Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Lúther og Nikódemus

11. júní 2006

Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga. Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum.

Jesús svaraði honum: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju.

Nikódemus segir við hann: Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?
Jesús svaraði: Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur.

Þá spurði Nikódemus: Hvernig má þetta verða?

Jesús svaraði honum: Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta? Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum. Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku? Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn. Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn, svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum. Jóh 3.1-15

Hópur af íslensku sóknarnefndarfólki sat í kringum stórt borð í einum af vistarverum Ágústínusarklaustursins í Erfurt og hlustaði á prófastinn í borginni lýsa stöðu kristinnar trúar og ástandi kirkjulífsins á slóðum þýska alþýðulýðveldisins sáluga. Það var augljóst að það sem prófasturinn hafði að segja, hafði djúp og mikil áhrif á Íslendingana. Nýr og áður óþekktur veruleiki var að ljúkast upp fyrir þeim. Á þessum slóðum þar sem siðbót Marteins Lúthers skaut fyrst rótum, mótaðist og þroskaðist, hefur kirkjan gengið í gegnum hremmingar og öldudali sem ekki sér fyrir endan á. Eftir síðari heimsstyrjöldina lenti þetta landssvæði undir stjórn Sovétríkjanna og hinn alráði austur-þýski kommúnistaflokkur rak um áratuga skeið ágenga guðleysisstefnu sem á markvissan hátt braut niður trúarvitund fólks og aðstæður til trúariðkunar. Kirkjur urðu niðurnýðslu og skemmdum að bráð og fólki voru sannarlega settar skorður við að tjá og iðka trú sína.

Afleiðingar þessa tímabils setur ennþá mark sitt á líf kirkjunnar í austurhéruðum Þýskalands. Aðeins 30% íbúa Erfurt og nágrennis tilheyra kristinni kirkju og helmingur þeirra játar lútherska trú. Annarsstaðar eru tölurnar enn þá meira sláandi – í Berlín eru bara 6% sem tilheyra evangelísku, eða lúthersku kirkjunni. Áratuga langt opinbert guðleysi lýsti sér meðal annars í því að kirkjulegar athafnir á stóru stundum lífsins, hjónavígslur og útfarir og fermingin, eru næstum því horfnar úr menningunni. Örlítið brot af þeim sem deyja hljóta kirkjulega útför. Boðskapurinn um elíft líf og frelsi frá dauða og helsi, hljómar ekki yfir gröfum austur-þýskra karla, kvenna og barna sem eru jarðsungin.

Lýsingar prófastsins í Erfurt á þessum aðstæðum komu íslenska kirkjufólkinu í opna skjöldu og vöktu margar áleitnar spurningar. Er þetta kristið samfélag? spurði kona úr Kefalavík – og prófasturinn svaraði, nei, við getum ekki kallað samfélagið okkar kristið. Bátasmiður úr Hafnarfirði átti erfitt með að sjá fyrir sér hvað hefði leyst kristna trú af hólmi og spurði, hvað heldur þá fólk sem trúir ekki og kýs sér ekki útför frá kirkju um að taki við eftir dauðann? Trúir það ekki á neitt eftir dauðann? Nei, sagði prófasturinn, það hugsar að þegar maður deyr, sé maður bara dauður. Búið spil. Þetta afdráttarlausa svar snerti við íslenska kirkjufólkinu, sem sá allt í einu þann mikla mun sem einkennir trúarmenningu þessara tveggja landa – og sínar eigin aðstæður e.t.v. í nýju ljósi.

Samtal Íslendinganna við þýska prófastinn og viðbrögð þeirra við því sem hún hafði að segja um aðstæðurnar í kirkjunni, er eitt af því minnisstæðara sem ég tók með mér eftir vikuferð með sóknarnefndarfólki úr Kjalarnessprófastsdæmi um slóðir Marteins Lúthers, núna í maí sem leið. Í ferðinni sóttum við heim borgir og staði sem komu við sögu siðbótarinnar og þar sem Marteinn Lúther lifði og starfaði. Þegar þessar slóðir eru þræddar, kemst maður heldur ekki hjá því að hugleiða þá miklu átakatíma sem ríktu í samfélagi og kirkju á 16. öld þegar mótmælendakirkjan kom fram á sjónarsviðið. Breytingar á trúarvitund áttu sér stað í og héldust í hendur við umhverfi sem var á margan hátt að ganga í gegnum miklar breytingar og mikla upplausn í hugsun og stjórnarfari. Landafundir, vísindaframfarir og uppgötvun prentlistarinnar voru hluti af hinum ytri aðstæðum siðbótarinnar og fólu í sér breytingu á heimsmynd og samskiptum sem um langan tíma hafði staðið óhögguð. Inn í þessa tíma breytinga og upplausnar kom Marteinn Lúther með nýja og rótttæka sýn á samband manneskjunnar og Guðs. Það gerði hann með því að skilgreina hvaða spurningar það voru sem skiptu manneskjuna mestu máli. Trúin á sér stað í einmitt því samhengi – hvernig maðurinn upplifir stöðu sína í heiminum, gagnvart Guði og öðrum mönnum.

Í guðspjalli dagsins heyrum við um mann sem kom til fundar við Jesú í skjóli nætur með þungar og áleitnar spurningar. Við vitum að þessi maður stóð föstum fótum í ríkjandi hefð og rétttrúnaði Gyðinga, fylgdi lögmálinu og iðkaði fræðin. Það sem hann hafði heyrt og séð af Jesú, fékk hann hins vegar til að horfa á allt þetta með öðrum augum – og spyrja nýrra spurninga. Hvað er það sem Guð vill af mér? Hvernig get ég gert það sem rétt er og samkvæmt hans vilja? Hvað þýðir það sem Jesús segir um lífið og ljósið og guðsríkið? Hver getur séð það – og þannig komist í snertingu við kjarnann í tilverunni?

Þetta eru spurningarnar sem Nikódemus kemur með til Jesú. Spurningar um hinstu rök tilverunnar. Lúther glímdi við þessar sömu spurningar, út frá sínum eigin trúarlega bakgrunni, alveg eins og Nikódemus. Ein var sú spurning sem lagðist á Lúther með svo miklum þunga að ekkert annað komst að og rændi hann ró og gleði í langan tíma. Hún var þessi: hvernig get ég orðið réttlátur fyrir Guði? Hvernig get ég þóknast honum? Hvað þarf ég að gera svo allar mínar syndir og brestir komi ekki í veg fyrir að Guð líti á mig með velþóknan?

Þetta var það sem Lúther glímdi við. Alveg eins og Nikódemus, hefði hann viljað geta spurt Jesú og fengið svör við öllum spurningunum sem hann hafði um trúna og lífið. Og á vissan hátt gerði hann það, því svarið hans lá í því hvernig heilög ritning miðlaði orðum og persónu Jesú Krists til hins leitandi og biðjandi manns.

Nikódemus þurfti að fá að vita hvernig maður fengi séð guðsríkið. Lúther varð að sjá hvernig hann gæti sæst við Guð. Hvað er það sem við í dag erum að velta fyrir okkur? Hverjar eru hinar knýjandi, þungu spurningar um trúna, manneskjuna og Guð sem hvíla á samtímanum okkar?

Það liggur ekki endilega í augum uppi. Þegar við fylgjumst með umræðu um trú og kirkju er auðvelt að fá á tilfinninguna að hin raunverulega glíma manneskjunnar við hinstu rök tilverunnar, fari fram einhvers staðar annars staðar. Við stöndum okkur vel í að halda utan um gamlar spurningar og gömul svör – höldum þeim til haga og útlistum þau vandlega – en tökum við slaginn um það sem brennir á okkur hér og nú? Er víst að tal um Guð skili sér yfir höfuð inn í samtímann? Hvað er Guð fyrir fólki í dag? Og hvað er eilífa lífið í hugum fólks? Gerum spurningu bátasmiðsins í Hafnarfirði að okkar: hvað heldur fólk að taki við þegar það deyr?

Fyrirferðamikið í allri trúmálaumfjöllun dagsins er hrifning af hvers konar leyniplottum og því sem er dularfullt, yfirnáttúrulegt og helst með illar hvatir. Kvikmyndir á borð við Da Vinci lykilinn og The Omen höfða til óljósra trúarhugmynda fólks og spilar með trúarleg minni og tákn sem hafa enn óljósari hlutverk. Unglingakúltúrinn grípur fegins hendi hvers kyns vísbendingar um áhrif kölska og hugsanlegan heimsendi, bara núna í vikunni var dagsetning sem hafði vakið mikla athygli og spenning vegna tilvísana í heimsslitaspár og áhrif hins illa.

En þrátt fyrir að trúarleg tákn komi fyrir og leiki hlutverk í ofangreindu samhengi er erfitt að sjá hvar hinar raunverulegu spurningar okkar – og hvað þá svörin – koma fram. Hvar fer okkar Nikódemusarsamtal fram? Með hvaða spurningar komum við fram með til Jesú í skjóli nætur? Höfum við það of gott hér og nú, til að hafa áhyggjur af því hvað taki við þegar við deyjum? Eða erum við að sligast af byrðinni sem frelsið sem við búum við setur á okkur? Erum við þreytt á því að þurfa stöðugt að velja og hafna á milli alls þess sem stendur okkur til boða?

Prófasturinn í Erfurt lýsti aðstæðum kirkju sem þarf að berjast fyrir tilveru sinni oft með vindinn í fangið. En frásögnin hennar innihélt ekki eingöngu hörmungar og mótlæti. Skírnum í kirkjunni fjölgar. Ekki bara barnaskírnum heldur líka skírnum ungmenna og fullorðinna. Og með hverri skírn skapast tækifæri til fræðslu og boðunar. Skírnarfonturinn verður mótsstaður Nikódemusar með allar erfiðu spurningarnar sínar og Jesú sjálfs. Sakramenti skírnarinnar verður tákn fyrir snertingu Guðs inn í líf manneskjunnar sem þar með fæðist inn í heim sem hefur tilgang. Líf hennar öðlast tilgang í samhengi við manneskjurnar í kringum hana. Það er þarna sem Kristur mætir okkur, í orði sínu, vatni skírnarinnar, brauði og víni borðsamfélagsins - og í náunga okkar. Þeim sem stendur við hlið þér, þeim sem þú mætir á ferðum þínum.

Fyrir Marteini Lúther var höfuðatriðið þetta: Það er Kristur sem sættir þig við Guð og tekur þar með í burtu það sem kemur í veg milli þín og Guðs. Verk Krists er fullkomið að þessu leyti og þú mátt trúa því að það nægir þér. Ég held að við séum ennþá að kljást við svipaða flækjur og Lúther upplifði svo sterkt. Við látum segja okkur það endalaust að við séum ekki nógu góð eins og við erum – hvorki í augum Guðs eða annarra. Og trúin okkar á sér stað í þessu samhengi – hvernig við hugsum um okkur sjálf og hvaða dóm við setjum okkur undir. Það sem þá ógnar trúnni okkar eru eigin fyrirvarar á því hvers virði við erum og tregða okkar við að gefa okkur í samtalið með Nikódemusi þegar við glímum við spurningarnar um hin hinstu rök tilverunnar.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3035.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar