Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

María

2. apríl 2006

Hveitikorn þekktu þitt
þá upp rís holdið mitt.
Í bindini barna þinna
blessun láttu mig finna. (HP Ps 17:27).

Í kjallaraherbergi við Bergþórugötu hafði drengur nokkur lært þetta litla erfiða vers af móður sinni strax í frumbernsku, Hveitikorn þekktu þitt..Barnið vissi ekkert hvað þetta þýddi. En það rann saman við annað vers “Láttu nú ljósið þitt, loga við rúmið mitt, hafðu þar sess og sæti, signaði Jesú mæti”, - sem var skiljanlegra og einhvern veginn gekk þetta saman upp í taktinum. Spurningar um þessi vers vöknuðu smátt og smátt, svörin streymdu fram, festust tæpast í minni, nema hvað Jesús var nálægur, traustur, og “í bindini barna þinna, blessun láttu mig finna” var staður, þar sem var óumræðilega gott að vera . Ofan við þessa bænargjörð hékk mynd af Jesú, þar sem hann gekk á vatninu og Pétur, “vinur” hans, var á leiðinni til hans, en þó hálfsokkinn, þegar þangað var komið sögunni. Spurningar tóku nú að beinast að þessari mynd, en ekki um það, hvers vegna þessi fallegi Jesúmaður gæti gengið á vatni, heldur um hitt, hvers vegna Pétur gæti það ekki. “Menn ganga ekki á vatni, það er bara Jesús, sem gerir það,” var svarað, “en hann ætlar að bjarga Pétri vini sínum” var svo bætt við. Þessi umgjörð helgihalds og samræðna var ekki aðeins upplýsandi fyrir barnið, heldur einnig mikið öryggisatriði, því jafnvel þótt vatnið á niðurgröfnum gluggunum ofan við rúmið næðu stundum í vatnsveðri upp á stétt, svaf það rólegum svefni alla nóttina.

Móðir Jesú

María er móðir Jesú. Jesús var sannarlega til, í eigin persónu, fæddur af Maríu. Hann nærðist af brjóstum hennar, ólst upp í nærveru hennar og alúð, hún gaf honum móðurmálið og hún treysti honum. Jósef treysti hins vegar Maríu og gerði henni mögulegt að framfylgja örugg því hlutverki, sem henni var trúað fyrir, að vera móðir Drottins. Hann þarf reyndar einhvern tímann alveg sérstakan kafla, kannski heilan dag í kirkjunni? (meira um það síðar). María gladdist yfir því hvernig sonur hennar þroskaðist að visku og vexti. Síðar yfir líknandi og læknandi orðum Jesú, gagnvart sjúkum, vanheilum og þjáðum, en ekki síst konum. Hún var stolt yfir þeim umbyltandi viðhorfum, sem urðu til fyrir návist hans og orðaskipti við harðan heim stríðandi afla samfélags þeirra tíma. Hún brást aldrei þótt á móti blési, fylgdi syni sínum alla leið í andsnúnum heimi öfundar, dómhörku og haturs. Hún lét aldrei af umhyggju sinni, þótt hún væri oft áhyggjufull og sorgmædd. Óbilandi stuðningur hennar stóð föstum fótum í andvarpinu, sem hún gaf frá sér í upphafi, þegar engill Guðs boðaði tilvist og komu frumburðar hennar í þennan róstusama heim. Umfram allt var hjarta hennar fyllt elsku. Slík elska getur aðeins vaxið af hreinni auðmýkt og einlægu trúartrausti til skaparans og lífgjafans. Jesús benti á, að hjartað sé sáningarstaður, akur, ávöxturinn er miskunn og huggun.

Þess vegna held ég að Hallgrímur segi einmitt í þessum yndislega 17. passíusálmi sínum:

Drottinn einn akur á,
er honum falur sá.
Minnstu, hann miskunn heitir,
mæddum lýð huggun veitir. (Ps 17:6).

Móðir trúarinnar

María er móðir trúarinnar. Hjartað er akur Guðs í brjósti hennar. En hún spyr samt, já hún spyr eins og annað fólk. Hvernig getur það átt sér stað? Hún fær svar, sem aðeins hrein barnssál getur meðtekið. Þegar hún spyr: “Hvernig má þetta verða?” segir erkiengillinn Gabríel: “Guði eru engir hlutir um megn”, (Lk. 1:37). María hugleiddi orðin öll. Það eru heilbrigð viðbrögð greindrar og ábyrgðarfullrar konu. Guðfræðin spyr margra spurninga, bæði um Guð og menn. Við þurfum á því að halda í efa okkar og vanmætti. Við erum leitandi og spyrjandi mannverur. Það er undirstaða þróunar og eykur á möguleika til vellíðunar að spyrja og leita svara. Við ættum raunar aldrei að óttast neinar spurningar. Því síður að óttast svörin. Spurning mannsins er ekki ávallt auðveld eða framborin óttalaust. Og sá sem fylgir spurningunni eftir og væntir svars, finnur auðvitað að það er oft mun erfiðara að mæta svarinu, hvað þá meðtaka það. “Hver sem tekur ekki við Guðsríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.” (Mk. 10), segir Jesús. Ja, mikið er á okkur vitsmunafólkið lagt! En veitum því eftirtekt, að barnið tekur því af einlægni að Jesús gangi á vatninu, af því að það treystir orðum góðrar móður fullkomlega. En það beinir sjónum sínum að þeim sem það samsamar sig við, t.d. Pétri. Þegar Pétur, sem er meira að segja vinur Jesú, sekkur í vatnið, vekur það spurningu. Spurningu um trú, spurningu um öryggi.. Hvernig fer fyrir mér í hafróti lífsins? Guðfræðin er auðvitað glíman við Guð, en sú glíma á sér stað í heimi mannsins, okkar veröld, minni tilveru, heima við rúmstokk lítils barns. Guðfræðin er umræðan um hið guðlega, en hún beinist að manneskjunni, og er skoðun á viðbrögðum okkar frammi fyrir þeirri boðun, að “Guði séu engir hlutir um megn”. Þegar þreytt móðir nútímans heyrir spurningu barnsins “af hverju sekkur Pétur” og dettur niður á þetta snilldarsvar: “En Jesús ætlar að bjarga Pétri,” þá hefur henni tekist að heimfæra móðurhlutverk sitt að þeirri guðfræði, sem bæði fullnægir áríðandi spurningu, en styrkir trúartraustið um leið, - og barnið túlkar: Mamma er hér, það verður allt í lagi.

Ókvíðin er ég nú
af því ég hef þá trú,
miskunn Guðs sálu mína
mun taka´ í vöktun sína. (Ps. 17:21).

Móðir kirkjunnar

María er móðir kirkjunnar. “Önd mín miklar Drottin, og andi minn gleðst í Guði frelsara mínum, því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar.” “Miskunn hans við þá er óttast hann, varir frá kyni til kyns.” (Lk.1:46 og 50). María er táknmynd þeirra sem leita að fótfestu í lífi sínu. Í Nýja testamentinu á það við fólkið sem fylgdi Jesú og leitaði svara hjá honum. Hlutverk kirkjunnar, hlutverk okkar, er að laða fram spurningarnar, leita svaranna, standa saman og stynja upp hástöfum: Hvernig má það vera? Hver veit nema við fyllumst krafti af hæðum og megnum að auðsýna trúmennsku, ákveðni og eindrægni, miskunnsemi, skilning og elsku, allt í senn. Getum við það? “Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum, … og tekið að sér Ísrael þjón sinn” þ.e.a.s. fólkið í landinu. (Lk.1:53n). En munum eitt: Lofgjörðin er fyrsta andsvarið.

Óður Maríu er gleði- og þakkaróður. Óður auðmýktar og hlýðni. En einnig lýsing á byltingu, þar sem réttlæti, miskunnsemi og kærleikur eru leiðarljósin. Guð gefi að okkur auðnist að fylgja þeirri stefnuskrá. Þá verður börnum okkar betur borgið, þá mun sálin öðlast frið og hjartað bera ávöxt. Syngi hún María í Júróvisjón óðinn sinn, myndi drengurinn merkja við dýrðarsönginn og segja: Ave María.

Hún fer fyrir lærisveinunum. Stendur trygg og trúföst í birtu himinsins. Hlutverk heilagrar kirkju er mannjöfnuður og frelsi, mannjöfnuður svo að hver manneskja fái að njóta þess sem í henni býr, og frelsi til að lifa í elsku og samkennd, hvatningu og gleði. “..í bindini barna þinna, blessun láttu mig finna.” Og sú bæn vísar út yfir jarðnesk mörk. Til játningarinnar dýrmætu: Ég trúi á samfélag heilagra.

María er móðir Jesú Krists, hins krossfesta og upprisna. María er sú sem fyrst allra manna gerði sér grein fyrir því, að Jesús er sá sem hann segist vera. Boðun engilsins, tilvist Jesú, líf hans og starf, en fyrst og fremst fórn hans á krossi, dauði og upprisa er allt ráðsályktun Guðs. María fylgdi henni eftir af trúmennsku sinni, frá upphafi til enda. Hveitikorninu er ætlað hlutverk. Að bera ávöxt. María sá það og opnaði hjarta sitt fyrir þeirri ráðstöfun. Og hún sá lengra. Hún sá þann ávöxt, sem í er öll næring til eilífs lífs.

Þú gafst mér akurinn þinn,
þér gef ég aftur minn.
Ást þína á ég ríka,
eigðu mitt hjartað líka. (Ps 17:24).

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3643.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar