Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Upprisulíkaminn

8. apríl 2007

Lifandi Drottinn,
með upprisu Sonar þíns
hefur þú tekið allan mátt frá dauðanum,
og lætur kunngjöra öllum heimi fagnaðarboðskapinn
um hjálpræðið í Jesú Kristi.
Sendu okkur styrk og kraft trúarinnar og sigra efann.
Leyfðu okkur öllum að taka með fögnuði
undir lofsöng páskanna,með öllum þeim
sem bera vitni um að Kristur er risinn upp frá dauðum
og lifir og ríkir að eilífu. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: Heilar þið! En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Mt.28.8-9

Gleðilega páskahátíð, kæri söfnuður Þingvallakirkju.

Páskahátíðahaldið í þessari kirkju er undursamlegt, það vottar sá sem hér stendur og hefur víða verið.
Hinn trúfasti söfnuður þessarar kirkju hefur tvær víddir, hina innri og hina ytri. Hin innri er hinn landfræðilegi söfnuður sem stendur á gömlum merg kynslóðanna hér við vatnið, en hinn ytri er þjóðin öll, íslendingar erlendis og fólk úr fjarlægum löndum sem elskar þetta land, eða byrjaði að elska í þessu landi og kemur hingað aftur til að láta gefa sig saman í hjónaband hér.
Allt er þetta fólk sem Kristur kallar. Hann sem er hinn upprisni Drottinn sinnar kirkju um alla jörð. Þingvallakirkja er með sérstökum hætti tákn kristindómsins í þessu landi, en hún er í vaxandi mæli tákn kristindómsins í heiminum öllum.
Mynd Þingvalla sem heiminum er gefin er af landslagi og náttúruundri á heimsminjaskrá. Kennimark Þingvalla í heiminum er Þingvallakirkja og Þingvallabær.
Myndin af Þingvöllum er vitnisburður um Krist hinn krossfesta og upprisna.
En það er ástæða til að spyrja : Hversu lengi?
Maður spyr sig sérstaklega ákveðið hvert sinn og gengið er til kosninga í þessu landi, þó svo að enginn þeirra flokka sem bjóða sig fram til alþingis nú hafi á stefnuskrá beinlínis að vinna gegn kristninni eða hefta störf þjóðkirkjunnar.
Nú taka ný lög um Þingvallakirkju gildi 1. júní næstkomandi. Þá verður þessi kirkja eign íslenska ríkisins og að fullu á framfæri þess líkt og Bessastaðakrikja og Dómkirkjan á Hólum.
Munum við mega messa hér, hver svo sem heldur um stjórnvölinn? Eða verður þessari kirkju lokað, eða hún fjarlægð á komandi árum, með stjórnvaldsaðgerð?
Hér hefur Kristur verið heimilisfastur í þúsund ár. Munu þau þúsund ár sem við syngjum um í þjóðsöngnum, brátt á enda? Mun brot á lögum um þjóðsönginn sem enginn virðist enn hafa kært, vera til tákns um að boðskapur hans sé líka á enda? Munum við syngja söng Spaugstofunnar í framtíðinni eða lamennt líta svo á að þjóðsöngur sé spaug, og fáninn notaður í sundföt?

Kæri söfnuður. Við skulum hafa áhyggjur af þessari kirkju, þó við höfum ekki áhyggjur um neitt annað og alls ekki um kirkju Krists í heiminum, eða hjálpræðisverk hans sjálfs.
Við skulum hafa áhyggjur af því hvernig við stöndum okkur í því að styðja hana og starfa á akri kristninnar.

Kristur hefur fengið í hendur lykla heljar til þess að leysa börn dauðans og hann hefur lykla himins til opna hann börnum fyrirgefningarinnar.
Kristur er upprisinn. Hann kemur með lífið þangað sem ekkert líf er, eða það er skrumskælt, heft eða lamað. Hann kemur þangað með okkar höndum og okkar huga.

Sannarlega er Kristur í miðju allra þeirra atburða sem við sjáum gerast fyrir innri augunum þessa nýliðnu bænadaga.
Hann kallar sitt nánasta samstarfsfólk saman til síðustu máltíðar og gefur henni nýtt innihald sem tryggir endurnýjun samfélags lærisveinanna við hann og gerir æ síðan. Hann heldur þaðan út í grasgarðinn til sinnar síðustu baráttu við sjálfan sig, og þegar þar er sigur unninn, koma þeir og taka hann höndum.
Og þeir beita hann öllu því harðræði sem þeir þekkja uns þeir leiða hann út til krossfestingar. Hann ber synd heimsins með sér upp á tréð. Þar hangir hann, hinn líðandi þjónn og allar spurningar um það hvort hann hefði þurft að líða þetta verða hljómlitlar, af því að þar lét hann líf sitt, var tekinn niður af krossinum lífvana líkami og lagður í gröf.
Og nú er hann upprisinn.
Sannarlega er hann í miðju þessa alls. Hann er frelsarinn. Hann er Drottinn. Og hann gerði þetta allt vegna elsku sinnar til okkar barna sinna. Amen.

• • •

Hvað svo?

Ja, það var til dæmis ekki þannig að hann væri bara ráðinn í vinnu til að sinna þessu verkefni svo að enginn þyrfti að hafa áhyggjur af því. Rétt eins og ég hefði ráðið mér fjósamann til að sjá um búreksturinn, og sæti svo bara inni og tæki á móti arðinum, reykti vindla og teldi peninga.

Það voru einhverjir að láta sig hafa ömun af því að formaður félagsins Vantrú væri að spila bingó á föstudaginn langa á Austurvell.
Hann er þó að minnsta kosti yfirlýstur trúleysingi. Bingóið er þarna inni í lagatextanum samkvæmt þeim skilningi löggjafans að það sé fjárhættuspil, sem það auðvitað er, þótt það sé meinlausara en margt annað. Þó að það sé sjálfsagt barn síns tíma, ber okkur samt að fara eftir lögunum. Á því er enginn afsláttur veittur.

En voru það ekki að meirihluta kristnir menn sem héldu rokktónleika á Ísafirði á sama tíma á föstudaginn langa, sem stóð alla leið inn í páskanóttina?

Hvaða vitleysa er þetta?
Föstudagurinn langi er auðvitað ekki til nema sem trúarleg upplifun þeirra sem trúa, rétt eins og upprisuhátiðin. Enginn iðkar þá trú sem hann hefur ekki.

Hvað er kristindómur? Kristur sjálfur á gangi í söfnuðinum, segir píslarvotturinn Dietrich Bonhoeffer, hengdur af nasistum þegar stríðið var tapað.

Kristindómurinn snýst ekki um neitt annað en að fylgja Kristi. Upprisukrafturinn sem brýtur dauðann á bak aftur og Jesús Kristur gefur þeim sem trúa, er ekki bara áhrifavaldur á dauðastundu minni, leiðin sem ég fer með honum gegnum dauðans göng inn í ríki hans, ef hann hleypir mér þangað; upprisuaugnablikið á mótum lífs og dauða er bara einn lítill hluti.
Aðalhlutinn er lífið sjálft, sérhver dagur sem ég fæ að vinna undir merkjum hans sem hluti líkama hans á jörðu. Upprisulíkaminn er hann sem þeir sáu sem þekktu Jesú Krist, hann sem gekk um eftir upprisuna, talaði til þeirra, grillaði með þeim og kvaddi svo á uppstigningardag og fór til himna, Jesús sjálfur, lifandi gjörður að nýju eftir dauðann á krossinum.
En upprisulíkaminn er líka söfnuðurinn, kirkja hans, greinarnar á vínviðnum, vínviðnum eina, það er söfnuðurinn sem starfar fyrir hann og í honum.

Á morgun verður Björn Björnsson prófessor sjötugur. Nú er hann orðinn einn af öldungum kirkjunnar,. Hann sem fyrir svo skömmu var einn af helstu unglingum hennar.

Hann er sannkallaður kennari kirkjunnar. Björn þreyttist aldrei á að hamra á þessu, í tíma og ótíma: Upprisukrafturinn er lífskraftur kirkjunnar til þess að gjöra fagnaðarerindið. Verðið ekki aðeins heyrendur, heldur gjörendur.

Kristur er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn. Hann hefur leitt í ljós líf og ódauðleika. Og.
Hann hefur kallað okkur til fylgdar við sig. Lifendur. Til að glíma við dauðann. Og sigra hann, með upprisukraftinum hans, sigra dauðann í öllum myndum hans, alla daga sem við megum lifa á jörðu, í skírnarnáðinni, sem er fangamark Krists og upprisu hans.

Kristur er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3074.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar