Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Sjónstöð Vesturbæjar

25. maí 2006

Seinna birtist hann þeim ellefu, þegar þeir sátu til borðs, og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og harðúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim, er sáu hann upp risinn. Hann sagði við þá: Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða. En þessi tákn munu fylgja þeim, er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma, og þó að þeir drekki eitthvað banvænt, mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur, og þeir verða heilir.

Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði. Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna, en Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum, sem henni fylgdu.Mark. 16. 14-20

Daníel sá í nætursýn undursamlega hluti, óorðna atburði skv. lexíu dagsins. Ótrúlegur hæfileiki að geta séð í huga sér með augum trúarinnar eitthvað sem annars er hulið sjónum manna. Í pistli dagsins er einnig talað um það sem sést eða er birt. Jesús birti mönnum sjálfan sig, þeir sáu hann og þeir störðu til himins er hann hvarf þeim sjónum. Og loks er guðspjallið þar sem fjallað er um að hinn upprisni birtist postulum sínum. Allir textarnir vísa til sjónar, til hins sýnilega. Trúin er byggð á hinu séða, á vitnisburði sjónarvotta.

Trúin gefur nýja sýn á veruleikann. Öll þekkjum við þann sið að fólk dýfi fingrum í skírnarvatn til að lauga augun. Fólk trúði því og trúir enn að þannig geti það forðast blindu. Hins vegar er hin trúarlega merking sú að við sjáum Jesú betur með því að lauga augun vígðu vatni. Hvað sjáum við? Hvað sjáið þið sem elst eruð og hafði séð meira en við sem yngri erum? Hvað sjá trúaraugun ykkar? Sjá trúaraugu aldraðra betur en trúaraugu yngra fólks? Ég ætla mér ekki að svara þessum spurningum en skil þær eftir svífandi í loftinu til þess að þið getið skoðað eigin sálarkima og svarað hvert fyrir sig. Kirkjan hjálpar okkur að sjá, hún opnar augu okkar með því að boð hann sem gaf blindum sýn. Kirkjan er sjónstöð og Neskirkja þar með Sjónstöð Vesturbæjar. Daníel sá í sýn þann sem gefið var eilíft vald. Hann sá það mörgum öldum fyrir Krist. Hann sá hinn alvalda, hinn eivalda og ríki hans sem aldrei mun á grunn ganga.

Hvað ógnar?

Ekkert getur eyðilagt hina kristnu trú, hina kristnu von. Ríki Guðs er komið til að vera, vera að eilífu. Ég átti leið út í Hagaskóla á dögunum og þar kallaði strákur til mín:

- Heyrðu, séra Örn, hvað segir þú um Júdasarguðspjall? sagði hann sigrihrósandi eins og honum fyndist hann nú haf króað klerkinn af og sett hann í afar þrönga stöðu.

Þar með vísaði hann til nýfundins handrits sem kennt er við Júdas postula, þann er sveik Jesú. Merkilegt rit og áhugavert.

- Ég segi allt gott um það, svaraði ég stráknum.
- En rústar það ekki trúnni?
- Nei, hún stendur óhögguð og ekkert getur eyðilagt það sem er heilt og satt.
- Núúú, sagði hann spyrjandi af undrun.

Þar með lauk samtalinu enda var ég á hlaupum en hefði gjarnan viljað spjalla lengur við hann. Um þessar mundir er verið að sýna mynd sem byggð er á metsölubókinni Da Vinci lykillinn. Margir óttast að sagan og myndin geti valdið kristinni kirkju miklum búsifjum. Vera má að einhverjir kalblettir komi í kristin tún og einhver trúarlömbin lifi ekki af vorhretið. Færeyingar vilja banna myndina og kaþólska kirkjan varar fólk við að sjá hana. Afstaða okkar flestra innan Þjóðkirkjunnar er hins vegar opin. Við viljum umræður um hvað sem er því trúin þolir allt. Hvorki samsæriskenningar né vísindauppgötvanir geta grafið undan kristinni trú sem byggir á staðreyndum.

Á sunnudaginn var tók ég með mér 180 manns til að sjá þessa mynd og talaði á fundi á eftir þar sem rætt var um innihald hennar og samsæriskenningarnar allar. Bókin og myndin gefur okkur guðfræðingum stórkostlegt tækifæri til að ræða um grundvöll kristinnar trúar og því ættu sem flestir að mínu mati að lesa bókina og sjá myndina. Kristin trú hefur ekkert að óttast. Hins vegar er það vissulega áhyggjuefni að kristin trú er víða á undanhaldi og þá sérstaklega í okkar heimshluta. Þungamiðja kristni er ekki lengur í Evrópu eða Norður Ameríku heldur í Afríku og svo er kirkjan líka sterk í S-Ameríku. Þá sækir hún og í sig veðrið í Asíu einkum í Kína.

Samkvæmt opinberum tölum eru nú um 200 milljónir Kínverja sem tilheyra skráðum trúfélögum af ýmsum toga en voru 100 milljónir fyrir örfáum árum. Þessar tölur koma frá stjórnvöldum sem eru varfærin í þessum efnum og ofmeta líklega ekki fjölda trúaðra. Trúarþörfin býr með manninum. Undanhald kristinnar trúar á Vesturlöndum þarf alls ekki að benda til þess að fólk sé orðið trúlaust heldur vísar það líklega fremur til þess að fólk hafi tapað áttum í kristnum kenningum og hafi hreinlega villst á veginum. Fólk hættir ekki að trúa, það trúir bara einhverju öðru. Faðir Brown í sögu Chestertons orðaði það svo skemmtilega er hann sagði: Þegar fólk hættir að trúa einhverju tilteknu verður það ekki trúlaust, heldur trúir það hverju sem er. Þar liggur vandinn, sumt fólk trúir hverju sem er. Og þá eiga samsæriskenningar eins og bornar eru fram í Da Vinci lyklinum greiðan aðgang að sálarlífi fólks.

Staða aldraðra og grunngildin

Við getum haft áhyggjur af því að grunngildunum verði ekki haldið til haga sem skyldi í framtíðinni. Hvað verður um aldraða í framtíðinn undir stjórn þeirra sem varpa kristnum gildum fyrir róða? Hvað segir staða aldraðra okkur, sem birt hefur verið af fræðimönnum og þjóðfélagsrýnum á liðnum misserum? Segir hún ekki margt um hugarfar þjóðar sem hefur gleymt sér í efnishyggjun og lífsgæðakapphlaupi?

Kraftaverk lífsins

Ég var spurður í gær í sjónvarpsviðtali hvort kraftaverk væru nauðsynleg til þess að fólk geti trúað. Ég svaraði því neitandi, enda byggir kristin trú ekki á kraftaverkum eða sýningum heldur á vitnisburði sjónarvotta af atburðum í lífi í Jesú. Við heyrum í guðspjöllunum um atburði í lífi Jesú, um verkin sem hann vann, orðin sem hann sagði. Vitnisburður sjónarvotta af dauða hans og upprisu, uppstigningu hans og úthellingu heilags anda er grundvöllur trúar okkar. Trúin byggir á staðreyndu, á atburðurm í tíma og rúmi, en ekki tilfinningum.

Hins vegar staðhæfir guðspjall dagsins að tákn muni fylgja þeim sem trúa, undur og kraftaverk. Getur það verið? Hvar gerast kraftaverkin? Þau gerast út um allt! Þau hafa gerst í mínu lífi og þínu líka. Um allan heim upplifir fólk atburði í lífi sínu sem einungis verður útskýrt með tilvísun til kraftaverks. Fólk bjargast úr háska og túlkar það sem kraftaverk. Aðrir ná heilsu og vitna um kraftaverk. En svo eru það kraftaverkin sem við tökum alla jafnan ekki eftir. Lífið er kraftaverk. Að vera lifandi er kraftaverk. Að ná sér eftir slæmt vorkvef er kraftaverk. Að gleðin skuli ríkja í hjarta okkar er kraftaverk. Að sólin skuli hafa komið upp í morgun er kraftaverk. Að vorboðarnir skuli rata hingað frá fjarlægum löndum er kraftaverk. Lóan er komin og það er kraftaverk. Lífið er allt að vakna og það er líka kraftaverk. Unga fólkið er að útskrifast úr skólum með vonarblik í augun og áhuga á enn frekara námi. Það er kraftaverk. Lífið er eilíft kraftaverk.

Himinssýn

Er það ekki undursamlegt að vera hér í dag í Sjónstöð Vesturbæjar og fá glákuna afmáða af augum efans? Er það ekki dásamlegt að eiga athvarf hér í þessu samfélagi vináttu og trúar, samfélagi sem er allt á sömu leið, til himinsins heim.

Verum dugleg að taka fólk með okkur í kirkju á komandi vikum og mánuðum. Þannig bætum við augnheilsu trúaðrar þjóðar og himinssýn.

Komum og sjáum! Horfum upp til hins uppstigna Krists og þar með inn í himininn sjálfan!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3127.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar