Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigríður Guðmarsdóttir

Krossfest tré og kraftur Guðs

9. apríl 2006

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.

Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.

Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann:

Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?

Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.

Þá sagði Jesús: Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.

Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.

Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi,því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem.

Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu:

Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels!

Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:

Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola.

Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann.Jóhannes 12.1-16

I.

Ég var að enda við að opna augun.
Þessi vika hefur reynt á.
Ég er of þreytt til að fara nokkuð.
Of gagntekin af þessari brothættu angurværð
sem ymur í öllu því sem ég hef að segja um umhverfismálin og náttúruna,
hvernig við ættum að lifa í sátt við umhverfið
hvernig við erum að deyja með náttúrunni.
Mig verkjar í hjartað yfir því
hvað öllum þessum trjám er fórnað af miklu hugsunarleysi.
Stundum þrái ég að komast burt frá allri þessari eyðileggingu og sorg.

Þannig farast bandaríska líffræðingnum og guðfræðingnum Stephanie Kaza orð í grein sinni “Timburhús” frá 1993. Þegar hún horfist í augu við ástand lífríkisins við árþúsundamót, fyllist hún stundum vanmáttarkennd, þreytu og örvæntingu. Það er svo ógnarmikið að og það gengur svo hægt að breyta því. Á svörtum morgnum þegar umhverfissinninn kemst varla út úr rúminu, og þykir lífsstarf sitt unnið fyrir gýg, þá kemur henni huggun úr óvæntri átt. Húsið hennar huggar hana, hús úr timbri.

Mér þykir gott að vera umlukin viði og minningunni um tré, segir Kaza.
Timburloftið í húsinu mínu er styrkt með tveimur krossbitum og súlum.
Ég horfi oft upp í þessa bita,
vegna þess að lögun þeirra er svo athyglisverð.
Saman mynda þeir kross.
Mér verður stundum litið upp á þennan viðarkross
og ég ímynda mér mannslíkama strengdan á hann
áfastan viðnum.
Myndin af Jesú með drúpandi höfuð og sundurstungnar hendur
kallar fram fram samkenndina í huga mínum.
Ég get ekki annað en tekið þátt í sársauka hans.

En hvað um krosstréð sjálft?
Ég velti því fyrir mér
hvort tréð hafi ekki umlukið Jesú í þjáningu hans og dauða.
Jesús dó ekki einn.
Jafnvel í dauðanum var hann studdur lífinu.
Krossinn tengdi hann við jörðina.
Krossinn snerti grunninn sem við eigum öll sameiginlegan.
Hann teygði sig upp og út móti hinu óþekkta og leyndardómsfulla.

Ég hugsa um það
hvort Jesús, mitt í harmsögu lífs síns
hafi tekið eftir trénu sem höggvið var
og látið taka þátt í myrkraverkum mannanna.
Jesús kenndi lærisveinum sínum
að sýna hver öðrum samkennd og kærleika.
Trésmíði var hans iðn.
Mig langar til að trúa því að Jesús hafi tekið eftir trjám ogþótt vænt um þau.

Þegar ég horfi upp í krossbitann í húsinu mínu,
þá horfist ég í augu við þessa tvöföldu krossfestingu.
og ég finn til sársauka og ábyrgðar á krossunum báðum
með lífsháttum mínu og því samfélagi sem ég lifi í.
Aftur og aftur er öxin reidd að rótum trjánna,
dag eftir dag, áratug eftir áratug,
öld af öld.
Ég tek þátt eins og allir aðrir í þessari endalausu fórn á trjám
og það veldur mér vanlíðan.
Ég er oft lúin og vonlaus
því að ég veit ekki hversu mikið hefur glatast,
þegar við finnum loksins krossinn, viðinn bak við Jesú.

II.

Í dag er pálmasunnudagur, dagurinn þegar Jesús reið inn í Jerúsalem, upphaf kyrruviku eða dymbilviku. Við stöndum við upphaf dramatískustu viku kirkjuársins, vikunnar þegar síðustu dagar Jesú eru rifjaðir upp, dagarnir sem okkur er boðið að taka þátt í. Við stöndum á mærum þessarar sögu í dag, rétt við borgarhlið Jerúsalemborgar og heyrum fólkið hrópa Hósanna, blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Við sjáum hann koma, meistarann á litla ösnufolanum, heyrum fólkið hlæja og gleðjast, taka af sér yfirhafnirnar og veifa pálmagreinunum. Við stöndum í skugganum og veltum því fyrir okkur hvort við eigum að fylgja á eftir. Við vitum auðvitað hvernig þessi saga endar. Hósannahrópin eiga eftir að snúast í bölbænir og múgæsingu, í stað þess að bjóða fram fötin sín munu hermenn skipta hlut um kyrtilinn hans, pálmagreinum verður skipt út fyrir kross. Konungurinn sem lýðurinn hyllti á pálmasunnudag verður píndur og þyrnikórónu troðið á höfuð honum innan fárra daga. Kannski er okkur stundum innanbrjósts eins og Stephanie Kaza sem treystir sér ekki alltaf almennilega fram úr rúminu, vegna þess að krossfesting, þjáning, græðgi og grimmd heldur áfram öld af öld og eftir liggja brotnar pálmagreinar.

Munar virkilega um okkur og okkar þátttöku,
í baráttu fyrir friði, náungakærleik og verndun náttúrunnar?
Eru ekki verkefnin svo óendanlega mörg?
Er einhver tilgangur í að hlaupa fagnandi á móti meistaranum
sem kemur inn um borgarhliðin,
meistaranum sem er hylltur í dag og krossfestur á föstudaginn?
Eða snúum við við honum baki og höldum áfram á sömu leið sem fyrr?

Það liggur skrítin eftirvænting í loftinu.
Fólkið er glatt og hefur fundið frelsarann sinn.
Það er ilmur í loftinu
angan af gróðri, stórum pálmablöðum sem sveiflast í vindinum.
Og mitt í öllum þessum hugleiðingum um að fara eða vera
þá erum við hrifin með í mannþröngina.
Það eru pálmar í höndum okkar
og þegar við veifum þeim
eru pálmarnir eins og framhald af okkar eigin höndum
risastórar hendur sem við berum frelsarann með inn í Jerúsalem
grænir lófar fullir af lífi og ilmi
sem við hefjum upp og lofum Guð.
Og þessi er einmitt boðskapur páskavikunnar sem í hönd fer
að þótt við vitum og skynjum og þekkjum gjörla allt hið vonda, grimma og leiðinlega sem gerir líf okkar og annarra að langafrjádegi,
þá gefur Guð okkur upprisudaginn.
Í honum leynast ný tækifæri,
ný von, fyrirgefning og kraftur
þegar við erum alveg að gefast upp.
Í honum snýr Guð við dramanu
tekur af okkur krossana sem við smíðum Kristi
og fær okkur pálmagreinar að gleðja okkur við í staðinn.

Það er stundum langt á milli heilans og hjartans,
milli allra upplýsinganna sem við innbyrðum með fréttum og fólki
og þess að þessar upplýsingar snerti við okkur.
Það er líka stundum langt á milli hjartans og handanna,
jafnvel þegar málefni snertir okkur
þá er auðvelt að snúa við því baki
vegna þess að það sé ókleift verkefni sem fyrir höndum er.
Kristin trú hefur frá fyrstu tíð lagt áherslu á að við elskum hvert annað og eigum að bera umhyggju hvert fyrir öðru.
Við eigum að sjá Krist í meðbræðrum okkar og systrum,
þekkja svipinn hans í andlitum þeirra sem á vegi okkar verða
og koma þeim til hjálpar.
Við eigum okkur samfélag, kirkju til að efla þessa sýn á hið góða,
reisa okkur við þegar við föllum og gefumst upp,
leggja okkur pálmagreinar í hönd
þegar við smíðum Kristi krossa með afskiptaleysi okkar, vonleysi og gremju.
Stephanie Kaza minnir okkur á að samkenndin sem lýsir úr boðskap Jesú
á ekki aðeins erindi til allra mannvera, heldur allra annarra lífvera líka.
Ef hún hefur rétt fyrir sér,
sem ég hallast að,
þá eru umhverfismál ekki aðeins viðfangsefni stjórnmálaafla og grasrótarsamtaka
heldur eru þau háguðfræðileg líka.
Hvað gerist ef við sjáum náungann í náttúrunni allri,
en ekki aðeins öðrum manneskjum?
Hvaða áhrif hefur það á viðhorf okkar til náttúrunnar
ef við sjáum Krist í landsvæðunum sem við göngum illa um
lofti, jörð og hafi sem við mengum
dýrum sem sæta illri meðferð?
Hvað gerist í hugum okkar ef við hugsum um pálma Jerúsalemar
eins og grænar hendur sem bera og umlykja Krist?
Höfum við leyfi til þess að koma fram við þær eins og okkur sýnist?

Umhverfismálin hafa verið allnokkuð í umræðunni síðastliðin ár á Íslandi,
ekki síst í tengslum við málefni virkjana og stóriðju.
Guðspjallið okkar í dag segir frá henni Maríu
sem að smurði fætu Jesú með smyrslunum dýru.
Ilmurinn frá smyrslunum var höfugur
og hann barst um alla stofuna.
Lærisveinunum sumum þótti konan vera óþarflega eyðslusöm
þessar krónur sem hún eyddi í nardussmyrslin hefðu getað farið í bókhaldið
og nýst til að gefa fátækum.
Jesús minnir okkur á að til eru gæði sem ekki er hægt að reikna með tölum og prósentum.
Þau eru einstök, þau tengja saman stað okkar og stund
og opna okkur vídd inn í hið heilaga
með ilmi sínum og ásýnd.
Víðerni Íslands eru slík nardussmyrsl,
stundir og staðir sem aldrei koma aftur,
einstök.
En vistvænt líf fjallar ekki aðeins um að hafa skoðanir á því
hvar og hvort eigi að virkja,
það fjallar líka um okkar daglega líf,
hvernig við flokkum sorpið,
hversu marga bíla við eigum,
hvort við löbbum og tökum strætó
eða ökum bíl hvert fótmál
hvort við hendum rusli á götuna
hvort við flokkum fernur og blöð
hvort við sóum pappír eða spörum.
Svifrykið á götum Reykjavíkurborgar í vetur,
sinueldarnir á Mýrum, sem skemmdu svo mikið land
og sendu eitraðar lofttegundir út í andrúmsloftið,
allt minnir þetta okkur á
hversu viðkvæm náttúran okkar er
og hversu mikilvægt er að haga lífi sínu í virðingu við hana.
Við höldum stundum að
við getum gert það við náttúruna sem okkur sýnist
og passar í bókhald líðandi stundar.
Annars vegar teljum við okkur vita fyrir víst hvað
náttúran er, hvað er náttúrulegt og hvað er ónáttúrlegt,
þetta viðhorf til náttúrunnar
kemur til dæmis berlega fram í umræðunni um samkynhneigð,
þar sem þau sem ekki vilja veita samkynhneigðum full réttindi
gera það gjarnan með tilvísun í skikkan skaparans.
En hins vegar á þessi sama skikkan skaparans
að vera endalaust felld inn í okkar plön
um hagvöxt, gróða og nútímaleg lífsgæði.
Við teljum okkur hafa náttúruna í vasanum
og í vissum skilningi teljum við okkur hafa krossinn í vasanum líka.
En krossinn er þar sem lífið líður og þjáist
og þar er Guð
sem ber með sér réttlæti og sigur
og kemur fram í samkennd og veikleika
eins og tré milli himins og jarðar.

III.

9. apríl er minningardagur Dietrich Bonhoeffer, þýska guðfræðingsins sem eyddi síðustu árum sínum í fangabúðum nasista. Hann var hengdur þennan dag árið 1945 fáeinum dögum áður en bandamenn frelsuðu búðirnar. Sum af dýpstu og áhrifamestu guðfræðiritum Bonhoeffers voru rituð í fangabúðunum. Og þegar hann sér ekkert sem minnir hann á Guð, þegar ekkert er framundan nema þjáning og dauði, þegar okkur finnst Guð óendanlega langt í burtu. þá fullvissar Bonhoeffer okkur um að Guð sé ekki langt undan.

Við getum ekki lifað heiðarlega, skrifar hann í klefa sínum árið 1944, ef við lifum ekki í veröldinni eins og það væri enginn Guð til. Við játum þetta, en við játum það fyrir Guði! Frammi fyrir og með Guði þá lifum við án Guðs.
Guð lætur varnarleysi og vanmátt yfir sig ganga á krossinum og það er nákvæmlega þannig, einmitt þannig sem Guð er með okkur og hjálpar okkur. Biblían bendir okkur á varnarleysi og þjáningu Guðs, aðeins sá Guð sem getur þjáðst getur hjálpað öðrum sem í sömu sporum standa. Í því ljósi getum við sagt að þegar hin falska hugmynd um Guð er tekin burt, þá opnast ný mynd af Guði Biblíunnar, sem vinnur veröldinni kraft og rými með veikleika sínum.

Þetta heyrum við frá manni sem lifði við skelfilegar aðstæður, þar sem pyntingar, skelfing og dauði voru daglegt brauð, þar sem hver dagur bar svipmót föstudagsins langa. Ömurlegu aðstæðurnar sem hann bjó við urðu honum uppspretta nýrrar trúarvitundar, þær hristu upp gamlar hugmyndir um Guðs sem tilvistarlegt öryggisnet, þar sem náðin er sjálfsögð og lífið öruggt. Í staðinn sá hann ást Guðs, sem goldin er svo skelfilegu verði, hið óútreiknanlega, síbreytilega og villta djúp guðdómsins. Þetta djúp flæðir frá dýrð Guðs inn í króka og kima neyðar og myrkurs sem fæst okkar vilja mikið af vita. Guð kemur í hús ofbeldis, dauða og veikinda. Guð kemur í hús syndaranna. Guð elskar. Guð gefur fólki kraft til að elska og taka þátt í göngunni inn í Jerúsalem. Guð gefi okkur pálma í stað krossa, hósanna í stað bölbæna og baktals. Guð gefi okkur kraftinn til að elska, “til að vinna veröldinni kraft og rými í veikleika” okkar. Guð gefi okkur kraft, tíma og nennu til að gefa gaum að náunga okkar og sjá hann í öllu lífi.

Guð gefi trjánum líf og okkur náð til að finna viðinn að baki Jesú.

Fagna þú mjög dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá konungur þinn kemur til þín.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3762.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar