Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Fyrirmyndin

26. apríl 2007

„Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.

Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans. Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.

Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir. Þér voruð sem villuráfandi sauðir, en nú hafið þér snúið yður til hans, sem er hirðir og biskup sálna yðar.“

Og:

„Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast þann dýrðarsveig, sem aldrei fölnar.“ 1.Pét.2.21-25 og 5. 2-4

Þannig skrifar presturinn, Símon Pétur. Vegur Símonar Péturs til prestsþjónustunnar hafði verið óvenjulegur. Fyrr meir var hann fiskimaður. Hraustur, sterkur, dáðadrengur, pottþéttur, en líka skjótráður, örgeðja, ístöðulaus. Fyrstur að bregðast við, votta hollustu, játa trúna. Fyrstur að áminna, ávíta Drottin, þegar honum fannst nóg komið, þegar hann sagði fyrir um þjáningu sína og dauða: „Þetta skal aldrei fyrir þig koma!“ Djarfhuga greip hann til sverðsins í grasgarðinum. Huglaus missti hann kjarkinn og afneitaði Drottni á reynslustundinni við kolaeldinn. Almenningsálitið varð honum um megn á þeirri stundu. En Símon Pétur gat aldrei gleymt mynd Jesú, sem bar höfuðið hátt og gekk óhikað til móts við svik og háð og dauða. Hetjan háa hvarf aldrei úr huga hans. En framar öllu var það mildin og miskunnsemin sem fangaði huga Péturs og sál. Augnaráð hans í hallargarðinum, þegar Símon hafði svikið og lifði sína sárustu, skelfilegustu stund. Og haninn gól. Og þá leit Jesús til hans.

Jesús þekkti Símon Pétur. Á honum vildi hann byggja kirkju sína. Jesús veit hvað í húfi er, hvað Pétur getur verið óáreiðanlegur, huglaus, tvílráður. En Jesús blygðast sín ekki fyrir hann. Og þrátt fyrir allt vill hann byggja kirkju sína á honum og segir að hlið heljar munu ekki verða honum yfirsterkari. Og það minnir okkur á það hvað kirkjan er. Hún er ekki óskeikul, hún er á tíðum huglítil og ráðalaus og gerir skelfileg mistök, eins og Pétur. En hún játar Krist. Og Kristur blygðast sín ekki fyrir hana. Jesús valdi Pétur, og velur enn kirkjuna sína og játningu hennar. Og sú játning stendur óhögguð gegn hliðum heljar og öllu því sem ógnar og hræðir.

Í bréfi Símonar Péturs – og sem er pistill síðast liðins sunnudags, segir hann: „Kristur lét yður eftir fyrirmynd til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ „Fyrirmynd“ hlýtur að hafa leitt huga hans að páskadegi, og undanfarandi dægrum, stundum svika og afneitunar …

Það er á þeim örlagadögum og ögurstundum sem tvær þvottaskálar, tvö vaskaföt standa frammi í miðdepli framvindu örlagasímunnar. Hinn ákærði Jesús stóð bundinn frammi fyrir landsdómaranum, Pílatusi, og Pílatus sagði: „Ég þvæ hendur mínar!“ Það merkir: „Ég ber enga ábyrgð á þessu!“ Nokkrum tímum áður hafði Jesús kropið á knén frammi fyrir lærisveinum sínum, líka þeim Símoni Pétri, og Tómasi, já, og Júdasi, og þeim hinum öllum – til að vinna hið allra lítilmótlegasta ambáttar hlutverk, að þvo fætur þeirra. Í senn var það tákn og raunveruleiki. „Leyfið mér að þvo fætur ykkar!“ Sagði hann og dýfði höndum sínum í vaskafatið. Algjör andstæða þess sem landstjórinn gerði, þegar hann þvoði hendur sínar, og það sagði: „ég ber enga ábyrgð á þessu!“ Nei, Jesús dýfði höndum sínum í þvottaskálina og þvoði rykuga, óhreina fætur lærisveinanna og sagði: „Ég vil axla ábyrgðina fyrir ykkur, taka á mig alla ykkar synd og mein. Látið mig ganga inn í allt það sem ykkar er.“ Og: „Ég hef gefið yður eftirdæmi.“

Orðin af munni Pílatusar eiga sér óskoraðan þegnrétt í daglegu máli: „Ég þvæ hendur mínar…! “ það er ég hef gert mitt.. ég ber enga ábyrgð á þessu.

En vegna hins þvottafatsins, þessa sem stóð á gólfinu nóttina löngu sem hann svikinn var, og meistarinn þurfti að krjúpa á kné með erfiðismunum, til að dýfa höndum sínum í, þá er sagan ekki öll, öllu heldur lýkst upp önnur saga sem við fáum að ganga inn í. Fagnaðarerindið, eftirfylgdin við Krist. Það lýkur ekki aðeins upp nýrri framtíð. Heldur nýrri fortíð. Fyrirgefning syndanna nefnist það. Og það er ekki réttur eins eða neins og enginn getur krafist hennar af öðrum. Heldur gjöf. Náðargjöf.
Pétur hugsar líka til morgunstundarinnar á ströndinni. Þegar Jesús spurði hann: „Elskar þú mig?“ Spurningar sem reisa hann við eftir ósigra og hrun.

„Gæt þú lamba minna!“ „Ver hirðir sauða minna.“„Gæt þú sauða minna!“ Hafði Kristur sagt. Og: „Fylg þú mér!“ Tökum eftir þessu: jafnvel eftir að Pétur hefur verið kallaður, frátekinn, sendur til að vera hirðir hjarðarinnar, kallar Jesús hann til að fylgja sér. Það minnir okkur á, að leiðtogar og hirðar kirkjunnar hafa ekki einkarétt á því hvað það merkir að elska Guð – öðru nær, og þeir eru ekki undanþegnir því að þurfa að byrja upp á nýtt.

Og nú gildir ekki aðeins þetta sem sálmurinn yndislegi segir: „Þú býr mér borð frammi fyrir féndum mínum…“ Nei, nú býr Drottinn borð fjéndum sínum, þeim sem hafa hætt hann og afneitað, fyrir Símoni og öllum öðrum svikulum og breyskum mönnum. Og með þau skilaboð er Símon sendur.. og þú og við öll sem orðið „kirkja“ umlykur, erum send með.

Pétur komst aldrei undan minningunni um þvottafatið, sem Jesús bar á milli þeirra, lærisveina sinna, og lagði á gólfið fyrir framan þá, kraup svo niður og þvoði rykuga fætur þeirra og þerraði síðan með umhyggju og ástúð.

En það er enn eitt þvottafatið og sem markar upphaf samfylgdar þinnar með Kristi. Með honum sem hefur verið að kalla á þig allt frá móðurlífi, og nefna þig allt frá móðurskauti. Um það vitnar skírnin þín, þegar hendi var difið í vatn og því ausið yfir höfuð þitt og nafn þitt var nefnt og tengt nafni þríena Guðs, þá vígði Jesús Kristur þig til fylgdar við sig í þeim veruleika þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp: Hirð þú sauði mína. Gæt þú lamba minna. Fylg þú mér! Gleymdu því ekki!
Það var þessi Jesús, hirðirinn góði, þessi fyrirmynd, sem Móðir Teresa hafði fyrir augum þegar hún var boðin að flytja fyrirlestur á stórri alþjóðlegri ráðstefnu leiðtoga fjármálaheimsins. Smávaxinn í snjáða sarínum sínum gekk gamla konan upp á sviðið í glæstri ráðstefnuhöllinni. Hún gekk að ræðupúltinu, en eins og sá sig um hönd og gekk að brún senunnar og stóð þar drykklanga stund með spenntar greipar, eins og í bæn. Svo leit hún upp og horfði á þessi hundruð háu herra og sagði: „Sérðu samstarfsmenn þína? “ Svo þagði hún aftur litla stund og bætti svo við: „Elskarðu þá?“ Svo gekk hún út.

Þetta var fyrirlesturinn hennar, og að því að sagt er, sá eini sem menn mundu æ síðan. „Til þess eruð þér kölluð … til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2962.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar