Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

María Ágústsdóttir

Elskan og bænin

16. ágúst 2006

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen. 1. Pét 4.7-11

Verum gætin og algáð til bæna. Þetta er áskorun Péturs postula til okkar. Gætin og algáð til bæna. En umfram allt segir hann okkur að hafa brennandi kærleika hvert til annars. Og svo lýsir hann kærleikanum nánar; hann felst m.a. í gestrisni, þjónustu og góðri ráðsmennsku náðargjafanna.

Þetta tvennt, bænin og kærleikurinn, er nátengt, samofið í gegn um sögu Ritningarinnar og kirkjunnar. Bæn, sem ekki sprettur fram af kærleika til náungans, verður andlaus og sjálfhverf, missir marks. Og hvernig er hægt að elska án þess að kærleikurinn kalli fram bæn í hjartanu, með eða án orða?

Við biðjum gjarnan fyrir okkur sjálfum og fólkinu okkar. Gott og vel. Það er eðlilegt að biðja þess að náðargáfan, sem okkur hefur verið gefin, megi blómgast og dafna í þjónustunni við Guð og manneskjur – til þess að Guð vegsamist í henni fyrir Jesú Krist. Í þeirri bæn felst líka óskin um heilsu og líf, að okkur megi endast kraftar og gefast andrými. Það er líka eðlilegt að bera fólkið sem stendur hjarta okkar næst á bænarörmum fram fyrir Guð. Við erum öll fyrir skírnina prestar fjölskyldu okkar, þ.e. kölluð til að biðja fyrir maka okkar, börnum, systkinum, foreldrum og ástvinum öðrum.

En við erum líka kölluð til, sem hluti hinnar kristnu fjölskyldu, að biðja fyrir trúsystkinum okkar um víða veröld, líkt og Páll postuli segir í Efesusbréfinu (6.18): Verið því árvökul og staðföst í bæn fyrir öllum heilögum, einnig þeim sem við þekkjum ekki og eins hinum, sem við erum ekki sammála.

Og sem hluti mannkyns og Guðs góðu sköpunar ber okkur líka að biðja fyrir þeim sem standa utan hins kristna samfélags. Í bréfum postulanna er tilhneiging til að einblína á kærleikann til og bænina fyrir hinum heilögu, þ.e. kristnu fólki. Það er vegna aðstæðna hinna fyrstu kristnu, sem fundu sig útilokuð frá þjóðfélaginu og sættu jafnvel ofsóknum. En Jesús segir: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður (Mt. 5.44). Biblían í heild sinni boðar elskuna til náungans, óháð lífsskoðun og lífsaðstæðum, og því ber okkur að vera gætin og algáð til bæna fyrir veröld allri, vakin og sofin í virkum kærleika. Elskan kallar til bæna – og bæn í trú uppsker innlifun í ást Guðs.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Elskan og bænin”

 1. Hulda Guðmundsdóttir skrifar:

  Sæl María
  Í útleggingu þinni lætur þú alveg vera að taka fyrir fyrstu setninguna, þar sem vísað er í að “endir allra hluta er í nánd”. Hvers vegna? Hugmyndin um “reikningsskil” við enda tímanna er þó það grunnstef sem liggur að baki áminningunum og hvatningunum (m.a til bæna) sem birt eru hinum útvöldu í bréfinu.

 2. María Ágústsdóttir skrifar:

  Sæl, Hulda.
  Þessi ör-predikun var flutt í morgunmessu þar sem við reynum að vera stuttorð. Því verður stundum eitthvað útundan. Annars er lífið í ljósi lokatímanna lykilstef að mínu mati og vitundin um að endir allra hluta sé í nánd breytir viðhorfinu til lífsins í grundvallaratriðum. Það er ekki bara líf einstaklingsins í ljósi eigin dauða (sem vissulega getur haft mikla þýðingu fyrir siðferði og lífsviðhorf, óháð trúarskoðun)heldur endurkoma Krists sem um ræðir. Gamall maður gaf mér eitt sinn texta, sem segir þetta á áhrifaríkan hátt:
  Gerðu ekkert sem þú vilt ekki vera að gera þegar Jesús kemur aftur.
  Segðu ekkert sem þú vilt ekki vera að gera þegar Jesús kemur aftur.
  Farðu ekki þangað sem þú vilt ekki vera þegar Jesús kemur aftur.
  Hugsaðu ekkert sem þú vilt ekki vera að hugsa þegar Jesús kemur aftur.

  Þetta er einföld, en afar biblíuleg hugsun: Jesús Kristur mun koma aftur, það er staðreynd trúarinnar sem á að hafa áhrif á líf okkar allt.
  Takk fyrir góða ábendingu.
  Kv.
  María

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4911.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar