Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þorgeir Arason

Trú

21. janúar 2007

Barnatrú…

Ó, Jesú bróðir besti
og barnavinur mesti,
æ, breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.

Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa
svo ei mér nái´ að spilla.

Trúlega könnumst við flest hér inni við þessi vers. Við höfum kannski lært þau sem börn, sungið þau í kirkju, eða beðið kvöldbænirnar okkar með þessum orðum. Þau hafa fylgt íslensku þjóðinni frá því á 19. öld. Kannski hefur enginn sálmur á síðari tímum náð eins djúpt inn í þjóðarsálina – nema ef vera skyldi Heims um ból!

Sálmurinn Ó, Jesú bróðir besti tengist barnatrúnni svokölluðu, því að læra sem barn að fela sig algóðum Guði og vernd hans í barnslegu trausti, læra að signa sig og biðja Faðirvor og aðrar bænir fyrir svefninn, læra að Guð og englar hans taki við okkur þegar við sofnum eilífa svefninum. Ég held, að ef að Ó, Jesú bróðir besti er vinsælasti sálmur okkar Íslendinga, gæti vinsælasta svarið við spurningunni „Ertu trúaður?“ verið einmitt þetta: Ég á mína barnatrú.

Það er gott, að læra að trúa á Guð sem barn. Auðvitað komast margir til trúar seinna á lífsleiðinni. En það er engu að síður gott, að við skulum enn bera gæfu til að búa í landi, þar sem langflest börn eru borin til skírnar og er kennt að fela sig föðurnáð Guðs í trausti bænarinnar. Það er gott, hversu mörg börn hafa áhuga á að koma í barnastarf kirkjunnar, og hversu margir foreldrar vilja styðja börn sín í því. Það höfum við Sigríður séð glöggt í barnastarfinu hér í Grafarholti í vetur, og við gleðjumst yfir því.

Foreldrar gefa börnum sínum dýrmæta gjöf, með því að kenna þeim bænamál og styðja þau í að taka þátt í kristilegu starfi. Ég veit, að ég hefði sjálfur ekki viljað vera án þeirrar gjafar.

… og trú, sem vex

Það er gott, að eiga barnatrú. – En trúin þarf líka á því að halda, að vaxa og þroskast í lífi okkar, eftir því sem persónuleiki okkar, skapgerð og hæfileikar þroskast. Í guðspjallstextanum, sem var lesinn hér á undan, segja postularnir við Drottin Jesúm: „Auk oss trú!“. Hér mætti eins þýða úr frumtextanum: „Lát trúna vaxa fram í oss!“. Það er gott, að biðja Guð um að láta trúna vaxa fram í manni, alla sína ævi, rétt eins og blóm sprettur fram á engi, vex og dafnar. Það er gott, að hlúa að trúarblóminu sínu, þannig að trúin okkar verði, með orðum pistils dagsins úr Hebreabréfinu „fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá“ (Heb. 11.1).

Hætt er við, að hjá mörgum ljúki kirkjugöngu á fermingardaginn, Biblíunni sé um leið lokað í síðasta sinn og jafnvel það sem verst er, að bænamál barnatrúarinnar dofni og hverfi á unglingsárunum.

Við ferminguna eigum við eftir að læra margt í lífinu og ekkert okkar vill fara á mis við það. Ég á tíu ára fermingarafmæli í vor. Mér finnst ég hafa lært ótalmargt á þessum tíu árum, en veit að ég á þó margfalt fleira eftir ólært! Hið sama gildir um trú okkar. Það er ástæðulaust, að við staðnæmumst í trúarþroskanum við ferminguna, að við tökum að vanrækja trúarblómið okkar og hættum að glíma við spurningar trúarinnar – kannski í þann mund, sem við erum fyrst að öðlast þroska til að takast á við þær!

Grýtt vegferð?

Fyrir stuttu heyrði ég um ungan mann, bara örlítið yngri en mig sjálfan, sem var spurður hvort hann væri trúaður. Hann svaraði: „Þegar ég var barn var ég alltaf svo trúaður. En núna… nú er orðið svo erfitt að trúa.“

Nú er orðið svo erfitt… –
skyldi vera orðið svona erfitt að trúa á Íslandi?

Hvers vegna ætli leiðin frá barnatrúnni til hinnar þroskuðu trúar fullorðinsáranna reynist mörgum svo löng og svo grýtt?
Og hvað tekur við, þegar barnslegu Guðstrausti sleppir?

Hverju treystir hjarta okkar eins og barn, ef ekki Guði?

Vísindunum?
Okkar eigin mætti?
Eða tilgangsleysi tilverunnar?

Finnst okkur það ekkert – barnalegt?

Frómar óskir mæta öfugmælum!

Postularnir sögðu við Drottin Jesúm: „Auk oss trú!“.

Drottinn leit til þeirra og svaraði þeim með fullyrðingu, sem okkur kann að virðast fáránleg: „Strákar mínir, ef þið hefðuð trú á við mustarðskorn – það er sinnepsfræ – þá gætuð þið látið þetta tré hérna rífa sig upp með rótum, færa sig út í sjó og festa rætur þar!“.

Hvers vegna lætur Jesús svona?

Postularnir koma til hans með fróma ósk: Auktu trú okkar! – og hann svarar þeim eiginlega út í hött, með þverstæðu, hálfgerðri öfugmælavísu.

Hvað er hann að reyna að segja þeim?

Ég held fyrir það fyrsta, að Jesús sé að segja postulunum sínum, að við getum ekki mælt trú eftir magni, eins og við mælum t.d. sykur þegar við bökum köku – hvað þá lagt dóm á trú fólks eins og við leggjum dóm á bækur eða kvikmyndir.
Trú, sem glímir og spyr erfiðra spurninga, trú, sem jafnvel sveiflast milli fullvissu og óvissu, milli sannfæringar og efa, sú trú er engu minni eða ómerkilegri en trú hins örugga guðsmanns, sem segist hafa öll svör á reiðum höndum.

Munið þið eftir sögunni um Jesús og börnin? Hverju svaraði Jesús þeim, sem ætluðu að reka börnin burt frá honum? „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki.“ Slíkra – þeirra, sem eru einlæg eins og börn í trúnni – en líka í efanum og í trúarbaráttunni. Efinn má ekki leiða til vantrúar. En hver er sú trú, sem aldrei efast og aldrei spyr gagnrýnna spurninga? Og höfum hugfast, að stundum getur verið mikilvægara að bera fram spurningarnar en að telja sig vita öll svörin.

Kraftur Guðs og eilífðar smáblóm

En það hangir fleira á spýtunni í þessari óvæntu líkingu um trúna sem sinnepsfræ, sem flytur tré út í hafsauga. Ég held nefnilega líka, að Jesús sé að reyna að benda okkur á, að í samanburði við kraft Guðs, þar sem jafnvel hið fáránlega er mögulegt, þá verður trúin okkar alltaf smá og veikburða.

Jafnvel þó að við nærum trúarblómið okkar reglulega frá barnsaldri og vöxum og þroskumst í bæn og trú, þá verður þetta trúarblóm líklega alltaf frammi fyrir Guði eins og „eilífðar smáblómið“ í þjóðsöngnum, „eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár/ sem tilbiður Guð sinn og deyr.“

Og samt – samt er þetta smáblóm svo undurstórt og merkilegt, því að það gefur sig allt; titrandi gefst það valdi Hans, sem er æðri og meiri, Hans, sem ber umhyggju fyrir því.
Og það er kraftaverk trúarinnar: að fela sig ást Guðs, jafnvel „titrandi með tóma hönd“, þrátt fyrir allar þverstæðurnar, allar spurningarnar, alla glímuna.

Umvafin kærleika Guðs

Trúarblómið þitt má vera veikt og smátt.

En gleymdu því ekki, að hinn voldugi Guð er líka Guð sem elskar, Guð sem stöðugt segir við þig, líkt og í lexíu dagsins úr Hóseabók: „Ég mun festa þig mér eilíflega, … í kærleika og miskunnsemi, … og þú skalt þekkja Drottin“ (Hós. 2.19-20).

Þú mátt koma til Guðs eins og lítið barn og umvefja þig kærleika Hans á þessu nýja ári og alla þína daga.

Þú mátt nefna nafnið hans, sem frelsar: „Jesús, Jesús.“

Þú mátt hvísla þetta undursamlega nafn, og vita og treysta, að frelsari þinn og Guð er hjá þér.

„Jesús, Jesús.“

Þú mátt treysta því, að ást hans víkur ekki frá þér, hvorki í lífi né í dauða. Þess vegna máttu líka biðja í trú – og jafnvel syngja:

Mig styrk í stríði nauða,
æ, styrk þú mig í dauða.
Þitt lífsins ljósið bjarta
þá ljómi´ í mínu hjarta.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3479.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar