Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigurður Árni Þórðarson

Úr grjótinu

8. apríl 2007

Kristur er upprisinn - Kristur er sannarlega upprisinn.

Þetta er hin forna kveðja kristninnar á páskum, aðalfréttin, sem varðar alla og öllu breytir.

Fjölskyldubíltúr
Fjölskylda fór í helgarbíltúr austur að Þingvöllum. Börnin voru með í för. Bílnum var lagt norðan við bílastæðin á Neðri völlum og norðaustan við Furulundinn. Dagurinn var yndislegur og sumarblíðan dró ferðalanga út úr bílnum. Pabbinn og mamman lögðust í bolla austan við eða gjármegin við veginn. Allir voru glaðir. Þau fullorðnu umluðu af sælu, börnin skríktu og veltust um í mosadyngjunum. En allt í einu var eins og undirstaðan rifnaði, mosinn lyppaðist niður undir litla barninu og það hvarf sjónum allra. Jörðin gleypti það.

Undir þembunni leyndist gjá, sem enginn hafði séð. Barnið datt niður í svarta sprunguna. Foreldrarnir æptu upp yfir sig og hentust upp. Þau ruku til og reyndu að átta sig á aðstæðum, hversu langt væri í barnið, hvort það væri sýnilegt, hvort það væri kannski horfið algerlega í svart gímaldið. En þeim fannst samt þau heyra eitthvað í barninu. Gjáin var mjó og engin leið fyrir fólkið að komast niður til að leita eða senda annað barn í óvissuna. Kannski væri þarna stór og djúp gjá.

Hver getur hjálpað?
Í slíkum aðstæðum verður ráðleysið lamandi. Bjargarleysi mannsins verður algert. “Elsku barnið mitt!” Guð minn góður.” Og spurningarnar þyrlast upp: Hver getur hjálpað? Hver getur farið niður? Þau skulfu af hræðslu og voru sem örend. Uppnámið var algert. “Hvað er hægt að gera? Guð minn, góður.”

Fjölmenni var á Þingvöllum þennan dag. Alls staðar var fólk og strax bárust fréttir til landvarða, upp í þjónustumiðstöð og heim í Þingvallabæ. Í landvarðahópnum var fólk, sem hafði æft klettasig, kunni því til verka og hafði búnað til reiðu. Stuttri stund eftir að barnið hafði hrapað var kominn björgunarhópur á vettvang, sem reyndi að hugga fjölskylduna, verkaði mosa frá sprungunni og undirbjó aðgerðir.

Grannur og bjartleitur maður fór niður. Það stríkkaði á línum, og hópurinn fylgdist með ferðum hans. Ekki leið á löngu þar til dómur hans hljómaði. “Ekki vera hrædd, barnið er hérna og á lífi.” Svo náði hann að losa barnið, sem var skorðað í sprungunni, náði að draga það til sín og síðan hjálpuðust allir við að koma þeim upp.

Björgunarmaðurinn rétti hnokkann upp og móðir og faðir gripu fast og æptu upp yfir sig. Þá féllu gleðitár. Dauðinn kom ekki, en lífið lifði. Barnið lifði af för í grjót dauðans. En sú hvelfing sleppti, upprisan varð.

Maríuför
Það voru Maríur, sem héldu út að gröfinni, María Magdalena og svo önnur María, líklega frænka Jesú. Þær höfðu misst allt, vin og von. Eftir svefnlitla nótt héldu þær út til grafarinnar með ilsmyrslin sín, til að smyrja hinn látna hinstu smurningu.  Bökin voru bogin, harmur var í hjarta. Hver mun velta steininum frá gröfinni?

Þessar konur voru í ómögulegum erindagerðum. Hann var dáinn, sem þær höfðu virt mest og elskað. Bestu vinir hans voru allir flúnir. Þær voru þær einu, sem þorðu að halda til grafarinnar og sýndu þar með að þær voru í félagsskap með dæmdum manni. Fyrir líkstæðinu var margra manna tak. Og varðmenn rómverska hersins og musterisþjónar æðsta prestsins héldu öllum burt.

Undrið varð, bjargið var frá. Konurnar áttu greiða leið. Þær urðu fyrir sýn og heyrðu hin undarlegu orð: “Hví leitið þér hins lifandi meðal hinna dauðu? Hann er ekki hér, hann er upprisinn. Þær leituðu að dauðum en fengu lífsboðskap.”

Það var undursamlegt að horfa á barnafjölskylduna á Þingvöllum þegar barnið var heimt úr helju. Gleði þeirra var alger. Ég hef síðan getað skilið Maríurnar við gröfina, þegar þær fengur lífsfréttirnar.

Leikur og fall
Hvernig er líf okkar? Við erum á lífsferð okkar, hvort sem það er í fjölskyldubíltúrum, vinnuverkum, uppeldisstörfum eða búðarrölti. Það eru okkar mosaþembur og lífshraun. En svo breytist kannski allt: Maki þinn er kannski kominn með ólæknandi mein; vinur þinn, sem hefur alltaf verið þér traustur hefur skyndilega svikið þig; fjárfestingin sem virtist svo trygg hefur orðið að engu og spariféð þitt farið; uppáskriftirnar þínar. sem áttu bara að vera til málamynda hafa gert þig gjaldþrota; starfið þitt er lagt niður og þú stendur allt í einu atvinnulaus. Þú og þínir fallið í djúp, í myrkur, niður í gjá hryllings og skelfingar.

Þar er Guð
Þetta er að upplifa lífsins langa föstudag og hrapa í gjá myrkursins. Hvar er Guð þá? En ein af djúpvíddum kristindómsins er boðskapurinn um, að einmitt þar hefur Guð verið - þar er Guð. Guð hefur upplifað hinstu skelfingu, gengið í gegnum mennska þjáningu, liðið kvöl. Guð er þar sem maðurinn þjáist, Guð stendur við hlið þér, heldur um þig þegar þú ert að falla, strýkur þér um vangann þegar þú grætur, huggar þig þegar þú hryggist. Guð er þér nærri.

 NeskirkjuKonurnar hittu undarlega veru í tómri gröf. “Leitið þið hins lifandi meðal hinna dauðu.” Þegar vinir hverfa, börnin deyja, þegar náttúran bifast, glaðvaknar sálin og leitar að friðarhöfn á ný. Engillinn spyr: „Leitar þú hins lifandi meðal hinna dauðu.“ Þessi spurning safnar öllu okkar amstri og sókn saman í einn stað. Er líf okkar, strit, vinna, puð okkar leit meðal þess, sem ekki lifir?

Lífið
Þetta er páskaboðskapurinn: Guð er ekki meðal hinna látnu, heldur lífið sjálft. Hann kallar menn fram í ljósið á ný. Hvað er okkar akkeri, hverjar eru okkar áhyggjur, hvar ber okkur niður í leit okkar? Viljum við fá vængi til að gleyma týndu föðurlandi? - eins og Davíð Stefánsson orðaði það. Viljum við hverfa í dá gleymskunnar? Eða viljum við fara með konunum út að gröfinni á páskadag til að verða vitni að því að lífið lifir og við megum lifa.

Páskaboðskapurinn er boðskapur fyrir alla daga. Á hverjum degi vaknar þú og byrjar nýjan dag, verður vitni að sífelldri sköpun og framrás lífsins. Tekur þú eftir því, tekur þú þátt í páskum hversdagsins? Ekkert er svo illt, ekkert svo vonlaust að þar sé ekki von. Boðskapurinn um hina tómu gröf, um að Jesús sé ekki lengur í dauðagrjótinu er boðskapur um að aldrei sé allt búið. Barnið má lifa, þú mátt rísa upp úr kröm þinni og depurð. Guð er nærri.

Páskaboðskaparinn er ekki bara um að lífið heldur áfram eftir dauðann, heldur að eyðilagt líf í þessum heimi verður endurreist og heilt að nýju. Páskar eru ekki um, að okkur verði bara hjálpað til að lifa eilíflega í framtíð, hinum megin við gjá og grjót, heldur að okkur verði líka hjálpað til að lifa vel nú - í þessu lífi.

Í boðskapnum um upprisinn Jesú er fólgið hið stóra já gagnvart allri veröldinni. Vegna þess jáyrðis er sagt já við okkur í öllum okkar aðstæðum. Þær geta auðvitað verið slæmar og hörmulegar en þar er Guð til hjálpar og styrktar. Hvað viljum við með okkar líf? Leit í lífsgrjóti eða þátttöku í lífsdansi veraldar á páskamorgni.

Kristur er upprisinn. - Kristur er sannarlega upprisinn.

Amen.

Prédikun í Neskirkju á páskadagsmorgni 8. apríl, 2007.

Lexía Sálm. 118. 14 -24
Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis. Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki, hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki. Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins. Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum. Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin. Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það. Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði. Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini. Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.

Pistill 1. Kor. 15. 1-8
Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í. Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið. Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. En síðast allra birtist hann einnig mér.

Guðspjall Matt 28.1-8
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann. Þetta hef ég sagt yður. Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3465.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar