Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnlaugur A. Jónsson

Um Bonhoeffer, Sífru og Púu

9. febrúar 2006

Og Egyptar þrælkuðu Ísraelsmenn vægðarlaust og gjörðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leireltu og tigulsteinagjörð og með alls konar akurvinnu, með allri þeirri vinnu, er þeir vægðarlaust þrælkuðu þá með. En Egyptalandskonungur mælti til hinna hebresku ljósmæðra hét önnur Sifra, en hin Púa:

Þegar þið sitjið yfir hebreskum konum, mælti hann, þá lítið á burðarsetið. Sé barnið sveinbarn, þá deyðið það, en sé það meybarn, þá má það lifa. En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gjörðu eigi það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim, heldur létu sveinbörnin lifa. Þá lét Egyptalandskonungur kalla ljósmæðurnar og sagði við þær: Hví hafið þér svo gjört, að láta sveinbörnin lifa? Ljósmæðurnar svöruðu Faraó: Hebreskar konur eru ólíkar egypskum, því að þær eru hraustar. Áður en ljósmóðirin kemur til þeirra, eru þær búnar að fæða.

Og Guð lét ljósmæðrunum vel farnast, og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög. Og fyrir þá sök, að ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja.2M 1.13-21

Ein þjóð tekur að kúga aðra. Frásögn 2. Mósebókar af þrælkun Egypta á Ísraelsmönnum er meðal ótal dæma úr mannkyns­sögunni um að ein þjóð ræðst gegn annarri eða að ráðandi öfl leggja til atlögu við minnihlutahóp og taka að kúga hann og niðurlægja. Dæmi þess eru fleiri og skelfilegri en tárum taki og ekki er því að heilsa að mannkyninu hafi farið neitt fram á síðari öldum hvað þetta varðar. Þannig hefur verið talað um nýliðna 20. öld sem öldina blóðugu eða jafnvel sem hina morðóðu 20. öld. Kærleiksboðskapur kristinnar trúar virðist á stundum mega sín lítils andspænis ógn hins illa í heiminum.

Sagt hefur verið um Gamla testamentið að þar sé að finna einhverjar raunsæjustu bókmenntir allra tíma. Þar er vegferð mannsins lýst, sambandi hans við Guð, illskuverkum manna en einnig hetjudáðum og kærleiksverkum.

Í frásögninni úr 2. Mósebók, sem ég valdi til grundvallar prédikun minni hér í dag, heyrum við bæði af illskuverkum og kærleiksverkum.

Það er sérstaklega athyglisvert að það eru tvær nafngreindar konur, ljósmæður að nafni Sífra og Púa, sem standa uppi í hárinu á þeim manni sem líklega var valdamesti maður heimsins á þeim tíma sem þeir atburðir eiga að hafa gerst sem hér er greint frá, sjálfur Faraó Egyptalands.

Í frásögninni er greint frá því að ljósmæðurnar hafi óttast Guð, og ekki gert það sem Egyptalandskonungur bauð þeim heldur látið sveinbörnin lifa. Víst hljóta þær að hafa óttast hinn volduga faraó, hugsað með skelfingu til þess hver örlög þeirra yrðu ef þær óhlýðnuðust sjálfum konungi Egyptalands.

En þær óttuðust Guð, segir í textanum. Guðsóttinn, sem svo er nefndur, er annars eðlis, allt öðru vísi en sú skelfing sem ljósmæðurnar úrræðagóðu hljóta að hafa fyllst andspænis hinni illu og ómennsku kröfu faraós. Guðsóttinn felur í sér lotningu, traust og tiltrú, elsku og hlýðni við boð Guðs.

“Frekar ber að hlýða Guði en mönnum”. Það hafa ljósmæðurnar trúföstu hugsað og þær vissu hvað þeim bar að gera í tilfelli sem þessu. Starf þeirra var fólgið í því að vernda líf en ekki eyða. Þær breyttu í samræmi við starfsheiður sinn, samvisku sína og kærleiksvilja Guðs.

Og þær létu hinn valdamikla faraó ekki hafa nein áhrif þar á. Auðveldast hefði vafalaust verið fyrir þær að gera eins og þeim var boðið af hinum mikla valdsmanni og þagga niður rödd samvisku sinnar og afsaka sig með orðunum kunnuglegu: “Við hlýddum bara skipun.” En þær virtu annað vald meira en vald faraó. Það var vald kærleikans.

Sagan kennir okkur að við skyldum aldrei vanmeta það sem við getum gert gagnvart illskunni í heiminum. Það kann að virðast smátt í sniðum en við skyldum aldrei láta það verða okkur afsökun fyrir því að horfa undan þegar ranglæti er framið, að afsaka okkur með að það sem við gerum skipti ekki máli eða hafi ekki þýðingu.

Hér höfum við fordæmi ljósmæðranna hugrökku, Sífru og Púu, sem fyrirmynd. Nöfn þeirra hafa varðveist en nafn hins volduga faraós sem þarna kom við sögu er ekki skráð. Það er fallið í gleymskunnar dá.

Bent hefur verið á að breytni ljósmæðranna er ekki í samræmi við eitt af boðorðum Gamla testamentisins – þ.e. boðið um að bera ekki ljúgvitni, boðið um að segja ljúga ekki. Því að ekki fer neitt á milli mála að ljósmæðurnar sögðu faraó ósatt. Þessi staðreynd varð miðaldaguðfræðingum tilefni til mikillar umræðu um hvort og hvenær sé réttlætanlegt að segja ósatt.

Þar sýndist sitt hverjum. Lúther var hins vegar ekki í vafa um hvernig meta bæri breytni ljósmæðranna. Hann hafði það um verk þeirra að segja að það væri til fyrirmyndar og eftirbreytni, dæmi um hvernig fólk gæti þjónað kærleikanum á ofsóknartímum.

Síðastliðinn laugardag, 4. febrúar, var þess minnst víða um heim að hundrað ár voru liðin frá fæðingu Þjóðverjans Dietrich Bonhoeffers, einhvers þekktasta guðfræðings 20. aldarinnar. Þó náði hann ekki fertugsaldri. Áður en Bonhoeffer næði þeim aldri hafði hann verið tekinn af lífi af liðsmönnum Hitlers í þýskalandi. Hann var hengdur rétt fyrir stríðslok.

Bonhoeffer hafði barist ötullega gegn nasistum bæði í orði og verki. Hann var einhver fyrsti þýski guðfræðingurinn til að gera sér grein fyrir hvílík hætta stafaði af hinni nýju stjórn sem tók við völdum í Þýskalandi 1933 undir forystu Hitlers. Bonhoeffer var ekki orðinn 27 ára þegar hann kom fram í útvarpi og talaði svo ákveðið gegn hinum nýju valdhöfum að útsendingin var rofin áður en hann næði að ljúka máli sínu.

Bonhoeffer gerðist þegar í upphafi liðsmaður Játningakirkjunnar þýsku sem sá að stuðningur við Hitler og nasismann fékk engan veginn samrýmst kristinni trú. Játningakirkjan þýska var raunar miklu fámennari en kirkja Hiters. Þó vakti hún miklu meiri athygli erlendis og var litið á hana sem hina eiginlegu mótmælendakirkju.

Bonhoeffer var líka í forystusveit og fylkingarbrjósti meðal þýskra guðfræðinga þegar kom að því að verja Gyðinga fyrir gegndar­lausum ofsóknum nasista sem áttu eftir að snúast upp í hreina útrýmingarherferð. Bonhoeffer tókst að hjálpa mörgum Gyðingum úr landi.

Námsdvöl hans í Bandaríkjunum, þar sem hann kynntist misrétti því sem svertingjar voru beittir, átti vafalaust stóran þátt í því hversu fljótur hann var að átta sig á hvað í vændum var þegar tekið var að þrengja að Gyðingum.

Bonhoeffer gekk í andspyrnuhreyfinguna gegn nasistum. Hann gekk meira að segja svo langt að taka þátt í að skipuleggja samsærið um að ráða Hitler af dögum.

Þar braut hann gegn einu af boðorðunum, eins og ljós­mæðurnar Sífra og Púa, meira en 2000 árum áður og meira að segja gegn því boðorði sem flestir eru sammála um að sé mun mikilvægara en boðið um að segja ekki ósatt.

En Bonhoeffer starfaði einnig í þjónustu kærleikans og mannúðar. Hann gerði sér grein fyrir því — hversu mjög sem það hefur stangast á við grundvallarviðhorf hans — að með því að ráða Hitler af dögum myndi verða hægt að bjarga mörg þúsundum, tugum eða jafnvel hundruðum þúsunda mannslífa. Tilraunin mistókst raunar og Bonhoeffer varð sjálfur að gjalda fyrir með lífi sínu eins og aðrir þeir sem að tilræðinu stóðu.

Bonhoeffer var merkur guðfræðingur og bréf hans sem skrifuð eru úr fangelsi eru mikilvæg lesning hverjum þeim sem við guðfræði fæst.

Einn þeirra sem lifði af helför nasista á hendur Gyðingum var Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel. Hann var aðeins 15 ára þegar hann var sendur í útrýmingarbúðirnar illræmdu í Auschwitzch en var í hópi þeirra sem lifðu af það helvíti á jörðu. Hann hefur skrifað margt það áhrifamesta sem skrifað hefur verið um þann mikla glæp, vafalaust einhvern mesta glæp mannkynssögunnar og er þó af nógu að taka þegar bera skal saman illverk frá ólíkum tímum.

Hin skelfilega lífsreynsla Elie Wiesels, sem síðar hefur starfað í anda friðar og sátta, hefur kennt honum það sem fram kemur í einhverjum eftirminnilegustu ummælum hans: „Það er ekki hatrið sem er andstæða kærleikans, nei það er afskiptaleysið.”

Að horfa upp á neyð náungans, svo ekki sé talað um hreinar ofsóknir gegn honum og að líta undan, láta sig ekki varða um það, skipta sér ekki af. Það er er mest allra synda að mati Wiesels. Hinn þögli og afskiptalausi áhorfandi kemur við sögu í mörgum bóka Wiesels og ætti að verða okkur víti til varnaðar. Við skyldum minnast gagnrýni Wiesels á þá algengu afstöðu manna að skipta sér ekki af, líta undan þegar náunginn er í neyð staddur.

Ljósmæðurnar hugprúðu Sífra og Púa litu ekki undan, þær horfðu ekki framhjá neyð sveinbarnanna ungu sem áttu allt sitt undir þeim. Nei, þær komu börnunum til hjálpar, björguðu lífi þeirri og störfuðu þannig í anda starfs síns, í anda kærleikans og vilja Guðs. Þær störfuðu í anda þeirra orða sem Jesús Kristur mælti mörgum öldum síðar: “Allt sem þér gerið einum af þessum minnstu bræðrum það hafið þér gert mér!”

Dietrich Bonhoeffer leit ekki undan eða lét sér fátt um finnast þegar nasistar brenndu niður hundruð samkundahúsa Gyðinga í Þýskalandi á einni nóttu. Það var nótt hinnu brotnu glerja eða krystalnóttin illræmda eins og hún hefur oft verið nefnd.

Bonhoeffer hafði mikið dálæti á Davíðssálmum, ekkert rit Biblíunnar var honum kærara en þeir. Úr 74. sálmi komu honum í huga orðin: “Þeir brenndu öll samkunduhús Guðs í landinu…” Og í sama sálmi: “Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?”

Honum varð ljóst að ofsóknirnar gegn Gyðingum voru í raun og veru ofsóknir gegn Guði hins Gamla og Nýja testamentis.

Hann sagði því sem svo að það skipti kirkjuna ekki mestu máli að fá að boða fagnaðarerindið, jafn mikilvægt og það væri, heldur skipti það enn meira máli fyrir kirkjuna að geta komið hinum ofsóttu til hjálpar. Það var fagnaðarerindi í framkvæmd.

Í einum þeirra biblíutexta sem heyra til deginum í dag, þ.e. Kólossu­bréfinu 1:24-29 er talað um þjáningar til heilla fyrir líkama kirkj­unnar, að flytja Guðs orð óskorað og að strita og stríða til þess að við getum leitt hvern mann fullkominn í Kristi.

Ekki veit ég hvers vegna þið sem hér sitjið völduð að hefja nám í guðfræðideild Háskóla Íslands. Ég fer þó nærri um að mörg ykkar hafið valið það nám vegna trúar ykkar og vilja til að gerast prestar eða að starfa á annan hátt í þjónustu og þágu kristni og kirkju.

Í bréfi Páls postula er talað um þjáningu í því sambandi, þjónshlutverk og að strita og stríða. Þau orð bjóða vissulega heim þeirri spurningu hvort ekki hefði verið hægt að velja sér þægilegra hlutverk í lífinu?

Orðin sem ég vitnaði til úr Kólossubréfinu um þjáningu í þjónustu kirkjunar, að flytja Guðs orð óskorað og að strita og stríða í þágu leyndardóms Krists, eiga öll vel við um guðfræðinginn Dietrich Bonhoeffer sem ég kaus að minnast hér í dag í tilefni þess að um síðastliðna helgi voru hundrað ár liðin frá fæðingu hans.

Bonhoeffer var merkur fræðimaður á sviði guðfræðinnar, lauk doktorsprófi aðeins 21 ára að aldri. Hann var aðeins 25 ára er hann var tekinn að kenna sem lektor við háskóla. Rit þau sem hann samdi á unga aldri sýndu að hann í vændum glæsta framtíð sem fræðimaður. En hann valdi ekki þægilegustu leiðina, þá að láta ekki vonskuverk samtíðarinnar trufla sig frá bókagrúski og fræðimennsku. Því hlutverki sinnti hann vissulega en tók jafnframt alvarlega boðskap kristninnar um þjáningu í þjónustu kirkjunnar, að strita og stríða í þágu Krists, að koma náunganum til hjálpar á neyðarstundu.

Dietrich Bonheoffer var handtekinn í apríl 1943 og hnepptur í fangelsi. Eins og Páll postuli skrifaði hann bréf úr fangelsinu og voru þau bréf gefin úr að loknu stríðinu og eru stórmerk heimild um frumlega guðfræðihugsun hans.

Bonhoeffer lést líka í fangelsi. Þar leið hann píslarvættisdauða fyrir trú sína, fyrir að taka hana alvarlega, að strita og stríða í þágu í þágu hinnar kristnu trúar.

Dietrich Bonhoeffer hélt guðsþjónustur í fangelsinu, gerðist prestur samfanga sinna. Sunnudaginn 8. apríl 1945 hafði Bonhoeffer að venju haldið guðsþjónustu fyrir meðfanga sína. Hann hafði rétt lokið ræðu sinni, þegar tveir fangaverðir birtust. Þeir skipuðu Bonhoeffer að koma og fylgja sér. Allir vissu hvað það táknaði – gálgann. Bonhoeffer kvaddi vini sína og mælti: “Þetta eru endalokin. – Mér er það upphaf lífsins.”

Bonhoeffer starfaði og dó í anda hinna kunnu orða Páls postula:

“Lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.”

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögu anda.Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3036.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar