Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Kristjánsson

Tómas efast

25. apríl 2006

Það var hugur í mönnum þegar horft var upp til Wartburgarkastala í sól og hita fyrir tæpu ári. Framundan voru tröppur í hundraðavís, sumar allt frá miðöldum en aðrar frá siðbótaröld eða yngri.
Leiðin liggur upp öll þessi þrep, alla leið að dvalarstað Marteins Lúthers í þessari traustu borg, í eitt frægasta herbergi sögunnar.
Allir komust upp að lokum, einn í heiðursstóli líkt og Hermann landgreifi af Wartburg, krossferðariddari, fyrr á öldum, borinn alla leið upp undir rjáfur í þessum glæsilega kastala.
Það kom á daginn að próföstum og mökum þeirra óx ásmegin við hverja raun. Skyndilega var komið á leiðarenda, inn í herbergi siðbótarmannsins, skjól hans í tíu mánuði undir verndarvæng Friðriks vitra kjörfursta af Saxlandi.
Hér dvaldist Lúther, þýddi Nýja testamentið og skrifaði. Í þessu vígi var hann í skjóli fyrir mönnum keisarans og hersveitum hans, sem biðu átekta. Hér var hann öruggur.
En kastalinn var þó ekki vörn gegn hjartslætti óttans í brjósti siðbótarmannsins. Þar dugðu múrarnir ekki. Í þessu herbergi angistarinnar var skjól vandfundið.
Í nýlegri kvikmynd um Lúther er einn eftirminnilegasti þátturinn einmitt átakanleg lýsing á angist hans, þar sem siðbótarmaðurinn frá Wittenberg er viti sínu fjær af ótta og örvæntingu, berst um á hæl og hnakka og kastar sér í gólfið sem óður væri. Í Ágústínaklaustrinu í Erfurt verður Staupitz skriftafaðir hans vitni að sams konar baráttu.
Hér fellur enginn blóðdropi, hér er enginn barinn og engum misþyrmt. En angistin vísar beint til Golgata, til orðanna úr Jóhannesarguðspjalli: Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig. Angistin er hið innra, í hjarta mannsins, þar er hennar staður, nema ef vera skyldi á blóðugri bráðavaktinni hjá Mel Gibson.
Hinn hugrakki siðbótarmaður hafði skömmu áður staðið frammi fyrir keisara Hins heilaga rómverska ríkis og Spánar, Karli fimmta, og sagt „hér stend ég og get ekki annað“. Nú er hann umkomulaus og lítill: óvissa og efi hafa tekið hann heljartökum og halda honum í greip sinni eins og hræddum fugli.
Anfechtung er orðið sem Lúther notar um þetta ástand sitt. Það orð verður með engu móti þýtt á önnur tungumál svo vel fari. En í því býr uggvænlegt ginnungargap, órætt hyldýpi sálarinnar, tvíræðni, sem maðurinn er ofurseldur og fær ekki umflúið, hér er um líf og dauða að tefla.
Eftir að prófastar höfðu hugleitt þessa sögu og komist heilu og höldnu niður þrepin og fengið sér viðeigandi hressingu á kastalakránni varpaði einhver fram þeirri spurningu hvers vegna Lúther hefði aldrei orðið prófastur?
Wartburg var staðurinn þar sem Lúther varð ljóst að dýpsti efi mannsins snýr ekki að tilteknum trúarkenningum heldur að því sem er miðlægt í tilvist hans, spurningu hans um tilgang. Með nokkurri einföldun má einnig segja að þar hafi honum orðið ljóst að það er trúin ein sem leysir hann úr þeim tilvistarvanda. Þess vegna er það trúin ein, sola fide, sem verður eitt slagorð lútherskrar trúarhefðar.
En samt og kannski einmitt vegna þessarar áherslu á trúna eina hefur trúarhugtakið lent í meiri barningi en flest önnur í hinum trúarlega orðaforða.
Vandinn felst í því hvernig við skiljum orðið trú. Það hugtak er í margra augum býsna torskilið, hlaðið misvísunum og misskilningi. Fyrir réttri hálfri öld skrifaði einn áhrifamesti guðfræðingur tuttugustu aldar þessi orð:

„Hugtakið trú veldur áreiðanlega meiri misskilningi í trúarlegri orðræðu samtímans en nokkurt annað hugtak. Það er þokukennt og í þörf fyrir lækningu eigi það að nýtast til að lækna. Á okkar tímum er það betur til þess fallið að valda sjúkdómum en bæta heilsu. Það ruglar menn í ríminu, leiðir á villigötur, getur af sér efahyggju og ofstæki, vekur andstöðu hugsandi fólks og veldur því að menn hafna sannri trú en kallar í staðinn fram sýndartrú.“ (Tillich í formála f. Dynamics of Faith.)

Núna, hálfri öld síðar, finnst okkur þetta djörf orð, rétt eins og þau þóttu þá. En eru þau ekki sönn, eru þessi orð ekki enn í fullu gildi? Er þessi misskilda trú ekki sýnileg í öfgafullum trúarhreyfingum um víða veröld, einnig hér á landi, bæði kristnum og öðrum, í sterkum stjórnmálahreyfingum, í ofstækisfullum siðvæðingarstefnum. Hvarvetna er trú í einhverjum skilningi með í spilinu því að hún er grundvallarþáttur í mannlegri tilvist.
Er orðið „trúaður“ ekki fyrir löngu orðið þokukennt og jafnvel misvísandi orð sem almennt virðist vísa til bókstafstrúarfólks og ofstækismanna af öllum trúarbrögðum?
„Ætli þessi prestur sé trúaður?“ var ég spurður nýlega. -
Hjá Lúther kemur trúin ekki án baráttu, efinn er aldrei langt undan. Hvorugt er án hins, trú og efi haldast í hendur. Það vissi enginn betur en ágústínamunkurinn Lúther.
Ágústínus kirkjufaðir, sem regla Lúthers er kennd við, tókst fyrstur guðfræðinga á við spurninguna um efann, í hans hugsun er ekkert sem heitir trú án efa. Trú án efa væri ekki trú heldur blekking og tilraun til að svæfa grundvallarspurningu mannsins um tilgang, sem ekkert óyggjandi svar er við, í stað þess að glíma við hana.
Ekki einu sinni Adam og Eva voru undanþegin óvissu lífsins, ekki heldur Jesús og ekki lærisveinar hans, samanber orð Mattheusar í lokakafla guðspjallsins: „En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa.“
Trú án efa er tilraun til að búa til trúarfyrirbæri sem tekur enga áhættu og er því ekki trú heldur eitthvað annað.
Efinn er raunar vísbending að skilningi Ágústínusar um að sá leyndardómsfulli veruleiki er til, sem hefur vakið þessa spurningu í hjarta mannsins. Hann er ein hliðin á þrá mannsins til sannleikans um eigin tilvist. Í efanum býr löngun hans til hins sanna.
Efi af þessu tagi er í reynd staðfesting en ekki afneitun, þeim sem glímir er hjartans alvara, hann er gagntekinn af því sem trúin snýst um, Jesú Kristi og málefni hans og hann leggur allt að veði?
Þessi kraftmikli trúarskilningur Lúthers, svo samofinn tilvistarlegum spurningum, kom mér í huga þegar ég rakst á athyglisverða grein í erlendu fréttatímariti nú í vikunni.
Hér er um að ræða umfjöllun um stóra listsýningu í Berlín, Berlínartvíæringinn, sem nú stendur yfir. Sýningin er merkileg fyrir þær sakir að það er eins og listin sé að taka nýja stefnu. Greinileg þreyta á fálmkenndri leit að frumleika og á þeirri list sem reynir öðru fremur að gera sig gildandi í augum fjöldans eða þeirra sem eiga fjármagnið, gerir vart við sig. Nú er spurt um innihald og merkingu.
Í þessu skyni er valin sögufræg gata í miðborg Berlínar, Auguststrasse, sem markar eina hliðina á stærsta gyðingahverfi borgarinnar áður fyrr. Fjöldi húsa er sérstaklega tekinn frá fyrir sýningar og gesturinn er boðinn velkominn inn í margar og ólíkar vistarverur. Þetta eru m.a. nokkrar íbúðir, fyrrverandi skóli fyrir Gyðingastúlkur, hesthús, gámur, danshús, hermannakirkjugarður og kirkja heilags Jóhannesar.
Sýningargestir fara frá einum stað til annars í þeim tilgangi að skoða ný listaverk á öllum þessum stöðum en tilgangurinn er í reynd sá að upplifa sögu rýmisins sem er umgjörð listaverksins.
Eitt dæmi er skólinn fyrir Gyðingastúlkurnar og skelfilegar lýsingar á örlögum þeirra á tímum nasismans þegar þær voru fluttar í útrýmingarbúðir og skólinn gerður að biðstöð fyrir Gyðinga sem voru fluttir sömu leið, hver hópurinn eftir annan. Og síðan áfram inn í guðleysi kommúnismans, allt til líðandi stundar.
Við annan enda götunnar er Jóhannesarkirkjan og þar er reynt að finna út hvað það var sem kirkjan var að reyna að boða gegnum tíðina, á tímum keisaraveldisins, á tímum Weimarlýðveldisins, á tímum nasismans, á tímum alþýðulýðveldisins og kommúnismans með skipulögðu guðleysi, á tímum frelsis og frjálsræðis þegar allar dyr voru skyndilega opnar og siðferðisleg gildi riðuðu til falls. Og á líðandi stund þegar gamlar spurningar vakna og koma til mannsins í nýjum búningi.
Með öðrum orðum er spurningum þyrlað upp þegar horft er inn um þessa fjölmörgu glugga sögunnar. Er einhvers staðar vettvangur þar sem maðurinn gengur að þeim gildum þar sem mannúðin er varin með öllum ráðum, þar sem leiðin til friðar, sátta og umburðarlyndis er vörðuð kynslóð eftir kynslóð, þar sem minnihlutahópar eiga öruggt skjól, þar sem málstaður Jesú er lifandi veruleiki í hörðum heimi? Þar sem skurðgoðin voru brotin niður?
Og hvernig dóm skyldi sagan svo fella yfir kirkjunni? Var hún ávallt á réttum stað, tróð hún marvaðan með Gyðingunum, sagði hún - líkt og Jhn Kennedý - þegar ofsóknir stóðu gegn sígaunum: „Ég er sígauni.“ Eða gegn samkynhneigðum: „Ég er samkynhneigður“? Stóð hún vörð um málstað Jesú? Var hún með í leiknum sem samlíðandi samfélag, hógvært, umburðarlynt og mannúðlegt?
Þannig spurningar vekur sýningin og augljóst er að skapandi nútímalist hefur komið mörgum á óvart með því að beina augum fólks að hinum krossfesta sem enn speglast í augum allra sem þjást og spyrja brýnustu spurninga lífsins.
Listgagnrýnendur hafa notað nýtt hugtak í þessu samhengi, þeir tala nú um ný-existentíalisma. Sumir telja það benda til tímamóta.
Ný tilvistarstefna! Tekur við af fálmi og fumi undanfarinna ára, kaldhæðni og stundum yfirlæti. Er maðurinn orðinn þreyttur á skinhelgi menningarinnar sem forðast það mikilvægasta: að einhver ávarpi hann og nefni það sem honum býr í hjarta þyngst af öllu, spurningin um hans eigin tilvist, um merkingu og tilgang??
Ímynd þeirra sem létu sér ekki nægja að trúa því sem hinir trúðu, var Tómas tvíburi. Hann er maðurinn sem spyr af hjartans grunni, efinn hverfur ekki, engar sögur um gröf og stein, konur og postula á hlaupum, engar sögur um menn á ferð í rökkri til Emmaus megna að hrekja efann úr hjarta hans. Hann efast af því að hann trúir, hann trúir af því að hann efast. Honum er ljóst að svörin verða aldrei óyggjandi, hvorki á þennan veginn né hinn.
Og eftir á hefur hann séð eins og Jóhannes að sár á höndum og fótum breyta litlu, líkami sem fer um luktar dyr eyðir engri óvissu, hvorki þá né nú.
En eitt breytir öllu: Tómas er eins og hinir gagntekinn af návist hins heilaga, þar sem jörðin skelfur og hjarta mannsins er hrifið á vald hins óvænta. Það nægði Ágústínusi, það nægði Lúther, það nægði Tómasi: „Drottinn minn og Guð minn.“
Í návist hins heilaga öðlast hann hugrekki trúarinnar til að lifa með þeirri baráttu sem fer fram í huga og hjarta milli efa og trúar. Og sætta sig við hana. Hún hverfur ekki, því að hún er partur af þeim skapandi krafti sem býr í trúnni.
Það er krafturinn, sem býr í þeirri trú sem er grundvölluð á hugrekki, sem myndar þetta nýja skapandi samfélag lærisveina bak við luktar dyr. Það er sprengikraftur hinnar nýju trúar sem gagntekur Tómas eins og aðra.
Einnig okkar kirkju. Einnig hún er send með hugrekki trúarinnar inn í þennan heim, til þessa samfélags sem hún þjónar.
Hætta þjóðkirkjunnar hins vegar, nú eins og endranær - og fyrir það hefur hún iðulega verið gagnrýnd með réttu - er endurhvarf inn í sjálfa sig eða Regression, sem var eitt uppáhaldshugtak feðra sálfræðinnar fyrir einni öld.
Freisting til endurhvarfs hefur loðað við spámenn allra tíma, allt frá tímum Jónasar sem hvarf inn í bumbu stórfiskjarins uns fiskurinn tók til sinna ráða og spjó honum á land þar sem Jónasi varð ekki undankomu auðið, hann varð að sinna sínu spámannlega hlutverki, óttinn var ekki útleið heldur hið gagnstæða: hugrekkið til að horfast í augu við köllun sína og sannfæringu.
Endurhvarf er freistingin til að hafna samtali og samskiptum, þráin til að lifa í eigin heimi, hverfa inn í móðurkviðinn á ný og lifa þar um aldur og ævi óáreittur.
Málstaður Jesú er annar, hann er ekki endurhvarf heldur framsækni. Málstaður hans er að leyfa hinum gagntekna efasemdamanni að snerta sárin ef það væri til einhvers. En þó fyrst og síðast að gera honum kleift að takast á við efa sinn með hugrekki til að lifa og starfa.
Málstaður Jesú er erindi kirkjunnar til okkar tíma eins og allra tíma. Um þann málstað snýst umræðan í lærisveinahópnum, að líkjast Jesú, ganga til hinna holdsveiku eins og hann, taka í hönd hinna geðsjúku eins og hann, setjast til borðs með hinum óhreinu eins og hann, hlú að bersyndugu konunni, samneyta tollheimtumönnum, umfaðma börnin.
Jesús kemur til mannsins í efa hans og óvissu með nýja von og nýjan kjark. Þetta þekkti Lúther, öryggi hans var hvorki kastalinn né herbergi angistarinnar heldur návist hins heilaga, sem breytti ótta og angist í nýja von og nýja djörfung. Málefni Jesú er hugrekki sem lærisveinarnir báru fyrstir vitni um, líka Tómas.
Kirkjan er til þess að flytja þennan boðskap, að koma til móts við manninn í lokuðu herbergi hans í víggirtum turnum og köstulum lífsins sem ekkert skjól veita því að baráttan er hið innra og hún er ekki ný heldur partur af því að vera manneskja í heimi sem býður ærið skjól hið ytra en lítið skjól hið innra.
Skapandi erum við þegar við þorum að halda út í óvissuna, þegar við greiðum nýjum hugmyndum veg. Í sköpuninni er líf, í kyrrstöðunni er dauði. Gleði páskanna felst í því að segja „já“ við lífinu, sínu eigin lífi og annarra.
Stöndum með þeim sem þora að tjá eigin skoðun þrátt fyrir andstöðu, stöndum með þeim sem eru í minnihluta gegn ofurvaldi meirihlutans, verjum rétt hins smáa á tímum sem hefja sigurvegarana á stall, styðjum þá sem leita þess sem satt er, fagurt og gott á tímum sem hneigjast til sýndarmennsku.
Trúin er leið til hins nýja hugrekkis, til að lifa og starfa og láta sér annt um aðra, hún er samfélag einstaklinga sem láta ekkert hindra sig í því að feta í fótspor Krists.
Trúin er brýnt erindi um eftirfylgd við Jesúm Krist, fótmál fyrir fótmál, í lífi og leik. Fótmál fyrir fótmál í starfi og stríði líðandi stundar. Í návist hins krossfesta, í návist hins upprisna, í návist hins heilaga?
Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4218.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar