Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

Fífukveikur

19. nóvember 2006

Tíu ára telpuhnáta bjó hjá föður sínum, ekkjumanni, norður í Fjörðum, fyrir mörgum, mörgum árum. Þar er engin byggð í dag. Landfarsótt, líklega slæm flensa hafði farið um sveitirnar og lagt marga að velli. Í þessari sveit voru tveir bæir og langt á milli. Og nú var fannfergi, mikill snjór og enginn komst neitt, því engin voru tækin til þess á þeim tíma. Ekkjumaðurinn fann að veikin sótti á hann. Hann bjó dóttur sína undir það að hann myndi deyja. Ekki með því að tala um dauða sinn, nei, öðru nær, heldur með því að, kenna stúlkunni að bjarga sér. Hann sýndi henni hvernig hún mjólkaði kýrnar, það kunni hún reyndar þá þegar, og gæfi þeim hey, hvernig hún færi í saltkjötstunnuna, síldartunnuna, skyrtrogin smjörstokkinn og fyndi sér mat. Og hann kenndi henni að búa til kveik úr fífum, sem er þráður, snúinn saman og lagður í sérstakt ílát með lýsi í, sem er svolítið líkt sósukönnu, en heitir lampi, þó oftar kallað grútartýra.. Þráðurinn heitir fífukveikur. “Og gættu nú ljóssins, elskan mín, það er svo dýrmætt”. Svo minnti hann hana á prjónana sína, og ef hnykilinn þryti, gæti hún bara rakið upp leppinn og prjónað aftur. Síðast rifjaði hann upp bænina faðir vor og aðra bæn sem er svona:

Maríusonur, mér er kalt
mjöll af skjánum taktu
Yfir mér alltaf vaktu.
Lánið bæði og lífið er valt
ljós og myrkur vega salt.
Í lágu koti á ljóstýrunni haltu. (Sjá Guðm. Friðj. Fífukveikur).

Ekkjumaðurinn klæddi sig nú í sjóstakk. Sagði svo: Vertu ekki að gá að mér, heillin, ég er þreyttur og þarf að sofa lengi. Svo fór hann fram göngin að útidyrunum og lagðist þar niður. 10 vikum síðar komu menn á þennan bæ. Þar fannst maðurinn dáinn, en einnig stúlkan, lifandi og þegar hún fannst var hún að prjóna leppa og fara með bænina um Maríusonin, heil og ósködduð á geði.

Sagan er auðvitað ítarlegri, - góð jólasaga, góð til lestrar á aðventu, - sem Guðmundur Friðjónsson á Sandi skrifaði eftir gamalli konu. Sagan heitir Fífukveikur og segir frá því hvað skiptir máli, þegar “ljós og myrkur vega salt í lífsbaráttunni. Sagan minnir á baráttu þjóðar við hörð skilyrði og hvernig hún lærir að þekkja ljósmetið og nýta land og skepnur til afkomu og framdráttar. En enginn kemst af, sem ekki á eitthvað meira innra með sér. Eitthvað sem bregður til vonar þegar sverfur að á lífsleiðinni.

Jesús hefur sjálfsagt það sama í huga, þegar hann segir söguna um brúðgumann og meyjarnar, lampana og olíuna. Verið aðgætin um það sem þér hafið. Verið viðbúin því að allt getur breyst á örstundu. Og í dag held ég að þessi saga Jesú eigi vel við okkur. Allt gengur tiltölulega vel. Það er nóg af öllu og enginn skortur sjáanlegur að heitið geti og enda þótt okkur finnist ef til vill að lífsgæðum sé eitthvað misskipt, þá má ekki gleyma því að hin svokölluðu veraldlegu verðmæti reynast misvel þegar á reynir.

Skammdegisumræðan um þessar mundir fjallar mjög um það, hvað við eigum að kenna börnunum okkar. Við búum vel. Við eigum góða skóla, gott og fjölskrúðugt námsefni og góða kennara. Og mikið er það gott. Öryggi barnanna og framtíð liggur í því að eiga umhyggjusama foreldra og umburðarlynt og skilningsríkt samfélag sem lætur sér annt um heill þeirra. Skipulagið er þannig að heimili, skóli og þjóðkirkja vinna saman að því að móta einstaklinga og kenna þeim að vefja sér fífukveik og nýta ljósmetið. Saga og framþróun þjóðfélagsins hefur hvílt á því að samvinna, einlæg og náin, hefur verið höfð í fyrirrúmi og vitnisburður kynslóðanna hefur þar gilt a.m.k. að jöfnu við allt það nýja og framsækna og uppbyggilega, sem við höfum eignast í meiri þekkingu, vísindum og tækni. Menn héldu að sjóferðabænin væri óþörf, þegar vélarnar komu í bátana. En það reyndist ekki rétt. Bátar og skip eru jafn miklar skeljar í hafsrótinu og fyrr. Þau þola að vísu meiri áföll, komast lengra og út í verri veður, en þá verður áhættan líka meiri, af því að náttúruöflin breytast ekki svo mikið.

‘Þetta á nú varla við’ segjum við þá í nútímanum. ‘Það er varla hægt að líkja gömlum tímum við daginn í dag’. Já, -allt er fullkomnara, betra, fjölbreyttara, gefur meiri ávöxt, eykur á þægindi. Satt er það. En það er flóknara og hættulegra en áður. Við höfum tileinkað okkur miklu yfirgripsmeiri þekkingu á upplýsingaöld en mönnum óraði fyrir að væri til. Það er gleðiefni. Framfarir hafa átt sér stað, þróun, bætt menning. En það gleymist eitt. Barn er barn. Börn eru börn. Maðurinn er manneskja. Ekki bara hold og blóð, heldur líkami, sál og andi. Þarfir barnsins um öryggi og alúð, aga og leiðbeiningu, ást og umhyggju eru þær sömu og ávallt. Tilfinningar okkar allra eru jafn ríkar og viðkvæmar og fyrr.

Af hverju finnst okkur notalegra, að kveikja á kertaljósi fremur er rafmagnsljósi, þegar við ætlum að gera eitthvað hátíðlegt, eftirminnilegt, gleðilegt? Af hverju er kertaljós við skírnarlaugina og á jólaborðinu? Er það ekki einmitt dulúð og fegurð hins lifandi ljóss, sem gerir okkur auðveldar að nálgast hvert annað og finnast við eiga samfélag í daufri birtu þess ljóss, sem lifir og hrindir myrkrinu burt á jafn áhrifaríkan hátt og ljóstýra í snjókæfðu húsi norður í fjörðum fyrir löngu. Sá sem kveikir á kerti er ekki einn, þegar hann veit, hver gaf ljósið og hver er ljósið. Sá sem á í fylgsnum hjarta síns vitundina um það, að nafn Drottins sé bundið ljósinu verður aldrei hræddur við það sem býr í myrkrinu. Hann veit að ljósið er því yfirsterkara. Þegar við kennum börnum okkar að signa sig í nafni Guðs, föður , sonar og heilags anda, og helgum ásjónu þess krossmarkinu, gerum við það í trausti trúarinnar, í fullvissu vonarinnar og í skini orðanna dýrmætu: “Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.” (Jóh. 8:12)

Gamall maður, sem kenndi stúlku að snúa sér í fífukveik og væta hann í lýsi, gaf henni efni til þess að tendra ljós og hrekja vetrarmyrkið úr bænum. Þegar hann gaf henni bænina um Maríusoninn, gaf hann henni ljósmeti, sem lýsir af ljósi Guðs.

Stúlkan litla var sett undir hinn æðsta dóm lífs og dauða, þar sem allt vegur salt, og hún vissi hvorki daginn né stundina. En hún varðveitti olíuna á lampanum. Hún vann sín störf, hún gladdist í birtu ljóstýrunnar og hún setti traust sitt á Maríusoninn. ‘Í lágu koti á ljóstýrunni haltu’. Það er í þeirri bæn sem menningin og þrenningin ganga saman í eitt.

“Drottinn hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. … Drottinn, er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna.” (Sef. 3:15).

Sagan um stúlku og fífukveik er vitnisburður kynslóðanna. Einn af mörgum. Sá vitnisburður er hinn raunverulegi fjársjóður barna okkar.

Vökum og biðjum.

Maríusonur mér er kalt,
mjöll af skjánum taktu
yfir mér alltaf vaktu.
Lánið bæði og lífið er valt;
ljós og myrkur vega salt.
Í lágu koti á ljóstýrunni haltu.

Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4009.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar