Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigurður Pálsson

Vísindi og vegatálmar

11. desember 2005

Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: Ert þú sá, sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?

Jesús svaraði þeim: Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér.
Þegar þeir voru farnir, tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá, sem um er ritað:

Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér,
er greiða mun veg þinn fyrir þér.
Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri. Matt. 11. 2-11

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi.

Það hafði verið tekið eftir þessum undarlega og djarfmála prédikara. Hann talaði umbúðalaust um að menn skyldu gera iðrun svo þeir gætu mætt guðsríkinu sem var nærri. „Greiðið veg Drottins, gerið beinar brautir hans,“ sagði hann. Og þeir voru margir sem tóku mark á honum og létu skírast iðrunarskírn til fyrirgefningar syndanna. Aðrir skelltu við skollaeyrum eins og gengur. Iðrun er plógur sem greiðir guðsríkinu veg.

Og hann benti á Krist. „Sjá Guðs lambið sem ber burt syndir heimsins.“ Hann var ekki kominn til að beina sjónum að sjálfum sér heldur honum, honum sem var kominn með guðsríkið. Og svo gerðist hann nærgöngull við yfirvöldin. Hann gagnrýndi óhikað yfirvöldin, kónginn sjálfan, Heródes. Yfirvöld hafa sjaldnast tekið áminningum í auðmýkt, allra síst ef þær hafa verið fluttar í umboði Guðs. Heródes átti tugthús. Þangað skyldi þessi óforskammaði prédikari fara til geymslu þar til örlög hans yrðu ráðin.

Hann hafði safnað um sig lærisveinum. Þeir virðast hafa haft tök á því að vitja hans í dýflissuna. Það leituðu á hann spurningar í einsemdinni. Hafði hann misskilið hlutverk sitt? Höfðu bendingar hans til Jesú frá Nasaret verið á misskilningi byggðar? Var Jesús ekki sá sem hann hafði haldið hann vera.

Var hann aða bugast, þessi höfðingjadjarfi þrumuprédikari? Alla vega vildi hann fá svör. Hann sendi lærisveina sína með spurningar sem hann varð að fá svör við svo hann vissi hvort ævistarfið hefði verið reist á misskilningi: „Ert þú sá sem koma á, eða eigum vér að vænta annars?“

Þeir spurðu og fengu svar: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þér heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og fátækum er flutt fagnaðarerindi og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“

Hann skildi þessi skilaboð. Spádómarnir úr ritningunum hljómuðu í höfði hans með sama innihaldi og svör Jesú. Hann spurði einskis frekar þar til hann missti höfuðið. Hlutskipti margra þeirra sem leitast hafa við að greiða Drottni veg. Í vestrænum samfélögum er slíkt ekki viðhaft. Nú er beitt lymskulegri aðferðum í því skyni að taka votta Krists af lífi í óeiginlegri merkingu og þagga niður óþægilegan boðskap sem gerður hefur verið hlægilegur.

• • •

Við nálgumst hátíð þess sem kom í vanmætti lítils barns til að birta Guð í heiminum. Hann flutti fagnaðarerindið fátækum og fyrirlitnum, gagnrýndi leiðtoga, læknaði vanheila, fyrirgaf bersyndugum og gerði sig Guði jafnan. En einmitt í umboði Guðs felldi hann dóma, talaði eins og sá sem valdið hefur, sagði andstyggðinni og þrælum hennar stríð á hendur. Þetta var allt forsmekkur guðsríkisins, sýnikennsla í því hvaða lögmál giltu þar. Öflunum sem brjóta manninn niður, andlega eða líkamlega, er úthýst úr guðsríkinu. Aðgöngumiðinn að því er iðrun og syndafyrirgefning.

En koma Krists er ekki fortíð, gleymum því ekki í buslugangi jólaundirbúningsins. Það kunna að leita á okkur sams konar spurningar og Jóhannes þegar þungt er undir fæti, þegar trú okkar er ógnað. Spyrjum þá og væntum svara. Koma Jesú Krists er ekki aðeins fortíð hún er nútíð og framtíð. Kirkjan, söfnuðurinn, ég og þú, okkur er ætlað að vera hrópendur í eyðimörk guðleysisins og greiða Drottni veg í eigin samtíð, með því að breyta eftir Kristi í vitnisburði og góðum verkum og skirrast ekki við að brýna raustina að þeim vilja setja Kristi stólinn fyrir dyrnar.

• • •

Það birtist umhugsunarverð grein í Morgunblaðinu á föstudag (9. des.) undir fyrirsögninni: Trú, raunvísindi og menntun. Hún er skrifuð af vísindasagnfræðingi og hefur á sér það yfirbragð að vera skrifuð af umhyggju fyrir kirkjunni. Ekki ætla ég að draga það í efa. Hún kann að vera góð vísindasagnfræði en er vond guðfræði. Hún hefst með þessum hætti:

„Guðfræðin sem þjóðkirkjan boðar almenningi hefur siglt í strand. Hún er nánast í engum takti við þann raunveruleika sem við búum við í dag. Hvernig er hægt að trúa þeim sögum Biblíunnar sem í grundvallaratriðum ganga gegn því sem raunvísindin, einn af hornsteinum nútímans, hafa leitt í ljós.“

Og síðar segir:

„Sögur Biblíunnar eru fullar af frásögnum sem ganga gegn okkar daglega raunveruleika og grunnforsendum raunvísindanna, sem er að náttúran stjórnist af reglulegum lögmálum sem engir yfirnáttúrulegir kraftar hafa áhrif á.“

Hér birtist okkur það viðhorf til alheimsins sem kallað hefur verið vélrænn natúralismi. Hann hafnar öllu sem er andlegt eða yfirnáttúrulegt. Því fer þó fjarri að raunvísindamenn aðhyllist allir þessa smættarhyggju, sem skýrir veröldina á þann hátt að hún sé ekkert annað en vélgengi lögmála.

Ennfremur segir greinarhöfundur.

„Kirkjan verður að hefja fyrir alvöru samræður við raunvísindin og þar með sporna gegn áhrifum íhaldsmanna innan hennar sem í fávisku sinni telja okkur ekki til þess bær að breyta Guðs lögum.“

Vissulega þarf kirkjan sífellt að vera á tali við samtíma sinn, einnig á vettvangi vísindanna, og glíma við það erindi sem henni er falið svo það komist til skila. En vilji vísindi í raun hefja samræður við kirkjuna um guðfræði og vísindi, er óráðlegt að byrja á því að spotta viðmælandann sem „fávísan“ og afgreiða grundvöll kirkjunnar, sem er trú á almáttugan Guð skapara himins og jarðar, sem bábiljur.

Þetta kalla ég vísindahroka, á sama hátt og það væri trúarhroki að hafna á guðfræðilegum forsendum vel rökstuddum vísindalegum kenningum, sem þó eru í sífelldri endurskoðun samkvæmt eðil vísindanna. Vísindatrú hlýtur kirkjan hins vegar að hafna.

Kirkjan gæti snúið orðum vísindasagnfræðingsins við og sagt eitthvað á þessa leið: „Vísindamenn verða að hefja fyrir alvöru samræður við kirkjuna um guðfræði og þar með sporna gegn áhrifum hins vélræna natúralisma meðal þeirra sem í fávisku sinni telja okkur ekki til þess bær að andmæla þessari natúralísku smættarhyggju.“

Í greininni er Páli postula borið á brýn að vera sérstakur talsmaður andskynsemishyggju og vitnað í Fyrra Kor. 9.k Það er léleg ritskýring, því Páll er þar fyrst og fremst að tala um skynsemisbelging sem telur sig hafinn yfir visku Guðs og telur sig geta blásið Guð út af borðinu. Páll er ekki að ræða um skynsemi mannsins almennt.

Kirkjan er ekki hafin yfir samræður við vísindin. En hún hlýtur að gera það á grundvelli trúar sinnar og með fullri virðingu fyrir vísindalegum kenningum. En þá verða vísindin að mæta til leiks á eigin vísindalegu forsendum án þess að ganga fram með þá óvísindalegu trúarjátningu að leiðarljósi að þau séu búin að blása Guð út af borðinu.

Enn segir vísindasagnfræðingurinn: „Hugmyndin um Guð er stórbrotin og ekkert sem segir að Hann rúmist ekki innan heimsmyndar nútímans.“ Hvílík rausn Snúum þessu heldur við: „Kenningar vísindanna eru stórkostlegar og ekkert sem segir að þær rúmist ekki á vettvangi trúarinnar“

Þetta er spurning um lífsafstöðu, trúarsannfæringu.

Segja vísindin allt sem segja þarf um Guð og mann?

Er Guð virkur Guð í sköpun sinni eða settist hann í helgan stein eftir að hafa sett allt af stað? Eða er hann kannski ekki?

„Greiðið Drottni veg, gerið beinar brautir hans.“ Að minni hyggju eru ófærurnar sem kirkjan þarf að ryðja úr vegi til að greiða Jesú Kristi veg, ekki aðeins vísindahroki og guðlausar lífsskoðanir heldur misskilið umburðarlyndi sem leiðir til skeytingarleysis. Í þessu hlutverki, að greiða Drottni veg, getur kirkjan ekki stólað á aðra en sjálfa sig og þann sem sendi hana til að reka erindi sitt. Hvorki stjórnvöld eða skóli ráða úrslitum. Aðeins trúmennska kirkjunnar sjálfar og þjóna hennar sem sífellt þurfa að huga að verkfærum sem duga í þeirri vegagerð.

Eldsneytið er trú og von. Hvatinn er ekki keppni eftir viðurkenningu vísindahyggjunnar eða hrós fyrir unnin afrek, - Jóhannes fékk engar orður - heldur sannfæringin um það sem spámaðurinn sagði í lexíu dagsins: „Dýrð Drottins mun birtast,og allt hold mun sjá það, því að munnur Drottins hefur talað það.“

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4615.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar