Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigríður Guðmarsdóttir

Ástin sem lifir dauðann

4. apríl 2007

Síon segir: Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér! Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína. (Jesaja 49:14-16a)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Undir norðurljósum

og stjörnuhimni
sit ég við vatnið
sem merlar í mánaskininu
og hlusta á jörðina.
Vindurinn sem þýtur í greinum trjánna hvíslar í eyra mér:
Hlustaðu, hlustaðu
hlustaðu á hjarta þitt
sem slær í takt við jörðina.
Og ég nem boðskap hjarta míns.
Ást sem er einlæg
ást sem er umhyggjusöm
ást sem gefur
og þiggur án skilyrða
er ástin sem lifir dauðann.

Þannig hljóðar ljóð Rutar Gunnarsdóttur “Ást sem lifir dauðann.” Þetta ljóð er mér ofarlega í huga nú þegar við stöndum við upphaf dymbilviku og horfum fram til atburða hennar. Við horfum fram til atburða sem allir hníga til vonar um ástina sem lifir dauðann. Og þessar myndir um ferðalag Jesú Krists inn í Jerúsalem, um konuna sem smurði hann dýrum smyrslum í húsi Símonar hins líkþráa,myndir um kvöldmáltíð, pyntingu, dauða, greftrun og upprisu, tala allar einum rómi um líf, flókið líf, líf sem mætir ofbeldi, hatri og heigulshætti, líf sem seiglast og gefur og yljar. og er reist upp aftur af ástinni sem lifir dauðann.

Um slíkan kærleik tala myndir Biblíunnar til okkar í dag og næstu daga

þegar við hugsum um síðustu daga Jesú og veltum fyrir okkur því hatri og sundrung sem krossfestir mannlegt líf og einnig þeirri ást sem gerir mannlegt líf heilt og gott og þess vert að lifa því.

Vindurinn sem þýtur

í greinum trjánna hvíslar í eyra mér:

Hlustaðu, hlustaðu

hlustaðu á hjarta þitt

sem slær í takt við jörðina.

Og ég nem boðskap hjarta míns.

Á pálmasunnudag þegar við horfum fram til kyrruviku, erum við kölluð til að hlusta á hjartað sem slær í takt við jörðina. Hlusta á frásögur af grimmd og eyðingu, heyra dauða og líf kallast á, og leggja eyrun við ástinni sem lifir dauðann.

II.

Í gær horfði ég á mynd frá Suður-Afríku sem heitir Tsotsi. Hún segir frá unglingspilti með harðneskjulega andlitsdrætti, sem er foringi glæpagengis í einu af fátækrahverfum Jóhannesarborgar. Enginn þekkir nafn hans og hann er kallaður Tsotsi eða þrjóturinn. Einn dag myrðir glæpagengið mann og það fara að renna tvær grímur á einn meðlim klíkunnar. Hann talar við Tsotsi um mannlega reisn,“decency“ segir hann á þessu undarlega máli fátækrahverfisins, hvar er „decency“ að finna spyr hann og hver býr yfir henni. Hann spyr Tsotsi að nafni, hva’ hann heiti í alvörunni. Hann innir Tsotsi eftir því hvort honum hafi aldrei þótt vænt um neinn, móður, föður, hund.

Við þessar vangaveltur rís Tsotsi á fætur og lúber vin sinn svo að hann liggur alblóðugur eftir. Tsotsi leggur af stað í nýtt innbrota og afbrotaferðalag en uppsker ránsfeng sem hann hafði ekki vænst, lítið barn sem hann þarf að annast um. Þessi litli drengur hjálpar honum á leið aftur til mannlegrar reisnar, til að leita að þessu „decency“ sem að vinur hans í glæpagenginu talaði um.

Tsotsi neyðir unga móður til að gefa drengnum brjóst og meðan hann situr yfr henni með byssuna í hendinni og horfir á hana gefa drengnum að drekka þá minnist hann móður sinnar og annarra þeirra sem nærðu og glöddu hann fyrir löngu áður en lífið varð of hart.

Þrjóturinn, þjófurinn og morðinginn Tsotsi kynnist ástinni, ástin sem hlær framan í hann sem lítið barn, ástinni sem drekkur, gefur brjóst, baðar og nýtur alls þessa, eins og móðir og barn. Hann kynnist ást sem er varnarlaus og smá en er þó öllu öðru yfirsterkari.

Það er ástin, ástin sem lifir dauðann, sem kallar hann til mennsku, til smávegis „decency“ í harðneskjunni miðri, ást sem kallar hann út úr öllum þeim dauða og gleymsku sem líf hans er markað.

III.

Þessi taktfasti hjartsláttur móðurlegrar næringar kallar einnig til okkar í fyrri ritningarlestri dagsins. Þar segir Jesaja spámaður að mæðrum sé ekki gjarnt að gleyma brjóstbörnum sínum.

Þar lætur skáldið Drottin setja sig í spor mæðranna.

Síon segir: Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!

Og Drottinn svarar:

Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu,

að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?

Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.

Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína.

Guð sem móðir kallar til okkar frá frásögum hins Gamla og Nýja testamentis. Við heyrum af kærleiksverkum, af ævarandi elsku Guðs sem skapar og nærir, eins og kona þekkir brjóstbarn sitt, sem fyrirgefur og gefur kost á nýju lífi þar sem hið fyrra er farið. Við heyrum þetta sköpunar og umönnunarstef í atburðum í lífi Jesú, Jesú sem mettar fjöldann, tekur börnin til sín, Jesú sem snertir og læknar, annast um hin útskúfuðu og sýnir þeim athygli,Jesú sem elskar. Guð sem hefur rist okkur í lófa sína og gleymir okkur ekki.

Elska Guðs er ekki útreiknanleg og verður ekki felld í kerfi. Hún brýst í gegnum þau kerfi þar sem hver uppsker það sem hann sáir. Hún heldur áfram að gróa og vaxa og hlusta þrátt fyrir þá harðneskju sem við gjarnan sáum í kringum okkur.

Og þegar við horfum inn í slíka elsku sem sér okkur sem brjóstbörn sín þar sem aðrir þekktu þrjóta, úrhrök og ómögulegt fólk, þar sem við áður hlóðum upp skrípamyndum og staðalímyndum, þá vitum við hvað „decency“ er sem Tsotsi fékk að reyna, þá sjáum við djúp mannlegrar sálar, sjáum við einstakt líf. Þegar við hlustum á raddir elskunnar sem tala til okkar frá síðum Biblíunnar þá opnast upp fyrir okkur víðáttur ástarinnar sem lifir dauðann.

IV.

Guðspjall dagsins greinir frá því þegar Jesús var gestkomandi í húsi einu í Jerúsalem skömmu fyrir páska. Hann hefur eflaust legið til borðs eins og gjarnan var siður á hans tíma og í hans heimshluta. Til veislunnar kemur kona,sem ber með sér buðk einn mikinn úr alabastri og buðkinum eru hin dýrlegustu smyrsl. Samkvæmt guðspjalli Markúsar braut konan stútinn af flöskunni og hellti öllu innihaldinu yfir höfuð Jesú, ekki einum dropa, ekki tveimur, heldur öllu innihaldi ílátsins.

Við vitum ekki hver konan var samkvæmt Markúsi er hún nafnlaus eins og Tsotsi. Kannski var hún syndug kona, eins og guðspjall Lúkasar tjáir. Kannski var þetta María systir Lazarusar, sem Jesús hafði reist frá dauðum, eins og Jóhannesarguðspjall segir okkur. Kannski var þetta kona sem á einhvern hátt tengdist Símoni hinum líkþráa sem átti húsið þar sem Jesús var, en er hvergi getið í guðpjallinu að öðru leyti.

Við vitum ekki hver konan var eða af hvaða hvötum hún ákvað að fórna öllum þessum dýru smyrslum á eitt höfuð. En það er ekki erfitt að ímynda sér að gjörð hennar hafi vakið mikla athygli. Öll þessi dýru nardussmyrsl hljóta að hafa fyllt herbergið af undursamlegri angan og Jesús var smurður eins og konungur, eins og spámennirnir Samúel og Elísa höfðu forðum smurt konunga Ísraels. Rétt eins og að hann reið inn í Jerúsalemborg eins og konungur á pálmasunnudaginn var Jesús smurður nardussmyrslum í húsi Símons. En þessi konungur sem hélt innreið sína og var smurður að fornum konungasið hlaut ekki tign sína til valds og virðingar. Hann var smurður til dauða, til kærleiksverks,sem fáir gátu skilið eða meðtekið. Hann var smurður til þjónustu sem hann var tilbúinn til að fórna öllu fyrir til þess að við mættum þekkja kærleika og öðlast frið og fyrirgefningu á föstudaginn langa og eilíft líf á upprisudaginn.

Konan í sögunni gengur fram og vinnur sitt kærleiksverk fyrir Jesú. Hún skildi það sem hann þurfti að vinna og gera og fyrir þetta verk hlaut hún ekkert annað en skammir og ákúrur frá lærisveinunum og öðrum gestum í húsinu sem horfðu á hana í forundran. Jafnvel þeir sem höfðu fylgt meistaranum eftir í þrjú ár vissu ekki enn hvað framundan var eða hverju Jesús yrði að fórna til að vera samkvæmur sjálfum sér og þeim boðskap sem hann var sendur til að flytja. Jesús tók upp hanskann fyrir konuna. „Hvað eruð þið að angra hana“? spurði hann. Hann sagði að hún hefði unnið gott verk, því að hún hefði smurt líkama hans til greftrunar. Hann sagði að hvar sem fagnaðarerindið yrði prédikað þá yrði þessarar gjörðar minnst til minningar um hana.

Ég held að konan sem við þekkjum ekki hafi einhverja hugmynd um það sem framundan var. Hún hafði einhverja innsýn inn í þennan flókna trúarlega veruleika sem heldur saman hinu hræðilega og hinu undursamlega, sem gefst ekki upp þrátt fyrir andstreymið og horfir kvíðalaust framan í dauðann. Og þess vegna bar hún fram þessa gjöf sem var óskiljanleg þeim sem ekki þekktu og skildu spámannlega gjöf, gjöf sem gaf snertingu og skilning og djúpa höfgi af dýrustu smyrslum.

Ég leyfi mér að hugsa um að kannski hafi eimt eftir af þessum góðilmi í fötum Jesú í Getsemane, þegar þeir tóku hann höndum. Kannski greindi Jesús daufa angan af nardus í þjáningu sinni, góðilm úr hári sem stybban af blóði og ofbeldi gat ekki yfirgnæft að morgni langafrjádags. Hatursmenn Jesú gátu tekið frá honum vini hans frelsi hans fjör og fötin hans en minningu, mannlega reisn og keim af nardus hafa þeir ekki getað máð burt, minningu um gott verk um vináttu og kærleika.

Ástin gleymist ekki, frekar en kona gleymir brjóstbarni sínu og frekar en brjóstbarnið gleymir því að eitt sinn heyrði það hjartslátt og kynntist hlýju. Þetta er gjöf nardussmyrslanna gjöf sem er gefin af gnægð hjartans gjöf sem ýmsum þótti fáránleg gjöf sem er röklaus af þeirri ástæðu einni að elskan er grundvöllur allra raka og hún gengur aldrei upp í okkar útreikningum. Hún leitar út fyrir öll okkar plön leitar út fyrir þá mannþekkingu sem við þykjumst hafa aflað okkur. Sá góðilmur leitar okkur uppi og minnir okkur á Guð sem kallar Tsotsi Davíð því að það er það nafn sem móðir hans nefndi hann. Hún kallar okkur elskuð börn þótt við höfum fátt gert til að verðskulda þann titil.

Með orðum Rutar Gunnarsdóttur þá er ástin einlæg

ást sem er umhyggjusöm

ást sem gefur

og þiggur án skilyrða

er ástin sem lifir dauðann.

Hún býður okkur að metta, lækna og gera heilt, eins og Jesús gerði og gleyma því ekki að við erum brjóstbörn Drottins, sem Jesús var sendur til að frelsa. Og þess vegna sveiflum við pálmagreinum í dag og unum okkur við ilm og í skugga þeirra fögru plantna. “Engrar jurtar var skugginn yndislegri, betri og ljúfari,” því að Guð vill gefa okkur reisn og von og upprisu, „decency“ eins og Tsotsi fékk að reyna. Það er sá góðilmur sem Guð hefur gefið okkur sem veganesti út í dymbilvikuna að þessu sinni. Með þetta veganesti erum við send til þess að vinna gott verk eins og konan með buðkinn dýra og í anda hans sem dó fyrir okkur á krossi á föstudaginn. Við erum send til að verða með orðum Páls í síðari ritningarlestri dagsins:

góðilmur Krists fyrir Guði

meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast;

þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða,

en hinum ilmur af lífi til lífs.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnViðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 5258.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar