Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól

24. desember 2005

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum,
og friður á jörðu með mönnum,
sem hann hefur velþóknun á. Lk.2.1-14

Í myrkrum ljómar lífsins sól, Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól.

Hallelúja.

Já, Guði sé lof fyrir gleðileg jól! Þetta er svo satt sem jólasálmurinn segir um sól lífsins sem ljómar í myrkrinu. Myrkrið er margskonar. En birtan á sér eina og sömu uppsprettu. Jólin benda á hana. Gegn skammdegismyrkri lýsa jólaljós. Inn í sorta jólasorgar og saknaðar berast orð huggunar og vonar, í myrkrum ljómar lífsins sól. Megi það nú snerta hjarta þitt, hugga og lækna. Gleðileg jól!

Tærar raddir Skólakórs Kársness syngja jólasálmana og leiða helgan söng hér í Kópavogskirkju í kvöld. Þakka ykkur fyrir það, kæru börn. Og stjórnandanum Þórunni Björnsdóttur, sem nú sem fyrr laðar með alúð og einbeitni fram hinn rétta tón og hreina samhljóm sem hrífur okkur og gleður. Já, og þökk sé öllum þeim sem um þessa aðventu og jól hafa haldið uppi helgum söng og helgri iðkun og borið fram gleðiboðskap jólanna.

Kópavogskirkja er gersemi íslenskrar byggingarlistar og táknmynd hins hálfrar aldar gamla Kópavogskaupstaðar, þess sveitarfélags sem örast vex á Íslandi. Við getum glaðst yfir vexti og grósku þjóðlífsins um þessar mundir, iðandi lífi og þrótti. Mannvirkin rísa, hvert öðru mikilfenglegra. Kópavogskirkja er ekki stór í samanburði við þau. En hún er tákn bæjarfélagsins, og mikilvægt leiðarmerki. Eins og kirkjurnar víða um land, í hverri byggð og bæ. Formfögur í látleysi sínu og hógværð, bendir hún til hæða og minnir á þau verðmæti sem mölur og ryð fá eigi grandað. Hún minnir á það, svo lengi sem sagan er sögð í helgidómunum, og umfram allt á heimilunum, og í skólunum, sagan dýrmæta, einstæða, um hann sem fæddist í Betlehem og er Kristur Drottinn, frelsari heimsins.

Altarismyndin hér er sérstæð, mynd Steinunnar Þórarinsdóttur, myndhöggvara. Það er sem Kristur sé á leið hér inn gegnum vegginn. Mynd hans er ógreinileg, við sjáum rétt andlit, hendur, og fætur. Jesús er vissulega oft sem óljós mynd í samtíð okkar. Hvað er það sem fær mynd hans til að stíga fram, hvað gerir mynd Jesú Krists ljósa í heimi okkar og samtíð? Hvað greiðir áhrifum hans og anda veg? Það er umfram allt bænin í nafni hans, og svo trúin sem birtist í góðvild og umhyggju, miskunnsemi, fyrirgefningu. Hinn krossfesti og upprisni Kristur vill nota okkur til að gera mynd sína ljósa, orð sitt lifandi, vera öðrum lífsmark frá lifandi frelsara. Bæn þín og trú, kærleikur, umhyggja, hátíðir og helgar venjur, allt er það liður í því. Líkami Krists er kirkjan hans, það fólk sem hann hefur helgað sér og lífi sínu og ljósi.

Svo er hér líka eldri altarismynd, sem ekki lætur mikið yfir sér, en er samt sérstætt og fagurt listaverk. Það er mynd Barböru Árnason, “Jesús og börnin.” Hátíðir kirkjunnar eru ekki síst barnanna vegna. Með hefðum þeirra, táknum og athöfnum, er sagan sögð og orðinu miðlað sem leggur grunn að lífi og gæfu, og markar hamingjubraut, ljóssins leið fyrir einstakling og samfélag.

Það er svo margt gert til pakka Jesú inn í umbúðir ævintýra, jólasveina og leppalúða. Og hættan er sú að barnið sitji uppi með það að Jesús sé eiginlega bara plat, eins og allt hitt. Hér berum við mikla ábyrgð, við sem eldri erum, að draga fram það sem er satt og hreint og leggja börnunum frelsarans mynd og orð á hjarta, bænaljós í sál og bænarorð á varir.

Stundum er talað um íburð og umbúðir jólahaldsins, og amast við því. Jú, oft verður það um of. “Aldrei skartar óhófið” sagði Hallgrímur, og vissi hvað hann söng. Þó skipta umbúðir máli. Það vitum við þegar við klæðum okkur upp til að fagna góðu tilefni. Við tjáum gjarna væntumþykju, hlýju og ekki síst virðingu með því að pakka inn gjöf, eða dúka borð, eða prýða og fegra heimilin okkar. Umbúðir jólanna eru af því tagi. Við erum að taka á móti Guði. “Vér fögnum komu frelsarans.” “…Guð er sjálfur gestur hér.” Það tilefni má ekki gleymast, jólaguðspjallið, sagan af Jesú. Mestu varðar að eiga samfylgd hans, vináttu, trúnað, huggun og handleiðslu á daganna för. Og mæta honum í orði hans og samfélaginu um borðið hans. Af því að Jesús er ekki minning um mann sem einu sinni var, heldur lifandi návist hér og nú. Kristur Drottinn.

Ég játa það að mér finnst alltaf gaman að sækja úr geymslunni gamla pappakassann sem geymir jólaskrautið okkar, opna hann, virða fyrir mér innihaldið. Þar kennir ýmissa grasa. Sumt skelfing hallærislegt og billegt, annað fegurstu listgripir. Og allt þar á milli. Kúlur, stórar, smáar, jólasveinar, þeir tilheyra líka mynd, og leik jólanna. Svo eru stjörnur, silfurstjörnur, glimmerstjörnur, pappastjörnur, þarna eru jólakort með viðvaningslegum myndum barnanna okkar, og englar, ég held mest upp á þá, jólaenglana, það eru litlir englar, stórir englar, postulínsengill, tréengill, hamp-engill unninn af örsnauðum konum í Bangladesh úr snærisafgöngum. Hver gripur á sína sögu og minningu. Á bak við er minning um andlit, og atvik, hlýjar myndir og góðar, bjartar, en líka tregafullar, svona koma þær fram fyrir hugarsjónir ein af annarri þegar jólaskrautið er hengt á grænar ilmandi grenigreinarnar á Þorláksmessukvöld.

Þegar við skreytum hús og híbýli þá erum við að leitast við að gera heimili okkar og heiminn fegurri. Stundum finnst okkur þetta fáfengilegt, og hugsum til þess að þar kemur að þessu skrauti er pakkað niður á ný, jólaljósin slökkt, og jólatrénu er hent út, og hversdagurinn og raunveruleikinn leggst yfir með enn meiri þunga en fyrr.

Stundum finnst manni englarnir góðu hafa yfirgefið þennan heim og himinninn vera dimmur og hljóður. Stundum er sem hið illa vaði uppi, hið ljóta og andstyggilega sæki á. Það er sem jólasorg og jólasöknuður verði jólagleðinni yfirsterkari. Af því að heimurinn er samur við sig, segjum við, og “svona er lífið.” Nei! Við tendrum jólaljós og setjum upp jólaskraut og óskum hvert öðru gleðilegra jóla og leitumst á margvíslega vegu við að gleðjast og gleðja, vegna þess að jólin sýna okkur heiminn eins og hann er í innsta grunni, lífið eins og því er ætlað að vera. Jólin sýna okkur inn í heim og líf sem er bjartara, fegurra, betra, yndislegra en við getum nokkurn tímann ímyndað okkur eða áorkað. Sú birta, fegurð og gleði er gjöf Guðs og kom til okkar sem barn, sem maður.

Hann leit dagsins ljós í fjárhúsi og var lagður í jötu. Ekki löngu síðar þurftu foreldrar hans að flýja með hann til framandi lands, undan morðhundum valdsins. Loks mátti hann reyna hvernig menn höfnuðu honum, rægðu hann, sviku, dæmdu, píndu, deyddu. Hvers vegna missti hann ekki móðinn, og lét vonbrigðin og reiðina ná undirtökunum? Hvers vegna flýði hann ekki bara af hólmi? Hann gaf aldrei upp vonina, trúna, kærleikann. Hann var einmitt kominn til að vera von þeim vonsviknu, trú þeim sem örvænta og ljós þeim sem í myrkri sitja. Fögnuður “öllum lýðnum,” Kristur Drottinn. Og vegna þess að hann gekk alla leið, leið hins fórnandi kærleika, vegna þess eigum við von og sýn til þess sem sigra mun allt um síðir. Von og sýn til heims þar sem gleði, kærleikur, friður ríkir, þar sem dauðinn er ekki framar til, og Guð hefur gjört alla hluti nýja.

Oft rekst hann á veggi. Oft er sem áhrif hins góða, sanna, fagra og bjarta, rekist á rammbyggða, járnbenta múra fyrirvara, kaldhæðni og vantrúar. Kristur kemst gegnum luktar dyr og rammgerða múra. En hann ryðst ekki inn á lokuð hjörtu. Af því að hann er kærleikur. Og það eina sem kærleikanum er um megn það er að þvinga. Hann stendur við dyrnar og knýr á. Hann knýr á dyr hjarta þíns og bíður þess að þú ljúkir upp. Guði sé lof fyrir allar góðar hefðir sem bera óm af því inn til okkar.

Við þurfum að rifja upp og muna og segja hina helgu sögu jólaguðspjallsins og setja okkur fyrir sjónir persónur hennar. Þar er Jósef, smiðurinn, erfiðismaðurinn, sem gengur örsnauðu barni í föður stað, trúfastur, traustur, heilsteyptur. Þar er móðirin unga, ást hennar og trú, sem aldrei bregst. Þar eru vitringar frá Austurlöndum, með visku heimsins, auð og völd sem þeir leggja að fótum litla barnsins. Og lokst eru þar fátækir hirðar við skyldustörfin sín, sem Guð gerir að vottum sínum. Og í fjárhúsinu, innan um skepnurnar, heyið og taðið, þar er barnið í jötunni, Guðs son, fæddur til að frelsa heiminn, menn og dýr, og alla sköpun sína. Og þar ert þú á meðal. Fyrir þig er frelsarinn fæddur.

Við þurfum ekki að vera neitt sérstakt, ekki fremur en hann Jósef og hirðarnir voru neitt sérstakt, nema að því leyti að þeir heyrðu boðskapinn um frelsarann, og tóku mark á honum. Og það getum við líka gert, hvert og eitt. Og þegar við tökum ofan jólaskrautið og göngum frá því, þá megum við minnast þess að gleði Guðs, huggun og von, Kristur Jesús, heldur áfram að prýða þennan heim, með umhyggju, trú og von venjulegs fólks, í venjulegum aðstæðum, í mannlegum viðbrögðum við atvikum og örlögum hversdagsins. Og um síðir mun vilji hans, hið góða, fagra og fullkomna, sigra.

“Í myrkrum ljómar lífsins sól. Þér, Guð, sé lof fyrir gleðileg jól. Hallelúja.”

Aftansöngur á jólum, sjónvarpið 2005.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3367.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar