Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

Allt vald er mér gefið

23. júlí 2006

Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Mt. 28.18 - 20

“Ég á mig ekki hér
í veröldinni.
Drottinn ég eign þín er
af miskunn þinni.” (HP).

Og þannig undirstrikar Hallgrímur Pétursson að lífið er frá Guði, og allt er þegið úr hendi hans fyrir náð, miskunn og kærleika.

Náð sé með yður og friður frá guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

“Allt vald er mér gefið” eru upphafsorð guðsspjallsins í dag. Hér talar valdsmaður. Hvers konar valdsmaður er hann? Hvert er hans vald? Fljótt á litið virðist hann segja meir, en almennt má reikna með að einhver standi við, en hann gerir það blátt áfram og kinnroðalaust, að því er virðist. “Allt vald er mér gefið.” Einhverjum þætti líklegast gott að hafa slíkt vald. Valdið virðist svo eftirsóknarvert, og margir leggja mikið á sig til að eignast eitthvert vald. Sagan vitnar um það. Orrustusögur aldanna, íslendingasögur og aðrar hetjusögur, ævisögurnar í stórum bindum, já, og dagblöðin, fréttir líðandi dags, vitna um slíkan reipadrátt fólks og flokka í millum.

Höskuldur Dala-Kollsson, faðir Hallgerðar langbrókar, vildi gjarnan stjórna fólkinu sínu og sveitinni og kveða upp úr um ráðahag dóttur sinnar að henni forspurðri af því að honum þótti það hagkvæmt og það staðfesti vald hans og virðingu. Sú stjórn á högum ungrar stúlkur varð ekki góður grundvöllur að framtíð hennar. Hrútur bróðir hans stjórnaði með spakmælum og spásögnum, dómharka hans og hégómi birtast þar í öðru hverju orði, honum tókst meira að segja að leggja dóm á þetta 5 ára stúlkubarn, - “hvaðan koma þjófsaugu í vorar ættir”segir hann um Hallgerði. Ekki þar fyrir að þeim væri alls varnað eða hefðu sífellt illt orð á tungu, en sagan Njála kennir okkur margt um mannlegt eðli. Sérhver manneskja skyldi gæta sín á því, að orð í eyra barns eða unglings er eins og koparstunga, það geymist, máist ekki út. Þá er betra að það sé eitthvað fallegt og uppbyggilegt en hitt. Hallgerður varð síðar einhver óvinsælasta persóna íslandssögunnar, - en hverjir sáðu til þeirrar ógæfu?

Misvitur orð og heimskuleg viðbrögð eru sínkt og heilagt í að koma fyrir í framkvæmd og orðræðum dagsins í dag. Fólk vill finna til valdsins. Ef ekki í stóru, þá í smáu. Ef ekki ljóslega, þá í leyndum. Það er ef til vill versta mynd valdsins. Umræða um leynilegar pyntingar og morð vitna um það, en einnig ýmis konar valdbeiting gagnvart fólki, ekki síst konum og börnum, - svo fátt eitt sé nefnt. Vandi þess að einhverjum sé fengið vald í hendur er ekki sá að ráða einhverju í einhverjum tilvikum, heldur það, hvernig við förum með það vald, sem okkur er treyst fyrir.

Til eru sögur af einstaklingum, sem bjuggu eða búa við feikna ríkidæmi. Enda þótt okkur sé vel kunnugt um að viðskiptalífið geti verið harðskeytt, er ekki þar með sagt að tilteknir einstaklingar beiti valdi sínu ótæpilega, eða miskunnarlaust, heldur kannski þvert á móti. Og til eru sögur af einstaklingum, sem áttu eða eiga ekkert veraldlegt að heitið geti, en gera það eitt í öfund sinni, vanlíðan og heimsku, að vera andstyggilegir við aðra. Og spurningin blasir við okkur: Hvert er það vald sem mér er trúað fyrir? Sem foreldri eða sem forustumaður. Athugum það.

Orð guðspjallsins eru eignuð Kristi, upprisnum. Að vísu álíta margir að hann hafi ekki beinlínis sagt þetta, eins og Mattheus skrifar, en sumir ætla, ( t.d. Edv. Schweizer) að Mattheus guðspjallamaður, sé hér að draga saman meginþætti máls síns í guðspjallinu öllu. Hér dregur hann saman eins konar stefnuskrá þess inntaks, sem hann finnur í orði og kenningu Jesú. ‘Allt vald er mér gefið. Farið, skírið, kennið. Ég er með yður ávallt’. Þetta er þá e.k. stefnuskrá kristindómsins römmuð inn af yfirlýsingu um það hvaðan valdið kemur og fyrirheiti um eilífa vernd, styrk og blessun. Þessi setning Mattheusarguðspjalls skiptir þess vegna máli, - miklu máli.

Vald Drottins Jesú á ekkert skylt við það vald, sem manneskjan sækist yfirleitt eftir í líf sínu. Valdi yfir eignum og valdi yfir fólki. Vald Drottins byggir ekki á því að taka til sín, kaupa eða selja. Vald hans byggir á því að gefa. Gefa sjálfan sig. Sá sem gefur ætlast ekki til neins af neinum. Gjöfin getur aðeins falið í sér bæn. Viltu þiggja þessa gjöf? Ef svo er, þá myndi það gleðja mig . Og til hvers væri það? Jú, til þess að þjóna með sama hætti og Jesús gerði í trausti til Guðs og í kærleika til alls sem lifir og hrærist. Þjóna sköpun Guðs, fyrst og fremst fólkinu, samferðamönnum, náunganum. “Verið með sama hugarfari og Jesús Kristur var.” (Fil.2:5).

Þegar Jesús var á leið sinni til Jerúsalem, ásamt lærisveinum sínum, fóru þeir um land samverja, til að stytta sér leið. Þar mætti þeim fálæti og sinnuleysi, ókurteisi, og þeim var synjað um gistingu, af því að þeir voru af öðru sauðahúsi, öðrum menningarheimi. Lærisveinunum sárnaði af því að þeir héldu að þeir stæðu fyrir góðum málstað. Þeir fylltust reiði og sögðu: “Herra, eigum vér að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?” Þeir voru semsagt reiðubúnir til hefnda, rétt eins og sannir víkingar sögunnar. Jesús sagði þá: “Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð. Mannssonurinn er ekki kominn til þess að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa.” (Lk. 9:55). Við skiljum orðin, en okkur er um megn að finna þeim farveg í breytninni og láta þau bera ávöxt í lífi okkar gagnvart öðru fólki, einkum fólki, sem breytir ekki vel gagnvart okkur sjálfum. Þar liggur vandinn, enda gegn margra alda viðhorfum í mannlegum samskiptum. Við viljum hefnd, þegar einhver er ekki eins og við viljum, og við viljum tortíma, þegar einhverjir sýna okkur dónaskap. Gunnar á Hlíðarenda, kappinn sá, endaði með því að drepa 5 manns, þegar Otkell, klaufinn sá, særði hann í eyra og borið var út um Gunnar að hann gréti í sárum sínum. Hefnd. Vald. Virðing. Hallgrímur snýr þessu alveg við í síðast versi Passíusálmanna: Dýrð, vald virðing. Það er að segja: allt er Guðs. ‘Ég er ekki kominn til þess að tortíma mannslífum, heldur til þess að frelsa’.

Ég veit ekki almennilega hvernig hægt er að segja þeim þetta í Ísrael eða Líbanon, eða þeim hjá Hizbollah. Ég veit ekki nákvæmlega, hvernig við getum breytt afstöðu okkar til fólks sem flutt er til þessa lands og bíður þess að fólkið í landinu líti á það sem jafningja. Ég veit aðeins að þessi magnaða setning Jesú vekur margar spurningar hjá sjálfum mér, og gagnvart því sem ég er og vil vera.

Ef Jesús hefur rétt fyrir sér, þá er eina valdið, sem ég get gengið út frá í eigin lífi, valdið til þess að láta laust frá heimsins mælikvarða og þeim gildum, sem mest er haldið á lofti í mannlífinu. Valdi og virðingu, sem eru að ýmsu leyti feluorð fyrir orðin ‘yfirgangur’ og ‘hroki´. Páll postuli er einmitt að velta þessum heimsmælikvarða fyrir sér, þegar hann talar um skírnina í nafni Jesú Krists. “Eða vitið þér ekki að allir vér sem skírðir erum til Krists, erum skírðir til dauða hans”. (Róm 6:3). Kristur deyr þessum heimi, hann er deyddur af þessum heimi, af þeim gildum og lögmálum, sem við höfum tileinkað okkur í mannlegum samskiptum. Í þeim er dauði og tortíming mannslífa. Fagnaðarerindið um Jesú Krist segir: Hann lifir. “Dauðinn Drottnar ekki lengur yfir honum” (Róm.6:9). Jesús gefur okkur nafn sitt, líf sitt, til þess að við fáum dáið frá þessu lögmáli og öðlumst frelsi þess manns, sem elskar að sönnu og gefur af sjálfum sér. Annað höfum við ekki ráð á að gefa. Því sá sem vald hefur í einhverjum skilningi yfir annarri manneskju er fyrir miklu trúað. Mjög miklu. Og hvernig tekst okkur til? Sú spurning beinist alltaf inná við.

Við þurfum ekki að óttast að verða valdalaus. Í því valdi sem Kristur boðar, felst sú gleðifregn, að mega kenna og útbreiða það besta, sem við eigum í sjálfum okkur. Við erum frjáls að því að biðja börnunum okkar þess besta sem við þekkjum, með því að bera þau til skírnar og treysta þannig á blessun Guðs þeim til handa, í lífi og í dauða og mega búa þau undir lífið undir forsjá hans og í hans anda. Fyrirheit hans er : Ég er með yður alla daga, allt til enda.

Kirkegaard minnir á í bókinni “Uggur og Ótti” að mannskepnan þarf sínkt og heilagt að byrja upp á nýtt. Hver kynslóð þarf að læra frá byrjun. Sagan fylgir okkur að vísu, reynslan kynslóðanna er til skráð, tæknin blífur, þróast og nýtist á hverjum tíma, en manneskjan verður hver og ein á hverjum tíma að læra á sjálfa sig, tilfinningar, eðli siðfræðinnar, og berjast við trúna. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum bæði viljug og reiðubúin að hjálpa hverri kynslóð að tileinka sér það sem reynst hefur vel og það sem almennt er gott fyrir fólk. Í því samhengi er hvert orð ákaflega dýrt og mikilvægt. Þess vegna segir Jesús þessi einföldu orð: Farið, skírið og kennið, - og ég er með ykkur - ávallt.

Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst,
viska magt, speki og lofgjörð stærst
sé þér, ó, Jesú, herra hár,
Og heiður klár. - Amen, amen, um eilíf ár.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3706.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar