Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hjálmar Jónsson

Allir jafnir fyrir Guði

15. janúar 2006

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni, Jesú Kristi.

Liðin vika hefur um margt verið sérstök. Við höfum velt fyrir okkur velferð og hamingju. Við höfum hugsað um framkomu, umtal og umfjöllun um vandasöm málefni. Virðingu fyrir manneskjunni. Við höfum spurt um ábyrgð og kallað eftir því að einn og sérhver axli sína ábyrgð.

Við viljum að fólkið sem byggir þessa eyju norður í höfum geti unað hér í friði og sátt. Ytri aðstæður hafa löngum beint okkur á braut samhjálpar og samstöðu. Gestrisni, velvilji, náungakærleikur hafa verið ríkjandi þættir. Vináttan sú dyggð og sem má reiða sig á. Samfélagið hefur verið samkynja í þessu.

Þessi þjóðflokkur, Íslendingar, hefur lifað margt af, farið í gegnum ótrúlegustu raunir. Átakanlegt er að lesa um hin meinlegu örlög, hið ótrúlega harðræði og óáran vegna eldgosa, hafíss og drepsótta.

Og vegna ólgu og ófriðar af mannavöldum einnig. Allt hefur þjóðin þraukað sem þjóð. Hún hefur ráðið deilumálum sínum til lykta og haldið áfram að lifa í þessu landi. Ekki svo að skilja að ekki sé við nóg að glíma eftir sem áður. Við erum vissulega ófullkomið fólk, brotgjörn, syndug á máli Biblíunnar og aldanna. En það er ekki til neins að stöðvast við það heldur halda áfram með líf og tilveru.

Enda þótt flestir séu sammála um gildi hjónabandsins fyrir velferð bæði barna og fullorðinna tekst okkur það misvel. Til eru hjónabönd, sem hafa svo mikinn kærleika að það er mörgum fordæmi til að leita hamingjunnar einmitt þar. Fleiri form sambúðar eru vissulega til og eru jafngóð og viðurkennd.

En það eru líka til hjónabönd sem eru algjör andstæða þess sem “gott og fagurt og indælt er”. Þrátt fyrir mikilvægi þess að sérhver maður búi við tilfinningalegt, félagslegt, efnahagslegt öryggi, eru bæði ytri og innri veikleikar á þessari stofnun.

Þar er vettvangurinn sem getur laðað fram þá bestu eiginleika sem við eigum í fórum okkar. Þar eru bestu skilyrðin fyrir lífshamingju einstaklingsins

Það er vissulega mikill munur á því hvernig sambúðin, heimilið er byggt upp. Sami munur eða meiri heldur en á byggingum húsa – í allri þeirra sundurgerð. Það er ekki heldur fylgni á milli fallegra húsa og fegurðar hjónabands. Það fer ekki endilega saman. Stundum er undir lágu þaki einlæglega tengdur vinahópur, þar sem fjölskylda hefur lært að meta hvern og einn innan fjölskyldunnar, stundum í hinum stóru og fallegu húsakynnum. Samvistirnar eru markaðar af hlýjum brosum, umhyggjusemi og gagnkvæmri virðingu.

Þegar koma upp deiluefni, sem ganga þvert í gegnum hópinn, samfélagið, þá dettur mér stundum í hug það sem séra Baldur í Vatnsfirði sagði: “Já góði, þessi deila: Mér finnst nú öruggara að tvær skoðanir á henni.”

Það er ekki möguleiki, en undirstrikar mikilvægi þess að við hlustum á sjónarmiðin, rökin sem liggja að baki.

Ég hef ekki áhyggjur af því að við munum ekki halda áfram að finna lausnir í málum okkar. Og íslenska Þjóðkirkjan mun leitast við að sinna sínu vel. Hún mun áfram standa með lífinu í landinu. Hún mun verða áfram í fararbroddi vegna Krists, vegna kærleika hans, til allra manna jafnt. Hún mun ekki verða nátttröll í nútímanum enda þótt hún setji sig ekki út fyrir hið kirkjulega samfélag heimsins.

Sagan sýnir það. Hugsunarháttur, skynsemi, búhyggindi eða hvað svo sem það kallast.
Kristin kirkja á Íslandi er og vill ætíð vera samstiga fólkinu í landinu. Hún er mynduð af því fólki, það er “lýður Guðs” á máli Biblíunnar. Og jafnframt tekur kirkjan þátt í að móta þetta þjóðfélag. Hún lifir og hrærist í því, hún er ekkert að hika, hún er ekkert lítil í sér eða ekki smeyk við að horfa til nýrra tíma. Það hefur kirkjan á Íslandi alltaf gert. Enda er það fólkið sem myndar kirkjuna.

Þannig mun það áfram verða.

Það verða ekki skil á milli ríkis og kirkju, ekki skil á milli þjóðar og kirkju.

Og ekki verða skil á milli kristni og kirkju.

Hún getur þurft stund til að vinna sig fram til lausnar. Nú er millibilsástand og verið að vinna fram lausn í vandasömum efnum.

Nauðsynlegt er að sú greining fari fram, rökin komi fram, allir þættir málanna séu skoðaðir áður en ákvörðun er tekin. En nú hafa þessi mál verið sett í farveg og ákvarðanir tímasettar.

Nú er ekki rétti tíminn til að taka ákvarðanir heldur leita betri lausna. Þær lausnir munu finnast.
Ég hvet aðra alla líka til þess að taka sér tíma. Fara ekki einvörðungu á vængjum tilfinninganna.

Það þurfa vissulega fleiri að vinna slíka vinnu. Meginhlutverk Alþingis er að setja lög. Ekki væri þörf fyrir löggjafarsamkomu ef sett hefðu verið fullkomin lög. En það er sífellt þörf á endurskoðun. Lagaramminn, leikreglurnar, þurfa sífellda endurskoðun, breytingar, úrbætur.

Lifandi samfélag er einfaldlega þannig, hvarvetna í heiminum, það breytist. Okkar samfélag breytist hratt. Það er á fleygiferð. Flest gildi, viðhorf og áherslur fara í gegnum endurskoðun, endurmat.

Slíkir tímar eru góðir tímar. Það er mikið að gerast. En það er líka afar mikilvægt að vera glöggskyggn á samtíð sína.

Satt að segja finnst mér þetta mál sem nú skekur Þjóðkirkju og þjóðfélag og veldur talsverðum taugatitringi ekki svona erfitt úrlausnar.

Ég þekki fólk sem býr saman, sama kyns, í sambúð. Fólk sem lifir hamingjusömu, stöðugu, fallegu lífi.

Fyrir fáeinum áratugum var siður að leggja illt til þess fólks. Það er ekki í dag. Mikið hefur breyst sem betur fer.

Síðast liðin 20 ár hefur Þjóðkirkjan fjallað um málefni samkynhneigðra. Hún hefur staðið fyrir málþingum og unnið með samtökum þeirra að réttarbótum og þó einkum viðhorfsbreytingu gagnvart þeim.

Kirkjan á sinn þátt í hugarfarsbreytingu gagnvart samkynhneigðum. Hún hefur ekki verið í hægagangi, og hún hefur ekki hikað.

Biskupinn, Karl Sigurbjörnsson, hefur útbúið form blessunar fyrir samkynhneigð pör til að nota í kirkjunni blessi prestur samband þeirra.

Ég hef stundum blessað hjón, sem hafa verið vígð borgaralega í hjónaband. Og þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulagið.

Kirkjan viðurkennir þannig þetta fjölskylduform eins og önnur.

Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að blessa sambúð samkynhneigðra.

Samkynhneigðir eru heldur ekki að krefjast þess að hjónavígsluform fyrir karl og konu sé notað og hermt upp á þau pör í jafnræðisskyni. Þetta ágæta fólk er fyrir löngu búið að átta sig á sérstöðu sinni og hefur stundum þurft að líða margt fyrir kynhneigð sína. Síst af öllu er á þær þrautir bætandi.

Þjóðkirkjan mun taka á þessum málefnum af ábyrgð. Hún mun halda áfram samræðum um framtíðarlausnir. Og það mun takast með Guðs hjálp og góðra manna, karla og kvenna. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3172.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar