofnað. Sumir af gleði en aðrir af ógleði.

Sérhver kirkjuganga felur í sér uppgjör. Hvað ber ég með mér til kirkju? Hvernig var vikan sem leið? Hvað vil ég segja og hvers við ég biðja og hvað vil ég játa, þegar ég stend fyrir augliti Guðs í húsi hans? Og hvernig lofa ég hann?

Bænin er tilraun til að hafa áhrif á það hver stjórnar og hvernig stjórnað verður, dag frá degi.
Verði vilji þinn, komi ríki þitt.
Drottinn miskunna þú oss.
Ég játa fyrir þér, ó, Guðs lamb sem burt ber heimsins syndir.
Verði vilji þinn. Komi ríki þitt.

Biskup Íslands skrifar í bréfi til presta um bænadaginn:
Að þessu sinni bið ég presta að sameinast í bæn fyrir þeim fulltrúum sem þjóðin hefur kjörið til setu á alþingi. Þjóðin hefur veitt þeim umboð og vald til að skipa málum samfélagsins til heilla fyrir heildina. Biðjum Guð að styðja þá til góðra verka í þágu lands og þjóðar, og þess lífs og heims sem Guð gefur okkur að gæta og efla.

• • •

Kæri söfnuður.
Guðspjallið í dag, er samkvæmt Lúkasi og úr 11. kaflanum í guðspjalli hans. Kaflinn er ekki lesinn frá upphafi, og það er eiginlega miður, vegna þess að fremst í honum er að finna bæn Drottins, Faðir vor, eins og Lúkas skráði hana, en þar er hún dálítið öðruvísi en við erum vön.

En með því að sleppa fyrsta hluta guðspjallsins, texta Faðirvorsins, fá þessar þrjár litlu sögur, sem eru guðspjallstexti okkar í dag, sérstakt vægi. Það er gott, vegna þess að þær eru ekki í neinu beinu samhengi við bænir faðirvorsins.
Reyndar vekja þær nokkrar stórar spurningar sem sprengja ramma þessarar predikunar, en eru geymdar til annars tíma.
Sameiginlegt megin einkenni þeirra er að benda okkur á að gefast ekki upp á bæninni þótt okkur þyki stundum að seint sé svarað, og draga aldrei í efa hversu mikil áhrif bænin hefur, eða hversu fús Guð er að heyra þær og bregðast við þeim.
En stefin; brauð, fiskur og egg, sem Lúkasi lágu á hjarta, geymum við einnig í huga okkar um sinn. Um stöðu og hlutverk bænarinnar yfirleitt, hjá okkur sjálfum og í kirkjunni almennt, ættum við hinsvegar að hugsa dálítið um, vegna þess að hlutskipti og þýðing bænarinnar í daglegu lífi fólks segir okkur ýmislegt um einkenni, vægi og áhrif trúarinnar í samtímanum. Um það þyrfti margt að skrafa og skilgreina. Við geymum það en gleymum því ekki. En vil skulum hvert og eitt spyrja okkur sjálf í einlægni: Er bænin, sá andans andardráttur, sem við syngjum um í sálminum (Sb. ) er hann sá óslítandi þáttur milli mín og Guðs, sem hann á að vera ? Er það jafn sjálfsagt að biðja til Guðs hvern morgun eins og það er að bursta tennurnar?

Við þekkjum best í guðspjalli dagsins þessi orð:
Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

Við höfum fyrir löngu fundið út að þetta má ekki skilja svo bókstaflega að ef ég bið um gott veður, sé tryggt að það komi. Það er ekki einu sinni víst að flokkurinn minn sigri í kosningunum.
Það er hinsvegar alveg rétt sem guðspjallið segir. Það kemur bænarsvar.
Svarið við öllum bænum til Guðs er hann sjálfur.

Ef beðið er af fullri einlægni og fullri einurð, heyrir hann. Hann gefur þeim sem biðja ekki bara eitthvað, og ekki heldur endilega það sem biðjandinn hefur beðið mest um og óskar sér umfram annað.
Hann gefur alltaf sjálfan sig og á þann hátt sem eingöngu hann veitir, sem guðdómlegur umbreytandi kraftur.

Það má láta sér detta í hug að þegar ákveðið var að lesa ekki meira af guðspjallinu en hér var gert, þá hafi það ekki aðeins verið til þess að hlífa predikaranum við því að leggja út hina Drottinlegu bæn, þar sem hver lína nægir í heila predikun, heldur líka til þess að hlífa honum við því að reyna að útskýra það hversvegna Lúkas er með aðra útgáfu bænarinnar en Mattheus.
Var ónákvæmni meðal safnaðanna í því hvernig þessi bæn er?
Já, það var það. Reyndar ekki mikil, en nokkur.

Lúkas hefur bænina svona:

Faðir,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
gef oss hvern dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar syndir,
enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni. (Lk.2-4)

Ef mér leyfist að vera persónulegur, sem maður á helst ekki að vera í predikunarstólnum, þá get ég upplýst að foreldrar mínir höfðu bænina ekki eins. Mamma kenndi mér að segja: Eigi leið þú oss í freistni, en pabbi sagði: Leið oss ekki í freisni. Mér, barninu, fannst þetta ekki stórmál. Ég sá það í hendi mér að önnur útgáfan var fyrir mömmur en hin fyrir pabba, og ég fylgdi þeirri útgáfu sem við átti, eftir því hvort þeirra leiddi bænina.

Fræðimenn benda á að fyrstu söfnuðurnir hafi ekki litið svo á að þetta væri texti sem væri óbreytanlegur og ætti að endurtaka með sama orðalagi, heldur að þetta væri leiðbeining um það hvernig ætti að biðja. Það kemur skýrt fram í inngangi Lúkasar

Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum. (Lk.11.1)
En hann sagði við þá: Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: (Lk.11.2a)
Og svo kemur bænin Faðir vor.

Þetta segir okkur að lærisveinarnir höfðu séð og heyrt hversu mikill munur var á þeirra bæn og hans, og ennfremur segir þetta okkur að þeir biðja hann um kennslu vegna þess að þeir sjá hvaða áhrif bæn hans hefur á hann sjálfan. Og það er einmitt þess vegna sem einnig við þurfum að biðja hann að kenna okkur að biðja, á hverjum degi.

Miklu seinna var ákveðið í kirkjunni, þegar Faðir vor varð fastur liður í helgihaldinu, að binda sig við eina útgáfu, nefnilega þá sem við höfum í Mattheusarguðspjalli.

En bænin snýst auðvitað ekki bara um orðalag, og gildi bænarinnar er ekki það eitt að fara alltaf með sömu bænina, heldur er bænin hluti af þeim veruleika að mega standa frammi fyrir órannsakanlegum eilífum Guði og ávarpa hann eins og barn föður.
Það er hið eiginlega efni og tilefni þessa sunnudags og kirkjugöngu okkar á þessum degi.

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór að hugleiða bænahefð foreldra minna, að þó ég hefði kannski ekki lært mikið í uppeldinu hefði það sem ég lærði haft varanleg áhrif.
Til dæmis lærði ég það að maður ætti að bera virðingu fyrir öðru fólki, en maður gæti það ekki nema bera virðingu fyrir sjálfum sér, og að þessi sjálfsvirðing kæmi fram í því hvernig maður birtist öðrum.
Þetta var orðað þannig: Þegar þú hefur erindi og berð það fram, hefur fas þitt og framkoma áhrif.

Vertu í heilum og hreinum fötum,
og gættu að því hvað þú segir.
Fötin geta alveg verið gömul og bætt,
ef þau bara eru heil og hrein.
Og blótsyrði eru eins og óhreinindi, nema að þau eru á tungunni.
Þau skaða þig meir en aðra.

Þetta bið ég ykkur, kæri söfnuður ,að skoða í ljósi þess að við yngri systkinin erfðum alltaf föt frá þeim eldri og sum slitin, og magir í nánasta umhverfi notuðu blótsyrði eins og lýsingarorð og tvinnuðu og þrinnuðu, nánast í hverri setningu. Ég minnist með ánægju ýmissa morgunsamtala okkar systkinanna við móður okkar sem gerði athugasemd við buxurnar okkar og við reyndum að svara kröfunni um hreinar buxur, með því að segja: Við erum nú bara að fara að taka upp kartöflur!
Það sem verður í kvöld þegar þú kemur heim, skiptir ekki meginmáli, heldur það sem þú miðlar þegar þú kemur á staðinn!

Kæri söfnuður, þá erum við komin að skrúðanum.

Hann þína tötra tók á sig, að tign Guðs dýrðar skrýði þig. segir í sálminum.
Sjálfur skrýddist hann ekki.
Hann hafði afklæðst Guðs dýrð þegar hann steig inn í þennan heim eins og segir í Filippíbréfinu.(Fil.2.7-8)

Kristur var skrýddur þrisvar sinnum af mönnum.
Hann var skrýddur tötrum fátæks barns í reifum.(Lk.2.7)
Hann var skýddur purpurakápu og þyrnikórónu sér til háðungar, áður en hann var leiddur út til krossfestingar. (Mk.15.17)
Og Jósef frá Arimaþeu skrýddi hann hreinu líkklæði þegar þau tóku hann niður af krossinum. (Mt.27.59, Mk.15.46)

En samt hafa fötin hans verið fyrirmynd að skrúða prests og altaris og kirkju alltaf síðan.
Ekki vegna eðlis þeirra heldur Guðs dýrðar, sem skryddi hann.

Hann ummyndaðist fyrir augum þeirra á fjallinu. (Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Mt.17.2).
.
Sjálfur mat hann mest þann skrúða sem Guð skrýðir með liljur vallarins og lífið sjálft.
(Mt.6.30.Lk.12.28, Mt.6.25-28), því þar er Guðs dýrð sýnileg dauðlegum augum, og kannski aldrei fegurri en á vordegi sem nú.

Kristur sem steig úr Guðs dýrð til að taka á sig hinn fátæklega búning mannanna kveikir í hjörtum barna Guðs elsku til hans, lofgjörð og tilbeiðslu.
Þessi viðbrögð, sem undirstrikuð eru í hvert sinn og við komum saman til messu eru fyrsti skrúði Krists konungs, er við syngjum Heilagur, heilagur, heilagur, Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, Lamb Guðs sem burt ber heimsins syndir.
Annar skrúði hans er sá sem færður er honum í efnislegum skrúða prests og kirkju og sá þriðji er játning tilbeiðslunnar: Þú ert Drottinn, sjálfur Guð og sjálfur maður, frelsari minn og alls heimsins, Jesús Kristur.Dýrð sé þér.

Vegna þessa alls fögnum við því sérstaklega með þessari hátíðarmessu og listsýningu í dag. að tryggur vinur þessarar kirkju, Herder Anderson, hefur fullnað verk sitt og skrúða Langholtskirkju.
Nú hefur það gerst hér hjá okkur sem tilheyrir hinni fornu hefð kirkjunnar. Helgur skrúði kirkjunnar vex fram af trú hennar.

Aðeins sá getur gert helgan skrúða sem helgar sig til þess. Þess vegna voru forðum sett á stofn klaustur til að skrifa helgibækur, og vefa og sauma helgan skrúða. Þorlákur helgi stofnaði Kirkjubæjarklaustur til þess að nunnurnar gætu þar gert skrúða fyrir kirkjurnar. Að sauma og vefa skrúða er og var helgiþjónusta , vegna þess að Orð Heilagrar Ritningar og bænin voru ofin saman við efni skrúðans. Gerð skrúða er tilbeiðsla.
Listamaðurinn sem hér ber fram verk sín hefur gefið kirkju sinni sýnilega tilbeiðslu Drottins, sem við megum eignast hlutdeild í.
Verk hans fegra nú þennan helgidóm, sem Kamerkórinn syngur nú um í verkinu Locus iste eftir Anton Bruckner
Þar segir svo:
Locus iste a Deo factus est,
inaestimabile sacramentum,
irreprehensibilis est.

Það útleggst svo:
Þessi staður er gerður af Guði
hann er ómetanlegur leyndardómur
og ámælislaus.

Skrúðinn er bæn svo að tign Guðs dýrðar skrýði þig.
Enginn skrúði er fegurri en sá sem borin er fram sem bæn.
Enginn skrúði er fegurri en bænin.

Kæri söfnuður.
Á fyrsta degi eftir kosningar til Alþingis, á bænadegi kirkjunnar, komum við saman til guðsþjónustu til að fagna nýjum skrúða hinnar helgu þjónustu í þessari kirkju. Guð gefi að það sé eins og alla daga til þess að játa: Ég kýs Krist, og hann krossfestan og upprisinn. Ég skrýði hann með bænum mínum og tilbeiðslu, og skrýðist sjálf(ur) miskunn hans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2801.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar