Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Góði hirðirinn og fermingarbarnið

30. apríl 2006

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina.Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Jh. 10.11-16

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Kæri söfnuður og kæra fermingarbarn.
Þetta er stór dagur. Til hamingju með hann.
Að velja Jesú Krist er að velja lífið!

Hér á Þingvöllum hafa verið teknar stærstu ákvarðanir í sögu lands og lýðs um að fylgja Jesú Kristi. Það er gaman að hugsa til þess í dag að einn af þeim sem mest komu við sögu í aðdraganda þess að kristnitakan var samþykkt á Íslandi hét eimitt Friðrik. Það er gott að mega hafa það í huga á þessum degi tímamótanna.Hann var biskup og þú fermingarbarn. Presturinn sem skírði þig er líka orðinn biskup, og heitir Karl.

Kæri Friðrik Karl.
Það er dálítið óvenjulegt fyrir prestinn að ferma einhvern sem hann þekkir ekki. En ég sá það strax í gær þegar þú komst hingað í kirkjuna að þú hefur heiðarleg augu, og augun eru spegill sálarinnar og segja sannleikann.
Þakka þér fyrir að koma hingað í Þingvallakirkju og leyfa mér að vera með þér og þínu fólki hér á þessum tímamótum.
Fermingardagurinn er undursamlegt ævintýri á marga lund. Sérstaklega er hann það vegna þess að hann er hátíð lífsins og hátíð möguleikanna og vegna þess að fermingarbörn eru sjálf ævintýri sem við foreldrar og ástvinir erum þátttakendur í.
Fermingarbörn eru eins og blómknúppar að byrja að springa út.
Og hvað verður svo?
Höfum við gefið börnum okkar það veganesti sem þeim reynist best fyrir lífið framundan? Það er með þá spurningu í huga sem við göngum í annað sinn fram fyrir Guð með þessa dýrmætu gjöf sem hann hefur lagt okkur í fang, til þess að hann sem áður helgaði þau í skírninni megi að þeirra eigin vilja, vera sá sem leiðir og leiðbeinir, vakir og verndar.
Dagurinn í dag, annar sunnudagur eftir páska, er alveg sérstaklega heppilegur til þess.
Þessi dagur hefur yfirskriftina: Góði hirðirinn.
Jesús segir:
Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim

Margir þekkja mynd sem víða er til og var til á heimilum og sýnir Jesú Krist með lamb á öxlunum og staf í hendi ganga á undan stórri kindahjörð einhversstaðar í Palestínu.
Myndin er falleg og hugljúf og alls ekki í anda þeirra frétta frá Palestínu, sem við höfum daglega í eyrum. Kannski eru þær þess vegna svona sárar.
Hvað er góður hirðir?
Eina fegurstu lýsingu þess hvers eðlis hirðisþjónustan og hirðishlutverkið er, er að finna í Davíðssálminum Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
Og textinn frá spámanninum Esekiel sem við heyrðum hluta af í lexíu dagsins, endurómar í orðum Jesú og í skilningi hans á sjálfum sér. Hinn góði hirðir annast sauðina, hann bægir frá þeim hættum, skapar þeim öryggi, útvegar skjól og næringu, styður hið veika, bindur um hið særða, huggar, hressir og hvetur.

Jesaja segir:
Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar. (Jesaja 40:11).

Það er vor og sumar í áherslum guðspjallanna á hirðinn og hjörðina. Eins og hirðir annast Guð alla jörðina. Hann strýkur moldina með vorregni og mildum vindum svo að hún vaknar og blómgast. Guð kemur og kveikir líf.
Vorið er fullt af fyrirheitum, eins og fermingarbarn.
Vorið er endurnýjandi kraftur í hrynjanda árstíðanna og hins náttúrulega lífs
Fermingarbörn taka þátt í hliðstæðum endurnýjandi krafti í kirkjunni til hins andlega lífs.

Kirkjan er hjörðin sem góði hirðirinn leiðir. Hún er tengd saman af því að Jesús Kristur er hirðir hennar og að þau öll sem mynda hina sameiginlegu hjörð tilheyra honum og hann þekkir þau. Þau eru eins og systkyn, ólík, oft ósammála, en tengd saman í órjúfanlega heild.

Þau sem tilheyra hjörðinni eiga það öll sameiginlegt að Jesús Kristur er þeim næstur og þau eiga hann að sem næsta viðmælanda sinn.
Einmitt þess vegna geta þau séð hann í hvert öðru en um leið í þeim sem standa fyrir utan og þarfnast hjálpar.
Hjörðin sem á Krist að hirði hefur axlað hina sameiginlegu ábyrgð hirðisþjónustunnar. Það er„lögmál Krists“ að við berum hvert annars byrðar. Ekki bara í hjónabandinu.

En þessi hjörð Jesú Krists, sem þekkir hann og fylgir honum í fullvissu þess að hann þekki hvert og eitt þeirra sem til hennar telst, býr ekki við fullkomið öryggi, heldur við ógn.

,,Úlfurinn“ gengur laus.
Í anda Jóhannesar guðspjallamanns mætti því segja að vegna úlfsins geti hjörðin alls ekki verið til, eða lifað af, nema hún haldi sér undir umsjá og forystu hirðisins. Lömbin sem leita eigin leiða eiga sífellt á hættu að enda líf sitt í gini úlfsins.
Samtakamáttur hjarðarinnar er úlfinum ógn.
Þess vegna gerir hann allt sem hann kann til að brjóta kraft samtakanna og einingarinnar á bak aftur. Þar sem hver höndin er uppi á móti annarri er óskaland úlfsins. Einhverskonar margklofin mennska þar sem ekkert sameiginlegt er lengur til, er verk tvístrarans mikla. Það er hann sem reynir að leysa allt upp í sömu óreiðu og ríkti fyrir sköpun heims. Guð er Guð reglunnar. Óregluvaldurinn er andstæðingur hans.

Í þjónustu Guðs eru hirðar. Í þjónustu hins, hvað sem við köllum hann, eru leiguliðar. Leiguliðar guðspjallsins samkvæmt Jóhannesi eru málaliðar óreglunnar. Gagnvart hinni ytri ógn kemur í ljós hver í raun er hirðir og hver er leiguliði. Hver annast hjörðina og hver þjónar eigin markmiðum?

Jesús Kristur hefur fengið það hlutverk frá föðurnum að annast hjörðina hans. Umönnun hans gengur svo langt að hann á að meta líf sitt til jafns við líf hjarðarinnar, og þegar á reynir á hann að gefa sitt eigið líf svo hjörðin megi lifa.
Hjörðin er samt ekki hans í bókstaflegum skilningi, heldur Guðs.

Hið sama gildir um þau sem kölluð eru til að gegna sérstakri hirðisþjónustu í eftirfylgd Krists. Þau starfa í umboði Guðs. Og hirðisstarf í umboði Guðs gildir um þau öll sem tilheyra hjörð hans. Verkefnið heitir: Umönnun, umhyggja, ábyrgð.
Við berum ábyrgð hvert á öðru. Með því að lifa í henni innbyrðis, erum við fær um að axla enn frekari ábyrgð út fyrir hjörðina og sýna hana hverjum þeim sem þarfnast aðstoðar okkar.

Þannig er hirðisþjónusta Krists, hins góða hirðis, verklýsing kristins safnaðar og kristins einstaklings. Kristur er einn yfirhirðir. Hin fullkomna hirðisþjónusta hans er einungis hans, og á valdi hans. Okkar er að þjóna hvert öðru í krafti hans og kærleika og vera þannig hvert öðru góður hirðir sem leitar hins besta fyrir hjörðina, en gleymir eigin ágirnd

Kæri Friðrik Karl.
Með deginum í dag lýsir þú því yfir að þú viljir vera með Jesú Kristi í liði hans. Að fylgja honum er að starfa í nafni hans eins og hirðir, að vera öðrum sem þú mætir á lífsleiðinni eins og hirðir, eins og góður hirðir, í umönnun og umhyggju og kærleika.
Ritningarversið sem þú valdir þér mun hjálpa þér til að muna það, og það felur líka í sér tryggingu þess að þú getur fylgt honum og þjónað náunganum eins og hirðir í nafni hans, af því að það er þetta vers:

Jesús sagði: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 6040.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar