Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Aslan er á ferðinni

4. janúar 2006

Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir … Úr Fil 4.10-20

„Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir,“ skrifar Páll postuli í morgunlestri dagsins. Hér færir hann í orð upplifun sína af því hvaða áhrif Kristur hefur í lífi hans. „Allt megna ég,“ segir Páll. Mig langar í dag að beina kastljósinu að slíkum upplifunum og áhrifum og vil í þeim tilgangi stíga með ykkur inn í ævintýraveröldina Narníu. Leiðsögumaður okkar heitir C. S. Lewis, það er vetur og talandi bjór tekur til máls:

„Það hefur heyrst að Aslan sé á ferðinni - ef til vill þegar kominn til landsins.“

Og nú gerðist nokkuð skrýtið. Ekkert barnanna hafði minnstu hugmynd um hver Aslan var, ekki fremur en þú; en um leið og bjórinn hafði mælt þessi orð, þá leið þeim einhvern veginn allt öðru vísi en áður. Ef til vill hefur það einhvern tíma komið fyrir þig í draumi, að einhver segir eitthvað sem þú skilur ekki, en í draumnum hefur það geysimikla þýðingu - annað hvort skelfilega, þannig að draumurinn breytist í martröð, eða fallega merkingu, svo dásamlega að því verður ekki með orðum lýst, og draumurinn verður svo yndislegur að þú manst hann alla þína ævi og óskar þess sífellt að þú gætir aftur eignast þennan sama draum. Þannig var þetta. Við að heyra nafn Aslans fannst hverju barni sem eitthvað tæki kipp innra með sér. Játvarður fann til dularfullrar skelfingar. Pétri fannst hann verða hugrakkur og fullur af ævintýraþrá. Súsönnu fannst sem unaðslegur ilmur eða dásamlegt tónaflóð liði um loftið. Og Lúsía varð gagntekin sömu tilfinningu og fyllir hugann þegar maður vaknar að morgni og man að sumarið er komið eða leyfið að byrja. Ljónið, nornin og skápurinn, bls. 74-75

Það hefur heyrst að Aslan sé á ferðinni. Og orðin - orðrómurinn - um þetta hefur mátt: Dularfull skelfing, hugrekki og ævintýraþrá, tónaflóð, eftirvænting. Áhrif orðrómsins gefa okkur vísbendingu um áhrifin sem Aslan sjálfur, Kristsgervingurinn, hefur á fylgismenn sína. Um það lesum við síðar í bókinni (og sjáum í myndinni). Aslan leiðbeinir börnunum í baráttunni fyrir hinu góða, við hið illa, er þeim innblástur og fórnar loks sjálfum sér til að eitt þeirra megi lifa. Og sigrar.

Lewis er, með ævintýralegum hætti, að miðla okkur svipaðri lexíu og Páll í morgunlestri dagsins: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“

Kristur gefur styrk,

Kristur vísar veginn,

Kristur leiðir áfram.

Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.

Það hefur heyrst að Aslan sé á ferðinni

- ef til vill þegar kominn til landsins.

Kristur er

og Kristur kemur.

Hvað bærist innra með þér?

Flutt í árdegismessu, 4. janúar 2006.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4592.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar