Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Bænaglíma

12. mars 2006

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda. En hann svaraði henni engu orði.

Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum. Hann mælti: Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.

Konan kom, laut honum og sagði: Herra, hjálpa þú mér!

Hann svaraði: Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.

Hún sagði: Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.

Þá mælti Jesús við hana: Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt. Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. Matt. 15.21-28

Ó, Jesús, gef þinn anda mér,
allt svo verði til dýrðar þér
upp teiknað, sungið, sagt og téð,
síðan þess aðrir njóti með.
Amen

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi.Amen.

Sunnudagurinn í dag heitir reminiscere. Nafnið er dregið af fyrsta söng messunnar fyrrum, hinum biblíulega inngöngusálmi sem tekinn er úr 25 sálmi Davíðs:

,,Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð. Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni, sakir gæsku þinnar, Drottinn.”(Sl.25.6-7).

Segja má að þessi dagur sé einskonar bænadagur vegna þess að er erindi og innhald allra þeirra texta sem tilheyra honum tengjast bæninni: Jakobsglíman í lexíunni, fyrirmælin um trúarbænina í pistlinum og samtal Jesú og kanversku konunnar í guðspjallinu.

Allir textarnir hafa þau sömu skilaboð til okkar að ekki sé aðeins ætlast til þess að við biðjum, heldur sé líka tryggt að bænin sé heyrð.

Stundum lætur maður sér detta í hug að við séum svo kurteis og vel uppalin að þess vegna segjum oftar en ekki við Guð: Verði þinn vilji, og látum þar við sitja.

Ég er nú að vísu að biðja um þetta en af því að ég á ekkert frekar von á því að þú viljir það þá segi ég til öryggis : Verði þinn vilji.

Getur verið að þetta „verði þinn vilji” sé fyrst og fremst varnagli til þess að við verðum ekki fyrir vonbrigðum ef Guð skyldi sjá bænarefnið öðrum augum?

Er það kannski bara uppgjöf að segja við Guð: verði þinn vilji: Hver sem hann er. Ég er þá ekkert að biðja frekar. Þú veist hvort sem er hvað mér er fyrir bestu. Ég legg þetta bara þínar hendur. Þú munt vel fyrir sjá.

Kæri söfnuður.
Þetta er allt saman satt: Hann mun vel fyrir sjá. Hans vilji á að ráða. Ekki minn. En samt kallar hann okkur til bænar.
Hann kallar okkur meira að segja til að biðja um hið ómögulega.
Hann vill vera minntur á.

Sagan um Jakobsglímuna segir þetta: Ég sleppi þér ekki fyrr en þú blessar mig.
Það er engin kurteisi í því, heldur glíma. Bænaglíma.
Er einhver dauðvona að mati vísindanna og þó er tíminn ekki kominn. : Ég sleppi þér ekki. Ég sleppi ekki voninni um lækningu, ég sleppi henni ekki fyrir en Guð blessar hana.

Og svo er það trúarbænin samkvæmt frásögninni úr Jakobsbréfi.„Líði nokkrum illa yðar á meðal þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng.”

Það er reyndar alveg ágætt að gera hvort tveggja í einu: og syngja bænina. Enda segir Ágústínus kirkjufaðir: Tvöfalt biður sá er syngur: Bis orat, qui cantat. Þá vinnur maður ekki aðeins bug á leiðanum með því að biðja, heldur eignast maður gleðina af að syngja.

En svo segir áfram í Jakobsbréfi:„Sé einhver sjúkur yðar á meðal þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum. Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur.”

Þar stendur líka eins og eilíf áminning á þessum dögum þegar einn krefst fyrirgefningar af öðrum eins og það væri skiptimynt í viðskiptum og iðrun væri engin til eða óþörf: ,Játið því hver fyrir öðrum syndir yðar.”.

Eitt sinn var svohljóðandi máltæki til suður í álfu: Biddu bænirnar þínar og kallaðu á lækninn.

Í flestum tilfellum gerum við það nú reyndar. Verði eitthvert okkar eða einhver af okkar fólki, svo veikt að kalla þurfi á lækninn, læðast nú líka bænarorðin fram á varirnar. Vegna þess að við berum umhyggju fyrir þeim og óttumst um þau. Og við sækjum styrk til hans sem öllu ræður. En að við biðjum yfir hinum sjúka, nema kannski yfir börnunum okkar, að ég nú ekki tali um að kalla til fleiri til að biðja, það gerum við yfirleitt ekki. Það eftirlátum við öðrum kristnum trúarhópum og látum þeim eftir að upplifa kraftaverkin. sem fylgt geta. Og þó er sérhver okkar bæn ákall til læknis allra meina. Þetta er dálítið umhugsunarefni.

Pistillinn okkar í dag endar á orðunum: Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið. Er það þá ósatt? Eða erum við bara að bíða eftir því að finna mælikvarða á það hversu mikið kröftug bæn er, eða hversu réttlátur hinn réttláti þurfi að vera?

Kanverska konan í guðspjallinu stóð ekki í neinum pælingum af þessu tagi. Hún hafði frétt af Jesú, segir Markúsar guðspjalli (Mk. 7.25) og þess vegna fór hún á eftir honum, þrúguð af ótta og skelfingu vegna veikinda dóttur sinnar.

Hvað hafði hún frétt? Eitthvað gott hafði hún heyrt um þennan mann. Að hann væri góður maður, réttlátur og hjálpaði öllum. Hann gekk um og gjörði gott, segir á einum stað. Svona fréttir eru sannkallað fagnaðarerindi og náðarorð. Og þetta orð og fagnaðarendi kveikti trúna hjá konunni, því að ef hún hefði ekki trúað hefði hún ekki hlaupið á eftir frelsaranum.

Páll segir: Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists. (Róm.10.17)

Það er einmitt það sem við gerum þegar við kennum börnunum okkar vers og bænir og miðlum þeim þekkingu okkar á nálægð Guðs og kærleika hans í Jesú Kristi. Við höfum frétt af honum og segjum frá.

En í frásögn guðspjallsins gerist ekki það sem við væntum af hinum góða lækni Jesú Kristi. Konan hrópar á hann. En hann svarar ekki.

Það var skrítið.

En kannski hefur þú líka einhvern tíma hrópað og hann svaraði ekki. Ég hef það.

Konan ávarpar hann eins og þann sem vænst er mikils af: Miskunna þú mér, Herra, sonur Davíðs. En þessi kona er útlendingur og talin annarlegrar trúar. Hún á ekki að geta tekið sér í munn þessi orð um Jesú.

Hann svarar ekki.

Hvað hugsar hún þá? Hugsar hún e.t.v.: Er þetta þá ósatt sem ég hefi heyrt um þennan góða mann sem gengur um og gjörir gott öllum sem til hans leita? Er hann ekki mannvinurinn mesti og því vinur minn? Er hann óvinur minn? Hann lætur ekki einu sinni svo lítið að segja mér þá að snúa frá, hunskast heim, nei hann ansar mér engu orði.

Lærisveinarnir eru orðnir ókyrrir og skilja þetta ekki. Fyrst Jesús gerir ekkert fyrir konuna þá er bara ónæði af henni, og þeir segja við hann:„Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum.”

Og hverju svarar Jesús:„Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt”.
Hvað þýðir það nú? Er hann ekki frelsari heimsins ? Er það ekki hann sem segir: Allt vald er mér gefið á himni og á jörðu, eða þetta: Verið óhræddir því sjá ég hefir sigrað heiminn.

Hvað er hann að segja?

Kæri söfnuður. Það er augljóst samhengi milli þessa guðspjalls og guðspjalla síðustu tveggja sunnudaga. Fyrst var það skírn Jesú í Jórdan, síðan freistingin í eyðimörkinni og nú þetta um sendingu hans, ekki aðeins til Ísraelsþjóðarinnar, heldur til allra.

Þetta er eins og svipmynd úr mótunarsögu frelsarans.

Við sjáum af guðspjalli dagsins að honum hefur smátt og smátt orðið ljóst hlutverk sitt í ráðsáætlun Guðs, en ekki að honum yrði það ljóst allt í einu.

Þessi merking guðspjallsins er áréttuð þegar hann talar um brauðið barnanna sem ekki megi fara til hundanna, og svar konunnar um molana sem falla af borðum húsbændanna.

Í þessari glímu konunnar við Jesú bresta böndin sem héldu Ísraelsþjóðinni sérstaklega aðgreindri frá öðrum þjóðum til þess að varðveita orð Guðs. Konan gefst ekki upp og því fær hún uppfyllingu bæna sinna: Hún slítur fjötrana, með trú sinni.

Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt”.

Hvað þýðir það?

Hið sama og Jakobsglíman. Gefstu ekki upp. Gefstu aldrei upp. Óttastu ekki svo mjög að bæn þín verði ekki heyrð, að hún verði af því dauf.

En láttu á hinn bóginn engan segja þér þegar vilji þinn verður ekki , að þú berir ábyrgð á því sem verður , þú hafir bara ekki beðið nóg og ekki trúað nóg. Vittu með vissu að þú hafir samt barist hinni góðu bænabaráttu til þrautar. Og uppfylling bæna þinna kemur alltaf þó að hún birtist ekki alltaf í þeirri mynd sem þú væntir.

Kona , mikil er trú þín.

Merking þessara orða er miklu meiri en virðist við fyrstu sýn og heyrn.

Í þessum orðum sjáum við hvernig Jesús Kristur slítur böndin sem binda starf hans við Ísraelsþjóðina eina. Hvað þýðir það? Þess vegna er messa á Þingvöllum. Þess vegna er kristni í landinu. Þess vegna erum við hér. Þess vegna erum við ekki heiðingjar og barbarar.

En það felst önnur tilvísun í frásögunni sem varðar okkur beinlínis. Jesús Kristur hnýtir bönd og slítur bönd. Hann slítur böndin sem binda okkur við hinn skapaða og áskapaða heim.

Þess vegna er föstutíminn svo heilsusamlegur tími til íhugunar og iðrunar, til að styrkja böndin sem binda okkur við Jesú Krist og veikja þau sem binda okkur við það sem stríðir gegn honum í okkur sjálfum og í heiminum.

Jesús segir að hver sem vilji fylgja sér skuli taka upp kross sinn. Hinn fyrsti kross sem lagður er á hvern kristinn mann er þessi: að slíta sig lausan frá því sem hindrar Guðssamfélagið. Hvernig þekkjum við það? Samviskan kennir okkur. Samviskan sem hefur fengið leiðbeiningu í Guðs orði og mótast í bæninni.

Jesús spyr ekki: Hver er að kalla.?

Hann kallar alla.

Fastan er undirbúningur páskanna. Hún er leit að svari við spurningunni um það hvort við sem berum merki Jesú Krists á enni og brjósti erum í fylgd með honum og megum þegar að því kemur ganga með honum gegnum dauðann, til upprisunnar eins og við höfum þegar gert í heilagri skírn.

Á þeirri leið biðjum við:

,,Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð. Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni, sakir gæsku þinnar, Drottinn.”

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3287.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar