Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Máltaka og menningarheimar

19. mars 2006

Átt þú mynd af Jesú? Þegar ég var drengur átti ég mynd sem hékk yfir rúmi mínu. Hún var af Jesú þar sem hann sat álútur að næturlagi, með hendur í skauti og bað. Í fjarska sáust ljós í gluggum. Hugljúf minning af friðsælum Jesú sem biður fyrir fólkinu heima sem sefur. Jesús vakir og biður.

Áttir þú mynd af Jesú? Kallaðu hana fram í huga þér. En ef þú leggur þessa mynd til hliðar, hvaða mynd gerir þú þér þá af Jesú núna? Er hún af meinlausum manni með geislabaug eða reiðum róttæklingi? Hver var Jesús? Hver var hann og er í þínum augum? Merkilegt að hugsa til þess að Jesú er hvergi lýst í Nýja testamentinu. Útlit hans skipti þá ekki máli sem rituðu sögu hans. Hitt var mikilvægara í þeirra augum hvað hann sagði, hvað hann gerði, hvernig hann var í háttum, hvernig hann mætti fólki, svaraði, andmælti, elskaði. Jesús var ekki skoðanalaus maður sem lét almenningsálitið stýra orðum sínum gjörðum sínum. Hann tók afstöðu. En allt sem hann gerði var gert í kærleika og kærleikurinn er afgerandi afl sem getur ef svo ber undir kallað fram mjög afgerandi andstöðu fólks.

Máltaka

Guðspjall dagsins greinir frá afstöðu fólks til Jesú og þess sem hann gerði. Fyrirferðamestir eru þeir í þessu tilfelli sem öfunduðu hann, voru illgjarnir í huga og hjarta og bendluðu hann við hinn illa. Góðverkin sem hann vann vildu þeir tengja mætti hins illa. Jesús sýndi þeim fram á mótsagnirnar í málflutningi þeirra. Honum varð aldrei orða vant. Hvernig er hægt að gera gott með krafti hins illa? Það gengur ekki upp. Þegar hann opnaði varir málleysingjans var það gert í kærleika og með mætti Guðs, skapara himins og jarðar. Auðvitað óttuðust margir þennan mann, Jesú frá Nasaret, sem gat leyst menn úr fjötrum af hvaða tagi sem var. Hann ógnaði þeim í illsku þeirra.

En hugsið ykkur manninn sem nú gat mælt! Hvernig ætli það sé að fá skyndilega málið?

Jesús gefur mönnum mál. Þau eru mörg í samtímanum sem hafa öðlast mál.

Dæmi:

  • Konur hafa til að mynda á liðnum áratugum fengið mál með nýjum hætti og verið leystar úr fjötrum og höftum.
  • Börn hafa fengið mál, þau eru í það minnsta í meira mæli tekin alvarlega en oft áður.
  • Unglingar eru sterkari rödd í samtímanum en fyrr á öldum.
  • Aldraðir láta nú í sér heyra í vaxandi mæli um aðstæður sínar og kjör.
  • Útlendingar auðga menningu okkar með því að tjá sig á sinn sérstaka hátt og opna augu okkar fyrir nýjum sjónarhornum.
  • Samkynhneigðir hafa líka öðlast mál.
  • Þolendur ofbeldis og misnotkunar sömuleiðis. Fékk ekki einn slíkur þolandi verðuga athygli á liðnu ári fyrir samtalsbók sína?

Við sjáum okkur sjálf og þjóðfélag okkar í nýju ljósi vegna allra þeirra sem tjá sig í einlægni.

Við eigum að stuðla að opinni umræðu um hvað sem er og gefa öllum mál sem þurfa að tjá sig. Þannig virkar heilbrigt þjóðfélag best að allir eigi sína rödd í samkór samfélagsins.

Friður er ávöxtur réttlætis

Um þessar mundir er mikið talað um ófriðinn í heiminum. Þrjú ár eru liðin frá innrásinni í Írak. Þar er gerð tilraun til að koma á friði með vopnavaldi. En ég hef mínar efasemdir um að friði verði komið á með ofbeldi því friður er ávöxtur sem vex þar sem réttlæti ríkir. Friður er ávöxtur réttlætis! Og ef við viljum búa við frið í heiminum þurfum við að tala saman. Menningarheimar þurfa að tala saman. Í gær hlýddi ég á umræður í bresku sjónvarpi (BBC World Service) þar sem leiðandi einstaklingar af ólíkum trúarbrögðum og menningarsvæðum skiptust á skoðunum sem siðað fólk um vanda heimsins og samskipti trúarbragða og menningarheilda. Við þurfum meira af slíku. Við þurfum að hlusta á múslima og fólk af öðrum trúarbrögðum og menningarheimum. Þetta fólk þarf að fá málið og það gerist þegar við opnum eyru okkar fyrir því sem það hefur fram að færa. Við erum öll sköpuð af Guði, allir jarðarbúar og við verðum að læra að lifa í sátt og samlyndi með því að allir fái málið.

Einstakur maður, einstakrar móður

Sitt sýnist hverjum, segir máltækið. Þannig var það á dögum Jesú og þannig er það enn. Guðspjallið greinir frá andstöðu sem Jesús varð fyrir af hálfu samtíðar sinnar. Hann var sagður vera handbendi hins illa. En tökum eftir einni rödd sem í lok guðspjallsins tjáir sig á jákvæðan hátt. Það er kona sem hefur upp raust sína og segir: Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir. 
Hún varð yfir sig hrifin af því sem Jesús sagði og gerði. Og hún hugsaði eins og móðir sem hefur alið börn. Sæll er sá kviður, er þig bar. Já, María var sælust kvenna, hún sem bar Guð í þennan heim. Og brjóstin hennar voru líka sæl, þau sem nærðu Guðs son í frumbernsku. María átti ekki lítinn hlut í uppvexti Jesú. Hún annaðist hann og lagði inn í sálu hans allt það sem gat orðið honum til góðs. Hún var sælust kvenna.

Hér eru margar mæður í dag, eldri og yngri sem alið hafa börn og lagt þeim gott til. Hér eru ennfremur tvær mæður og feður sem komu með börn sín til Jesú svo að hann fengi blessað þau, vígt þau himni sínum og eilífðinni. Betra er ekki hægt að gera barni sínu en færa það Guði kærleikans. Börn þurfa að upplifa mikla elsku og umhyggju, þau þurfa að læra að skynja að Guð vakir yfir þeim. Þau læra þetta þegar mamma og pabbi biðja yfir vöggu þess, signa sig og barnið og fela sig vernd Guðs. Bænin skapar traust og öryggi í hjarta barnsins sem skiptir það miklu máli í framtíðinni. Að vita sig í heimi sem hefur mark og mið og tilheyrir Guði er mikilvægt þegar mótlæti og erfiðleikar mæta manni á lífsleiðinni. Mikilvægt er að geta treyst því að Guð er yfir og allt um kring og mun eiga síðasta orðið í baráttu góðs og ills.

Hið illa í ljósi Jesú

Í guðspjalli dagsins má greina átök góðs og ills. Heimurinn er ekki saklaus, hann er vettvangur baráttu.

Hið eina í heiminum sem ekki á sér rætur í Guði er hið illa. Guð er kærleikur, Guð er góður í innsta eðli sínu og ekkert illt er til í hjarta hans, þar ríkir elskan ein. Hið illa er ekki frá honum komið. Við vitum ekki hvernig það hefur komist inn í þennan heim. Biblían notar myndmál til að útskýra hið illa og segir það ávöxt óhlýðni hinna fyrstu manna. Því er líka lýst þannig að uppruna þess meig rekja til uppreisnar í hópi engla Guðs. Hið illa er leyndardómur en það er samt staðreynd. Sagt hefur verið að snjallasta bragð djöfulsins sé að fá fólk til að trúa því að hann sé ekki til. Hinu illa bregður fyrir vítt og breitt. Við sjáum merki þess í fréttum fjölmiðla hvern einasta dag.

En er það ekki undursamlegt að vita að Guð getur snúið illu til góðs, hann getur látið upprisu eiga sér stað af hverjum krossi, líf af hverjum dauða. Með Kristi mun hið góða ávallt sigar hið illa ef við leyfum honum að ríkja í hjarta okkar og huga. Við verðum að láta trúnað okkar við Guð hafa forgang fram yfir þörfinni fyrir að ásaka hann eða einhvern annan þegar við verðum fyrir mótlæti eða sorg. Við þurfum að láta erfiðar spurningar okkar um leyndardóm hins illa umskapast fyrir tilstilli leyndardóms yfirfljótandi náðar Guðs. Það gerum við með því að snúa okkur til hins lifandi Guðs, með því að gefast honum. Í honum fáum við svör við öllu.

Guð er óendanlega góður og öll verk hans eru góð. Samt getur enginn umflúið erfiðleika í þessu lífi eða þjáningu. Hvaðan kemur hið illa? „Ég leitaði svara við því hvaðan hið illa væri komið og fann enga lausn,“ sagði Ágústínus kirkjufaðir. Sársaukafullri leit hans varð aðeins fullnægt í því að hann gafst Guði, eignaðist trúarlegt afturhvarf.

Svarið við hinu illa fæst í honum sem sigraði hið illa á krossinum á Golgata.

Mál, heyrn og sæla

Við erum honum falin í heilagri skírn, honum sem dó á krossi og lagði hið illa að velli. Skírnarbörnin eru honum falin á sama hátt og við vorum honum vígð. Í því liggur gæfa okkar og gleði. Við vitum ekki hvað bíður okkar í hulinni framtíð en eitt er víst: Jesús verður þar! Hann er hér og vill fylgja okkur, gefa okkur róm og mál, lofgjörð og bæn á tungu, trú í hjarta, öryggi í sálu. Hann er ímynd Guðs (2. Kor 4.4), birting hans á jörðu. Hann er Guð.

Átt þú þessa mynd af Jesú?

Þetta er sú mynd sem orð Guðs birtir.

Hlýðum á orð Guðs, geymum það í hjarta og huga.

Þá erum við sæl og blessuð eins og Jesús sagði:

Sæl eru þau sem heyra Guðs orð og varðveita það. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2976.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar