Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

Ráðsmennskan mín

13. ágúst 2006

Vér vitum ei hvers biðja ber,
blindleikinn holds því veldur,
orð Guðs sýnir þann sannleik þér,
sæll er sá, þar við heldur. (HP 339).
sunnudagur, 13. ágúst 2006

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ráðsmennskan er hlutskipti mannsins. Líf hvers einstaklings er dýrmætt, Guðs gjöf. Og hver einstakur ber ábyrgð í lífi sínu, bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum. Við erum sköpuð til samfélags og í því erum við ráðsmenn Guðs og höfum afar mikilvægu hlutverki að gegna sem fulltrúar hans. En ráðsmennskan er okkur dýr. Líklega af því, að í ráðsmennskunni, kunnum við ekki alltaf fótum okkar forráð. Þó er hún forsendan fyrir því að eitthvað gangi. Okkur hefur verið trúað fyrir miklu og þar er enginn undanskilinn. Þú og ég eigum í heimi hér ráðsmennskuhlutverkið víst, til þess að annast og hlú að, - af öllum mætti, huga, hjarta og sál. Og verkefnin eru ærin. Óendanleg. Spennandi. Ávaxtarík. Í sköpunarsögu Biblíunnar er þessu svo lýst að manneskjan hafi ekki haft frið í sálu sinni, þegar henni varð ljóst að hún bjó yfir hyggindum og forvitni og hæfileikum til þess að láta eitthvað gerast eftir eigin höfði. Snákurinn í paradís er táknið um þær dularfullu hugrenningar, sem leiða manneskjuna í ógöngur. Fær hana til að bregðast ráðsmennskuhlutverki sínu og gleyma því, hvaðan allt er. Gleyma því hver léði manneskjunni lífsins hlutverk, -foreldrahlutverkið, kennarastarfið, forstjórastöðuna, ráherraembættið, já eða það hlutverk að vera öðrum náungi. Upptalningin er auðvitað takmarkalaus. “Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn” hefur Lúkas guðspjallamaður svo eftir frelsaranum á öðrum stað. (Lúk. 12.48).

Við erum ólík, en þó svo óumræðilega lík. Manneskjan. Mannskepnan. Sköpun Guðs í Guðs mynd. Og húsbóndinn fann ástæðu til að kvarta yfir ráðsmennskunni. Sóunin var of mikil og nú þurfti að gera reikningsskil. Hvernig gerir maður slík reikningsskil. Er það ekki fólgið í því að kanna hvað er til, hvað hefur aflast og hverju hefur verið eytt? Í hverju var fjárfest og hver eru útgjöldin tengd því? Hvað er til? Hver er ég og hvers virði er ég? Hverjum er ég hollur ráðsmaður og hverjum þjóna ég, þegar upp er staðið? Spurningarnar renna fram. Svörin veltast líka fram og hverjum sýnist sitt. Þegar Marta kvartaði yfir ráðsmennsku systur sinnar Maríu, var aumkvast yfir hana og sagt: “Þú mæðist í mörgu, en eins er vant.” Og henni var tjáð að María hefði valið góða hlutann. Það finnst mörgum ósanngjarn samanburður á lífsháttum þeirra systra, en samt var það sagt. Gerður er greinarmunur á því sem varðar hið líkamlega og hið andlega, þar sem hið líkamlega er dauðlegt, en hið andlega eilíft. Hold og andi. Hvort þeirra sviða jarðnesks lífs varðar mig meira, þegar öllu er lokið af þessa heims tilveru minni. Okkur má ljóst vera í þeim samanburði að skoða verður lífsuppgjörið öðrum augum en almennt er gert í daglegu lífi og yfirborðslegri umræðu glansmyndasagna. Ætli það séu þá augu Guðs? Hverjum augum lítur hann gullið mitt og ráðsmennsku mína? Hæfileika mína og lífshlaup? Skoðanir mínar og afstöðu til alls sem er í kring um mig?

Sú ráðsmennska sem í dag þykir mest um verð varðar öflun og umsýslu fjár. Sagt er að fjármagnið sé driffjöður hvers samfélags. Við veigrum okkur við að hnekkja þeirri fullyrðingu, samþykkjum því frekar almennt að slíka ráðsmennsku beri að launa vel. Það er góðra gjalda vert. Við vitum líka öll að í heimi fjármálanna gerist margt sem miður fer og aðferðafræði fjáraflamannsins sætir gagnrýni. Sé það og líka siðferðisleg prófun að afla fjár, þá er varðveisla fjárins og ráðstöfunarmöguleikar ekki síður prófun á siðferðisstyrk ráðsmannsins. Um þessar mundir beinast sjónir okkar mjög að þessari hlið samfélagsins. Og við mæðumst í þeirri umræðu mjög. En eins er vant! Hvað varðar fjármáladraumurinn eign sál? Hvað geri ég sem einstaklingur í þeirri ráðsmennsku, sem við dæmum harðast, um leið og við höfum ekki ólíklega löngun til að vera á sama stalli og þeir sem mest eru gagnrýndir – eða öfundaðir. Spurningin er með öðrum orðum einföld. Hvernig yrði ráðsmennska mín á ofurlaunum? Og þegar ég svara sjálfum mér þeirri spurningu reynir býsna mikið á hreinskilni, sannleiksþrá og lífsafstöðu. Kosturinn er sá að við höfum í þessu fullt málfrelsi og okkur ber að sjálfsögðu að nýta okkur það til hins ýtrasta og horfa til allra hliða málsins.

Ómar Ragnarsson hefur ákveðið að nýta sér málfrelsið og hann talar nú til þjóðarinnar og reynir að vekja athygli á því sem er að gerast á öræfum þessa lands, sem okkur er gefið að erfðum af gengnum kynslóðum. Framsetning hans er málefnaleg og beinir spurningunni fyrst og fremst inná við, þar sem hver og einn er hvattur til að taka sjálfstæða afstöðu, byggða á skoðun, mati og lífssýn. Spurningin um framtíð hins fagra föðurlands er orðin andleg spurning um efnislegan heim og sístæð gildi.

Í sveitinni var ráðsmaður. Hann kallaðist “Ráðsi” og það var tignarheiti. Hann var líka uppfinningamaður og við strákarnir, kúskarnir, hlýddum honum í einu og öllu. Eitt sinn smíðaði hann snúningsvél, furðulegan grip. Setti traktor fyrir hana og bað undirritaðan að keyra þessa nýjung sína um nýræktarstykkið “eins og ég ætti lífið að leysa, svona í hálftíma og komdu svo”. Kúskurinn lét ekki segja sér þetta tvisvar. Þegar hálftími var liðinn, eða rúmlega það, mætti hann á tilteknum stað og ráðsmennskan var skoðuð að hann hélt. Og það var mikið tautað og rausað og sagt “ja, hver þremillinn” og “hvert þó í logandi”. Kúskurinn varð niðurlútur mjög og fannst hann hafa brugðist sínum góða yfirmanni, sem hafði treyst honum fyrir svo nýrri og merkilegri vél, því hún var satt að segja brotin og skæld, kominn í smátt. En loks varð þessum unga kúski ljóst að skammirnar beindust ekki að honum, heldur var “Ráðsi” að tala yfir sjálfum sér. Þetta hefði hann átt að gera betur og að honum skyldi hafa dottið í hug að útbúa þetta svona kjánalega o.s.frv. Nú væri þörf á endurskoðun og endurgerð þessarar uppfinningar. Úttekt reikningsskilanna var tæpitungulaus, en hún beindist inná við. Kúskurinn var ekki sökudólgur, ekki syndaselur, ekki ólánsmaður í samfélaginu, heldur lykilmaður á þróunarskeiði uppfinningamanns. Mannlegs skapara. Ráðsmennska beggja var í þessari sögu úr sveitinni heil og hreinlynd. Hvor um sig gerði skyldu sína, - reyndar báðir af kappi og gleði.

Þegar við krefjumst reikningsskila okkar í millum, eru þau of oft byggð á röngum forsendum. Jesús segir okkur söguna af rangláta ráðsmanninum, og í því máli sínu beinir hann sjónum okkar að hjarta og sál. Hver er ég sem ráðsmaður Guðs? Okkur verður gjarnan bilt við, þegar við gerum okkur grein fyrir því, hversu miklu okkur er trúað fyrir, og hversu lítilmagna við erum frammi fyrir hinum endanlega kröfum himinsins. Þar erum við hjálparlaus, nema frelsari vor og Drottinn standi með okkur og fyrir okkur.

Þegar fyrsti AIDS-sjúklingurinn dó á Borgarspítalanum fyrir rúmum 20 árum varð uppi fótur og fit í þjóðfélaginu, eins og annars staðar á þeim tíma í hinum vestræna heimi. Fólk með slíkan sjúkdóm hlaut að vera bæði samkynhneigt og syndugt, ekkert annað kom til greina. Návistin við það hlaut líka að vera venjulegu fólki lífshættuleg. Allar þær ályktanir reyndust rangar og ósanngjarnar. Í ljós kom að hægt var að takast á við þær, hverja og eina, af þekkingu, samheldni og umhyggju fyrir sjúklingunum og samfélaginu yfirleitt. Sjúkdómurinn hefur nú nánast verið kveðinn niður hér á landi, en hins vegar er mikið starf óunnið víða um heim á þessu sviði. Samkynhneigt fólk hefur oft verið úthrópað í samfélaginu, en þau hróp hafa hljóðnað mjög sem betur fer. Samtök þeirra hafa óskað eftir því að fá að koma í þetta guðshús í dag undir merki sínu og lofa Guð í helgidómi hans. Veri fólk úr þeim samtökum velkomið, sem og annað kristið fólk, sem vill fylgja þeim.

“…ef þú kallar á skynsemina
og hrópar á hyggindin,
ef þú leitar að þeim sem að silfri
og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er,
og öðlast þekking á Guði.” (Orðskv. 2)

Líf fólks er framrás Guðs í veröldinni, þar sem sífellt vantar styrka hönd, eldlegan áhuga og kærleiksríkt hjarta. Öll erum við búin miklum kostum til þeirra verkefna. Sú fjárfesting sem við byggjum helst á er arfur þeirra, sem hafa kennt okkur eitthvað gott, lagt viðurkenningu gegn höfnun og uppörvun við mótlæti, hlýjan faðm í sárri sorg, já og gleði mót gleði. Við slíka iðju og í slíkri ráðsmennsku koma kostir okkar best fram og rangláti ráðsmaðurinn fær þá sjálfur fundið, hver sem hann er og þrátt fyrir allt, að til er réttlæti og til er von.

“Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.” (1. Pét. 4.)

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2863.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar