Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigurður Grétar Sigurðsson

Kaflar

8. apríl 2007

Eitt sinn sátu þrír aldraðir menn á bekk í garðinum fyrir utan elliheimilið sitt. Sá níræði dregur djúpt andann og segir: Mér líður eins og sextugum manni. Sá nítíu og fimm ára gerir slíkt hið sama og segir: Ummm, mér líður eins og ég sé fimmtugur. Sá hundrað ára dregur andann djúpt og lengi og segir eftir dálitla stund: Mér líður eins og ég sé nýfæddur. Sköllóttur og tannlaus.

Ekki ætla ég að reyna að lesa út úr brandaranum hverjum þessara heiðursmanna leið best en þeir áttu það sammerkt að finnast þeir yngri en þeir voru.

Við getum skipt lífi okkar í kafla. Þeir kaflar geta verið mislangir og hafa mismunandi innihald hjá okkur öllum. Árin eru s.s. jafnlöng skv. dagatalinu og við bætum einu við á hverju ári en tímabilin geta að öðru leiti verið mismunandi. Æska, unglingaár, námstími, tímabundin störf, barneignir, uppeldi barna, uppeldi unglinga, fullorðinsár, atvinna til lengri tíma, efri ár, gleðitímar, sorgartímar, góð heilsa, slæm heilsa. Hjá mörgum ganga þessi tímabil nokkuð greiðlega fyrir en hjá öðrum getur leiðin verið þyrnum stráð.

Þegar við íhugum ævi Jesú þá getum við einnig skipt henni í nokkur tímabil þó Biblían birti okkur auðvitað ekki mynd nema frá tilteknum árum í lífi Krists. Við þekkjum mynd fæðingarinnar, við fáum innsýn inn í líf hans við 12 ára aldur en einkum fjallar Biblían um síðustu þrjú árin í ævi Jesú. Þegar guðspjöllin eru lesin með tilliti til þess sjáum við svo að þessum þremur árum er gert mishátt undir höfði og segja má að síðasta vikan í ævi Jesú fái hlutfallslega mesta umfjöllun í guðspjöllunum.

Jesús predikaði Guðs ríki, boðaði ástand þar sem vilji Guðs næði fram að ganga í lífi mannanna. Á mörgum stöðum ber á skilningsleysi fylgjenda hans þó þeir hafi hrifist af boðskap hans. Jesús snart virkilega við hjörtum þeirra og trúfestin flestra var algjör þrátt fyrir mannlegan breyskleika. Það er erfitt að setja sig í spor þeirra við atburði síðustu daga, handtökuna, niðurlæginguna og krossfestinguna, hvað þá upprisuna. Hvernig ætli það hafi verið að verða vitni að þessu öllu saman, að horfast í augu við smánina og ósigurinn einn daginn en verða svo vitni að einhverju mesta undri sem veröldin hefur litið. Upprisu Jesú Krists frá dauðum. Þess vegna erum við hér. Þess vegna fögnum við í hjörtum okkar og lofum Drottinn í söng og bæn. Sigur lífsins yfir dauðanum, sigur hins góða, fagra og fullkomna. Þessi staðreynd ein og sér hefur gefið mannkyni hugrekki og þrek gegnum allar aldir til að leitast við að bæta aðstæður sínar, snúa vörn í sókn, rísa upp úr öldudal og hafa trú á hinu góða þrátt fyrir skugga myrkurs.
Hvernig ætli heimurinn væri ef engin Guð væri til? Það er auðvitað ómögulegt að svara þessari spurningu til hlýtar. Helsti samanburður okkar eru þó þeir vitnisburðir sem berast frá kristniboðsakarinum þar sem menn eru að heyra um frelsarann í fyrsta sinn. Hvaða vitnisburði fáum við þaðan? Jú, oftast á þá leið að þar ríki djúpstæður ótti og andlegt fangelsi þar sem fólk á öllum aldri er þjakað af óöryggi og meðvirkni og stór hluti lífsins snýst um að reyna að blíðka einhverja vonda anda, eitthvað sem tipla þarf í kringum svo eitthvað hræðilegt gerist ekki. Hvort sem slíkir vondir andar eru raunverulegir eða ekki er það ljóst að þessi ótti markar djúp spor í líf þessa fólks og hefur víðtæk áhrif á allt daglegt líf. Slíkur ótti rekur marga út í það að fórna sínum eigin börnum eða fórna lífsbjörg sinni með öðrum hætti. Þegar boðskapurinn um Jesú, hinn lifandi og upprisna frelsara, nær eyrum þessara bræða okkar og systra þá gerast undur. Þá er eins og fjötrar fortíðar og hlekkir helsis hrökkvi af fólkinu og það eignast raunverulega nýtt líf, nýja von, nýja sýn á lífið. Mannskilningur breytist, lífsviljinn breytist, ýmsir hversdagslegir þættir breytast til hins betra. Þetta er ekki einhver óttastjórnun eða hræðsluáróður, þetta eru raunverulegir vitnistburðir frá fólki eins og mér og þér.

Fyrir okkur er nánast lífsins ómögulegt að setja okkur í þeirra spor, en það má reyna.

Við höfum stundum velt fyrir okkur misgóðri kirkjusókn. Við þekkjum það hér í prestakallinu að stundum er helgihald mjög vel sótt, einkum þegar margir taka þátt, en stundum er helgihald lítið sótt þótt stundin sé nærandi. Það er s.s. hægt að velta þessu fyrir sér frá mörgum hliðum en einni hugsun langar mig að deila með ykkur. Ef við reynum að skoða þetta hlutlaust utanfrá þá gætum við alveg haldið fram þeirri kenningu að því ver sem almennt helgihald er sótt, þá á ég við helgihald þar sem ekkert sérstakt aðdráttarafl er, því betra er ástandið í samfélaginu. Og því má færa rök fyrir því að dræm kirkjusókn geti bara verið af hinu góða. Höfum við samanburðinn? Já. Þegar áföll dynja yfir, þá fyllast kirkjurnar. Þegar lífsjafnvæginu er ógnað, þá fyllast kirkjurnar. Um þetta höfum við mörg dæmi úr íslensku samfélagi hvort sem það er hér í prestakallinu eða víðar um land. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr því að kirkjur fyllist við áföll, heldur til að benda á að þegar hriktir í stoðum okkar þá vitum við að hjá Guði eigum við athvarf og í kirkjuna getum við komið til samfélags við aðra sem treysta því sama.

Þetta ættum við ekki nema vegna þess að við eigum lifandi og upprisinn frelsara sem við getum komið til fundar við hvenær sem er. Það er vegna hans að við getum komið fram með okkur sjálf, gleði okkar og sorgir, áhyggjur okkar og eftirvæntingu. Við tölum ekki við styttuna á altarinu, við tölum ekki við myndina fyrir ofan píanóið. Við tölum við Guð sjálfan. Tölum milliliðalaust við höfund lífsins og leitum svara og leiðbeiningar hans gegnum orð hans, sakramentin og samfélag trúaðra.

Oft líður okkur öðruvísi en okkur ætti að líða miðað við stöðu okkar líkt og gömlu mennirnir í brandaranum í upphafi. Stór hluti af þeirri líðan er afstaða okkar og viðhorf. Það skiptir miklu máli hvort við sjáum hlutina með jákvæðum augum eða neikvæðum. Einblínum við á vandamálin eða leitum við að lausnunum? Kristin trú leitast við að hjálpa okkur til að vera við sjálf, hjálpa okkur til að ávaxta hæfileika okkar og sætta okkur við takmarkanir okkar ef ekki er hægt að breyta þeim. Hvert aldursskeið hefur sinn sjarma, sína kosti og auðvitað sína galla líka. Þegar ég var 9 ára gamall var það ár kallað ár barnsins. Mér fannst það gott en ég vildi fá að keyra bíl. Mér fannst alveg tilvalið að á ári barnsins mættu börn aka bíl. Þar var mér þó settur stóllinn fyrir dyrnar. Ég naut hins vegar flestra þeirra kosta sem fólust í því að vera 9 ára gamalt barn. Ef ég verð 99 ára þá verður lífsreynsla mín orðin miklu meiri en 9 ára. Þarfir mínar aðrar og takmarkanir mínar einnig aðrar. Mestu skiptir með hvaða viðhorfi ég mæti þeim aðstæðum. Upprisa Krists hefur sent heiminum skilaboð um nýtt tækifæri, að alltaf sé von, að böl geti snúist til blessunar. Þetta hefur fólk reynt í gegnum allar aldir og haft frelsarann Jesú Krist að leiðtoga á því ferðalagi. Við höfum val. Jesús vill vera hluti af lífi okkar alla tíð, ekkert síður í gleði en sorg. Það er í okkar hendi að láta ávexti þess kærleikssambands breiðast út til náunga okkar í okkar daglega lífi hvar sem við erum stödd í því. Páskahátíðin er árleg áminning til okkar um tækifæri og von um betri tíð en einnig áminning um gleðilega skyldu okkar gagnvart hvert öðru.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2992.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar