Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Bænir og blásarar

21. maí 2006

[Jesús sagði:] Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn. Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður, því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn. Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.Lærisveinar hans sögðu: Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði. Jh.16.23b-30

Að biðja sem mér bæri
mig brestur stórum á.
Minn Herra, Kristur kæri,
æ, kenn mér íþrótt þá.
Gef yndi mitt og iðja
það alla daga sé
með bljúgum hug að biðja
sem barn við föður kné.
Sb. 1886 - Björn Halldórsson

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi.

Í dag er söfnuður Þingvallakirkju nýr og ferskur eins og norðanvindurinn. Í dag er fólkið í sveitinni að taka á móti lömbum. Sauðburður er í fullum gangi og lítill tími til kirkjugöngu. Á hinum almenna bænadegi felum við Guði allt það fólk í þessu landi sem er að sinna búskap sínum og biðjum hann að blessa þau og blessa búskapinn, lömbin og ærnar, veðrið og gróandann og heyið í hlöðunni.
Guð gefi fólkinu öllu andrúm til að líta upp og lofa Guð sem gefur lífið, og taka undir með skáldinu sem segir: Gef yndi mitt og iðja það alla daga sé með bljúgum hug að biðja.
Og svo segir hann: Minn Herra Kristur kæri, æ kenn mér íþrótt þá …

Kæri söfnuður. Kannski eru hugmyndir okkar um íþróttir allt of þröngar og einhæfar.
Við sjáum fyrir okkur frjálsíþróttafólk í margvíslegum greinum, handboltafólk og fótbolta, skíðafólk og skákmenn.
En við sjáum ekki fyrir okkur tónlistarfólk. Jafnvel ekki þessa ungu og glæsilegu blásara sem í dag fegra helgihaldið hér í kirkjunni með list sinni og leggja til megnið af söfnuðinum.
Við nefnum ekki tónlistariðkun með íþróttum. Þó er það sannarlega mikil íþrótt og göfug að leika á hljóðfæri og að syngja. Og það er líka keppt í þeim greinum, þótt ekki sé það gert á ólympíuleikunum. Það er til dæmis nýlega búið að vera prufuspil á flautu inn í synfóníuhljómsveitina. Það var kannski ekki beinlínis kappleikur, en það var samt leikið af kappi og á vissan hátt í kapp.

Að leika vel á hljóðfæri er mikil íþrótt og krefst þrotlausra æfinga ef maður vill ná góðum árangri, eins og gestir okkar í Þingvallakirkju í dag.

Guðspjallið í dag fjallar um enn aðra íþrótt sem líka krefst æfinga á hverjum degi.
Það er að biðja.
Minn herra, Kristur kæri,
æ, kenn mér íþrótt þá. segir séra Björn í Laufási í sálminum.

Í dag tölum við um bænina og bænariðjuna. Þessi sunnudagur er sérskalega frátekinn til þess. Ekkert er þýðingarmeira í lífi kristins manns en bænin. Eins og líkaminn þarfnast næringar til að geta lifað, þarf trúin bænina.

Sá andans andardráttur
sé óslítandi þáttur
á milli mín og þín.
Þá barnslegt hjarta biður,
þín blessun streymir niður.
Ég fer til þín, kom þú til mín. (Sb. 338. Valdimar Briem)

Frá örófi alda hefur það farið saman hjá kristnu fólki sem eignast börn að eins og þarf að mata litlu börnin svo að þau nærist áður en þau læra að halda sjálf á skeið, eru þau umvafin bænum foreldranna og leidd smátt og smátt inn í heim bænarinnar, svo að þau læri að bjarga sér sjálf í heimi bænarinnar.

Ekkert nesti er dýrmætara að gefa börnum sínum vegna þess að bænin er eins og sérstakur áttaviti í villugjörnum heimi.

Guðspjall dagsins dregur upp tvö meginatriði.

Við megum biðja í Jesú nafni,
og allar bænir eru heyrðar.

Í nafni Jesú er kraftur Guðs föður að verki.

Nú eru fimm vikur frá páskum og tvær vikur til hvítasunnu.
Þegar Jesús Kristur reis upp frá dauðum gerðist hann fulltrúi okkar fyrir augliti Guðs sem okkar himneski æðstiprestur. Síðan þá er til bæn í Jesú nafni. Krafturinn sem reisti hann upp frá dauðum er í nafni hans þegar við nefnum það.

Bæn í Jesú nafni er sú bæn sem vex fram vegna samfélagsins við hann.
Það er orð og ákall, eða orðlaust andvarp , sem andi Guðs kallar fram í okkur.
Leið Jesú Krists frá því hann var sendur frá föðurnum og allt til dauðans á krossinum og úr gröf á jörðu inn til himneskrar dýrðar er ekki aðeins inntakið í tilbiðjandi íhugun heldur þarf einmitt þessi vegur Krists að mynda í sér kristna bæn.
Þannig byrjar bæn Drottins hjá föðurnum á himnum og heilögu nafni hans og stígur þaðan niður til okkar eigin jarðneska veruleika þar sem við biðjum um okkar daglega brauð og um fyrirgefningu
og hún beinir sjónunum okkar til hinnar endanlegu lausnarar frá öllu illu inn í dýrð hins himneska ríkis.

Í þessari bæn verður sérhver kristinn maður að vaxa. Þessi bæn felur ekki eðeins í sér sannfæringuna um að vera heyrð heldur eiunnig fyrirheitið um hina fullkomnu gleði.

Þetta er bæn Drottins, Faðir vor. Engin bæn er æðri, Hún er grunnur allra annarra bæna.
Við höfum kannski lært hana svo snemma á ævinni að við skildum mörg orðin alls ekki, eða beinlínis misskildum þau. Þetta er nú kannski líkt því að læra að borða með hnífapörum.
Eða þroskast til þess að greina tónlist út ´frá undarlegum svörtum deplum á blaði, þegar sumir flagga og aðrir hafa hala.

Guðmundur spurði að því hvort það væri viðeigandi að spila hér lokin dans dofranna úr Pétri Gaut.

Já. það er svo sannarlega viðeigandi, en bara í réttu samhengi.
Í fysta lagi er tónlist Griegs stórkostleg og yndislegt og mögnuð og allt sem manni dettur í hug að segja gott um hana, og það er leikrit Íbsens um Petur Gaut líka
og þýðing Einars Benedeiksstonar þjóðskáldsins sem fékk sína hinstu hvílu hér austan við kirkjuna, húr en stórkostleg og þetta á allt samans svo vel við minsta kosti af tvennum ástæðum.

Pétur Gautur frammi fyrir Dofrakónginum, það er prófsteinn kristninnar.
Pétur Gautur skírður til kristninnar trúar glímir við hin framandi öfl á grundvelli trúarinnar,
Það er bænaglíma. Tákn hennar er halinn sem dofrinn var með, en ekki Pétur Gautur.
Samtal þeirra nýst um hin kristnu gildi andspænis hinum heiðnu gildum, í merkingu þeirra sem vilja vinna bug á kristninni, skaða hana og spilla henni,

Það er auðvitað ekki svo um alla þá sem ekki eru kristnir
og það skiptir miklu máli að minnast þ.ess ævinlega hér á Þingvöllum.
Heiðnir menn á Þingvöllum eru ekki flokkur sem vill vinna kristninni mein,
þau hafa bara aðra lífsskoðun.
En það eru til öfl sem vilja skaða og þau geta verið innan kristninnar og standa sjálf fyrir dofradansi.

Dofradansinn er ekki stiginn bara af þeim sem vilja kristnina feiga. Sumir leiðast út í þann dans og uppgötva ekki fyrr en of seint að hann var dansinn sem átti að sökkva kirkjunni, eins og dansinn í Hruna forðum.
Hversvegna leiðist fólk út í þennan dans en vill þó í raun ekki glata sínum grundvallargildum
Það er af því að bænin týnist. Hið daglega samband við Guð.
Hið daglega mat á atburðum gærdagsins í ljósi þess sem Guð kallar mann til að sinna.

Og eitt enn.
Biskup hefur beðið þess að eitt af bænarefnum bænadagsins í dag séu sveitarstjórnarkosningarnar sem fara í hönd.
Kosningabarátta getur auðveldlega breyst í einskonar dofradans. Við skulum þá líka biðja þess að þau öll sem vilja leggja sitt lóð á vogarskálarnar landi og lýð til heilla, megi njóta verndar Guðs frá öllum dofrum og líka þegar þau geta ekki stigið gleðidans að kosningum loknum.
Tónlistin er undursamlegt tæki til að túlka tilfinningar og segja sögur. Tónlistin er göfug íþrótt, eins og bænin. Og þegar tónlistin og bænin fallast í faðma, þá er eins og maður sé þegar kominn til himna.
Við skulum hafa sem minnisvers með okkur heim orð Jesú:
Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3416.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar