Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Hlakkar þú til endaloka heimsins?

26. nóvember 2006

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.

Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.

Þá munu þeir svara: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs. Matt. 25.31-46

Tilhlökkun!

Í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins sem kallaður er Dómssunnudagur innan sumra systurkirkna okkar.

Nú styttist í aðventuna. Tilhlökkun eykst í hjörtum barna því jólin er á næsta leyti.

Í lexíu og pistli dagsins má líka greina tilhlökkun, ekki eftir jólunum heldur endalokunum! Undarleg tilhlökkun! Þessi heimur mun líða undir lok og ný tilvera rísa upp fyrir kraft Guðs.

Í textum dagsins er fjallað um vonina. Vonin er mikilvægur hluti lífsins. Vonin og trúin eru systur. Aðeins á einum stað í Biblíunni er trúin skilgreind: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ (Heb 11.1)

Jesús talaði um endalok heimsins. Hann leiddi fólki fyrir sjónir alvöru lífsins og tengdi guðstrúna breytninni og ábyrgðinni gagnvart náunganum.

Í lexíunni birtist vonin um Jerúsalem hamingjunnar. Þar verða engir kveinstafir né gráthljóð. Jerúsalem nútímans og Palestína eru svo órafjarri þessari sýn sem spámaðurinn Jesaja sá fyrir í von sinni.

Páll postuli talar um ástand heimsins og ræðir þá staðreynd að sköpunin stynur undan áþján. Í heiminum er ófriður og hatur. Erum við nær friði nú en fyrir 5 eða 10 árum? Varla. Írak er sagt ramba á barmi borgarasstyrjaldar. Ástandið er verra en fyrir innrásina. Margir ráðamenn eru nú að átta sig á hún var illa ígrunduð.

Ég sá um daginn skopmynd sem sýndi Bin Laden grátandi yfir mynda af Donald Rumsfeld sem lét af embætti nýlega. Undir skopmyndinni stendur: Hann var langbesti smalinn minn! Já, við hlægjum að ástandi heimsmála en undir því öllu er dauðans alvara og yfirvofandi dómur.

Sköpunin stynur. Jörðin stynur undan okkur mannfólkinu. Veröldin öll er veröld Guðs og þegar hún þjáist, þjáist Guð. Hann lætur sig varða umgengni okkar við lífríkið og við náunga okkar. Guðspjall dagsins tekur í það minnsta af allan vafa um það síðarnefnda.

Heimurinn þjáist. Fólk þjáist. Og oft kemur fólk til prestsins með þessa spurningu andspænis þjáningu og dauða ástvinar: Af hverju lætur Guð þetta gerast? Og svarið er: Guð lætur þetta ekki gerast. En hann er með okkur í erfiðleikum og andstreymi lífsins. Krossinn er tákn þeirrar elsku sem Guð hefur sýnt þessum heimi þjáningar og böls. Lausnin er fólgin í hinum þjáða Guði, Jesú Kristi.

Efsti dagur bíður okkar hvers og eins. Þá munum við standa eins og á bjargbrún. Framundan er gjá aðskilnaðar Guðs og manns, himins og jarðar. Við megnum ekki að komast hjálparlaust yfir þess hyldýpisgjá. Enginn mannlegur máttur megnar það. Engin góðverk eða verðleikar. Kristur einn megnar að brúa þessa gjá. Lausn okkar og von er fólgin í honum sem tengir saman himinn og jörð.

Þess vegna getum við látið okkur hlakka til. En tilhlökkunin má samt ekki deyfa okkur fyrir ástandi heimsins. Enda þótt við berum í brjósti okkar von um nýjan himinn og nýja jörð megum við ekki yppta öxlum yfir órétti þessa heims og þjáningu fólks. Vonin um himininn og gjöf eilífs lífs á að vera okkur aflgjafi til góðra verka.

Kristur beinir athygli okkar að því sem okkur ber að gera öðrum og á efsta degi því sem við unnum öðrum. Hvað unnum við? Orðið vísar til þess að vinna og vinna í merkingunni sigra. Kristur er sigurvegarinn og hann gefur okkur hlutdeild í sigri sínum. Þess vegna erum við full þakklætis og leitumst við að gera öðrum gott.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur sent út gíróseðla og kynningarefni um hjálparstarf. Við getum öll tekið þátt í því með smáu sem stóru að gefa fólki brunna og þar með stórbætt lífsgæði fólks sem býr við mun erfiðari aðstæður en við.

Við höfum ástæðu til að láta okkur hlakka til framtíðarinn því hún er í hendi Guðs.

Þess vegna skulum við vinna vel og vinna/sigra með Kristi.

Ps. Í kaffinu eftir messu spurði mig góður og gegn safnaðarmeðlimur hvers vegna ég hefði ekki minnst á framferði Rússa í Tjetseníu? Ég sagðist hafa tekið það sem efst væri í huga fólks, Íraksstríðið, sem formaður Framsóknarflokksins hefði tekið afstöðu til með afgerandi hætti í gær. Ég hefði hins vegar ekki viljað auglýsa Jón Sigurðsson, þann mæta og góða mann, sérstaklega í messunni en látið fólki eftir að tengja sjálft þegar ég vísaði til ráðamanna sem eru nú í vaxandi mæli að átta sig á alvöru þessa hræðilega stríðs. En vissulega þarf að tala um óréttinn hvar sem hann er að finna. Ég vil ekki vera hlutdrægur í prédikun minni og fagna því ef fólk bendir mér á hluti sem vert er að fjalla um í prédikun kirkjunnar. Stöndum saman um að benda á órétt hvar sem hann er að finna.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2597.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar