Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Guðrún Kvaran

Orð Guðs nær til allra

11. febrúar 2007

Þá sagði hann: Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska, lætur hann þegar bera út sigðina, því að uppskeran er komin.

Og hann sagði: Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess. Mark. 4.26-32

Í dag er annar sunnudagur í níuviknaföstu og er sá dagur hérlendis helgaður Biblíunni og útbreiðslu hennar. Guðspjall dagsins, sem við hlýddum á rétt áðan, er um sáningarstarfið í ríki Guðs. Biblían er hin helga bók allra kristinna manna. Heitið er ættað úr grísku og merkir ‘bækur’ en Biblían er sett saman úr fjölda rita sem saman mynda eina heild, Ritninguna. Biblíuritin urðu til á löngum tíma. Gamla testamentið var ritað löngu fyrir Krists burð en Nýja testamentið er talið ritað á síðari hluta fyrstu aldar eftir fæðingu Krist. Það var ekki fyrr en um 200 eftir Krist að ritum Nýja testamentisins var safnað saman og ákveðið að þau, ásamt ritum Gamla testamentisins, skyldu teljast heilög ritning kristinna manna.

Það verður að teljast mikill menningarsögulegur viðburður hjá kristinni þjóð að fá í hendur Biblíuna á móðurmáli sínu. Íslendingar eignuðust Nýja testamentið í þýðingu Odds Gottskálkssonar árið 1540 en Biblíuna alla 1584 fyrir atbeina Guðbrands Þorlákssonar biskups, og má með nokkurri vissu halda því fram að þýðingarstarf það sem fram fór á 16. öld á kirkjulegum textum hafi treyst íslenska tungu í sessi á miklum umbrotatímum. Það má teljast þrekvirki hjá fámennri og fátækri þjóð að gefa út íslenska Biblíu á prenti aðeins um fimmtíu árum eftir að Lúther þýddi Biblíuna á þýsku, og við búum að þessu þýðingarstarfi enn í dag. Áhrifa 16. aldar þýðinganna gætti í síðari biblíuþýðingum og þeirra sér enn merki í nýrri þýðingu sem unnið hefur verið að á vegum Hins íslenska biblíufélags í rúman hálfan annan áratug. Þegar vel og rétt hefur verið þýtt áður, er ástæðulaust að breyta þótt verið sé að þýða að nýju. Vel orðaðir textar, sem allir þekkja og margir kunna utanbókar, lifa nær óbreyttir frá einni þýðingu til annarrar og þannig hefur orðið til það sem kallað hefur verið íslensk biblíumálshefð.

Nú á biblíudaginn fögnum við því að starfi við nýja þýðingu allrar Biblíunnar, og endurskoðun apókrýfu bókanna að auki, er lokið og hún er væntanleg á prenti síðar á þessu ári.

Í guðspjalli dagsins er Guðs ríki líkt við það er maður sáir sæði í jörð. Sæðið vex og dafnar, upp úr jörðinni kemur fyrst stráið, síðan axið og að lokum fullvaxið hveitið í axinu. Á meðan líða nætur og dagar, sáðmaðurinn sefur og vakir á meðan sæðið grær og vex. Að lokum verður ávöxturinn fullþroska og komið er að uppskerunni. Jesús líkti Guðs ríki einnig við mustarðskornið, sem er hverju korni smærra. Þegar því hefur verið sáð tekur það að spretta og verður öllum jurtum meira og greinar þess verða svo stórar að fuglar himins hreiðra sig í skugga þeirra. Ég tel að þessa dæmisögu megi vel nota á það starf sem fer fram við þýðingu Biblíunnar. Byrjað er smátt, orð lenda á blaði, þau verða að setningum, setningarnar að málsgreinum og allt tekur þetta sinn tíma. Þeir sem vinna við þýðinguna vaka og sofa og sinna öðru inn á milli, rétt eins og sáðmaðurinn, en textinn hverfur aldrei alveg úr huga þeirra, hlúð er að honum þar til að þeim degi kemur að skera þarf upp það sem til var sáð. Textinn, sem boða á Guðs ríki, er tilbúinn og bíður þess að hann sái sér í huga lesenda. Þeir eiga að geta notið hans á góðum stundum og sárum, leitað til hans rétt eins og fuglarnir sem nutu þess að búa um sig undir mustarðsjurtinni.

Í sama kafla Markúsarguðspjalls er önnur dæmisaga um sáðmann. Hann sáði og féll sumt sæðið hjá götunni og fuglar komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð með litlum jarðvegi. Það spratt hratt en visnaði þegar sól hækkaði á lofti og skrælnaði þar sem rætur þess lágu grunnt. Sumt féll meðal þyrna, þyrnarnir uxu og kæfðu það og það bar engan ávöxt. En sumt sæði féll í góða jörð, óx og bar ávöxt.

Biblíuþýðingu má einnig líkja við þessa dæmisögu. Hugmyndir um hugsanlega þýðingu á erfiðum stað komu sífellt upp í huga þeirra sem unnu að þýðingarstarfinu en þær fóru ekki lengra þar sem þeir voru ekki fullsáttir við þær. Þeim má líkja við sæðið sem féll hjá götunni og fuglarnir átu. Aðrar hugmyndir komu fram sem ekki fengu hljómgrunn. Þær féllu í grýtta jörð og gleymdust. Enn aðrar náðu að komast á blað og dafna um hríð en urðu að víkja fyrir öðrum áleitnari tillögum. Þeim má líkja við sæðið sem þyrnarnir kæfðu án þess að eitthvað bitastætt hefði orðið eftir. En sem betur fer féllu orð, setningar og málsgreinar einnig í góðan jarðveg og þannig jókst jafnt og þétt sá texti sem allir voru sáttir við, hugmyndir og tillögur báru ávöxt, óheppilegt orðalag var hreinsað burt, rétt eins og sáðmaðurinn hlýtur að hafa fjarlægt illgresi af akri sínum þannig að uppskera hans yrði sem best.

Biblíuþýðing er ekki létt verk og að mörgu að hyggja við jafn vandmeðfarinn texta. Þýðingarnefndir testamentanna fengu erindisbréf til að styðjast við þar sem fram kemur að íslenskar biblíuþýðingar hafi mótað málfar Íslendinga um liðnar aldir og að ný íslensk biblíuþýðing muni móta íslenskt málfar um komandi tíma og þess vegna sé brýnt að vandað sé til íslensks búnings hennar ekki síður en að nákvæmlega sé þýtt úr frummálunum og áttu nefndirnar meðal annars að taka tillit til stíls frumtexta. Vissulega átti Biblían þátt í að móta málfar Íslendinga þegar lítið lesefni var til á prenti annað en það sem biskupsstólarnir ákváðu að prenta mætti. Þessu er ekki þannig farið nú. Samkeppni um lesmál hefur aldrei verið meiri og ytra áreiti veldur því að annað efni er nú lesið en á liðnum öldum. Þetta á þó ekki að hafa áhrif á málfar og stíl Biblíunnar. Hún á ávallt að vera fyrirmynd annarra bóka og hana á aldrei að sveigja í átt að óvandaðra talmáli og flötum stíl.

Í erindisbréfinu kom einnig fram að nýja biblíuþýðingin yrði kirkjubiblía og bæri þess vegna að taka tillit til breiðs lesendahóps, notkunar í helgihaldi og íslenskrar biblíuhefðar. Erindisbréfið var þýðingarnefndum testamentanna leiðarljós á oft vandrötuðum vegi um erfiða og viðkvæma texta, í samskiptum þeirra við þýðendur og í svörum við athugasemdum lesenda. Sannast að segja var alls ekki alltaf auðvelt að finna leiðir í þýðingarstarfinu sem ekki stönguðust á við erindisbréfið. Þýða átti nákvæmlega úr frummálunum og taka tillit til stíls frumtexta en það átti einnig að taka tillit til íslenskrar biblíuhefðar. Hvað á að gera ef biblíuhefðin og nákvæma þýðingin fara ekki sömu leið? Hvor leiðin ræður þá? Það á einnig að taka tillit til breiðs lesendahóps en hvað er átt við með því? Á að sjá til þess að allir skilji allt í textum Biblíunnar, og hver er þá tryggðin við frumtextann og biblíuhefðina? Hvað er vandaður íslenskur búningur? Getum við leyft okkur að taka úr eldri textum öll þau orð sem við teljum að hvert mannsbarn skilji ekki og setja inn önnur hversdagslegri og algengari í staðinn? Erum við þá ekki að vinna spjöll á íslenskri tungu og valda því að orðfæðin verður enn meiri? Er til of mikils mælst að menn læri ný orð, spyrjist fyrir ef þeir þekkja þau ekki eða fletti orðunum upp í orðabók til þess að auka við orðaforða sinn? Þessar spurningar og margar fleiri var glímt við árum saman og reynt að svara þeim eftir bestu getu hverju sinni, ávallt með vandaðan texta í huga. Aldrei er unnt að gera svo öllum líki og nú bíður ný þýðing dóms lesenda.

Vel er þekkt úr íslensku þýðingarsögunni að biblíuþýðingar voru gagnrýndar harðlega fyrst eftir að þær komu út. Við vitum reyndar lítið sem ekkert um viðtökur við sextándu aldar þýðingunum og næstu þrjár þýðingar, Þorláksbiblía á 17. öld, Vajsenhúsbiblían frá 1747 og Hendersonbiblían frá 1813 studdust við Guðbrandsbiblíu. Biblíuþýðing Steins biskups Jónssonar frá 1728 var gagnrýnd harkalega fyrir dönskuskotið mál, og það vissulega með réttu, en ég hygg að menn hafi ekki síður verið að amast við nýjum þýðingum hans á gamalgrónum textum sem menn vildu hafa eins og þeir höfðu lært þá. Því var hún sniðgengin og gleymdist að mestu. Viðeyjarbiblía var gagnrýnd 1841, Biblíuútgáfan frá 1866 var einnig gagnrýnd og málflutningur 19. Aldar virðist hafa falist í því að upphefja eina þýðingu með því að kasta rýrð á aðrar og fremur var beitt stóryrðum en rökvísi. Þýðing Haralds Níelssonar og fleiri frá 1912 fékk sinn skerf af gagnrýni og sú Biblía sem nú er á flestum heimilum var gagnrýnd af mörgum þegar hún kom út 1981. Oft snerist gagnrýnin á biblíuþýðingarnar um túlkun og skilning á ákveðnum ritningarstöðum og það orðalag sem túlkuninni fylgdi. Alltaf má búast við slíkri gagnrýni og hún er fullkomlega eðlileg þegar um er að ræða erfiða og torskilda texta sem erlendar biblíuþýðingar, sem menn vísa oft til, birta hver á sinn hátt. Aðrir gagnrýndu málfarið, orðaval og stíl og lögðu annað til í staðinn. Slík gagnrýni er erfiðari í meðförum þar sem oft er um mismunandi málsmekk að ræða, einum þykir betra það sem öðrum þykir lakara eða jafnvel ótækt. Þegar frá leið hljóðnuðu deilurnar og allur þorri manna tók smám saman nýja þýðingu í sátt.

Vafalaust á eftir að heyrast gagnrýni á nýju þýðinguna þegar hún kemur út í haust. Margir vilja sjálfsagt sjá eftirlætisritningarstaði sína orðaða á sama hátt og þeir eiga að venjast hafi þeim verið breytt. Það er fullkomlega skiljanlegt. En eins og Jesaja segir:„Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“ Ef litið er fram hjá nýju orðalagi, nýrri setningaskipan, er það orð Guðs sem skiptir máli, sá boðskapur sem í textanum býr og það er um hann sem við eigum að hugsa, það er hann sem við eigum að tileinka okkur en ekki láta orðalag, sem við vildum ef til vill hafa öðruvísi en valið var í nýju þýðingunni, spilla fyrir.

Fjórði kafli Hebreabréfsins er einn þeirra texta sem fylgja deginum í dag. Ég hygg að þar sé að finna kjarna málsins þegar við hugsum um þann texta sem unnið var með af alúð í fjölda ára. Þar stendur:„Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.

Ef við viljum og látum ekki ytri umgjörð valda hugarangri, tökum við nýrri þýðingu opin og fordómalaus, nær orð Guðs ávallt til hvers og eins sem vill taka við því.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2217.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar