Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hjálmar Jónsson

Vettvangur lífsins og mennskunnar

22. október 2006

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ - og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matt. 9.1-8

Í dag er guðspjallið frásögn af öryrkja. Og frásögn af kærleiksþjónustu. Öryrkinn á vini sem færa hann Jesú Krists. Eitt af mörgum guðspjöllum þar sem fólk er í þjónustuhlutverkum fyrir lífið – og Kristur læknar, veitir heilbrigði og heilsu.

Þessi saga hefur löngum orðið fólki hvatning að láta til sín taka. Svo oft kemur það í ljós í guðspjöllunum að lítill skerfur, framlag, viðvik, af mannanna hálfu, margfaldast í meðförum Krists. Svo oft verðum við þessa vör í kirkjustarfinu að bænin og kærleiksþjónustan virkar.
Hann var fatlaður, maðurinn, lamaður og þá voru úrræðin ekki mörg. Þau eru fleiri í dag í okkar heimshluta. Þó voru sum fréttaefni liðinnar viku af öryrkjum og Öryrkjabandalagi. Lýðræði og lýðréttindi hafa leiðir til að leiðrétta ranglæti í samfélaginu. Lýðræði byggt á því að ég á að gæta bróður míns og systur minnar.

• • •

Fólk, sem tekur tillit til boðskapar Jesú Krists, hlýtur samt oft að horfa fast við óréttlæti heimsins, misbeitingu og misrétti. Það mætir ákalli í augum þeirra sem þjást. Því kemur oft upp spurningin hvernig eigi að bregðast við. Hvernig erum við biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja?

Óeðlilegt væri ef predikarar kirkjunnar, þjónar safnaðanna, fyndu ekki hjá sér hvöt til að láta til sín taka. Það væri líka afar einkennilegt ef prestar ekki blönduðust inn í umræður um lausnir á margvíslegum vanda samtímans, hverju sinni.

Manngildishugsjón kristindómsins hefur frá upphafi verið hvati til framfara meðal þjóða heimsins. Og kirkjan getur átt flestum öðrum auðveldara með að setja fram hugmyndir um bætt þjóðfélag, fegurra mannlíf, meiri hamingju, réttlæti, sanngirni og frið. Sem slík hefur hún áhrif á samtíma sinn hverju sinni. Hún verkar t.a.m. á hugsjónir og stefnumið starfandi stjórnmálaflokka. Boðskapur Krists hefur líka áhrif á viðfangsefni vísindanna og það hvað vísindin telja ástæðu til að kanna og leita. Kristindómurinn er umbótaafl á líðandi stund.

• • •

Spurningar um það hvort prestar eigi að taka þátt í stjórnmálum eru oft með þeim undirtóni að stjórnmál séu af hinu illa. Þess vegna sé æskilegt að prestar haldi sig fjarri veraldarmálunum. Það sé til svigrúm fyrir einhvers konar sakleysi. Hægt sé að vera í þeirri aðstöðu að velja milli hreinleika og spillingar, milli hins andlega og veraldlega, velja milli kirkjunnar og heimsins, Guðs og keisarans. Sinni menn málefnum kirkjunnar séu þeir óháðir þeim lögmálum sem gilda um veraldleg efni.
Reyndin er önnur. Sagan sýnir það glöggt, að varla er nokkurt viðfangsefni sögunnar flóknara en tengsl stjórnmála og trúarbragða. Ótal þættir eru samofnir og samþættir, og á köflum eru þeir jafnvel þráðabenda sem ekki er mögulegt að greina sundur.

Hin sýnilega kirkja á sína sögu. Hún kallar starfsmenn og fær þeim mismunandi hlutverk. Auk iðkunar guðfræði þróar hún með sér stjórnvisku og safnar sér reynslu. Leiðtogar kirkjunnar gera áætlanir á veraldlega vísu. Kirkjuþing og kirkjuráð eru valin með aðferðum lýðræðisins og almenn þingsköp gilda að sjálfsögðu á þeim vettvangi sem öðrum. Kirkjan er ekki andleg og upphafin, enda þótt erindi hennar og boðskapur sé ofar veraldlegum markmiðum og hinn mikilvægasti sem snert hefur við þessari jörð.Ekki er hægt að segja að það sé afhelgun eða spilling þar sem eðlilegra stjórnarhátta og aðferða er gætt. Kirkjan er félag sem lýtur lögum hvers þjóðfélags og nánari ákvæðum í reglugerðum, starfsreglum, venjum og siðum. Stjórnun hennar eru stjórnmál.

• • •

Stjórnmál og stjórnunarmál eru hverju samfélagi mikilvæg og þau lúta sömu lögmálum og önnur svið mannlegrar tilveru. Að baki þeim liggja meira eða minna skilgreindar hugsjónir. Mótuð eða lausleg hugmyndafræði og eðlilegt að hún sé lýðum ljós rétt eins og stefnumálin. Þannig velur fólk með hverjum það á samleið á pólitíska vísu. Það er bæði réttur hvers manns, en um leið skylda hans að lifa ábyrgur og meðvitaður í sínu samfélagi.

Skýr og skörp er lýsing Halldórs Laxness þar sem Ólafur Kárason hefur, í mildi sinni, stutt þá báða, Júst og Nasa, til að vinna hylli stúlkunnar, sem hann hafði sjálfur ort svo fallega um að væri „fráhneppt að ofan.“ Svo kemur þar sögunni að slær í brýnu milli þeirra Júst og Nasa. Þeir berjast í illu og þess þá vænst af Heimsljósinu að það gangi í milli og taki afstöðu. En Ólafur Kárason hjúfrar sig þá upp að þilinu „titrandi af hlutleysi.“

Þjóðkirkjan á ekki að titra af hlutleysi. En hún markar sér ekki stefnu eins og stjórnmálaflokkur.

Hlutleysi getur hæglega orðið annað nafn á leti, sinnuleysi, sljóleika. Það ber jafnvel vott um ótta við heiminn, lífið og allt sem hans er. Við munum frásögnina af ummynduninni á fjallinu. Þar vildu þeir vera um kyrrt, úrvalssveit Krists ásamt honum í skínandi birtu og friði ásamt Móse, Elía og fleirum ( Pétur, Jakob og Jóhannes; eiginlega fyrsta kirkjuráðið!). En Kristur var ekki kominn til að lifa lúxuslífi fjarri fólkinu, fjöldanum, sem þurfti hans með. Hann knúði fylgismenn sína til að fara þangað og vera þar sem fólkið þurfti hjálp, stuðning, nærveru.

• • •

Svo elskaði Guð heiminn - ekki kirkjuna, heldur heiminn - að hann sendi Jesú Krist til þess að hafa afgerandi áhrif á heiminn, frelsa hann. Sjálfur Guð fæðist til jarðlífs, til þess að breyta heiminum, ekki að ofan heldur að innan. Hann þekkti og hann kynntist öllum kimum mannlegrar tilveru. Það hlýtur kirkjan hans einnig að gera.

Hún er og skal vera vettvangur lífsins og mennskunnar.

Þau öll sem gegna predikunarþjónustu í kirkjunni hafa það ábyrgðarmikla hlutverk að boða Krist og hann krossfestan og upprisinn - Krist sem lífið í trú, von og kærleika kirkjunnar. Sama gildir um þá aðra sem stjórna málefnum og framgöngu kirkjunnar. Guðfræði hennar býður að hún tengist lífi, kjörum og aðstæðum fólksins sem myndar hana. Henni er ekki sama um nokkurn einasta einstakling. Guð týnir engri sál.

Fólk tilheyrir Þjóðkirkjunni óháð stjórnmálaskoðunum sínum. Þú ert samfylkingarmaður, framsóknarmaður, sjálfstæðismaður, vinstri grænn eða frjálslyndur.

Það má einu gilda inni hér. Kirkjan skal vera vettvangur fólks til að mætast á, sem mennskir menn einvörðungu. Sem játandi Jesú Krists, skírður og fermdur, tekurðu tillit til Krists í öllum þínum gerðum. Finni prestar hjá sér hvöt til að blanda sér beint í þau málefni – eða svara kalli um veraldlega ábyrgð – þá er þeim ekkert vandara um að gera það á sömu forsendum og annað fólk í samfélaginu. Það er hin lútherska leið með skírskotun bæði til ábyrgðar og frelsis kristins manns – og kenningarinnar um hinn almenna prestdóm. Kristur er ekkert síður förunautur stjórnmálamanns en prests, jafnt vinur vísindamanns sem guðfræðings – eins og allra annarra.

Um veraldarmálin verða alltaf deildar meiningar, það er hluti af lífinu – og einnig það að lifa sátt þrátt fyrir meiningarmun. Á það reynir æ meira með aukinni fjölbreytni í íslensku samfélagi. Kirkja Krists stendur traust á grunni sínum og býður alla velkomna. Talað var forðum um heilög vé. Það er það skjól, sá vettvangur, þar sem ekki er deilt heldur mæst á jafnréttisplani.

„…einn er stór, hér er stormahlé,
hér stöndum við jafnt fyrir Drottni“,

kvað Einar Benediktsson í orðastað Jóhanns prests á Mosfelli.

Kirkjan er sá griðastaður, opin öllum mönnum. Þú þarft engin önnur skilyrði að uppfylla en þau að vilja koma og vera hluti af því samfélagi. Þú þarft engum að standa skil á þér og þínum skoðunum. Viljirðu vera Krists þá ertu hans. Og öll erum við eitt – í honum. Amen.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Vettvangur lífsins og mennskunnar”

 1. Ingibjörg Elsa Björnsdóttir skrifar:

  Mjög góð predikun séra Hjálmar. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir mannfólksins göngum við öll saman á vegi Krists. Gangi þér vel. Kveðja.

 2. Jón Kristniboði skrifar:

  Hvar er vettvangur lífsins og mennskunnar???

  Það er það sem kirkjuna vantar; einhverskonar vettvang til skoðanaskipta um hin ýmsu mál er tengjast lífinu og tilverunni.
  En ekki að prestarnir séu bara alltaf á eintali í sínum ræðustólum.

  =Gagnvirk samskipti.

  Facebookin gæri verið skref í rétta átt en viljum við ekki frekar eiga samskipti við manneskjur yfir kafibolla en vera hver í sínu horni fyrir framan sinn tölvuskjá?

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3284.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar