Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Nafnið Jesús

1. janúar 2007

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans, því þeir sáu þau tákn, sem hann gjörði.En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn, því hann þekkti alla. „Hann þurfti þess ekki, að neinn bæri öðrum manni vitni; hann vissi sjálfur, hvað í manni býr. Jh 2.23-25

Þín miskunn Herra hár
oss hlífði liðið ár
með ástúð óþreytandi,
við allri neyð og grandi.

Þótt harma skelfdu ský
oss skein hvern morgun ný
með blessun lands og lýða
þín líknarsólin blíða.

Oss börn þín bænheyr þú
vér biðjum faðir nú
Sem áður enn vor gættu
við allri neyð og hættu.

Veit kristnum lýð þitt lið
og landi voru frið
þeim hjálp er hér enn þreyja
þeim himinn þinn er deyja. (Sb. 100. Helgi Hálfdánarson)

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Kæri söfnuður. Gleðilegt nýtt ár. Megi það vera helgað Jesú nafni.

Sú var tíð í þessu landi að engum kom til hugar að heilsa nýjum degi án þess að nefna fyrst nafn Guðs. Maður gekk út á dyrahelluna og signdi sig í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda, og fór kannski með vers eða aðra kristna bæn og gekk svo inn og bauð góðan dag.
Dæmi eru um að fólk gegndi með orðunum: Ég er ekki búinn að fara út og sækja góðan daginn. Svo nátengd var signingin í nafni Guðs hverjum degi og svo sterk trúin á vernd Guðs nafns í föður og syni og heilögum anda.
Og í dag á áttunda degi lífs sins, fær sonurinn nafn.
Nafn hans er Jesús. Það þýðir Guð hjálpar, Guð bjargar.

Og svona til gamans má minna á að þau nöfn í íslensku sem næst koma merkingu nafnsins Jesús, eru Guðbergur og Guðbjörg.

Textar þessa dags, lexía, pistill og guðspjall eru allir óvenju stuttir. Þeir hafa þetta eina stef um nafn Guðs sem forðum mátti ekki nefna, en varð kunnugt með nýjum hætti við komu Jesú Krists.
Það er nafnið sem lagt var yfir fólk og land í blessun Guðs, nafnið sem innsiglar hverja bæn sem beðin er, nafnið sem veitir vernd í baráttu hins góða við hið illa, nafnið sem vísar veg hinum ráðvillta sem sér ekki vel hvaða leið framundan er hin góða, og hvort leiðsögn er af hinu góða eða á valdi hins illa.

Þegar Jesús fæddist á jörðu mátti enginn nefna nafn Guðs. Það var of heilagt til þess. Þess vegna sagði fólkið: Herra og Drottinn, í stað þess að nefna nafnið.
Það er hollt að minnast þeirrar miklu breytingar sem varð með boðun og kenningu Jesú Krists, að hann kenndi þeim sem voru slegin ótta frammi fyir nafni Guðs að segja faðir, eða abba, sem er augljóslega skylt orðinu pabbi.
Sú mynd Guðs sem þannig er dregin upp er sú sem við þekkjum.
Það er nafnið sem lagt hefur verið yfir okkur, eins og sagt er í blessunarorðum messunnar, og yfir kynslóðirnar, forfeður okkar og formæður, skyldfólk og vandalausa.

Í þúsund ár hefur nafn Guðs verið lagt yfir íbúa þessa lands hér á Þingvöllum.

Ein af hinum stóru setningum í sögu kirkju og þjóðar: Framar ber að hlýða Guði en mönnum, byggir á skilningi kirkjunnar á nafni Guðs og nafni Jesú Krists.

Þessi hugsun er fengin úr frásögn Postulasögunnar af því hvernig Pétur postuli beitti nafni Jesú í predikun sinni og einnig til lækninga og kraftaverka .

Þar segir frá því þegar postularnir voru að predika um upprisu dauðra, í Jesú, eins og sagt er, og prestar og saddúkear, höfðingjar og öldungar og fræðimenn voru í miklum vandræðum með hina nýju kenningu og létu setja þá í fangelsi.

Það er alltaf fljótleg stundarlausn að fangelsa sannleikann þegar hann er óþægilegur.

Og þeir spyrja:
Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta? (v7)
Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: Þér höfðingjar lýðsins og öldungar, með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn, þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar.(v.8-10).
Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn.Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss. (v. 11-12)
Og svo segir: Er þeir sáu manninn, sem læknaður hafði verið, standa hjá þeim, máttu þeir ekki í móti mæla.

En þeir kölluðu þá samt fyrir (v18) og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala eða kenna í Jesú nafni.
Pétur og Jóhannes svöruðu: Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum.
Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt. (v.18-19)

Kæri söfnuður.
Nýársdagur er að sönnu kirkjuhátíð, sem átti dagur jóla og dagurinn þegar Jesús var umskorinn að hætti gyðinga og fékk nafnið, Jesús.
En um leið er hann veraldlegur hátíðisdagur sem nýársdagur. Þessa gætir í predikun kirkjunnar á þessum degi. Oft eru kallaðir til einstaklingar að stíga í stólinn þennan dag sem að öllu jöfnu eru þekktari af einhverju öðru en því að tala í kirkjum.
Presturinn á Þingvöllum er nú ekki sá besti til að sameina þetta tvennt, en að þessu sinni er ekki á öðru völ.
Reyndar má segja með sanni að kirkjan hér á Þingvöllum feli alla daga í sér tákn um tengsl hins veraldlega og andlega með því einu að standa hér á þessum stað eins og eilíf áminning um þá ákvörðun sem tekin var á Þingvöllum um kristni í landinu og um elsta sáttmálann um samskipti ríkis og kirkju í þessu landi.

Og hér hefur staðið kirkja nokkurnvegin jafnlengi og kristni hefur verið í landinu. En við vitum reyndar ekki neitt frekar um það hvar hún stóð í upphafi, heldur en um aðrar staðsetningar hér.
Fátt jafn spennandi hér á Þingvöllum nú en það sem koma kann í ljós við frekari fornleifarannsóknir. Aðeins þær munu leiða okkur út úr þeim vanda sem við höfum orðað svo: Við vitum það eitt að við vitum ekki neitt.

Hvar hin elsta kirkja stóð á Þingvöllum er ekki vitað og ekki heldur hvaða ár hún var reist. Kannski var það 1007 og hægt að minnast þess á þessu nýbyrjaða ári. Ekki er það nú samt ætlunin.
Við látum okkur nægja að halda upp á það eina afmæli á árinu sem við þekkjum með vissu, en það er afmæli kirkjuturnsins. Hann var sannarlega reistur í þeirri mynd sem hann er nú árið 1907 og er því aldargamall. . Í aðdraganda konungskomunnar 1907 teiknaði Rögnvaldur Ólafsson þá lagfæringu á turninum og þar með á útliti kirkjunnar sem haldist hefur síðan og orðið að heimsþekktu tákni Þingvalla ásamt bænum.
Vonandi verður hægt að fagna því með því að ljúka fyrirhugaðri lagfæringu á kirkjutröppunum

En fyrir utan afmæli turnsins eru önnur tímamót í vændum árið 2007.
Í frumvarpi að lögum um eignir Þjóðkirkjunnar sem lagt var fyrir Alþingi fyrir jól er gert ráð fyrir því að þessi kirkja verði eign ríkisins. Það er ekki einsdæmi að ríkið eigi kirkjur. Fyrir á ríkið kirkjuna á Bessastöðum og Dómkirkjuna á Hólum.

Þetta frumvarp hefur fengið brautargengi á Kirkjuþingi þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við þetta atriði, og ef svo fer sem horfir þá munu ný lög taka gildi á miðju þessu ári.
Enda þótt þetta sé mjög afgerandi niðurstaða, er ýmsum spurningum ósvarað, sem beinlínis snerta þjónustu prests og kirkju hér á Þingvöllum til framtíðar.

Væntanlega þarf ekki að óttast um að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi annað í hyggju með kirkjur í sinni umsjá og ríkiseign en að þar fari fram kristið helgihald að hætti Þjóðkirkjunnar. Líkast til má einnig vænta þess að það sé meirihluti fyrir því á því Alþingi sem nú situr að á þessu ætti ekki að verða breyting, og ólíklegt er að mikil breyting verði á þeirri afstöðu þó að kosningar verði í vor.
Hér eru gild söguleg rök fyrir hendi, 83% landsmanna eru í Þjóðkirkjunni og stjórnarskrárákvæði skuldbindur ríkið gagnvart kirkjunni enn þó að segja megi að með þessu frumvarpi verði sjálfstæði kirkjunnar gagnvart ríkinu staðfest með lögum, og fullkomnast þannig sú lagasetning sem fólst í þjóðkirkjulögunum frá 1997.

Ekkert er heldur í stefnu Þjóðgarðsins 2004 til 2024 sem bendir til annars en góðs vilja til samstarfs við Þjóðkirkjuna um kirkjustarf á Þingvöllum.

Því mætti auðvitað segja sem svo að ástæðulaust væri að hafa nokkrar áhyggjur af þessari breytingu. Þannig hefur Þjóðgarðurinn t.d. staðið undir rekstri kirkjunnar að stærstum hluta um langt árabil.
Samt sem áður er sjálfsagt og eðlilegt að gerður verði langtímasamningur um starf kirkju og prests á Þingvöllum í ljósi þessarar breytingar á eignastöðu.
Ekki veit ég hvort lesa skal eitthvað sérstakt út úr því að því að presturinn sem hér stendur hefur nú fengið setningu til ársloka 2007, en áður var það aldrei nema til hálfs árs í einu. Það verður því ekki svo ef lögin taka gildi á miðju ári að það þurfi að leita að prestinum.

Þjóðkirkjan hefur ekki í hyggju að breyta því að Þingvellir skuli vera sjálfstætt prestakall, þó að presturinn skuli sinna öðrum störfum meðfram því. Þjónustan við Þingvallakirkju á því ekki að vera útkirkjuþjónusta, heldur skyldug þjónusta við höfuðkirkju prestakalls.
Hér eru yfir þrjátíu messur og aðrar guðsþjónustur á ári, fyrir utan aðrar helgiathafnir, og væru fleiri ef presturinn væri nær. Það má kannski segja að 56 km sé ekki löng leið á milli prests og kirkju, en það er ekki sú aðferð sem þjóðkirkjan viðhefur annars.

En þrátt fyrir þetta allt sem hér hefur verið upptalið á jákvæðum nótum til þess að sýna fram á að það sé ástæðulaust að óttast þessa breytingu, þá væri það skammsýni að gera ekki langtíma samkomulag um þjónustu kirkjunnar á Þingvöllum milli þeirra aðila sem koma að starfseminni hér í þjóðgarðinum, vegna þess að svo háttar til að þessi kirkja hefur þá sérstöðu miðað við hinar tvær að söfnuðurinn sem á hér sinn samkomustað og býr í prestakallinu er svo miklu minni og þar með kraftlausari en á hinum stöðunum tveim.
Í dag sýnist mér að séu um það bil fimmtíu manns hér í kirkjunni, og lítið um pláss umfram það sem nýtt er. Engum dylst að þetta er söfnuður Þingvallakirkju á þessum degi þó að heimilisfesti flestra sé utan sóknarmarka. Þannig er og raunin um söfnuðinn flesta messudaga ársins. Þetta gefur söfnuðinum sérstöðu sem ber að virða.

En í ljósi þeirra breytinga sem þegar eru orðnar og eru að verða í vaxandi mæli í Evrópu væri það ekki bara skammsýni heldur heimska að búast við því af stjórnvöldum þessa lands um alla framtíð að þau hafi sömu sýn á kirkju og kristindóm og sú sem nú situr.
Því er það brýnt verkefni okkar sem hér störfum á Þingvöllum og hér sækjum kirkju, að tryggja það með þeim mætti sem við megum, að hér megi verða boðað Guðs orð um ókomin ár, hér megi nafn Drottins vaka yfir eins og það hefur verið í þúsund ár.

Hér fór maður til hálfs inn um gluggann í annarlegu ástandi ekki alls fyrir löngu.
Hvað nú ef þessi ólánsmaður hefði hent eldi inn í kirkjuna?
Enginn hefði komið til bjargar á réttum tíma.
Þessi kirkja er friðuð síðan 1990 samkvæmt lögum þar um. Einn logandi vindlingur sem dettu úr munni ógæfumanns er öflugri en þau lög á örlagastundu.
Hvað ætlar hinn nýi eigandi kirkjunnar, ríkið, að gera ef þessi kirkja brennur?

Ríkið byggir ekki kirkjur. Ríkið hefur engar skyldur í því efni. Það hefur kirkjan ein.

Presturinn hefur ekkert annað afdrep hér á Þingvöllum en það sem allir prestar hafa sem hér sinna helgiþjónustu.
Ætlar kirkjan að standa frammi fyrir því, ef til vill innan fárra ára, að eiga ekki afdrep á Þingvöllum annað en það sem öllum trúarhópum býðst sem sem sinna trúariðkun sem ekki stríðir gegn meginreglu.
Ætlar hún að láta sér nægja að þurfa að sækja um að að fá að halda messu í einhverju rjóðrinu næst á eftir blótsamkomum ásatrúarfélagsins.

Presturinn á Þingvöllum er sóknarprestur. Fyrsta skylda hans er vegna safnaðarins, óháð því hversu fjölmennur eða fámennur hann er .
Þjónusta kirkjunnar á Þingvöllum er hluti af heildarþjónustu þjóðgarðsins. Það er frumforsenda þess að hafa prest á Þingvöllum allt síðan um miðja síðustu öld. Það er framlag kirkjunnar til Þingvalla að leggja til prest. Hann er starfsmaður kirkjunnar innan þjóðgarðsins og á að nýtast sem slíkur. Honum ber að þjóna þeim sem vitja Þingvalla og tengja heimsókn sína sinni kristnu trú og trúariðkun. Prestur sem ætlaði sér að skapa sér einhverskonar sérstöðu eða stjórnarandstöðu gagnvart starsfólki þjóðgarðsins og markmiðum hans, væri á villigötum og kirkjan gæti ekki haft hann í vinnu.

Kæri söfnuður.
Þessi nýárspredikun er þegar orðin of löng, og ekkert hefur enn verið minnst á þær stóru spurningar sem bera þarf fram um áramót:
Hver er staða kristninnar í landinu, steðjar ógn að kirkju Krists og hvaðan kemur hún.
Þessu verður ekki svarað með fáum orðum svo vel sé, en það skal þó reynt.
Það er augljóst hverjum þeim sem skyggnist um að staða kirkjunnar er viðkvæm að því leiti að þeim fjölgar sem eru á báðum áttum um það hvort þeir vilja tilheyra henni í alvöru. Það er hennar mesta ógn. Ógnir hennar koma ekki fyrst og fremst utanfrá heldur innanfrá.

Svarið við þessu getur ekki verið neitt annað en að brýna þau sem vilja vinna undir merkjum Krists að vera ákveðnari í því og standa vörð um nafn hans og koma saman í nafni hans.
Í því felst líka að þora að standa vörð um helgistaðina, þar sem við komum saman eins og kynslóðirnar á undan okkur, og búa þannig í haginn fyrir komandi kynslóðir.

Þessi kirkja er í efnislegum gæðum ekki mikil eign, hver sem á hana, en í andlegum gæðum og verðmætum er hún himinn á jörð og dásamlegur vitnisburður um hinn andlega seim sem við syngjum um á jólunum: Fyrir því er aðeins ein ástæða. Hún er öldungis óháð því hvort ríki eða kirkja eru skrifuð eigandi að þessu húsi:
Jesús sagði: Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra. (Mt 18.20)

Guð gefi að blessun Guðs sem hér hefur verið lögð yfir land og þjóð í þúsund ár, hverfi héðan aldrei.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3053.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar