Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

Sjálfsmynd og réttlæti?

18. mars 2007

Þurfamaður ert þú mín sál,
þiggur af Drottni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið allt.
Fyrir það honum þakka skalt.
Amen.

Þannig biður Hallgrímur í þeim fyrsta passíusálmi, sem við sungum úr hér áðan og hann minnir sig í leiðinni á það, hverjum allt er og frá komið. Menn á Íslandi hafa gjarnan beðið svo fyrir máltíð sinni og minnt sig á það sama. Ég býst við að ég yrði betri maður, ef ég hefði oftar yfir þessa bæn, þegar ég geng að nægtaborði nútímans og ég held að við ættum að kenna hana fólkinu okkar rækilega, rétt eins og “Vertu guð faðir, faðir minn…” eða “Láttu Guðs hönd þig leiða hér …” eða “Bænin má aldrei bresta þig…” Já, það segi ég. Fátt fær mann betur til þess að staldra við og skyggnast um í eigin vitund, en þegar beðin er borðbæn. Það veit hver sá er það iðkar og hafi einhver séð hvernig borðbæn fer fram í sumarbúðum, þar sem eru mörg börn, misjafnlega fyrirferðamikil og ærslafull, þá verður þeim hinum sama ljóst hvers konar töfrasproti borðbænin er. Það þarf ótrúlega litla æfingu til þess að fá börn með til slíkrar athafnar, já, ekki síður ef hún er sungin.

En ef til vill er það mörgum fráhrindandi að nota orðalag Hallgríms. “Þurfamaður”! Enginn þurfamaður vil ég vera, segir hinn svellkaldi og vel menntaði nútímamaður. “Enginn hornkerling vil ég vera”, sagði Hallgerður langbrók, en mér finnst það hafa verið undir öðrum kringumstæðum og hún var þá í vörn gagnvart ófyrirleitni og ókurteisi nágrannakonu sinnar. Og maður á stundum rétt á því að verja sig kröftuglega. En sá, sem ekki vill vera þurfamaður, er sjálfsagt líka fram um það að vera sjálfbjarga, jafnvel meira en það. Til að sanna það sækist maðurinn eftir mannvirðingum og setur sig í samhengi við annað fólk. Svona er ég, svona er hún, svona er hann. Og þannig bregðum við málbandi persónuleikans á loft, og reyndar líka málbandi þjóðfélagsins (velmegunarinnar). Ég og þú. Ert þú þurfamaður? Er ég það?

Við heyrum líka aðra setningu, sem gengur eins og lasergeisli gegn um þjóðlífið, heilbrigðis- og menntakerfi og er til umfjöllunar linnulaust og ósjaldan á forsíðum bóka og blaða. Það er hin lævíslega spurning: “Hver er sjálfsmynd þín? Er hún góð? Eða er hún kannski heldur léleg?” Mannvirðing og sjálfsmynd eiga líklega í einhverju saman, þarf þó ekki að vera. Maður í góðri stöðu, þarf ekki að hafa góða sjálfsmynd og öfugt.

En við skulum ekki láta slíkar fullyrðingar og spurningar setja okkur úr jafnvægi. Við skulum setja okkur í samhengi við það, sem sagt er hér í dag á síðum heilagrar ritningar. Það vill nú svo vel til, að þeir, sem hafa messuskrána í höndunum, hafa textana fyrir augum sér. Þessa stórkostlegu texta dagsins í dag, sem er miðfasta. Fyrst er það sagan úr eyðimörkinni. Sú saga er náttúrlega þannig saman sett, að sá sem ekki kynnist henni, verður af einu mesta kjarnaatriði mannlífs og bókmenntaauðs. Hér segir frá því, þegar heil þjóð leggur út í eyðimörkina í þeirri von að finna sér bæði land og frið, finna sér skjól fyrir ágangi og yfirgangi og frelsi til að lifa lífinu óáreitt og örugg til að búa í haginn fyrir næstu kynslóð. Sú þjóð, sem ratar út í þessa eyðimörk og myrkur, á ekkert nema fullvissu leiðtoga síns um það, að þjóðin verði aldrei yfirgefin. Trú Ísraelsmanna byggðist á því, sem þeir sáu í Móse. Ekki af því að hann væri Guð, heldur af því að hann vitnaði um Guð. Og þeir fengu fullvissu sína sannreynda í því, sem gerðist á langri vegferð. Það var hvorki þrautalaust, né auðvelt, heldur bæði erfitt og kvíðafullt ferðalag. Í einföldu formi væri hægt að segja, að hér væri saga einstæðrar móður, sem leggur út í lífið og á ekkert, nema þá von, sem felst í tiltrúnni á forsjá Guðs. En hún er eini vitnisburðurinn, sem barnið hennar, eða börnin, hafa fyrir augum sér. Hún er leiðtogi og svo mikilvæg að þjóðin hennar (fjölskyldan) brotnar í mola, ef hún fær ekki staðist. Hún er Móse. Hann skalf stundum í hlutverki sínu, en hann treysti á Guð og þess vegna er hann fyrirmynd þess, sem fer fyrir og ber ábyrgð og leiðir í örugga höfn fyrir náð Drottins og mátt hans.

Niðurstaðan í þessari gömlu sögu er sú, að öllum var mælt svokallaðri “Gómer” mælingu til lífsviðurværis, sem og reyndist þeim nóg. Hlutverk Móse var það eitt að viðhalda voninni og treysta samstöðu og trú á tilgang og fyrirheit fararinnar. Launin voru fullnægjandi hverjum og einum og þjóðin komst á leiðarenda. Hér eru hlutirnar í mínum orðum vissulega einfaldaðir, en það er gert til þess að við missum ekki þráðinn, eins og maður gerir svo oft í löngum sögum og ekki síst í eigin lífssögu. Sannarlega voru Ísraelsmenn þurfamenn, en þeir höfðu nóg, þegar upp var staðið og réttlæti Guðs reyndist þeim óbrigðult. Hið andlega og hið veraldlega gengur hér saman í eitt. En mælistokkurinn er umhugsunarverður. Páll postuli vitnar í hann í 2. Kor. : Sá sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.” Ég ætla engum að ráða fram úr þessu miðað við bankainnistæður þjóðarinnar í dag, en aðferðin er óneitanlega umhugsunarverð. Ég geri ráð fyrir að þessi mælistokkur hafi eitthvað með daglegt líf að gera og réttlæti þjóðlífsins. En þar er erfitt að fást um, nema fyrir þá, sem setja lög og reglur. Um hvað vilja þeir vitna? En ef þessi mæliviðmiðun er, eins og mig grunar, fyrst og fremst mælistokkur, sem varðar umræðuna um hin hinstu rök, þá verður hún óhjákvæmilega þannig, að við getum engan veginn skotið okkur undan því að velta henni fyrir okkur og líta í þennan undarlega spegil. Og hvað verður þá um sjálfsmyndina?

Næsti texti er hvatning Páls postula til Filíppímanna, sem voru þrætubókarmenn og heimspekingar og fannst þeir ekki vera neinir þurfamenn á sviði mannlífsins. Hann skrifar bréfið í auðmýkt, enda er búið að koma honum í fangelsi fyrir það að boða nafn Drottins, en þó skrifar hann fyrst og fremst af djúpum kærleika og mikilli umhyggju fyrir þessu fólki, sem hann hafði kynnst og vildi leiðbeina og hjálpa til við að lægja öldur sundurlyndis og stéttaskiptingar. Lítið á textann Fil 2:1-5. Þetta er stórkostleg og yndisleg lesning og ég spyr: Eru þessi orð Páls hættuleg fyrir börn í skólum landsins? Fela þau í sér eitthvað, sem þarf að óttast? Eru þau þess eðlis að þau brjóti niður sjálfsmyndina eða auki á misvægi í þjóðfélaginu? Eru þau fallin til þess að afvegaleiða ungdóminn í landinu og gera hann andsnúin þjóðfélagslegri innsýn, samkennd og almennum siðrænum viðhorfum? Í ljósi þeirra undarlegu umræðna um þjóðkirkjuna að undanförnu og þá, sem vilja í einlægni láta gott af sér leiða í samstöðu við lögmáls- og siðfræðimið þjóðarinnar allrar í þúsund ár, þá hljótum við að velta þessum spurningum fyrir okkur, - og okkur er eiginlega nauðsynlegt að komast að niðurstöðu. Ég vona þó, að sú umhugsun og umræða, sem þarf að fara fram í því sambandi, taki mið af því sem Páll segir í niðurlagi þessara orða: “Verið með sama hugarfari og Kristur var”. Eða er það kannski líka hættulegt?

Hvert er hugarfar Krists? Við vitum hvað hann sagði og við vitum hvað hann gerði. Hann ítrekaði visku genginna kynslóða og sagði: ‘Elskið Guð og elskið náunga yðar eins og sjálfa yður.’ (Sbr. t.d. Lk. 10:27). Hann sagði líka: “Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.” (Mt. 7:12). Og hann fylgdi þessum orðum eftir í öllu lífi sínu. Hvergi er að finna neinn misbrest þar á. Hann var leiðtogi fólksins, sem hlustaði og vildi fylgja honum. Hann sópaði að sér fólki, - sem var þó stundum í fyrstu tortryggið gagnvart honum,- en það dróst að honum, af því að hann var sjálfum sér samkvæmur, algjörlega. Hann vitnaði um traust Guðs og gæsku hans. Hann læknaði í nafni hans. Hann benti á bresti í breytni manna og á bresti í útfærslu samfélagsins. En hann krafðist þess eins, að fylgismenn sínir auðsýndu kærleika. Páll segir þess vegna: “Verið með sama hugarfari og Kristur var.” (Fil 2:5).

En Jesús sagði líka meira: “Sá sem trúir, hefur eilíft líf.” “Ég er brauð lífsins. Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu (!)” (Jóh. 6). Það efast enginn um þá fullyrðingu. Ef hitt er satt, að hann sé “brauð lífsins” þá breytir það miklu. Og það breytti einmitt miklu. Það er ekki eins og það sé ný uppgötvun. Það er vitnisburður postulanna og þeirra kvenna, sem tóku að sér að vera forgöngumenn fagnaðarerindisins um upprisinn Drottinn. Þetta hefur með að gera spurningina um það, hvort til sé hreint réttlæti, annars vegar, og hins vegar, hvort til sé eilíft líf. Ég kref engan sagna hér í dag, en bið söfnuðinn aðeins að hugleiða, hvað það er, sem við sjálf vitnum um í þessu lífi. Eða er kannski betra að spyrja: hvers við leitum eða hvers við væntum í þessu lífi, - já, í lífsbaráttunni, í samanburðinum við aðra, í kvíðanum, í fátæktinni, já, eða í ríkidæminu, því slíkar spurningar eru þar eins og annars staðar. Sjálfsmyndin er sú mynd, sem við sjáum í speglinum, augum Guðs, en ekki á útgefnu hlutabréfi eða í stigatölu mannvirðinga. Og eigum við að halda áfram? Hvers væntum við þegar áföllin gerast, þegar sorgin grúfir sig yfir okkur og þegar við missum frá okkur þann sem er okkur kær? Hvers væntum við, þegar það eina, sem við þráum, kallar á fyrirgefningu, vegna einhverra misgjörða eða mistaka af okkar hálfu. Hverra spurninga spyrjum við þá?

Í öllum þessum ákafa skulum við þó ekki gleyma því, að spurningin varðar gleðina einnig. Er það ekki dæmigert fyrir mann eins og mig, að setja það síðast? Gleðin er sú, að eiga þig að ástvini, samherja, vini, samlanda. Og gleðin felst í því að við fáum að njóta lífsins saman í trúfesti, vináttu, samhyggð og kærfleika. Hver kennir það best?

“Ég er brauð lífsins”, segir Kristur. Ef hann er það, þá er hið sanna réttlæti fólgið í því fá að þiggja brauðið, sem hann er og leita kærleikans, sem hann vitnar um. Þá er það líka undirstaða mannlegra samskipta, möguleiki fyrirgefningarinnar og vonin um eilíft líf.

Þurfamaður ert þú mín sál,
þiggur af Drottni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið allt.
Fyrir það honum þakka skalt.

Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3469.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar