Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Jóhannesson

Bonhoeffer, trúin, vantrúin, og sitthvað fleira

29. október 2006

Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti: Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns, en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir. Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum. Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir.Mt. 22.1 – 14

I

Já, líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði mikla veislu og bauð fjölda manns til sín. Hann hafði mikið við og gerði mörgum boð og lagði eflaust á sig mikið erfiði – en enginn þekktist boðið. Enginn vildi koma! Eftirvæntingin breyttist í vonbrigði og gleðin snérist upp í sorg og reiði.

Eitthvað rámar okkur í þetta guðspjall.

Ætli við getum ekki sett okkur í spor þessa reiða og vonsvikna manns. Hvernig yrði okkur við ef að slegið væri á útrétta hönd okkar, ef að enginn þeirra sem við höfðum boðið og haft svo mikið fyrir, – og það af einskærri gleði og fögnuði – já, ef enginn þeirra léti sjá sig?

Jesús er að leggja hér út af sinni eigin lífsreynslu. Hann er tala um sjálfan sig. Hann fór um á meðal fólks og var hrakinn burtu. Ekki voru allir fúsir að fylgja honum og hlýða á hann. Margir voru hins vegar tilbúnir að smána hann og svívirða með ofbeldi og ofstæki. Hann mátti óttast um líf sitt. Það var hans hlutskipti allt til dauða.

Í öllu því sem Jesús sagði og gerði má sjá þetta: Þar fór Guð um á meðal manna, skapari himins og jarðar, og kallaði fólk til sín af kærleika og bauð því að eiga samfélag við sig. En því boði var hafnað.

Og því boði er hafnað!

Og ekki einasta hafnað heldur svívirt og haft að spotti. Þetta er saga kirkjunnar. Þetta er saga okkar. Þetta er hlutskipti hins kristna boðskapar í dag. Kristinn maður lifir í heimi sem í vaxandi mæli er að verða guðvana í eðli sínu .

Svo sagði merkur þýskur prestur að nafni Dietrich Bonhoeffer, sem var myrtur af nasistum árið 1945 fyrir hlut sinn í tilræðinu við Hitler. Svo djúpt í árinni tók hann. Í ár eru hundrað ár frá fæðingu hans. Og ekki tók hann þannig til orða að ósekju. Hann kannaðist vel við ofstæki síns tíma. Bonhoeffer sagði að heimurinn væri vaxinn úr grasi og gæti komist af án Guðs. Maðurinn þyrfti ekki lengur Guð til að skilja heiminn og sjálfan sig. Sálfræðin og vísindin veiti nú öll þau svör sem þarf. Fólk – kristið sem annað – þurfi ekki lengur Guð til að fylla upp í eyðurnar í lífinu. Vitsmunalega, siðferðilega og andlega séð væri Guð orðinn gagnslaus og heyrði til liðnum tíma. Heimurinn er vaxinn úr grasi og getur fyllt í eyðurnar sjálfur. Og kristinn maður þarf að una því að lifa í heimi sem ekki gerir ráð fyrir Guði.
Bonhoeffer kallaði þetta hina vantrúuðu kristni eða hina guðvana kristni. Það er sú kristni sem er ríkjandi alltof víða í dag. Við erum kristin í orði kveðnu. Við játum með vörunum en ekki með hjartanu. Við förum til altaris en finnum ekki Guð þar. Við tökum við boðskortinu en þiggjum ekki boðið. Bonhoeffer kallaði þetta hina ódýru náð, þá náð sem við þiggjum af eigin hentugleika og geðþótta, á okkar forsendum og eftir okkar þörfum - á jólum, ef til vill um páska; sú náð sem við veitum okkur sjálf.

II

Og upp að þessu marki ná gagnrýnisraddir kirkjunnar. Svona tala þær. Bonhoeffer hafði fleira að segja og ég skal koma að því á eftir. En svona tala ofstækismenn hinnar nýju upplýstu aldar.

Þeir tala um hina trúarlegu rökleysu!

Hina trúarlegu hræsni!

Í hugum þeirra jafngildir trú fáfræði og hinn trúaði maður hefur einfaldlega yfirgefið rökhugsun sína og lifir samkvæmt gamalli hefð. Það sé í besta falli ótrúlegt og í versta falli hættulegt. Þetta er hinn nýi rétttrúnaður okkar samtíma gott fólk, og mælikvarðinn, það sem allt á að miðast við, það sem allt skal standa og falla með. Skynsemi og rökleg hugsun. Ef það gengur ekki upp þá er eins gott að losa sig við það. Leggðu ekki lag þitt við annað en þú getur séð og staðfest og rökfært.

Gott og vel.

Ekki vil ég standa hér og gera lítið úr skynsemi enda tel ég mig tiltölulega skynsaman mann og ágætlega gefinn - og ekki hef ég yfirgefið rökhugsun mína. En reynum ekki heldur að mæla vindinn með málbandi, því það er einfaldlega ekki hægt. Reynum ekki að búa til hringlaga ferninga. Það gengur ekki upp. Hvað með kærleika og von? Hvað með fórnfýsi, ástúð og miskunsemi? Er til einhlítur mælikvarði þar um. Hafa þær dyggðir alltaf skynsemina að leiðaljósi? Trú verður aldrei rétt metinn á grundvelli vitsmunalegrar hugsunar eða skynseminnar einnar. Það er vegna þess að trú teygir sig dýpra í vitund mannsins en svo nemur.

Að trúa þýðir að treysta, ekki að vita eða vilja vita. Satt er það sem sagt hefur verið, að eigir þú ekki til trú þá getur þú ekki skilið hana. En eigir þú trú þá eru allar útskýringar óþarfar. Það er vegna þess að trú er ekki samsinni án sannanna heldur traust án skilyrða. Sjálfur Tómas Akvínas, sá mikli miðaldaguðfræðingur, orðaði svipaða hugsun þegar hann sagði að fyrir þeim sem trúir er engin útskýring nauðsynleg en fyrir þeim sem trúir ekki er engin útskýring möguleg.

Að trúa þýðir að leggja traust sitt á eitthvað. Það gerir allt fólk, kristið fólk sem annað, guðlausir vísindahyggjusinnar líka, þeir hafa einfaldlega yfirfært traust sitt á aðra hluti og ólíka. En kristið fólk leggur öðru fremur traust sitt á orð og verk Jesú Krists og reynir að raungera boðskap hans með sínu eigin lífi, hugsunum sínum, orðum og verkum. Með því að þjóna Guði og náunga sínum. Það er að vera kristinn einstaklingur. Hins vegar tel þetta tvennt geta vel farið saman, trú og vísindi; að hvort um sig, þó ólíkt sé, eigi sér sömu uppsprettuna.
III

Við höfum fylgst með því í dagblöðunum undafarið að skipst er á skoðunum um hina svokölluðu Vinaleið sem tekin hefur verið upp í tilteknum grunnskólum landsins. Vinaleiðin er þjónusta sem kirkjan hefur boðið fram, kristileg sálgæsla, stuðningur og leiðsögn til handa nemendum. Og skólarnir, stjórnendur þeirra, og foreldrar nemendanna, hafa þegið það boð og samþykkt framtakið. Þörfin er fyrir hendi.

En fólki stendur sumu hverju ekki á sama og hefur áhyggjur af því hvaða skilaboð séu fólgin í þessu kristilega starfi og hvaða áhrif það kunni að hafa á börnin okkar. Já, að sjálfsögðu höfum við réttmætar áhyggjur af afleiðingum alls þess sem dynur á börnunum okkar dag hvern, af álaginu og áreitinu sem börn verða fyrir nánast hverja mínútu dagsins alla daga vikunnar. Enda horfumst við í augu við þá tíma sem við lifum á. Við lifum á tímum þar sem 11 ára gömul börn eru tekin með eiturlyf á sér. Við lifum á tímum þar sem samskipti barna fara í vaxandi mæli fram í gegnum tölvur. Fyrir ekki löngu síðan lásum við frétt þar sem sagt var frá því að kalla þurfti á lögrelguaðstoð á heimili vegna þess að ungmenni brjálaðist þegar foreldrar þess settu því mörk í tölvunotkun. Við lifum á tímum þar sem sérstök meðferðarúrræði þarf til að stemma stigum við tölvunotkun. Já, við lifum á tímum tölvuleikja þar sem skilin á milli hins raunverulega og óraunverulega mást út, þar sem ofbeldið og gerviheimurinn mótar skynjunina af hinum raunverulega heimi, og allt verður leyfilegt og reynandi. Við lifum á tímum staðalmynda, óteljandi sjónvarpsstöðva, neysluhyggju, þverrandi samverustunda barna með foreldrum sínum (umboðsmaður barna gerði þá staðreynd að umtalsefni fyrir skemmstu). Og svo lengi mætti telja. Þetta eru sannarlega ógnartímar sem skammta öllum sinn skerf af áhyggjum, streitu, álagi og ótta. Kannast þú ekki við það?

Já, margir hafa spurt um fyrirmyndir, áhrif og lífsgildi. Það er að sjálfsögðu mikilvæg umræða og réttmæt. En ég vil taka undir með þeim sem hafa tekið til máls með svipuðum hætti og spyrja hvort það það væri nú verra ef Vinaleiðin kæmi jákvæðum og uppbyggjandi boðskap að börnum og ungu fólki, og kristnum gildum eins og kærleika og ábyrgð og réttlæti, og benti á mikilvægi einstaklingsins og sjálfsvirðinguna? Hvort það væri virkilega vont ef ungt fólk ræddi tilfinningar sínar og hugsanir ef það raunverulega vildi? Hvort það væri nú skelfilegt ef starfsfólk grunnskólanna leitaði í stuðning þeirra sem að Vinaleiðinni standa. Starf þessara skóla hlýtur að verða að engu um leið og það er troðið á sjálfsögðum rétti allra!

Er það virkilega?

Trúið þið því?

Trúið þið því að kirkjan fari með slíkum hroka og yfirgangi og henni er borið á brýn. Haldið þið að hún vilji það - að hún geti það? Það er rödd ofstækisins, hins öfgafulla rétttrúnaðar, sem vill telja ykkur trú um það.

Kirkjan á erindi í þessum heimi, í þessu samfélagi, og hún blygðast sín ekki fyrir það. Það er í eðli kirkjunnar að leita út á við. Hún gerir það. Og hún mun gera það áfram. Kirkjan vill starfa og láta til sín taka á vettvangi daglegs lífs. Engan þarf að undra það. En hún brýst ekki inn í líf fólks. Hún kallar og býður hverjum þeim sem vill hlusta og þiggja. Þannig vinnur kirkjan. Þannig vinnur Guð. Hann knýr á, kallar og leitar. En hann hleypir sér ekki inn sjálfur né tekur af okkur orðið. Hann hvorki getur það né vill. Hann kemur ekki eins og þjófur til að stela. Það er okkar að opna og svara. En hann hættir ekki að banka eða kalla þrátt fyrir allt. Þó að við svörum ekki þá gefst hann ekki upp á okkur. Það er fagnaðarerindið.

Já, það er undiralda í okkar samfélagi, og hún þyngist. Það er alda vantrúar og guðleysis, oft á tíðum ofstækisfulls guðleysis sem litlu eirir og fátt virðir, nema það sem sjálfsagt þykir í hennar augum – hinn nýi rétttrúnaður. Við þurfum að synda gegn þeim straumi, eins og er að minnsta kosti. Það er ekkert nýtt í sögu kirkjunnar. En ég veit að það er afskaplega þreytandi og lýjandi. Við megum ekki þreytast kæri söfnuður. Sögum ekki undan okkur greinarnar sem hafa skýlt okkur í árþúsund. Við lifum á viðsjálverðum tímum. Það er brýnast af öllu að setja aftur á sinn stað hin kristnu boðorð, sem fölsk bylting er búin að troða í svaðið. Þannig tók Thomas Mann til orða og ég tek undir með honum. Eina skapandi aflið er virkur kærleikur. Og minnumst þess líka, sem bent hefur verið á, að það er að myndast tóm og eyða í menningu okkar daga af því að fólk getur ekki, vill ekki eða þorir ekki að viðurkenna þá trú, sem því er ásköpuð.

Við það, við því, vil ég aðeins segja þetta - ég get ekki sagt annað: Taktu fyrsta skrefið á vegi trúarinnar. Láttu reyna á það. Þú þarft ekki að sjá allan veginn, þú þarft bara að taka fyrsta skrefið.

IV

Hún er minnisstæð ræða biskupsins okkar sem ég heyrði fyrir nokkru síðan – þó ekki svo mjög löngu síðan – þar sem hann vitnaði í athyglisverða grein úr breska dagblaðinu The Guardian. (sem er dæmi vandað breskt dagblað sem virðist ala á mikilli andúð gegn trúarbrögðum). Breskur samfélagsrýnir, Roy Hattersley, hugleiðir þar afleiðingar fellibylsins Katrínar sem við munum öll eftir. Hann segist vera guðleysingi sá maður en verða engu að síður að horfast í augu við að flestir trúmenn séu einfaldlega betri manneskjur. „Trú getur af sér umhyggju“ segir hann. „Hörmungarnar hurfu fljótt af fyrirsögnum fjölmiðlanna. En aðrar slíkar munu koma í staðin, því það er nóg af þjáningu í heiminum og þær eru varla neinar fréttir.“ „Og ekki eru það heldur fréttir“, segir hann, „verkefni þeirra sem reyna að létta byrðar hinna sjúku, heimilislausu og allsvana. Verkefnin sem hjálpræðisherinn sinnir“. Hattersley bendir á að nánast allir þeir sem standa að þessháttar hjálparstarfi séu á vegum trúarsafnaða eða kirkjustofnana. Og hann bætir því við að áberandi sé að hvergi sjást hjálparteymi vantrúarfélaga, fríhyggjusamtaka og guðleysisflokka, - þess háttar fólks sem ekki einasta gerir lítið úr þeim sannindum sem trúarbrögðin standa fyrir, heldur telur þau standa gegn framförum og vera jafnvel undirrót ills. Hattersley fullyrðir að það sé umfram allt fólk sem lætur stjórnast af trú sem líklegast er til að fórna sér fyrir aðra. Samhengið er svo greinilegt segir hann, að engin leið er að efast um að trú og umhyggja haldist í hendur.

Þetta er sannarlega íhugunarverður vitnisburður.

Og Guð er kærleikur fyrst og síðast, friður, náð, fórnfýsi og réttlæti, sem kemur fram í einum manni, og á hann treystum við.

Á hann trúum við. Í fótspor hans viljum við feta.
Hvernig getur það verið slæmt í heimi eins og þeim sem við höfum búið okkur? Er það mannskemmandi, eins og sumir halda blákalt fram? Nú svari hver fyrir sig.

Hvað ætli Bonhoeffer mundi segja?

Bonhoeffer bætti því við að hættan er sú að við missum sjónar á því hver Guð raunverulega er. Því valdi eðli tímanna sem við lifum á. Guð er alls ekki eitthvað sem við getum notað til þess að fylla upp í eyðurnar. Það er ekki Guð kristninnar. Guð er ekki jafna sem getur gengið upp. Þá fyrst kemur sönnunin, sagði Kierkegaard, þegar trú er ekki lengur trú. Þá fálmar hún eftir sönnunum til þess að afla sér meðborgaralegs álits hjá vantrúnni. Það finnur enginn Guð eftir þeim leiðum. Aldrei. Bonhoeffer bendir okkur réttilega á þá jákvæðu staðreynd að heimurinn, sem er vaxinn úr grasi, setur einmitt í brennidepil fyrir okkur hvað og hver Guð er ekki. Guð er ekki hugtak eða skilgreining. Hann er ekki eitthvað sem við getum sniðið eftir okkar þörfum. Hann er Guð almáttugur, skapari himins og jarðar. Hann er skapari þinn, skapandi og frelsandi máttur líknar og kærleika í hörðum heimi. Og hann býður þér til samfélags við sig. Hann leitar þín á torgum og úti á strætum. Þar fer ekki ósýnilegur Guð sem enginn getur séð eða snert, heldur Guð sem þekkir þjáninguna og veiklyndið, Guð sem vill styðja og líkna, leiða og blessa. Guð sem vill vera þáttakandi í þínu lífi.

V
Kirkjan á að vera rödd kærleika og friðar í heiminum, umburðarlyndis, virðingar og réttlætis. Hún á að tala orði Guðs almáttugs. Og hún getur það ef hún þiggur boðið. Og með kirkja á ég ekki við djákna, presta eða biskupa, heldur ykkur, okkur öll. Við erum kirkjan! Við sem komum hér saman til messu. Munum það líka að messan er aðeins áningarstaður, nauðsynlegur vissulega, en hún er ekki skilgreinandi ein og sér fyrir okkur sem kristið fólk. Hún er ekki nóg. Trúarlífið má ekki eiga sér upphafi og endi hér. Messan er staður þar sem við komum til þess að hlaða okkar kristnu batterí, eiga samfélag hvert með öðru og koma saman um orð Guðs og sakramenti. Kristið fólk getur ekki verið án þess. En við eigum að nota batteríin þarna úti, ekki hér inni. Við eigum að nota batteríin á meðal fólks, náunga okkar til góðs, Guði til dýrðar og vegsemdar.

Það er lítið mál að læra trúarjátninguna utan að og auðvelt að hafa hana eftir. Það er líka einfalt að ganga til altaris og þiggja þar brauð og vín. En það er ekki það sama og að játa af hjartans einlægni og trúartrausti, það er ekki það sama og að ganga upp að altarinu til móts við Krist upprisinn og taka á móti honum í líkama og blóði.

Munum það að hin ódýra náð er auðfengin. Og hún er hættuleg einmitt vegna þess að hún er svo auðfengin og auðsótt, vegna þess að hún hefur ekki afleiðingar í lífi okkar. Ólíkt hinni dýru náð, sem grundvallast hinum krossfesta og upprisna Kristi og verður aðeins þegin í gegnum traust til hans, þá krefur hin ódýra náð okkur ekki til verka. Hún felur ekki í sér svar.

En Guð kallar - hann kallar okkur öll - og býður og væntir svars. Hlustum eftir því.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3515.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar